16 apríl 2007

16.apríl

Í dag er 16.apríl. Þá á Ella Stína afmæli og 16.apríl hljómar einsog fuglasöngur, einsog töfraorð, einsog eitthvað undursamlegt, já, þá kom hún fljótandi í heiminn hjá ljósmóður, Chaplin á líka afmæli 16. apríl, Ella Stína og Chaplin og trúi því hver sem vill en Ella Stína var einu sinni máluð einsog Chaplin og kom svoleiðis í sjónvarpinu en allavega Ella Stína á afmæli í dag.

Og sérstaklega Elísabet, hún er 49 ára í dag,

með sól í hrúti
merkúr í hrúti
tungl í fiskum
venus í fiskum
marz í vatnsbera
júpíter í vog

rísandi krabbi og steingeit á miðhimni

og flugdreka í stjörnukortinu.

La la la la la....

15 apríl 2007

Lagið hennar Jóhönnu

Jóhanna barnabarn semur lög og texta, hún söng nýja lagið fyrir mig í símann á afmælilsdaginn 14.apríl og þetta man ég úr textanum.

"Hugsaðu um sjálfan þig, hvað þú ert heppinn að vera til..."

14 apríl 2007

Ný Ella Stína bætist við?

Það er ný Ella Stína að bætast við:
Ella Stína með tárin í augunum.

Þið sem hafið fylgst með heimsveldinu frá upphafi munið eftir Ellu Stínu í lokaða herberginu, Ellu Stínu í hlekkjunum, Ellu Stínu í heiminum, Ellu Stínu í heimsveldinu, en nú sést móta fyrir nýrri Ellu Stínu:

Ellu Stínu með tárin í augunum.

Hahahahahahaha...:)

Dásamlegt tíu tíu ára afmæli

Í dag eiga Alexía og Jóhanna afmæli.

Þeim er hér með óskað innilega til hamingju með afmælið frá ömmu þeirra Elísabetu.

TIL HAMINGJU KRÚTT HEIMSINS, TIL HAMINGJU KRÚTT HEIMSINS,

ég elska ykkur,

ég reyndi að hringja og var tilbúin með ræðu og nokkur hljóðfæri sem ég ætlaði að spila á einsog kristalsglas, munnhörpu og píanó.

En Alexía og Jóhanna hafa ekki svarað símanum ennþá.

Þær búa á Spáni og verða vonandi heima á eftir.

Þær vekja mér svo mikla gleði, hamingju, skemmtilegheit, og eitthvað ótrúlegt líf.

Þegar ég varð amma vissi ég að ég var gjörsamlega gagnslaus og algjörlega ómissandi.

Þetta er tilfinning HLEKKSINS.

Ást og grín.

Þessar stelpur sýna mér heiminn uppá nýtt, grínið uppá nýtt, ástina uppá nýtt, ærnar kýr og smalinn.

Og tíu ár. Hvað getur maður sagt. Bara þakkað englunum og guði og ykkur fyrir að vera til.

Ella Stína Titanic

Ella Stína vill minna á að í dag strandaði Titanic og alltaf þegar Ella Stína hugsar um Titanic fer um hana dramatískur hrollur, ískaldur og hún brotnar í tvennt og sekkur þarsem hún finnur samhljóm með Titanic. Ella Stína er Titanic. Já hún sigldi af stað, svo rakst hún á ísjaka, svo sökk hún og hefur ekki jafnað sig síðan, það var svo mikið myrkur og þetta gerist aftur og aftur í huga Ellu Stínu. Ef Ella Stína fengi sér ættarnafn þá væri það Titanic.

Ella Stina Titanic.

Þegar Ella Stína var ellefu ár sat hún með tvöþúsund blaðsíðna doðrant í kjöltunni og las um örlög Titanic. Bókin sökk í tárum hennar. Ella Stína Titanic, Titanic Ellu Stínu. Þegar Ella Stína sá Titanic myndina sá hún að þetta var ekki svona, þetta var allt miklu stórfenglegra, miklu dramatískara, miklu kaldara, miklu erfiðara, miklu meira Titanic.

Þegar Ella Stína hefur lent í einhverju, segir hún alltaf, þetta er ekkert miðað við Titanic.

ElluStínuvæðingin

ElluStínuvæðingin er hafin. Kjósið Ellu Stínu á þing 12. maí. Það þarf 64 Ellu Stínur á þing.

13 apríl 2007

Kenning Ellu Stínu

Það getur líka verið að líkaminn opni fyrir gleðina.

Ella Stína fær í bakið

Ella Stína gerði ýmsar fleiri rannsóknir, einsog rannsóknir á gleðinni. Hún komst að því ef hún var glöð þá fékk hún í bakið. Það er að segja líkaminn reyndi að kæfa andann, því það er andinn sem verður glaður og smitar síðan líkamann af gleðinni. Ella Stína hafði ekki verið neitt glöð, og Nína Björk sem var dáin skáldkona hafði sagt um Ellu Stínu að hún væri svo þung, Ella Stína vissi útafhverju það var, það var svo hún myndi ekki fjúka burt úr heimsveldinu. Hún var þungamiðja heimsveldis og varð að vera þung, já heimsveldið gæti meiraðsegja fokið burt ef Ella Stína fyki burt. Svo hún var jafnan afar alvarleg en svo byrjaði hún að léttast og einn daginn ákvað hún að vera glöð. Og þá búmps!!! Fékk hún í bakið, hún fann heljarkrumlu þursans læsast um mjóhrygginn, þetta var þursabitið og Ella Stína varð sennilega að smyrja nesti handa heilum her tilað ráða niðurlögum þessa þursa, nema hún gæti glatt hann í burtu, já það er nú það. Ella Stína fékk í bakið ef hún var glöð. Því gleðin er þannig að hún hleypir öllu inn, og ef allt kemur inn getur heimsveldið hrunið til grunna og hvað er þá eftir, og gleðin mýkir mann og gerir mann vitran og lætur manni líða vel og vera áhyggjulausan og treysta og treysta guði, og Ella Stína var ekkert vön því svo hvernig átti hún að venjast því. Og hvort var betra að vera glaður eða fá í bakið. Átti hún að vera í 45 gráðu halla og vera glöð. Nei, bakið var að segja: Ekki vera glöð.

Ekki fara yfir landamærin, ekki fara yfir strikið, vertu á þínum stað.

Ella Stína fékk líka í axlirnar, líkaminn fór bara allur í kerfi ef hún ætlaði að vera glöð. Og hún varð að vera glöð því hitt virkaði ekki, þá var hún inní eigin heimi og enginn náði til hennar.

Já, þetta er orðið virkilega spennandi. Hvað gerist næst. Verður viðsnúningur. Hvernig ætlar Ella Stína að vera glöð og fá ekki í bakið. Gera teiknimynd?

Ekki getum við haft keisara sem labbar um boginn í baki? Og ekki getum við haft keisara sem er rosalega glaður? Þrennt kemur til greina:

1. Leggja niður heimsveldið
2. Leggja niður gleðina
3. Leggja niður bakið

*

Meira um þetta síðar. Og Ella Stína vill vekja athygli á því að bróðir hennar Illugi á afmæli í dag einsog Samuel Beckett. Til hamingju Illugi.

12 apríl 2007

Vísindastörf í heimsveldinu

Einu sinni var fallegt og gott heimsveldi og þar uxu blóm allan daginn og sólin skein allan daginn og það var allt svo gott í þessu heimsveldi og alltaf verið að spila á hljóðfæri, munnhörpu og melodiku og ég veit ekki hvað, það voru allir svo góðir í heimsveldinu, eða það er reyndar sorgarsagan, það var bara ein Ella Stína í þessu heimsveldi og hún hélt að enginn gæti elskað sig og hún var að reyna að leysa þá gátu og þess vegna reif hún sig niður lag fyrir lag, lið fyrir lið, til að komast að því vísindalega afhverju enginn gat elskað hana, og hún reif sig niður og vigtaði sig og mældi sig og fletti ofan af sér, og já já já, og þegar hún var búin að rífa sig niður þá hugsaði hún: Einmitt.

