24 september 2008

Kveikti ljósið

Það var svo brjálað veður í nótt að ég vaknaði og kveikti ljósið.

*

21 september 2008

Bagdad Café

Galdrastaður í eyðimörkinni... úlfaldar, kaffi, friður, gleði, og ég fékk kveðju frá staðnum og GJÖF. Mig dreymir oft þennan stað að ég sitji þar í allsherjarfriði, og einhver leikur á bensíndúnk með einum streng... eftir að ég er farin.
Ég er hamingjusamasta hamingju hamingjublómið á jörðinni og lífið er svo dásamlega dásamlegt.

Snjóhúsið

Mig dreymdi vinkonu mína, hún bjó í snjóhúsi, ég gerði vart við mig og þá mokaði hún frá kjallaraglugganum einsog ekkert væri, einsog hún væri grunlaus um að hún byggi í snjóhúsi. Heilsaði mér hin kátasta. Mér fannst einsog þetta væri í Flatey.

Draumur

Hann hélt mér svo fast. Svo breyttist rúmið í skíðabrekku, það sporðreistist, við brunuðum niður og lágum þónokkra stund í skaflinum.

20 september 2008

Fyrsta sagan um Ró

Ég trúi á gyðju sem heitir Ró. Ró er úti í fjósi að mjólka kýrnar.

'

Heiðarleikinn

Í fimmtán ár hef ég verið í heiðarleikaprógrammi, sem gengur útá að maður geti ekki verið edrú nema verið heiðarlegur. Svo heyrði ég í lögfræðingi í vikunni og hún sagði að heiðarleikinn væri jafn afstæður og allt annað í heiminum. "Það sem er heiðarlegt að morgni þarf ekki að heiðarlegt að kvöldi...."

18 september 2008

Yndislegur dagur

Fullur af engiferi, hvítlauk, silungi, ölduróti, sundtökum, rigningu, dormi, og haustsól, amma hefði orðið 98 ára, amma Elísabet sem elskaði mig og var þakið á húsinu mínu, fór í lummubakstur til Vilborgar og hún er svo mikið sólskinbarn í heiði, ég fór líka á fund og fékk að vita að ef maður er mjög eigingjarn kemst guð ekki að, fer allan hringinn og hvergi smuga, svo kom Frank Zappa með Womens Liberation í útvarpinu, ég verð að downloud-a þessu, í nótt keyrði ég Garp, Ingunni og Emblu útá völl, hún var svo lítil hún Embla að verndartilfinningin verður risastór, og á morgun ætlum við Kristín í sund, hvílíkur lukkunnar pamfíll að tengdadóttir mín vilji koma með mér í sund, og ég á nýjan sundbol einsog þið munið krakkar mínir, fjólubleik blóm á bolnum,.....!!!!

Já, og svo er ég að mála rauða hesta, ég er búin að mála þrjá rauða hesta.

15 september 2008

Ástin hennar Ellu Stínu

Ég veit aldrei hvar ég á að setja ástina mína, það er hvergi pláss fyrir hana og ég er orðin mjög syfjuð en get ekki farið að sofa fyrren ég hef fundið pláss fyrir hana.

Ella Stína hugsar heim

Ella Stína hefur orðið: Já, ég á pabba og hann er frábær, hann hverfur stundum og ratar ekki heim, hann er mjög lengi að finna leiðina heim og þarf að lesa á öll skiltin, stundum er hann marga daga að finna leiðina heim og ég get orðið mjög hrædd um hann. Ég er stundum að hugsa um að búa til kort handa honum svo hann rati heim, kannski bara kort þarsem stendur stórum stöfum HEIM.

Svo er eitt annað byrjað að gerast, að hann hverfur hérna heima, hann hverfur ekkert inní skáp eða undir rúm eða neitt, heldur situr kannski í stól og er horfinn. Þá væri gott að hafa þetta kort sem ég er alltaf að hugsa um.

14 september 2008

Rauði kjóllinn

Ekki fara í rauða kjólnum.

Ekki?

Þú ert of sýnileg.

Of sýnileg?

Stundum mætti halda þú værir heyrnarlaus.


Mismunandi viðhorf

Ef kona sér sætan mann hugsar hún: Það væri gaman að kynnast honum.

