26 ágúst 2008

Veggurinn

Sumir menn eru veggir, þegar maður hefur orðið ástfangin af vegg nokkrum sinnum fer maður að þekkja þessa veggi og samtölin við þá. Gjörið svo vel. Og kommenterið svo.

VEGGURINN
Veggurinn.Þú ert æðisleg.
Ég. Takk. Finnst þér það.
Veggurinn. Ómótstæðileg.
Ég. Takk.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Hvað segirðu annars.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Ertu þarna?
Veggurinn. Þegir.
Ég. Sagði ég eitthvað vitlaust.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Fyrirgefðu.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Mér finnst þú æðislegur.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Frábær. Gaman að tala við þig.
Veggurinn. Þegir.
Ég. Jæja, ég er þá farin.
Veggurinn. Bíddu aðeins.
Ég. Þegi.
Veggurinn. Ertu þarna.
Ég. Þegi.
Veggurinn. Halló.
Ég. Oh, þú ert svo sætur.
Veggurinn. Þú svaraðir ekki.
Ég. Ha.
Veggurinn. Þú svaraðir ekki þegar ég talaði við þig.

Perlusúk

Minni á arabíska markaðinn hennar mömmu og félaga í Perlunni nk. laugardag. Það verður fjör og framandi heimur. Til hamingju mamma. Allt gert tilað styrkja skólabörn í Jemen.

Geitungadráp

Ég drap þrjá geitunga í dag, einn með uppþvottabursta, annan með auglýsingabæklingi og þann þriðja með steingrímu sem sonur minn bjó til í barnaskóla.

Stærðfræðijafna

Alltaf þegar ég elska verð ég svo sorgmædd. Allt verður svo trist, ég heyri það á röddinni.

25 ágúst 2008

ég er sæt

Ég fékk sjúkrabíl í morgun því það var alveg að líða yfir mig, svo komu sjúkramennirnir og tóku púlsinn svo núna hef ég engan púls og líka blóðþrýstinginn og sögðu mér að elda hafragraut á morgnana, og sögðu mér að hringja aftur ef það færi aftur að líða yfir mig, en það hefur bara tvisvar liðið yfir mig og eiginlega bara einusinni, það var í frystihúsi í hnífsdal og svo næstum þegar fyrsta leikritið var sýnt og nú um helgina lék ég fyrsta hlutverkið mitt eftir listaháskólann, ég lék einmana konu, eða ég lék hana ekki, ég var hún, ég fattaði ekki hvað ég var einmana fyrren ég fór til írlands og svo núna um helgina þegar ég var að spila ein á borði í bingó og alltaf að reyna kontakta með því að trufla gáfulega.

einmanaleikinn var svo nístandi og mig langaði að hringja í einhvern... einhvern ókunnugan, hvernig stendur á því, kannski gamla fantasían að einhver ókunnugur myndi bjarga mér, já já já, svo kannski var alveg að líða yfir mig af einmanaleika, og ég þurfti félagsskap tveggja ókunnugra sjúkrarflutningsmanna sem hljómuðu mjög kunnuglega, einsog mamma, þegar þeir sögðu mér að elda hafragraut.

nú nú, ég er búin að kaupa haframjöl. en ég veit ekki hvort ég hef tíma tilað elda hann handa mér á morgun, hef ég tíma fyrir sjálfa mig. eða bara þráhyggjurnar mínar sem éta mig upp. ég er sæt.

Dularfull skilaboð

Það kom hérna sjúkrabíll um hádegið og sagði mér að fá mér hafragraut í morgunmat.

´

21 ágúst 2008

Tilfinningabingó

Þú getur unnið fullt hús tilfinninga á Tilfinningabingóinu á Menningarnótt, fer fram á kaffistofunni á Kjarvalsstöðum kl. 18, laugardaginn 23.ágúst.

Gleði, leynisorg, söknuður, angurværð, pirringur...

eru smá pirraður, heví pirraður, ekkert pirraður.

Þér gefst kostur á að sýna tilfinningarnar sem þú vinnur...

Þröstur Leó, Steinunn og Elísabet tilfinningastjórar sýna tilfinningabombur og tilfinningafötlun og svo mætir kannski ein Dúlla sem finnur ægilega mikið til.