10 apríl 2007

Venus

er óvenjuskær á himninum núna, kvöldhimni, flauelsbláum himni, kíkið á hana og fyllist undrun og lotningu.

Orðabók Heimsveldisins

Ella Stína hafði látið útbúa Orðabók Heimsveldisins. Þau orð og skilningur á þeim samkvæmt orðabókinni giltu í heimsveldinu og ekki öðruvísi skilningur. Það voru alltaf minnst tvær merkingar á hverju orði og hér eru nefnd tvö orð:

Höfnun; þýðir niðurbrot og frelsi.

En Ella Stína þoldi ekki að orð hefðu tvær meiningar svo hún klastraði þessum tveimur orðum saman, frelsi og niðurbrot, svo úr varð niðurbrotsfrelsi, eða frelsisniðurbrot.


Ást; þýðir bilun og stjórnun.

Á sama hátt klastraði Ella Stína þessum tveimur orðum saman svo úr varð bilunarstjórnun, eða þá stjórnunarbilun.

Fyrir þá sem ekki átta sig á þessu máttuga tungumáli heimsveldisins þýðir bilunarstjórnun einfaldlega að hafa verður stjórn á allri bilun. Semsagt ástinni.

Hver er pabbi Ellu Stínu?

Einn daginn fékk Ella Stína að vita hver hinn raunverulegi pabbi hennar væri. Mamma hennar settist niður með henni og sagði henni það. Ella Stína beið spennt. Hún neri saman höndunum af æsingi.
Ekki núa svona saman höndunum Ella Stína.
Ég er svo spennt.
Ekki vera svona spennt.
Hvernig á ég að vera.
Ætlarðu að hlusta á mig.
Hver er pabbi minn?
Pabbi þinn.
Já, ég er svo spennt að fá að vita það.
Þú veist alveg hver pabbi þinn er.
Ætlarðu ekki að segja mér það.
Það þarf nú varla að segja þér það.
Baðstu mig ekki um að koma útaf því.
Ella Stína.
Já.
Ella Stína.
Já hvað.
Ella Stína.
Hvað.
Þú ert svo þreytandi.
Ella Stína verður hnípin.
Þú ert svo erfið.
Ha.
Já, þú ert svo erfið.
Á ég þá engan pabba?
Ella Stína.
Ég er alveg að fara gráta.
Tilhvers?
Mamma.
Já hvað nú.
Á ég þá engan pabba.
Auðvitað áttu pabba.
Og fæ ég ekki að vita hver það er.
Þú veist hver pabbi þinn er.
Já, en þú sagðist ætla að segja mér það svo ég hélt kannski að ég ætti annan pabba. Einhvern annan pabba?
Já.
Einhvern annan pabba en pabba þinn?
Já, þú sagðist ætla að segja mér hver hinn raunverulegi pabbi minn væri.
Þú veist hver hinn raunverulegi pabbi þinn er.
Viltu segja mér það.
Segja mér það?
Já, svo ég sé alveg viss?
Ertu ekki viss.
Viltu bara segja mér.
Ég get alveg sagt þér það.
Og hver er hann svo?
Ella Stína hættu þessu.
Hætta hverju.
Að tala alltaf um pabba þinn.
Ég verð að vita hver pabbi minn er.
Þú veist hver hann er.
Hvernig get ég vitað það?
Hver er pabbi þinn?
Pabbi minn?
Já, hvað heitir pabbi þinn.
Jökull Jakobsson.
Alveg rétt.
Er hann pabbi minn?
Ella Stína hvað er að þér.
En viltu þá segja mér hver hinn raunverulegi pabbi minn er?
Hinn raunverulegi pabbi þinn.
Já hinn raunverulegi pabbi minn?
Jökull Jakobsson.
Jökull Jakobsson?
Já Jökull Jakobsson.
Hinn eini og sanni Jökull Jakobsson!
Já Ella Stína hinn eini og sanni Jökull Jakobsson.
Er Jökull Jakobsson pabbi minn, er hann virkilega pabbi minn.
Já hann er pabbi þinn.
Jökull Jakobsson þetta heimsfræga leikritaskáld.
Já sá er maðurinn.
Jökull Jakobsson þessi heimsfrægi rithöfundur.
Jújú.
Hvernig getur hann verið pabbi minn.
Ella Stína.
Ég er bara svo glöð. Er hann virkilega pabbi minn. Jökull Jakobsson.
Já Jökull Jakobsson.
Hvenær fæ ég að hitta hann?
Ha?
Þarf ég að flytja til hans.
Ella Stína láttu ekki svona.
Vill hann ekki hafa mig.
Hvað er nú?
Flyt ég til hans.
Hann býr hérna.
Hérna hjá okkur.
Já en ekki hvað?
Jökull Jakobsson.
Já.
Býr Jökull Jakobsson hér?
En ekki hvað.
Hinn eini sanni Jökull Jakobsson, hinn heimsfrægi rithöfundur og leikritaskáld, maðurinn sem konur grétu yfir þegar hann dó, maðurinn sem á alla vinina, maðurinn sem allir kunna sögur af.
Já.
Býr hann hér.
Þú veist það.
Veit ég það?
Já auðvitað.
Hvernig veit ég það.
Ég veit það ekki.
Mamma.
Já Ella Stína.
Heiti ég raunverulega Ella Stína.
Ha?
Er ég hin raunverulega Ella Stína.
Ert þú.
Já er ég hin eina og sanna Ella Stína.

09 apríl 2007

Ella Stína útí Gróttu

Ella Stína fann einu sinni engil útí Gróttu og síðan þá fann hún engil útí Gróttu í hvert einasta sinn sem hún fór þangað og nú hvíslaði engillinn og vindurinn bar orð hans til hennar: Ekki eyðileggja neitt, leyfðu þessu nýja að vera. Ella Stína?

Amen, sagði Ella Stína. Ég meina takk. Ég meina já.

Eyðilegging Ellu Stínu

Ella Stína þurfti að eyðileggja Ellu Stínu því hún var ekki nógu fullkomin. Fyrst bjó Ella Stína til Ellu Stínu tilað eyðileggja Ellu Stínu en hún var ekki nógu fullkomin. Þá bjó hún til mann og hann var svo fullkominn að Ella Stína varð samstundis ástfangin af honum. Það var nóg tilað eyðileggja Ellu Stínu.

Hvað sá Ella Stína í heiminum?

Ella Stína er búin að krúttast inni í allan dag, mest í sófanum, hún málaði fjórar jesúmyndir í gær, tók soldið til, bloggaði soldið, lagaði kafla í skáldsögu, já krúttaðist aðeins og nennti engu, lagði spil fyrir sjálfa sig, og svo ætlaði hún í sund, en sundið var lokað svo hún fór útí Gróttu, það var orðið skuggsýnt, brim við ströndina, úfinn sjór, vindur í hárinu, og Ella Stína sat í bílnum og kíkti út, fínn heimur hugsaði hún og bara einn bíll við hliðina á henni, einhver gæti verið í djúpum samræðum í næsta bíl og hún var að hugsa ef einhver sæti við hliðina á henni og þau væru að tala rosalega djúpt, það myndi eyðileggja allt, þennan fína gráa dumbung því Ella Stína ætlaði að hlaupa útí hann, útí fjöru, hún opnaði bílhurðina og vindurinn rauk í hurðina, þetta er ekkert, sagði Ella Stína og þá kom hún auga á mennina þrjá við bekkinn, þeir voru allir í gráum regnfrökkum og voru að fá sér kaffi, hún sá það einsog skot, þetta voru þeir Vladimar, Estragon og Godot.
Ella Stína vissi um aðra ást en hún var að hvíla sig svo það er bara svona: Það var hlýja og hlýja og hlýja og löngun tilað gera eitthvað fallegt, og í þessari ást hafði hún hendur og ýmislegt. En Ella Stína er að hvíla sig. Ástin er hvíld. Stundum. Og þá kemur ýmislegt.