En ef kona með ástarogkynlífsfíkn sér sætan mann hugsar hún: Ég ætla að giftast honum.

So take care.

Þetta á ekki við þegar um ást við fyrstu sýn er að ræða en þá verður að spyrja efnafræðingana ef þeir eru uppteknir ofaní jörðinni í Sviss að svissa öreindum. Annars eiga þeir að vita það.

13 september 2008

Miklihvellur

Ef ekki tekst að sanna að upphaf heimsins hafi orðið í Miklahvelli inní hinni miklu sáðrás í Sviss, þýðir það þá að að Miklihvellur sé ekki til.

Ef ég get ekki sannað ást mína er hún þá ekki til.

Þarf ég alltaf að vera sanna alla hluti, má ég ekki aðeins slappa af, theinkjú, já takk, gefmér appelsín og niður með axlirnar.

Og ef ég bara staldra smá við, takk já, þá heyri ég kannski drunur getnaðarins og fatta að stjörnurnar, alheimurinn, eru bara sáðfrumur á leið sinni að hinu heilaga eggi.

Ha ha ha. Hvar eru Higgs and Hawkins núna!!!!!!! Ha ha hí hí hí.

12 september 2008

Takk samt

Hamingjan liggur bundin við stein. Ragnhildur kemur.

Ragnhildur. Afhverju ertu bundin.

Hamingjan. Þú bast mig.

Ragnhildur. Ég?

Hamingjan. Svo ég gerði ekki allt vitlaust.

Ragnhildur. Sko, hamingjan er svona upphafið augnablik, hamingjuvottur sem streymir um mann, svona gullið ljós sem tindrar í eilífðinni.

Hamingjan. Ertu þá ekki til í að tjútta!?

Ragnhildur. Tjútta?

Hamingjan. Ég skal kenna þér hamingjutjúttið.

Ragnhildur. Veistu.... ég held ekki, takk samt.

Hamingjan

Ég rakst á hamingjuna í dag, hún lá kefluð og bundin útí horni, nei í hún var þörmunum, föst þar. Og hvað var hún að gera þar, fela sig?

11 september 2008

ELLA STÍNA ER BARNASTJARNA

„Þegar maður er barnastjarna er manni sagt hvert maður á að fara og hvar maður eigi að standa, maður er sífellt að leika fyrir fólk. Þetta gerir að verkum að manni finnst að maður þurfi sífellt að gera öðrum til hæfis,“ segir Kirsten, sem m.a. er fræg fyrir leik sinn í myndunum um Kóngurlóarmanninn.

Þetta er haft eftir Kirsten Dunst í mogganum í morgun. Og strax og Ella Stína las þetta fattaði hún að hún hafði verið BARNASTJARNA, nákvæmlega það sem hana dreymdi alltaf um, og fattaði bara ekki að hún hafði verið það fyrren hún las þessi ummæli.

En það var alltaf verið að segja Ellu Stínu hvert hún ætti að fara, hvar hún ætti að standa og hún átti alltaf að vera leika fyrir fólk. Og nú er hún þunglynd útaf þessu og viðurkenningasjúk. Gjörsamlega viðurkenningasjúk og kemst ekki útí Flatey eða til Heklu því einhver gæti komið með viðurkenningu til hennar á meðan, svo Ella Stína verður að vera heima tilað taka á móti viðurkenningum.

En Ella Stína er að hugsa um að brjóta upp mynstrið og hætta þessu barnastjörnuþunglyndi og athuga hvort þá kannski kemur viðurkenning!!!!

Hvað get ég gert í búrinu?

1. Verið nakin innanum fulltaf risaþorskum.
2. Sagt söguna mína.
3. Sýnt mjaðmahreyfingar.
4. Borðað smákökur.
5. Hugsað.
6. Reynt að komast út en kemst ekki út nema búa til auka-persónuleika.
7. Beðið um að láta fleygja einhverju til mín, einsog poppi, banönum, bíómiðum.
8. Reynt að fá pláss á togara.
9. Grátið.
10. Lesið í Bíblíunni og fengið hláturskast yfir Sköpunarsögunni einsog ég fékk þegar ég var átta ára um borð í Gullfossi og las: Guð sagði, verði ljós og það varð ljós. Og ég fór að hlæja því þetta var svo einfalt og ég hélt að trú væri svo alvarleg. Ha ha ha. Ha ha ha.
11. Látið Villa Valla klippa mig.
12. Talið upp í hvaða húsum á Ísafirði ég hef sofið hjá í.