16 ágúst 2008

SÚK - arabískur markaður

"SÚK“

Glæsimarkaður í Perlunni, laugardaginn 30. ágúst 2008

Arabísk stemmning, vandaðar vörur, flott uppboð og ævintýralegar uppákomur!
Ágóðinn rennur óskiptur til uppbyggingar á skóla fyrir börn og konur í Jemen

Nú getur þú lagt góðu málefni lið!
Ef þú átt vandaðan fatnað eða muni sem hægt er að selja á markaðnum
getur þú með einföldum hætti látið gott af þér leiða.
Tekið er á móti fatnaði og munum að Síðumúla 15*

Við óskum eftir:
Vönduðum og vel með förnum nýjum og notuðum fatnaði; kjólum, skóm, pilsum, buxum, peysum, jökkum, veskjum, slæðum, sjölum, höttum, hönskum, jakkafötum, skyrtum, bindum, ermahnöppum, frökkum, beltum, töskum, barnafötum, leikföngum, hálsmenum, hringum, eyrnalokkum, armböndum, fallegum bókum, púðum, teppum, mottum, vösum, lömpum, myndum og málverkum.

Upphaf ævintýrisins
Árið 2005 fékk Jóhanna Kristjónsdóttir verðlaun fyrir bók sína Arabíukonur og fyrir verðlaunaféð stofnaði Jóhanna sjóð til styrktar jemenskum stúlkum. Stofnfjárhæðin var 350 þúsund krónur. Nefndi hún sjóðinn Fatimusjóðinn í höfuðið á stúlkunni Fatimu í Þúla sem þá var 14 ára gömul og átti sér þá ósk heitasta að komast í háskóla. Jemen er fátækasta ríki arabaheimsins og staða fólks, einkum kvenna, bágborin. Talið er að um 60 prósent kvenna séu ólæsar.

Börn og konur fá tækifæri
Þökk sé Jóhönnu og samstarfi hennar við Nouriu Nagi, sem rekur miðstöð fyrir börn í Sanaa, fá 250 börn tækifæri til að ganga í skóla og njóta annarrar aðstoðar. Auk þess fá 24 konur að sækja námskeið. Börnin og konurnar eiga það sameiginlegt að búa við afar bág kjör og erfiðar aðstæður.
Í miðstöðinni komast börnin í skóla, fá skólabúning, skólavörur, reglulega læknisskoðun, leiðbeiningar og aðstoð við heimanám þrisvar í viku, föt fyrir hátíðir og þegar mjög illa stendur á hjá fjölskyldum eru þær styrktar með matargjöfum. Auk þess fá börnin kennslu í skyndihjálp, íþróttum, handmennt, tónlist, ljósmyndun og fleiru sem almennt er ekki í boði í jemenskum skólum.

Konurnar læra að sauma, fá lestrarkennslu, tölvukennslu og leiðbeiningar um hreinlæti og ungbarnavernd. Að auki hefur þeim boðist að taka þátt í teiknitímum og leikrænni tjáningu. Konurnar fá leiðbeiningar um hvernig þær geta stofnað lítil fyrirtæki og hafa sumar konurnar útbúið ýmsa gripi sem þær selja. Það kostar um 270 dollara á ári að styrkja hvern einstakling í miðstöðinni. Mörg börn og konur bíða þess að komast að.

Frábær árangur
Hanak Al Matari sem stundað hefur nám í miðstöðinni verður fyrsti nemandinn til að hefja háskólanám í haust. Stúlkan mun leggja stund á hagfræði og stjórnmálafræði. Þetta er stórkostlegur árangur. Hanak er úr stórri fjölskyldu og foreldrar hennar eru bláfátækir. Faðirinn er húsvörður í verksmiðju í Hadda og fær lítið húsnæði fyrir fjölskylduna í stað launa. Móðirin, sem vinnur við ræstingar, hefur sótt fræðslu í miðstöðinni og lætur sig nú dreyma um að setja á stofn litla saumastofu.

Framtíðarhúsnæði
Markmiðið er að miðstöðin geti sinnt 400 börnum og 40 konum en til þess að það sé hægt þarf stærra húsnæði. Áætlaður kostnaður er ríflega 30 milljónir fyrir húsnæði, tæki og búnað. Í húsnæðinu verður einnig aðstaða fyrir sjálfboðaliða sem munu starfa þar tímabundið. Nýja húsnæðið verður mikill akkur fyrir alla starfsemina.
Ef þú ásamt góðum hópi fólks ert til í að leggja þitt af mörkum mun ætlunarverkið takast!
* Opnunartími að Síðumúla 15 (gengið inn baka til)
Fimmtudagur 14. ágúst 11-13
Laugardagur 16. ágúst kl. 10-16
Þriðjudagur 19. ágúst kl. 16-20
Miðvikudagur 20. ágúst kl. 16-20
Fimmtudagur 21. ágúst kl 11-13
Laugardagur 23. ágúst kl. 10-13
Þriðjudagur 26. ágúst kl. 16-20
Miðvikudagur 27. ágúst kl. 16-20
Fimmtudagur 28. ágúst kl. 11-13

Allar nánari upplýsingar veitir Sigþrúður Ármann í síma 699-6613

SÚKK Í PERLUNNI 3o.ÁGÚST....