Um haustið

Um haustið lenti Ella Stína í ástarsorginni, hún sat í bláa sófanum og fann að það streymdi blóð úr hjartanu og það hélt áfram að streyma og hún sá hvernig það streymdi yfir landið, yfir fjöllin, árnar, hólana, fjörurnar, jöklana, og það var einsog blóðið ætlaði aldrei að hætta að streyma og það var allt fljótandi í blóði og hún hafði ekki vitað hún ætti svona mikið blóð og svona stórt hjarta hún hafði haldið þessi ást væri bara í höfðinu á henni á einum manni en kannski var þetta eitthvað dularfyllra en það var þetta öll ástin í hjartanu eða hafði hún landið í hjartastað var hún búin til úr landi eða blóði og hún tæmdi hjartað tilað fylla það á ný.

Þetta var flóð tilað sýna henni að hún var búin til úr blóði.

Og hvað gerir maður við blóð?

Maður skrifar með því.

Ástin var stopp

Ella Stína notaði ástina til að stífla sig með. Hjartað stoppaði, æðarnar stoppuðu, vöðvarnir stoppuðu og hugsunin stoppaði. Allt stoppaði. Stíflan varð til á augabragði og allt var stopp. Ástin var stopp.

Tökum dæmi og kíkjum á forn ástamál Ellu Stínu. Einu sinni hafði hún elskað mann í tíu ár ánþess að segja honum frá því. Þegar hún loksins sagði honum frá því komu tveir staðir til greina tilað lenda á: Ástarsorgin eða geðdeildin.

Geðdeildin var öruggari staður fyrir Ellu Stínu.

08 apríl 2007

Fútt í heimsveldinu

Ella Stína var að hugsa um að leggja niður heimsveldið sitt þegar vinkona hennar sagði við hana: Æ, það vantar allt fútt í lífið hjá mér, kannski ég stofni bara heimsveldi!!!

07 apríl 2007

Ella Stína elskar

Ella Stína hvernig myndir þú elska.

Ég myndi bara elska.

Bara elska.

Einsog sjóinn. Og sóleyjar. Og lítið lag. Og allt.

Nornin í Ellu Stínu

Einsog þið munið var norn í Ellu Stínu og þegar hún sagði karlmanni frá því að hún elskaði hann spratt nornin út í hverjum andlitsdrætti, Ella Stína vissi ekki af því og hélt hún væri voða sæt þegar hún var að gefa þessar ástaryfirlýsingar, en svo fyrir tilviljun leit hún í spegil og sá þá þetta hatursfulla gerpi og það var bara ein hugsun sem komst að í henni: Ég elska engan. Þetta er eitthvað voða flókið og Ella Stína skilur þetta ekki. Nú voru nornir auðvitað brenndar á báli hér á öldum áður og það eru hinar hreinu meyjar sem gilda í hinum vestrænu nútímasamfélögum, og Ella Stína setti alltaf ástina svoleiðis upp: Einsog þetta væri hrein og tær, hrein og tær nútímaást, og ekkert gruggugt við hana, ekkert nornalegt, ekkert skemmtilegt, ekkert óvænt, nei gott ef hún var hún ekki búin að fara á ræðu hjá ræðuliði tilað steypa ást sinni yfir einhvern, ástaryfirlýsingar hennar voru svona álíka blóðheitar og ríkisstjórnarfundur. Einu sinni langaði hana að skvetta úr vatnsglasi yfir einhvern og það var einhverveginn það eina eðlilega í stöðunni miðað við allt romsið sem kom út úr henni. Það má líka leiða getum að því að Ella Stína hafi beinlínis hatað karlmenn og fyrirlitið, en þarsem konur eru svo góðar, við vitum það, konur eru góðar, menn eru slæmir, já konur eru góðar og eru frá venus, og konur eru svo góðar að þær eru alveg að deyja úr góðmennsku og þar með leiðindum, en ef þið munið eftir sögunni þarsem Ella Stína hataði pabba sinn en þorði ekki að sýna það svo hún andvarpaði djúpt af áhyggjum, og á meðan safnast hatrið og fyrirlitningin saman, já Ella Stína hafði auðvitað líka hatað og fyrirlitið sjálfa sig en yfir þetta allt breiddi hún úr rósrauðum teppum og óf stjörnur í teppið og nú þegar er þetta orðið óskiljanlegt bull,

- það sem ég ætlaði að segja var eitthvað um þessa norn sem elskaði engan. og ég veit ekkert hvað það þýðir.

- en auðvitað þýðir þetta að hún elski guð.

og menn fá ekki að vera menn, menn þurfa að vera guðir og ella stína fær ekki að vera ella stína, ella stina þarf að vera guð, rigningin fær ekki að vera rigning, rigningin þarf að vera guð og hver getur lifað í þessum heimi sem fær ekki að vera heimur og maður bara labbar um í honum og segir hæ og er jurt á ókunnri strönd og segir góði guð láttu hann hringja í kvöld.

Guð í heimsveldinu

Einsog þið munið hafði guð verið inní lokaða herberginu en Ella Stína hafði úthýst guði. Fyrst sagði hún við hann: Guð ég skal gefa þér sóleyjarvönd ef þú opnar dyrnar, en guð vissi að Ella Stína hafði sjálf búið til dyrnar og að dyrnar voru blekking og ætlaði ekki að láta plata sig. Ókei, ég gef þér engan sóleyjarvönd, hreytti Ella Stína í guð og sparkaði í dyrnar og meiddi sig í tánum. Ég vil komast út úr lokaða herberginu, sagði hún. Hún gat auðvitað lítið annað en tönglast á því sama sem var einmitt leiðin tilað halda henni innilokaðri. Guð, ég skal gefa þér tíu dómkirkjur, ég skal gefa út bænakver, ég skal refsa sjálfri mér, ég skal fá mér ömurlega sjálfsmynd og stara á hana daginn út og daginn inn, er ég þá nógu góð ha guð, sagði hún og hvað með dómkirkjurnar tíu, bænakverin, en það var alveg sama hvað, guð hjálpaði Ellu Stínu ekki út úr lokaða herberginu eða svo fullyrti hún enda var hún ekkkert í lokuðu herbergi en henni fannst samt að guð ætti að hjálpa sér, viltu kannski að ég gangi í klaustur, æpti Ella Stína á guð, er það hin dulda meining á bak við lokaða herbergið og las um hvernig Írar höfðu látið múra sig inní veggjum og svo lét Ella Stína múra sig inní veggjum lokaða herbergisins og um tíma var lokaða herbergið tómt því Ella Stína var múruð inní veggina, hún var svo góð og með írskt blóð í æðum þótt það væri frosið, guð guð guð, emjaði Ella Stína, ég geri allt fyrir þig, þú gerir ekkert fyrir mig en ég skal gera allt ef þú hleypir mér út en guð hleypti henni ekki út, aha, sagði Ella Stína, það er meining fyrir þessu, uppgötvaði hún einn daginn, ég á að frelsa heiminn, guð hefur lokað mig inni tilað frelsa heiminn, best ég fari uppí sjónvarp og tilkynni það og svo gekk hún um allan bæinn og fékk endalaus skilaboð um að hún væri full af guðskrafti og ætti að frelsa heiminn en svo einn daginn greip mamma hennar í taumana og lokaði hana inná Kleppi og þá fyrst varð Ella Stína brjáluð.

Hún tilkynnti guði að hún væri hætt að trúa á hann og orðrétt er haft eftir henni: Guð ég ætla að hafa engan í staðinn fyrir þig. Og svo hafði hún engan í staðinn fyrir guð. Og hún elskaði engan jafnmikið og hún hafði elskað guð.