'

Mjaðmadansinn

Ég dansaði mjaðmadans í gær í dansplássinu mínu, lét mjaðmirnar detta út til beggja hliða og sneri höfðinu á alla kantana, ekkert smá brak, já, þetta var í lagi og í lagi þótt heimurinn hryndi svolítið. Ég samdi líka lag á píanóið, ég er guðs undur hér á jörð.

mosalauta

Lífið er dásamlegt. Ég er dásamleg. Það er sól úti. Ég er með tíu fingur. Hafið fellur að. Blátt. Blómið í glugganum er að blómstra þremur knúppum, brúðarvendir, og þrír á leiðinni, ó þau eru svo falleg. Það er mikið að gerast í eyrunum á mér. Ég er að þvo í þvottavélinni og viðra þrjá arabíska dúka. Ég vaknaði klukkan níu. Þá var morgun. Svo kom þáttur í útvarpinu með gömlum dægurlögum, við sátum tvö, við sátum tvö, og lögðumst svo í mosalautu.

10 september 2008

Endursköpun...

Ég hef nú ákveðið að endurskapa það ástand sem skapaðist þegar ég varð ástarfíkill, en ég nota ást við einmanaleika. Þetta verður einhverstaðar neðanjarðar. Kannski sést hausinn á mér uppúr.

Öreindir Ellu Stínu

Ég er að gera smátilraun hérna hjá mér í dag og reyna að láta tvær öreindir rekast saman en þær fara alltaf hvor hjá annarri svo ég hallast að því að ALHEIMURINN HAFI ALLTAF VERIÐ TIL.

Og kannski rúmast upphaf og heimsendir innan hans. En mig langar aðallega tilað hringja í einhvern.

Hulda Villimey

"Það er alltaf verið að sækjast eftir villtri náttúru og svo má maður ekkert vera neitt villtur..."

Svo sagði Hulda Vilhjálmsdóttir vinkona mín.

ALLT EINSOG Í DISNEYLANDI. DISNEYÓBYGGÐIR. DISNEYFOSSINN FELLUR.

09 september 2008

Mjaðmasúla II

Líf mitt snýst um að halda uppi heiminum.
Um leið og ég hreyfi mjaðmirnar
hrynur heimurinn.
Um leið og ég hreyfi mjaðmirnar
og ætla að njóta
og vera hamingjusöm
hrynur heimurinn,
því það þarf að passa hann.

Ég er súla.

08 september 2008

Húsið er galdur

"Þú og húsið er hreinasti galdur sem gott er að vera inní"... kommenteraði mín stórvinkona Stína Bjarna til margra ára og það ég varð að birta það, því þótt ég sé hrútur með allan þann eld sem ég mögulega get valdið, leiðtogi, (kona sagði það, jógakennari, svo ég er ekki að monta sig en það má monta sig og bráðum fer ég í rauðu náttfötin mín!) en elska að gera eitthvað fyrst og á undan öðrum þótt ég þurfi ekki að vera fyrst á fætur, en hrútur, hrútur, en þá er ég RÍSANDI KRABBI, það þýðir sterkt móðureðli, elska heimilið, - mér finnst svo magnað ef húsið sem ég er alltaf að pæla í að flytja úr vegna umferðarhávaða á Hringbrautinni sé galdur. Það verður kannski tilþess ég láti setja þrefalt gler og fái mér þrefaldan kærasta. Ég ætti kannski að selja aðgang að húsinu, meðan ég dansa í eldhúsinu, fólk geti fengið að horfa á mig liggja í bláa sófanum, og liggja í Einarsben sófanum, og krúttast um og helst ekki fara útúr húsinu. Ó, ég held það sé fullt tungl.

Ég talaði við Indíönu, hún var hin sprækasta. Og svo kom hluti af klaninu í heimsókn, Kristín hans Jökuls, Ingunn og Garpur og Embla flotaforingi. Það var svo YNDISLEGT að fá þau í heimsókn. Og lærið var göldrótt. Og leikur á morgun. Áfram KV. Áfram Garpur.