Og í Arabalöndunum heitir þetta: Eigum við að skella okkur í súkkið, skellum okkur í súkkið!!!

14 ágúst 2008

Kolbrá kom í heimsókn

Litla systir mín ætlaði rétt að koma við og breytti lífi mínu, hún bauð mér í bíó á Mama Mia og ég dýrka Brosnan og er búin að vera leita að ABBA-diskinum sem Jökull gaf mér einhverntíma og ég botnaði ekkert í því, ég skil það núna, ABBA BROSNAN, þvílíkt listaverk að sjá þennan mann syngja, já svo fyllti Kolbrá ísskápinn af þistilhjörtum, bauð uppá kínverskan mat, BLÁBER MEÐ RJÓMA, það er eitthvað andoxunarefni í þeim fyrir húðina, já, ég veit greinilega ekkert um lífið, ég bara andoxaði í mig þessum bláberjum, og svo horfðum við Kolbrá (Magdalena var að gista annarstaðar) á BROKEBACK-MOUNTAIN......!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Þvílík snilld, ég er bara búin að vera Brokeback Ella Stína. Allt um ástina.

Og hann þarna Heath Ledger og hinn. Kolbrá fannst hann sætari, mér fannst Ledger. En truflaði mig ekkert þannig samt, BARA SVO GÓÐ MYND, maður fær trú á lífið og langar að skapa.

Og takk fyrir að koma í heimsókn Kolbrá, þú ert yndisleg.

Ella Stína Þistilhjarta

Ella Stína hefur hérmeð tekið upp ættarnafnið Þistilhjarta, hún Kolbrá kom í heimsókn og fyllti ísskápinn og þám. krukku með þistilhjörtum. Ella Stína hafði aldrei vitað þetta væri til, jú heyrt nafnið en aldrei smakkað, hún smakkaði, hún fékk í leiðslu, þetta er lífið, hvíslaði hún og skóflaði í sig þistilhjörtunum og rétt gat skrúfað lokið aftur á krukkuna og fengið sér meira seinna, hún sagði bara þistilhjarta, þistilhjarta, þistilhjarta.

13 ágúst 2008

guð í hjartanu

ég fann guð í dag,
í hjartanu,
ég fann hann með því að afhenda honum allar mínar áhyggjur, hugsanir, ástsýki, fyrirframkvíða, stress og svo framvegis.
búið að taka mörg ár!
bara svo ég gleymi þessu ekki.

'

Ekki neitt

Ella Stína prófaði að gera ekki neitt. Hún hafði aldrei lent í þyngri þraut. Það endaði með því að hún settist við píanóið.

Leiðin að hjartanu

Það er bara að treysta guði...

'

08 ágúst 2008

Opinberun...trúlofun!!!

Svo fallegt, rómantískt og hátíðlegt...

Garpur og Ingunn hafa opinberað trúlofun sína. Það gerðu þau eitt júlíkvöld í Aðalvík við ysta haf þarsem hvönnin og bláberjalyngið hefja sig til himins, sporin mjúk í sandinum, silungar vaka í ljóðrænni þrá og friðurinn ríkir, og hamingjan er ekki gestur... heldur gestgjafinn sjálfur, - þar settu þau upp hringana.

TIL HAMINGJU INGUNN OG GARPUR.

ást, gleði og allur sjóndeildarhringurinn.

06 ágúst 2008

Hamingjusólin

Embla Karen Garps og Ingunnardóttir er fimm mánaða, hún er búin að fara til Ameríku og til Aðalvíkur, þar veiddi hún nokkra ísbirni, tíndi tonn af bláberjum, dáleiddi silunga og FÓR Í FJALLGÖNGU. Þar sem ég er búin að smitast af Garpi er ég orðinn hagyrðingur og hér kemur vísa um fjallgönguna hennar Emblu, hún fór uppá Darrann!!!


Embla Karen ofurhetja
ofar og ofar vildi hún setja
markið sæta og fjallið sigra
sjóði fann hún voða digra.


'


ps. Það tók mig sólarhring að berja þessu saman, svipað og vísu sem ég gerði fyrir Kristínu hans Jökuls þegar hún kom úr Evrópureisunni. Já, sólarhring. Ég var soldið ánægð með þá vísu líka, er bara ekki með hana í höfðinu. En jú, hér kemur hún.


Kristín hún er komin heim,
henni var tekið höndum tveim
hún fór geðveikt útí geim,
gaman var það evró-sveim.