Meðvirkni

Meðvirkni er að afhenda líf sitt öðrum. Og einsog Terry Cooper sagði: If you give somebody all your power he probably wants to kill you in the end.

Þess vegna stofnaði Ella Stína Heimsveldi því hún hafði einu sinni verið nýlenda og þurft að sitja undir hverjum nýlenduherranum á fætur öðrum. En nú átti hún hásæti sem hún gat skrúfað upp og niður. Hún var að vísu að hugsa um að henda því því hún nennti ekki lengur að sitja í því og þess vegna brá stundum fyrir einhverjum sem hún þekkti auðvitað ekki neitt en skrækti: Skrúfaðu mig upp.

Að öðru leyti: Lífið er dásamlegt.

06 apríl 2007

Ella Stína sigrar Ódysseif

Það var það sem var að. Hátíðleikinn. Stellingarnar. Alltaf þegar Ella Stína settist niður í sínu heimsveldi og ætlaði að segja söguna fór líkaminn í rosalegar stellingar, hún varð öll stíf af hátíðleika og heyrði sjálfa sig segja: Ég er rithöfundur og þetta á vera rosamerkileg saga. Samt var Ella Stína ekki rithöfundur, hún hafði bara gaman af því að segja sögur með puttunum, hún tók kannski vísifingur og sagði: Þetta er hann og hann segir, hæ og svo tók hún vísifingur hinu megin og sagði: Þetta er ég, ég eeeeeeeeeelska þig. Og það gat verið langt á milli þeirra en líka svo stutt, það var borð á milli þeirra og það voru hinir puttarnir sem beygðu sig, það var borðið og þá gátu þau alveg teygt sig yfir borðið og kysstsstttssst. Og það var tré og það heyrðist svona í laufskrúðinu af því það var svolítil gola og þá heyrðist soldið. Og hún lét heyrast með munninum.

Ella Stína burt með hátíðleikann. Stofnaðu bara Hómer og puttaleikhúsið. Þetta er Ódysseifur og nú lætur hann drepa þernurnar einmitt þegar þær ætluðu að segja söguna, að Ódysseifur hafði í raun aldrei lent í þessum hremmingum sem hann sagðist hafa lent í, heldur hafði hann setið við eldinn og sagt af sér gortsögur og Penelópa var orðin svo þreytt að hún varð skotin í öllum.

Já, það er sagt að dráp Óddyseifs á þernum marki lok mæðraveldins, það er hér með endurreist í puttunum á Ellu Stínu.


Vakandi?

Já, hvíslaði hún á móti.

Ekkert svar.

Ert þú sofandi? hvíslaði hún aftur.

Flóð og stífla

Ella Stína var stífla og stundum var Ella Stína flóð.

Meira um það síðar, hún er að fara sofa og vera ein með trénu.

Raunveruleikinn er á sínum stað. En þetta er svart tré og hvernig getur það verið, hugsar Ella Stína, er það sorgin, dulúðin eða tegundin.

Svart tré og ef notuð er ease up, dont freeze up aðferðin í þrjár línur þá vill þetta tré vera eitt í skóginum, það vill bera hvít blóm og það vill hafa fugla og síðan vill það að einhver komi og hnýti vasaklút í tréð svo það geti grátið því sagan þess er þannig að tréð skilur ekki eigin sögu - og nú eru komnar þrjár línur.

Tréð vill hafa reglu en veit ekki hvaða reglu.

Þetta er gert fyrir Ellu Stínu. Ritari Heimsveldisins á páskum.

05 apríl 2007

Tréð hennar Ellu Stínu

Ella Stína heyrði einu sinni að við værum ekki að leita að tilgangi lífsins nema við hefðum týnt honum. Það var vinur hennar sem sagði henni þetta, hann Siggi Avatar. Þetta er auðvitað mjög lógískt og þá mundi Ella Stína eftir því að hún hafði fæðst með tilganginn einsog húmorinn en svo hafði þetta allt týnst hjá henni þegar hún var á leiðinni úr og í skólanum í hlekkjunum og hirti ekki einu sinni um að beygja sig eftir þessu þegar þetta hrundi allt af henni, svo gleymdist það og hún eyddi heilu árunum í að finna tilgang og húmor einsog hún hefði aldrei haft það og ætti bara alltíeinu að fá það. Annars langar Ellu Stínu bara að skrifa um uppljómaðan glugga, drauma og segja sögu. En hún er núna í rosa feimni og óöryggiplássunum sínum, en hún er líka ástfangin og þá er alltaf saga. Hvortveggja er gjöf sem Ella Stína verður að hugsa vel um. En Ella Stína heldur hún þurfi vernd tilað skrifa söguna. Já hana langar líka að skrifa um strákinn í Ellu Stínu. Stundum er einsog Ella Stína sé á gangi í skóginum og þá sér hún alltíeinu tré og þá er einsog það sé saga í trénu og þá þarf bara að tálga utanaf trénu, eða reyndar ekki tálga utan af því, heldur hlusta á tréð. Ella Stína viknar í þessum töluðum orðum. Því það er líka stundum svo erfitt að hlusta á tré, þau eru stundum lengi að segja söguna, þau taka sinn tíma, eða þau geta líka talað hratt, eða kannski það sem málið, maður þarf stundum að vera einn með trénu.
"Where the spirit does not work with the hand, there is no art." -Leonardo DaVinci

"Our greatest need & most difficult achievement is to find meaning in our lives. When we expose our hearts and minds to the fruitful contemplation of life experiences (ours and those of others), we become gifted with an invaluable measure of vision and understanding that can ultimately dazzle the imagination and stir the passions..." -Bruno Betelheim

"An act of love that fails is just as much a part of the divine life as an act of love that succeeds, for love is measured by fullness, not by reception." - Harold Lokes

Ella Stína kommenterar á spakmæli

The past is history. The future is mystery. Every moment is a gift. Thats why its called PRESENT. (Shalidar Kumbaya)

Ella Stína gat ekki stillt sig um að bæta við, but the history and the mystery is also gifts. Hún er svo mikið krútt!!!

Páskagreinarnar

Í dag er allt merkilegt sem ég geri og nú ætla ég að fara að horfa á páskagreinarnar. ....Mmmmmmmmm...

Hjarta í kremju

Ellu Stínu var illt í augunum, hún hafði verið að reyna sjá svo mikið með augunum, að hana verkjaði í augun og vöðvana kringum augun, hún hafði gleymt því sem refurinn sagði við Litla prinsinn: Maður sér ekki vel nema hjartanu, það mikilvægasta er ósýnilegt augunum. Hjartað í Ellu Stínu var í kremju og í staðinn fyrir að leyfa kremjunni að tala og fá sitt tungumál, þá reyndi hún að sjá allt með augunum og á meðan kramdist hjartað í henni enn meira.

Um ástina

Ástin er ekki tvær manneskjur sem horfa hvor á aðra, heldur tvær manneskjur sem horfa í sömu átt.

Tilvitnun í Antoine de Saint-Expéry höfund Litla Prinsins

Ennfremur eftir sama höfund:

Maður sér ekki vel nema hjartanu, það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.

Það er tíminn sem þú hefur varið í rósina þína sem gerir rósina þína svo mikils virði.

Þú berð að eilífu ábyrgð á því sem þú hefur bundist böndum.

Undur og stórmerki

Ella Stína vaknaði á skírdag og fór að lesa í Nýja-Testamentinu; þér trúið ekki nema þér sjáið undur og stórmerki, sagði Jesú. Einmitt, sagði Ella Stína, þér trúið ekki ef þér sjáið litla Ellu Stínu.