Og hér kemur ein Embluvísa:

Hallar Embla undir flatt
alveg er það satt,
þá er sæta soldið frökk
situr amman kannski skökk.

'

Embla hallar undir flatt
alveg er það hreinasatt
hún er að horfa á ömmu sína
hallast kannski amman fína?

'

8.september

Merkisdagur í mínu lífi, þá fór ég til Írlands... í fyrra.

Og svo á Indíana afmæli í dag, hún er 17 ára, hún er fyrsta manneskjan á jörðinni sem kallaði mig ömmu. Lucky me. Og hún auðvitað ha ha ha. Indíana er blíðlynt hörkutól, fegurðardís og skemmtilegheitaskratti. Hefur kennt mér margt í lífinu. Til hamingju með daginn Indíana knús.

Og Kristinn á Dröngum hefði orðið 96 ára, vinur minn og fv. tengdafaðir. Eitt merkilegt tímabil í lífi mínu þegar við bjuggum tvö saman á Seljanesi, ég veiddi ísbirni og hann smíðaði bát.

Svo eru Kristín Arna, Ingunn, Garpur og Embla Karen að koma í læri í kvöld, mikill hátíðisdagur.

Mér hefur alltaf þótt vænt um 8.september.

07 september 2008

Englaraddir

Ég heyrði loks í Jóhönnu og Mánadís, ömmustelpunum á Spáni, Alexía var að gista, þær voru svo skemmtilegar og frábærar, og sætar, svo horfði ég á danskeppni, kannski get ég dansað í búrinu á Ísafirði, Lísbet vinkona mín á Ísafirði ætlar að setja mig inní búr, loksins ljónabúr handa Elísabetu ljónsmakka,

Lísbet! Það verður að vera fyrir 1. nóvember. Eða eftir áramót. Jamm.

Ég get dansað og borðað smákökur í búrinu.

Katrín Dagmar stórvinkona mín er að fara til Austurríkis, við fórum saman í sund sl. fimmtudag og ég varð vitni hvernig hún barðist hetjulega við geitunga meðan hún lá í öllum pottum laugarinnar, ég kalla það Geitungadansinn í laugunum, en Katrín er dansari og er að fara að heiman!!! Til Austurríkis, til Mozart. En þau eru bæði snillingar. Hennar er óskað góðrar ferðar og vonandi kommenterar hún frá Austurríki á Heimsveldið.

Kristín Bjarnadóttir fór líka heim og ég saknaði hennar, engin Kristín í húsinu þegar ég kom heim, við vorum næstum farnar að rífast um tangó, ég þóttist vita svo mikið um tangó og vita allt betur en hún, en við fengum okkur hafragraut og fórum í bíó og það var svo yndislegt að hafa hana, ég er að vona hún sé hér enn en hún er byrjuð í spænskunámi svo næst þarf ég sennilega að fara til Argentínu, Ella Stína Argentína, tilað hitta hana og krækja fyrir horn.

Ég er komin á bíl núna, en það hringir enginn sætur í mig, eru karlmenn svona hræddir við mig, þora þeir ekki að hringja og bjóða mér í bíó, ég ákvað nefnilega að hætta að hringja í þá, ég er búin að fá mér stiga og ætla að klifra uppí hann og bíða eftir að þeir hringi.

Svo drakk ég marga djúsa í dag.

Kristín hans Jökuls er komin til Íslands og þá lifnar Ísland heldur betur við, hún er alltaf að verða sætari og fallegri, og kannski förum við í sund, ég var að kaupa mér nýjan sundbol sem heitir TIKINI, ekki bikini, heldur tikini, og það var svo yndislega meiriháttar að fá hana til landsins, hún er að gera rannsóknir, ég held hún sé eina manneskjan í fjölskyldunni sem getur gert rannsóknir af einhverju viti, hún tildæmis er núna að rannsaka hvernig Embla Karen fer að því að skríða, ég hafði allsekki gert mér grein fyrir því að það er rannsóknarefni, en Kristín segir þetta sé mjög tæknilega erfitt!!!!!!!!!!!!!!!!