'

04 ágúst 2008

Grumpy old Elisabet

Ég hef allt á hornum mér, þá er nú skárra að poppa uppí smá maníu eða þunglyndi helduren vera í skapvonskukasti, ég tildæmis vaknaði og hugsaði um að hætta að blogga af því svo fáir kommenta!!! Og svo er netið bilað. Og síminn lokaður, og fjármálin í steik, og ég er að hugsa um að fara vinna á barnaheimili, aumingja börnin, mig langar að fæla alla frá mér svo allir hætti að tala við mig, og þá get ég átt verulega bágt og einangrað mig. Einangrun er óskastaða geðsjúklingsins eða alkhóhólistans, þá er lífið einsog það á að vera, en ég hef ekki kynnst svona skapvonsku áður, ég þarf sennilega að fara á fleiri fundi, ég hef nefnilega alltaf verið í góðu skapi síðan ég varð edrú, Linda hélt um daginn að þetta væri breytingaaldurinn, eitthvað sem ég vil ekki horfast í augu við, en ég ætti kannski að bjóða þennan breytingaaldur velkominn, og ég er nú reyndar aðeins að hugsa vel um sjálfa mig, og svo þori ég ekki á sviðið en mig langar en þori því ekki, og svo hugsa ég, það hringir enginn í mig, en hringir þú í einhvern, mig langar að vera á sviðinu og bara þegja. Og mig vantar strigaskó og gleraugu, en ég burstaði á mér fótleggina um daginn, burtu allar dauðu húðfrumurnar, og setti olíu á fótleggina, og svo er ekki málið að vera eitthvað rosalega unglegur og já svo hringdu Katrín og Elísabet í mig og komu í heimsókn, og buðu mér í heimsókn en ég hef bara hringt í bankann og hann var lokaður, og svo held ég sé með egglos, og svo hringdi kona í gær tilað segja mér að þessi plant-mál hjá henni hefðu ekki virkað, og hún hefði ekki efni á að fá sér plant útum allt, og hef ég efni á því, og hún sagðist hafa talað við starfsfólk á elliheimili sem sagði þetta væri að plaga gamla fólkið en ég er einmitt á leið á elliheimili, og ég fer aldrei í sund af því þá þarf ég alltaf að tala við alla í heita pottinum, og þetta er allt svo grumpy old Elísabet og aumingja Elísabet, og ég fatta þegar ég skrifa þetta ég hef verið lokuð inni í einhverri hugmynd síðan í sumar, og ekki sagt neinum og ekki talað við geðlækninn minn og ekki farið til læknis af því hvað maginn á mér er þaninn og skrítinn, og ég nota ekki innleggin mín, og það er einsog ég hati sjálfi mig en hatur er einmitt óskastaða fyrir geðsjúklinjga og alkóhólista en þetta er samt búið að vera næs sumar, en ég held að ég sé einhver drottning sem allir eiga að snúast í kringum, ...

ég er samt byrjuð á nýju bókinni minni, búin að sækja um styrk tilað skrifa hana, búin að tala við útgefanda sem vill ekki gefa hana út, búin að viðra allt og taka þvílíkt til, skrifaði synopsis, og svo nenni ég ekki alltaf að vera hetja, en amma var svona, maður átti alltaf að hringja í hana og ég er að verða eins, and I am only 50.

Svo er ég búin að leiða fundi og sponsa for first time in Alanon, fókusera á reiðina, já einmitt, the grumpy old look. The grumpy old hook.

01 ágúst 2008

Kreppan (fréttaskýring)

Núna erum við búin að drekka upp Jöklu og erum þessvegna soldið timbruð og sljó og blönk, en um þetta má ekki tala því næst ætlum við að drekka upp Þjórsá og rétta okkur svo af með Skjálfandafljóti.

En pælið í þessu, afhverju er kreppa á Íslandi eftir "stærstu framkvæmd Íslandssögunnar"

Það voru reyndar sumir hagfræðingar búnir að spá því, það var þaggað niður í þeim.

Afhverju eigum við að trúa því að allt reddist nú með álverum á Bakka og Helguvík. Og þegar kemur kreppa eftir þau álver þá getum við bætt við bara byggt álver.

Mér skilst að á Húsavík hafi gripið um sig Reyðarfjarðarveikin, þe. það er máltæki á Húsavík: Þetta kemur með álverinu. Og svo bara bíða þeir. Ógeðslega pirraðir yfir heildstæðu mati á umhverfisáhrifum. Amk. sumir þeirra.

Verslunarmannahelgin

verður haldin í sófanum, nokkrar flugeldasýningar verða, og kósí kósí kósí.