03 apríl 2007

Ævintýrið Ella Stína

Ella Stína ákvað að halda regluna en sleppa undantekningunni. Hún kallaði því þann sem hún var skotin í prinsinn - í heilan dag. Nú er komið að kvöldi þess dags og Ella Stína hefur uppgötvað að hún lifir í ævintýri. Púffffff!!!! Linda vinkona hennar sagði henni fyrir mörgum árum: Þú þolir ekki hversdagsleikann, þú lifir í töfrum og ævintýri. Það var einsog þetta færi í taugarnar á Lindu en í eyrum Ellu Stínu hljómaði þetta einsog ævintýri, og í fyrra hafði vinur hennar Þorvaldur Davíð sagt við Garp Elísabetarson að hún væri ævintýri. Sagði Þorvaldur það virkilega, sagði Ella Stína með tárin í augunum, og bætti við: Mig dreymdi mig og Þorvald einu sinni, við vorum í útrýmingarbúðum, okkur leið illa, og nú hugsaði Ella Stína hvort þau Þorvaldur hefðu bæði verið í hlekkjum, en þau voru saman í Listaháskóla Íslands og það gat vel verið að skólinn væri að reyna að útrýma svona frægu fólki einsog Þorvaldi Davíð og Ellu Stínu sem voru ofboðslega dugleg við að vera Þorvaldur Davíð og Ella Stína þótt þau væru í hlekkjum. Já, þau gáfust ekki upp, ég heiti Þorvaldur Davíð, sagði Þorvaldur Davíð þótt hlekkirnir væru hann lifandi að drepa, hann var auðvitað ekki hlekkjaður við neinn nema Þorvald Davíð og sama sagði Ella Stína, hún sagðist meira að segja stundum heita Elísabet Jökulsdóttir og orðin heyrðust varla því hlekkirnir drógu hana til jarðar. Og Elísabet Jökulsdóttir var auðvitað hlekkjuð við Elísabetu Jökulsdóttur. Svo hætti Þorvaldur Davíð í skólanum og Ella Stína saknaði hans, hann kom henni nefnilega svo mikið á óvart einsog fræga fólkið gerir alltaf þegar maður fer að kynnast því einsog Ella Stína fékk alltaf að heyra: Þú ert búin að koma mér rosalega á óvart. Besta við Þorvald Davíð var að hann var Þorvaldur Davíð. Og með geisla í kringum sig, og þegar hann kom á horfa á dansinn hennar Ellu Stínu hafði hún ekki séð hann í margar vikur af því hann var hættur í skólanum en þegar hún sá Þorvald breyttist hún og varð einsog Jóhanna Líf barnabarnið sitt sem er sjálfstætt líf í heiminum, jurt sem vex á ókunnri strönd, já. Segir bara hæ og labbar sína leið. En það var á svona stundum þegar hún heyrði það frá mönnum einsog Þorvaldi Davíð að hún væri ævintýri að henni fannst hún vera Jóhann Sigurjónsson skáld endurborinn. Ella Stína var líka soldið snobbuð, fyrst Þorvaldur Davíð segir þetta getur enginn skammað mig fyrir að vera ævintýri, þá er ég ævintýri og ég ætla ekki að vera annað. Þorvaldur Davíð hafði ekki sagt þetta svona einsog Linda, einsog það væri eitthvað tilað hálfskammast sín fyrir, allavega hætta að vera ævintýri. Samt var Ella Stína búin að þekkja Lindu síðan hún var tíu ára og hún reyndar vissi hvað Linda meinti. Linda ætti nú bara að vita að hún er rammgöldrótt. Já nútímafólk heldur að það sé nútímafólk en er svo rammgöldrótt, ævintýri, goðsaga, elding, foss og ég veit ekki hvað. Geisli, tré, álfar. Þetta sést allt í nútímafólki, sést þrátt fyrir jakkafötin, einsog maðurinn sem Ella Stína sem er skotin í, hann vinnur á skrifstofu og er rammgöldróttur. Svo heldur nútímafólk það sé rosa nútímafólk og til sé ein leið inní heiminn, rúlluhurðin í WallMart. En svo byrja börnin í skólanum, skólafélagar Ellu Stínu, og þegar hún varð samferða Vilborgu heim úr skólanum byrjaði hún líka. Það skal tekið fram að Vilborg er rauðhærður eyjafjarðarpúki, þokkadís sem skrifar söngleiki fyrir Broadway og Þjóðleikhúsið og lærði stjórnsýslu áðuren hún sló í gegn í Listaháskólanum. Þær voru að labba yfir Arnarhól þegar Vilborg byrjaði:

Ella Stína, veistu ef ég væri í skotin í manninum sem þú ert skotin í væri það allt öðru vísi hjá mér, það væri næstum ekkert sérstakt en þegar þú talar um hann verður allt sveipað töfraljóma, já þegar þú talar um hann þá er ... þá er... einsog hann sé prins. Er hann prins?

Hann er stjórnarformaður, sagði Ella Stína.

Guð stjórnarformaður veistu þegar þú segir það verður það eitthvað svo... eitthvað svo... töfrað.

Hann er fasteignasali, sagði Ella Stína.

Ertu að meina það, fasteignasali, veistu þegar þú segir þetta þá verður það eitthvað svo... eitthvað svo ... töfrað.

Hann keypti handa mér kastala í Rúmeníu, kastala Drakúla greifa á 60 miljarða, með 260 herbergjum, og 45 pyntingarklefum sem ég get notað fyrir mína sadómasókísku kynóra.

Vá æðislegt, veistu þegar þú segir þetta þá verður eitthvað svo... eitthvað svo ............. töööööööööööööööööffffraðððððððððð!!!!!!!!

*

Ella Stína vissi að Linda meinti að hún væri föst í ævintýrinu. Allt í lagi að vera ævintýri en Ella Stína var föst. Linda sá það. Það var ekki fyrren nokkrum árum seinna að Ella Stína skildi það. Það var daginn sem hún braut regluna, - og sagði prinsinn í heilan dag ánþess að spyrja hann leyfis. Skyldi prinsinn vera búinn að senda mér ímeil, skyldi prinsinn vera í útlöndum, í heita pottinum, í miðbænum, skyldi hann vera fúll útí mig, skyldi prinsinn vera brjálaður útí mig, ætli prinsinn tali aldrei við mig aftur, ætti ég að senda prinsinum sms, ætti ég að fara sund ef ég skyldi hitta prinsinn.

Ella Stína heyrði að það var eitthvað að.

Raunveruleikinn hvarf einsog vímuefni hefði þurrkað hann út.

Auk þess voru engir prinsar á Íslandi.

En hún var með prins á heilanum.

Ella Stína var lokuð inní herbergi, einsog þið munið lesendur góðir var prinsinn aðferð tilað halda henni í lokaða herberginu, en þá spyr ég bara:

HVERNIG ER UMHORFS Í LOKAÐA HERBERGINU???

Sama um heimsveldið

Ella Stína var að pæla í að hafa samband við þann sem hún var skotin í og fá eina allsherjarundantekningu á því að kalla hann prinsinn hvenær og hvar sem henni þóknaðist. Ráðgjafinn benti þá á að þarmeð væri þetta orðið heimsveldið hans, Ellu Stínu var alveg sama svo framarlega sem hún fengi að kalla hann prinsinn.

Reglan hennar Ellu Stínu

Ella Stína ákvað að setja á reglu í Heimsveldinu. Hún lét þau boð út ganga í Heimsveldinu að það mætti ekki nefna á nafn manninn sem hún væri skotin í. Þetta var einfaldlega fyrsta reglan sem henni datt í hug. Ella Stína lagðist í sófann af áhyggjum, hvernig átti hún að reka Heimsveldið ef það mátti ekki nefna nafn hans, og átti þá að nefna eitthvað nafn í staðinn, og hvaða nafn ætti það að vera.

Ella Stína var í vandræðum með regluna þegar síminn hringdi. Vinkona hennar Elísabet Ronaldsdóttir var í símanum, Ella Stína spurði hana hvaða nafn hún gæti sett í staðinn.

Prinsinn, sagði Elísabet Ronaldsdóttir.

Prinsinn? sagði Ella Stína.