Það er líka stundum tæknilega erfitt að vera Elísabet.... say no more. Snæbjörn sagði að ég væri stofnun. Kristín segir að ég sé blóm. Ég ætla segja Snæbirni það.

Hey og svo var bankað á föstudagskvöldið. Viti menn og Ingunn tengdadóttir mín stóð fyrir utan!!! Og þær mæðgur kíktu í bláa sófann og Embla Karen hallaði undir flatt. ´

Ég gerði mér strax grein fyrir hvað það er tæknilega erfitt!!!!

05 september 2008

Hlátur Emblu Karenar

Hún Embla Karen hló og skríkti, já hún eiginlega skellihló þegar hún sá ömmu sína Elísabetu sem loksins kom í heimsókn, og það var einmitt þessi hlátur sem fylgdi mér inní draumalandið um kvöldið. Ha ha ha.

03 september 2008

Hjartnæmt blogg

Hversu oft hef ég gengið heim stíginn þessi 19 ár sem við höfum búið hér, og það er september, hauströkkrið allsráðandi og berjalykt af trjánum, sumarið búið að vera svo bjart og yndislegt og þá eitt kvöldið verður manni gengið heim stíginn og sér Karlsvagninn liggja makindalega á þakinu, ég heilsaði honum sérstaklega um leið og ég uppgötvaði að maðurinn sem byggði húsið okkar, hann hét Páll og byggði það árið 1926, hann hefur byggt það tilað halda uppi Karlsvagninum.

02 september 2008

Bernskuhetjur mínar

Lína Langsokkur
Batman
Prins Valiant
Caroline Kennedy
Litli Prinsinn
Pollýanna
Zorro
Nancy
Börnin í Enid Blyton bókunum
Skytturnar þrjár
Neil Armstrong
Sæmundur fróði
Superman
Mamma

'

01 september 2008

Ragnhildur, sjúkdómurinn og guð

Ragnhildur og Sjúkdómurinn sitja við eikarborð um kvöldmatarleytið. Þung gluggatjöld og teppi á gólfum. Sparistellið og kristalsglös á borðum.

Sjúkdómurinn. Það er ósköp að sjá þig.

Ragnhildur. Ég er veik.

Sjúkdómurinn. Um leið og þú hættir að kalla mig sjúkdóm þá batnar þér.

Ragnhildur. Jæja, hver ertu þá?

Sjúkdómurinn. Besti vinur þinn.

Ragnhildur. Kannski er sjúkdómurinn besti vinur minn.

Sjúkdómurinn. Þú ruglar öllu saman. Þú hugsar ekki skýrt.

Ragnhildur. Hvernig er kjötið?

Sjúkdómurinn. Einsog venjulega, of steikt.

ÞAÐ ER BANKAÐ.

Ragnhildur. Hvað er þetta?

Sjúkdómurinn. Róleg!

Ragnhildur. Þetta er guð.

Sjúkdómurinn. Guð!?

Ragnhildur. Guð bankar alltaf svona.

Sjúkdómurinn. Þú opnar ekki.

Ragnhildur. Ég verð að opna fyrir guði.

Sjúkdómurinn. Þá er ég farinn.

Ragnhildur. Farinn! Hvert?

Sjúkdómurinn. Í innyflin á þér.

Ragnhildur. Láttu ekki svona.

BANKAÐ AFTUR.

Ragnhildur. Ég verð að opna.

Sjúkdómurinn. Guð á eftir að rústa öllu hérna.

Ragnhildur. Guð!

Sjúkdómurinn. Já.

Ragnhildur. Ég þekki guð. Hann á ekki eftir að gefast upp, hann bankar þangað til er opnað fyrir honum.

Sjúkdómurinn. Þú opnar ekki.

Ragnhildur. Hann hættir ekki.

Sjúkdómurinn. Það er hluti af lífinu, að halda guði utan við.

'

Septembersól

Septembersólin allsráðandi og minnir mig á þegar Garpur og Jökull byrjuðu í skólanum. Og ég sjálf auðvitað. Það var svo mikill hávaði í svefnherberginu mínu í gærkvöldi, einsog ég svæfi útá götu. Eitthvað tætt, formgerðin í heilanum eitthvað riðlast og englar að fljúga inn með ný skilaboð.