Svo það átti að segja prinsinn í staðinn fyrir þann sem Ella Stína var skotin í.

Svo er undantekning, það má aldrei segja prinsinn nema hann leyfi það sjálfur.

Þá er ekki hægt að segja ... sagði Ella Stína, verð ég þá að spyrja ....í hvert sinn ... sem mig langar að segja ... Er það þannig að ... verður að hafa samband ef ... vill leyfa að nafnið ... sé nefnt á nafn. Svo orgaði hún: Það skilur mig enginn.

Er það í lagi svo framarlega sem þú heldur regluna, sagði rödd inní henni.

Ég er byrjuð að heyra raddir, orgaði Ella Stína sýnu hærra.

Talaðu bara um eitthvað annað en ... sagði röddin.

Þú ert að tala um ... orgaði Ella Stína einsog stunginn grís.

Hún ákvað að brjóta regluna og sagði við ráðgjafa sinn: Ég er búin að hugsa um prinsinn í allan dag.

Hefur .... leyft það? sagði ráðgjafinn.

Ha?

Þú átt eftir að venjast þessu, sagði ráðgjafinn, já þú venst því að vissa hluti má ekki tala um, sem ekki er hægt að tala um og loks verður það þannig ef þú nefnir .... skilur enginn hvað þú ert að tala um.

Eitthvað óvænt

Mig langar að skrifa eitthvað óvænt, eitthvað sem ég hef ekki hugsað áður eða skipulagt, eitthvað sem sprettur upp núna kannski með aðferðinni ease up, dont freeze up en þannig er það kannski í heiminum, eitthvað óvænt sem er ekki hægt að fella í kerfi eða stjórna og þar eru allar tilfinningar sem vakna, stækka og minnka, sumar koma ekki aftur, aðrar koma alltaf aftur, en ef maður hefur tilfinningar þarf maður á öðrum að halda, augu tilað horfa í, hendur tilað snerta, þegar hendur okkar snertast, já ég er að hita te og mig dreymdi þrjá drauma í nótt, en það er þetta um að treysta heiminum eða treysta guði, því það gerist svo margt fallegt og stundum verð ég yfirkomin af fögnuði bara ef ég sé lítinn fugl, gamlan mann, lítið barn eða skýjatjásu, heyri vatnið sjóða, regnið falla, bara að það er þessi dagur og ég fyllist af hamingju einsog líkami minn sé gerður fyrir hamingju og þá veit ég að líkami minn er hamingjubox og sennilega er hann landamæralaus, sennilega nær hann alla leið til þín og svo ná líkamar okkar til stjarnanna og líkami stjarnanna nær til okkar og nú tek ég andköf af hamingju og veit að líkami minn er líka eitt sársaukabox, móttökustöð fyrir sársauka sem því aðeins er mögulegt að hann hafi verið áður smurður af hamingju.

Nafnið hans: Prinsinn

Og það var þá sem Ella Stína uppgötvaði að eitt orð hafði merkingu. Prinsinn. Hún gerði lista yfir töframátt orðsins prinsinn:

Það hélt henni frá heiminum.
Það gerði heiminn absúrd
Það gerði heiminn leiðinlegan
Það setti tilgang í heiminn
Það gerði hana sjálfa absúrd
Það gerði hana ókunnuga sjálfri sér
Það gerði það að verkum að hún þekkti sjálfa sig
Það kveikti vonir í brjóstinu
Það hélt henni á lífi
Það gerði það að verkum að henni fannst hún vera að deyja eða missa vitið
Það vissi enginn af því
Það hljómaði einsog bænastagl
Það gerði hana að vélmenni
Hún gat ekki hætt að hugsa um þetta orð ALVEG SAMA HVAÐ

Já, þetta eina orð.

En aðeins ef hún endurtók það nógu oft.

Dansinn

Ella Stína komst að því að pabbi hennar hafði sett hana í hlekki þegar hún var að dansa. Dansa! Hugsið ykkur. Þarna var hún lítið saklaust barn að dansa sinn ástaróð til lífsins og hvað!? Kemur ekki ekki pabbinn með hlekkina. Og smellur!!! Hver er ekki orðinn leiður á þessum pabba hennar Ellu Stínu. Ekki Ella Stína. Jú einmitt Ella Stína. Er furða að hún hafi skipt um nafn á honum? Og svo framvegis. En nú var Ella Stína farin að halda að þetta væri allt dansinum að kenna þótt hún væri löngu hætt að dansa. Ella Stína lifði svo flóknu lífi að hún átti ekki vísakort, bara eitt debetkort. Og hvað með mömmu hennar Ella Stína, jú Ella Stína var alltaf svo utan við sig af því hún var að reyna muna hvað stóð á miðanum sem mamma hennar sendi hana með... eitthvert... hún vissi ekki hvert hún var að fara en það var allt í lagi ef hún mundi bara eftir því hvernig hún átti að vera. Fyrstu orðin á listanum rifjuðust upp:

Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð
Góð

Ella Stína sá enga meiningu í þessu. Þetta var allt sama orðið. Það gat varla verið meining í því. Þetta hlaut að vera algjört brjálæði, stóð það kannski á listanum:

Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði
Brjálæði

Það er heldur engin meining í þessu, hugsaði Ella Stína, ég verð að finna eitt orð sem er einhver meining í. Og svo fór hún að gráta.

Ella Stína í Ellu Stínu

Það er ekki að furða að Ella Stína væri hrædd við heiminn og vildi frekar vera á leynistöðunum sínum, lokaða herberginu eða í hlekkjunum. Það var af því að einu sinni hafði allt heitið Ella Stína. Hér kemur smá sýnishorn af því:

Ella Stína lifði í Ellu Stínu þarsem allt hét Ella Stína. Þess vegna hét Ella Stína inn Ella Stína. Af þessum Ellu Stínum rak Ellu Stínu í Ellu Stínu þegar hún sá það í Ellu Stínu að hún hafði ekki mætt til Ellu Stínu. Það var Ella Stína við Ellu Stínu þarsem hún sagði að Ella Stína hefði tapað öllum Ellu Stínunum í Ellu Stínu og væri niðurbrotin og þyldi ekki að tapa meira. Ella Stína glápti úr sér Ellu Stínu. Hvernig gat þetta verið? Hún vissi ekki betur en hún væri alltaf í Ellu Stínu þar sem hún hefði búið til heila Ellu Stínu, já tíu Ellu Stínur tilað keppa á Ellu Stínu. Hún hafði hlaðið Ellu Stínum á þær, hver Ella Stína fékk tíu þúsund Ellu Stínur til að ganga vel í Ellu Stínu og vinna Ellu Stínu. Til að þetta yrði alveg öruggt hafði hún ákveðið að hafa hinn brasilíska Ronaldo með. Þau höfðu unnið í alla Ellu Stínu og verið alveg ósigrandi. Ella Stína vildi nefnilega ekki tapa, hún hafði alltaf verið að tapa og tapa og tapa og var orðin leið á því. Í hvert sinn sem hún tapaði splundraðist Ella Stína og var lengi að safna sér saman. Ella Stína vildi vinna. Þá small Ella Stína saman og ekki bara Ella Stína heldur Ella Stína. Hún mundi eftir því þegar hún fæddist að það var svipað og að vinna, allt féll saman í eina Ellu Stínu. En svo hafði Ella Stína komið og hafnað Ellu Stínu og líka Ella Stína auðvitað svo Ella Stína var farin að trúa því hún ætti ekki skilið að fá neina Ellu Stínu.

Hér lýkur þessu sýnishorn en sagan er uppá fimm blaðsíður og birtist síðar í heild sinni. En svona var heimurinn í gamla daga, allt hét Ella Stína. Svo hafði komið sprunga í Ellu Stínu og guð virtist hafa komist inn þegar pabbi hennar dó, (sick!) Eftir það skiptu hlutirnir um nafn, Laugavegur fór að heita Laugavegur en ekki Ella Stína, Lækjartorg Lækjartorg, Kleppsspítali Kleppsspítali og svo endalaust framvegis, þetta var óviðráðanlegur heimur fyrir Ellu Stínu, og þetta var bara ekki Ella Stína, þetta var heimurinn, - svo Ella Stína var - nú á þessum tímamótum sem þið eruð vitni að lesendur góðir þegar Ella Stína er að fara útí heiminn, já soldið smeyk, smeyk um heimurinn myndi aftur byrja að heita Ella Stína og svo myndi aftur koma sprunga.

Og svo myndi sprungan heita Ella Stína.

Og þá kæmi semsagt aftur Ella Stína. Og svo aftur Ella Stína.

Svo yrði hún öll sprungin.

Ella Stína er tildæmis búin að blogga þrjá kafla sem hún geymir; afhverju? er hún huglaus? tillitssöm? feimin? hvað er að? Er hún að missa karakter?

Er þetta brestur í hetjunni, svona einsog í grísku harmleikjunum?

Ella Stína getur ekki hugsað sér að verða grískur harmleikur, grískur harmleikur er auðvitað hluti af heiminum en hún ætlar sér ekki að hanga þar einsog í hverri annarri sjoppu.

Svo hvert á Ella Stína að fara næst í heiminum tilað komast útúr gríska harmleiknum?

1. ameríska bíómynd
2. hjarta sitt
3. fellini-mynd
4. idol-keppni
5. íslendingasögurnar
6. hringja í ....?
7. tala við bensínafgreiðslumanninn

02 apríl 2007

Hvað er Ella Stína gömul?

Útaf því hvað Ella Stína var upptekin af því að fylgjast með ísklumpinum gat hún ekki fylgst með tímanum. Svo ef hún var spurð um aldur hélt hún alltaf að hún væri sjö ára. En það er til saga af því þegar ísklumpurinn bráðnar og allt fer á flot, sú saga er nátengd ástinni, Ella Stína var alltaf að reyna að stjórna ástinni þangað til einn daginn, já einmitt í dag, gafst hún upp. Og þá fann hún svona hita og viðkvæmni í brjóstinu alveg einsog söknuðinn í gær. Ellu Stínu fannst þessar tilfinningar einsog fínir fánar sem blöktu í vindinum. En bráðlega verður haldin samkeppni í Heimsveldinu um fána. Hún er heldur ekki með hest fyrir ráðgjafa, hún er með lítinn demanta-dverg sem fannst á flóamarkaði í Norður Karólínu. En þetta er soldið svona hingað og þangað. Ella Stína hélt semsagt hún væri sjö ára en var þá bent á hún væri 48 ára og hún reyndi stundum að hugsa einsog 48 ára gömul kona og komst þá að allt allt öðrum niðurstöðum og var bálundrandi, ha? sagði Ella Stína en þær voru furðulegar heppilegar en Ellu Stínu fannst stundum erfitt að vera Ella Stína og einhver benti henni á að hún gæti orðið Elísabet Jökulsdóttir en Elísabet Jökulsdóttir er stofnun og Ella Stína vildi frekar vera heimsveldi en stofnun.

Svo það er spurning um þá þriðju?

Næsta blogg verður um væbið. (Á íslensku straumar)

Ísklumpurinn

Pabbi hennar Ellu Stínu var alltaf inní ísklumpi og fór aldrei út úr honum. Bernska Ellu Stínu leið við það að reyna bræða ísklumpinn og frelsa pabba sinn, það var eftir að hún hafði starað stórum augum á þessi undur og ósköp hvernig ljósið klauf hann í marga parta í ísnum eða skein í gegnum svo stundum sýndist pabbi hennar einsog geislandi engill eða allur afskræmdur af ljósbrotinu. Ella Stína var því fullkomlega hugfangin af pabba sínum. En svo varð hún soldið leið á honum og hélt kannski að hann myndi segja henni sögu ef henni tækist að ná honum út. Svo hún reyndi allskonar hitastig dag eftir dag eftir dag og skráði allar rannsóknirnar. Höfuð hennar var orðið fullt af niðurstöðum sem sköruðust hver við aðra og línuritin og súlurnar fylltu hausinn á henni einsog þéttriðið net. Ellu Stínu fannst hún alveg hafa rétta hausinn í þetta. En svo leið og beið og ekki bráðnaði ísklumpurinn. Stundum reyndi hún að brjóta hann en þá kom mamma hennar alveg klikkuð og sagði að Ella Stína væri erfitt barn. Ella Stína trúði auðvitað mömmu sinni og fór að trúa því að hún væri erfitt barn og þessvegna væri erfitt að brjóta ísklumpinn svo hún beið eftir því að hann myndi bráðna af sjálfu sér. Ella Stína trúði því líka að þegar hún yrði ung stúlka og hætti að vera barn hætti hún að vera erfið og þá yrði ekki erfitt að láta ísklumpinn bráðna. En einmitt á þeim tímamótum dó pabbi hennar. Þá varð til pláss í ísklumpinum. Ella Stína varð himinlifandi og setti draumaprinsinn inní ísklumpinn. Hún setti alla draumaprinsana inní ísklumpinn en þeir hurfu allir á tilteknu augnabliki. Það var þegar Ella Stína sagðist elska þá. Hún var farin að þekkja ísklumpinn svo vel að auðvitað elskaði hún hann, hann var hið eina stöðuga í lífinu, og hún gerði engan greinarmun á ísklumpinum og draumaprinsinum. En þegar Ella Stína sagði:Ég elska þig ísklumpur eða Ísklumpur ég elska þig, þá hvarf draumaprinsinn úr ísklumpinum. Svo Ella Stína setti alltaf nýjan draumaprins í plássið. Því hann passaði svo vel í plássið. Og svo ætlaði hún að þíða hann með ást sinni. En kannski skynjuðu draumaprinsarnir hatrið sem lá að baki, kannski faldi hún það, maður má ekki láta sjást að maður hatar ísklump, nei þá er betra að elska ísklump. Einsog þegar maður segir æ hann er svo mikill ísklumpur, ég er bálskotin í honum. Ella Stína hafði líka einhverntíma sagt við pabba sinn þegar hún var lítil: Ég hata þig. Og þá hafði mamma hennar komið og sagt: Þú getur ekki sagst hata pabba þinn. Hann er pabbi þinn. Pabbi minn! Hann er ísklumpur. Hann er kannski ísklumpur en hann er pabbi þinn. Svona höfðu allskonar ljón verið í veginum fyrir því að Ella Stína fengi einn daginn Nóbelsverðlaun í eðlisfræði. Því loksins fann hún svarið, ef hún gæti bara geymt draumaprinsinn í ísklumpinum við rétt frostmark svo hann kæmist ekki úr klumpinum væri björninn unninn.

Já, þá fengi hún einn daginn Nóbelinn í eðlisfræði fyrir formúluna: Hvernig best er að frostið haldist á draumaprinsi í ísklumpi.

01 apríl 2007

Ella Stína gerir allt vitlaust

Ella Stína gerði alltaf allt vitlaust. Hún var alltaf að reyna að gera allt rétt og það gerði hana rosalega taugaóstyrka. Hún hélt að hægt væri að skipta öllu í rétt og rangt. Hún var tildæmis alltaf að reyna gera allt rétt í sambandi við pabba sinn. En hún gat aldrei gert neitt rétt. Hann sá hana ekki. Hann heyrði ekki í henni. Alveg sama hvað. Ella Stína reyndi að þóknast honum og færa honum allt kaffi í heiminum, hún læddist á tánum í kringum hann, fylgdist með svipbrigðum hans, reyndi að spá í svipbrigðin og var alltaf að reyna að túlka þau, en hún túlkaði alltaf allt vitlaust, hún sá það á svip pabba síns, en hún gafst ekki, hún var á nálum og gjóaði augunum og reyndi að gera þetta með lokuð augun, en pabbi hennar var alltaf jafn ískaldur. Ella Stína afneitaði öllu tilað þóknast pabba sínum, sjálfi sínu, hreyfingum, tilfinningum, tíma sínum og loks afneitaði hún eigin kyni, hún breytti sér í strák þegar hún skynjaði að pabbi hennar vildi bara eiga stráka, klippti af sér hárið, kallaði sig Georg og fór í önnur hverfi tilað vita hvort blekkingin gengi upp. Já Ella Stína hefði sjálfsagt dáið fyrir föður sinn hefði hún haft hugmyndaflug til þess. En það var búið að stífa vængina hennar. Og svo er heldur ekki víst að hún hefði dáið rétt. Segjum að Ella Stína hefði dáið tilað þóknast föður sínum. Svo í jarðarförinni hefði einhver ættingi spurt pabba hennar sem hefði verið rosalega pirraður að þurfa að mæta í jarðarförina en þessi ættingi hefði sagt við pabba hennar: Jæja ertu nú ekki feginn að Ella Stína er dáin. En þá hefði pabbi hennar sagt: Nei, hún dó vitlaust.

Galdraandlit Ellu Stínu

Þegar Ella Stína var að fara að sofa í gærkvöldi og var svona aðeins að horfa á tunglið áðuren hún skreið í háttinn þá fékk hún sms. Róbert, hugsaði hún. Það stóð: Þú ert með galdraandlit, á símanum. Sennilega ekki Róbert, hugsaði Ella Stína og sló inn númerið. Þetta var svo skrítið að fá svona ímeil einmitt þegar hún var að horfa á tunglið því tunglið er með galdraandlit en samt var einsog þetta væri sms frá tunglinu.

Friðgeir svaraði símanum. Friðgeir!!! Vinur hennar og bekkjarfélagi staddur á Akureyri. Við höfðum verið að ræða að þú hefðir galdraandlit, sagði hann, en allur bekkurinn nema Ella Stína voru á Akureyri. Við skiljum varla andlitið á þér, sagði Friðgeir, Vilborg sagði þú hefðir galdraandlit, mér fannst ég verða sms-a það til þín á stundinni. Þetta var einmitt hápunkturinn og kom á réttu augnabliki, alveg einsog atriðið í "uppljómaða glugganum" sem er sér kafli eða skott á rófunni. En Ella Stína gat breytt andlitinu á sér alveg ótrúlega eða þeas. andlitið gat breytt Ellu Stínu ótrúlega. Ella Stína elskaði andlitið á sér og hvernig það gat orðið eftirhermuandlit með sönnum dramatískum eða kómískum persónuleikapörtum. Kannski getur Ella Stína birt myndir á síðunni.

Heyrðu, sagði Friðgeir, svo vorum við líka að tala um hvað þú grætur fallega. Ellu Stínu fannst ótrúlegt að heyra að fólk væri að tala um hana í öðrum landshlutum!!! Og hvern hefði grunað, já - eftir öll þessi ár þurrausinna brunna og þornaðra tára, sorgar sem breyttist í steypu en ekki tár, tár sem tókst ekki kreista fram nema undir áhrifum vímuefna, alla sálfræðitímana sem Ella Stína hafði borgað fyrir að fá að gráta en ekki tekist, öll þessi þúsund tár, og tárakirtlarnir farnir að starfa öfugt, þegar hún hló runnu tárin, þegar hún grét orti hún ljóð, já þetta er grátur, að skrifa er að grátur, og reyndar trúin líka, það er svo margt sem er grátur, mannkynið grætur í öllum athöfnum sínum einsog þegar allt þýðir Róbert, já einn allsherjar grátur, Ella Stína hafði ekki grátið þegar pabbi hennar dó, þegar afi hennar dó, soldið þegar amma hennar dó, - en núna, einmitt núna var stödd í símtali þarsem röddin í símanum sagði:

Við vorum að tala um hvað þú grætur fallega.

Fullt tungl

Ef einhver er að furða sig á flóðinu skal það tekið fram að hreyfingar Ellu Stínu fylgja tunglinu og það er fullt tungl.

Samningar við guð

Einsog þið kannski munið kom Ella Stína litla alltaf heim úr skólanum tilað bjarga hjónabandi foreldra sinna sem var hvergi sjáanlegt nema þá þegar það sat útí horni úfið, rotið og skjálfandi fast í öllum björgunarhringjunum sem Ella Stína var alltaf að klastra uppá það einsog það væri dótahringur. Ókei guð, sagði Ella Stína, ef þú bjargar hjónabandinu skal ég alltaf trúa á þig. En hjónabandið brast einn daginn, meiraðsegja á afmælisdag Ellu Stínu 16.apríl. Sem betur fer átti Chaplin afmæli sama dag sem gerði þetta allt mjög fyndið. En Ella Stína varð svo reið útí guð að hún hafði hann fyrir utan eftir þetta eða hvort hún SKIPTI UM GUÐ.

Þetta var nú bara smá um guð. Ella Stína er að reyna að púsla þessu saman um guð, en þó er öllu líklegra að guð sé frekar að púsla henni saman.

Upplýsingabox Ellu Stínu

Ella Stína er orðin kúl. Hún finnur heljarkrumlu íshellunnar herpast um brjóstið. Hún getur bara verið kúl og sniðug. Hana langar að hringja í Róbert og segja eitthvað fallegt. Eitthvað fallegt sem kviknar í brjóstinu. En hún finnur ekkert. Hvað er að gerast fyrir Ellu Stínu. Hún þorir ekki að snerta sársaukann.

Hún horfir bara á sársaukann, frá sér numin af viðbjóði og hryllingi og getur ekki hugsað sér að snerta hann. Þetta er sjálfur heimurinn.

Hún er að horfa á heiminn. Og skilur ekki hvernig hún getur verið að horfa á heiminn því er hún er hvorki í lokaða herberginu né hlekkjunum og heldur ekki heiminum, er hún þá í sársaukanum. Heimurinn er bara annað orð yfir sársauka.

Hún ákveður að koma fyrir upplýsingaboxi í heimsveldinu þarsem sársaukinn getur gefið upplýsingar og fyrsta spurningin er:

Afhverju kannast ég svona við þennan sársauka?

Þetta er bara gamli sársaukinn, segir upplýsingaboxið.

Sem var þess valdandi að ég fór útúr heiminum, spyr Ella Stína.

Mikið rétt, segir upplýsingaboxið.

Og hefur þá ekkert breyst, spyr Ella Stína.

Ha ha ha, segir upplýsingaboxið.

Ha? Segir Ella Stína.

Hlátur er upplýsingar, segir upplýsingaboxið.

Hefur þá ekkert breyst, spyr Ella Stína.

Á ég að ansa þessu, spyr upplýsingaboxið.

Þú ert upplýsingabox Ellu Stínu, segir Ella Stína.

Á ég þá að gefa upplýsingar Ellu Stínu, segir boxið.

Ég er ekki með neinar upplýsingar, segir Ella Stína.

Það er nefnilega það, þú hefur aldrei þorað að snerta á sársaukanum, segir boxið sem var farið að kalla sig box.

Hvernig ætti ég að snerta á sársaukanum, spyr Ella Stína.

Hvernig ættir þú að snerta á sjálfri þér, spyr boxið á móti.

Ég er ekki upplýsingabox, segir Ella Stína.

Það er nefnilega það, sagði upplýsingaboxið, þú ert eitt upplýsingabox frá hvirfli til ilja.

Ég gæti fengið rangar upplýsingar.

Eða engar.

Engar?

Já, sagði upplýsingaboxið, það er spurning um traust. Maður gefur bara þeim upplýsingar sem maður treystir, nema maður hafi tapað röddinni.

Sársauki heyrist í röddum.

Vildurðu spyrja að einhverju, spurði upplýsingaboxið.

Já, hvernig kemst ég hingað.

Þú fylgir sjálfri þér.