26 apríl 2009

Garpur og Jökull 25 ára

Fallegustu tvíburabræður í heimi og yndislegustu eru 25 ára í dag, ég er svo hrærð, ég er svo góð, þeir hafa gætt lífið töfrum og ákveðni, sífelldum uppákomum og alltaf verið að kenna mér eitthvað nýtt. Hér eru nokkur spakmæli eftir þá, mína kærleiksdrengi og kvikindi af guðs náð:

"Mamma, ef þér leiðist, pantaðu þá bara sjúkrabíl." Jökull

"Mamma, hættu að hugsa, þú hugsar of mikið." Garpur og Jökull

"Ég get ekki beðið eftir að Embla fari að gista hjá þér og fái sinn skammt af töfrum og stjórnleysi." Garpur

"Eigum við ekki að koma og rústa útidyrahurðinni hjá þér." Garpur

"Mamma, þú ert svo mikið fórnarlamb." Garpur

"Ég var að vona að þú gætir slappað af...." Jökull

"Ertu búin að taka pillurnar þínar!!!" Garpur og Jökull

"Þú ert á gestalistanum." Jökull

"Þú ert í lagi einsog þú ert." Jökull

"Vertu einsog heima hjá þér." Jökull

"Viltu passa í kvöld." Garpur

"Þú ert nú vön að geta beðið um það sem þú vilt." Jökull

"Viltu passa Zizou og Keano." Jökull

"Lífið er stundum erfitt og það er ekkert í varið í lífið nema það sé stundum erfitt." Garpur

"Ég myndi vita ef þú værir þunglynd, þú ert bara meðvirk, komdu með mér á fund." Garpur

"Það er ekkert til í ísskápnum." Garpur og Jökull

"Megum við panta pizzu?" Garpur og Jökull

"Þú ert besta mamma í heimi." Garpur og Jökull

"Prótínskortur er ekki neitt." Jökull

"Þetta er kannski prótínskortur ha ha ha." Garpur

"Þú kveður okkur alltaf einsog við séum á leiðinni í stríð." Garpur

"Hugsaðu um allt það góða og fallega..." Garpur og Jökull

"Mundu töfrana." Garpur og Jökull

*

Hláturinn

Einu sinni var kona og hún eignaðist mann. Maðurinn hló svona: Ha ha ha ha ha. Konan sagði við hann, þú átt að hlæja öðru vísi, þú átt að hlæja svona: Ha ha ha ha ha. En maðurinn hætti þá alveg að hlæja.

*

24 apríl 2009

Það var einsog ég losnaði úr ánauð og þá sá ég hvað lífið var viðkvæmt.

Mig langar í svefnherbergi með fataskáp.

Ég ætla að kjósa leiðann

Ég er búin að fá leið á öllu, leiðinn hefur alltaf bjargað mér en hann gerir það ekki nema á nokkurra eða margra ára fresti einsog halastjarna sem kemur inní sólkerfi mitt, og nú hefur leiðinn birst og bjargað mér og þeytt öllu úr sjónmáli og rústað mínum leiðinlega heimi, ég er búin að fá leið að vera með mann á heilanum, á frægðinni, á aumingjaskapnum, á húsinu, á pólitíkinni, á núinu, á að vera hugsa stöðugt um hvar hlutirnir eigi að vera og ekki vera, raða öllu fram og aftur, ÓGEÐSLEGA MIKLA LEIÐ Á ÞVÍ, og leið á að hugsa um einhvern mann, hvort ég eigi að hringja í hann, hvað ég eigi að segja, hvernig ég eigi að vera í röddinni, hvort hann sé heima, hvort ég sé að trufla hann, ég er búin að fá ógeðslega mikla leið á þessum manni, ÉG HATA HANN, ÉG ER BÚIN AÐ FÁ ÓGEÐSLEGA MIKLA LEIÐ Á HONUM, þetta hefur tekið meiren þrjátíu ár að snerta á þessum leiða og ég gæti ælt, kúgast og ælt, óh ojoj oj oj oj, ég ætla aldrei að hugsa um hann aftur, ekki eina hugsun, ég ætla frekar að keyra traktor og vera í stígvélum og tína sóleyjar og vera á Laugarvatni og ég er búin að fá leið á hvað hugurinn er alltaf að skipa mér fram og aftur og líkaminn fær aldrei neinu að ráða, enda er svo þyrst og alltaf sídrekkandi og alltaf með þurrkubletti í kokinu af því líkaminn fær aldrei að ráða og aldrei að dansa, og aldrei að treysta líkamanum, að hann geti talað og tjáð sig og viti hvenær best er að hringja, NEI ÉG ÆTLA ALDREI AFTUR AÐ HRINGJA, he can do the job, í alvöru, hvað er ég að hugsa, ég er hætt að hugsa og svo verð ég skíthrædd um að ég sé komin í maníu þegar ég hætti að hugsa og hugsa með líkamanum, jæja Elísabet hvað er síminn uppá geðdeild, og hvar er Panveikin, að sýnast eitthvað yngri en ég er, oj oj oj, ég sem elska hrukkurnar mínar, þær eru svo sætar og mikill karakter og ég elska mig, elska mig elska elska mig og ég fór áðan útí búð og keypti rúsínur og svo er ég ORÐIN ÓGEÐSLEGA LEIÐ Á ÞVÍ AÐ SKRIFA FYRIR EINHVERN ANNAN EN SJÁLFAN MIG ........................kræst and everything, og hvað fleira, djús, snitsel, kammenbert, limoníaði, lauk, keypti ég lauk, já ég keypti lauk, ég er svo frábær og ég ætla fara og stoppa umferðina hérna við Hringbrautina og þá kemur Víkingasveitin, Egill Skallagrímsson og félagar og segja, það er dópdíler að stoppa umferðina, hún er á skútu, hún er skúta og hún er búin að fá leið á öllu, HÚN ER BÚIN AÐ FÁ LEIÐ Á HÁVAÐANUM, og þessvegna er hún handtekin og sprautað táragas á hana bara af því hún fékk leið, já ég er búin að fá leið á þessu og loksins veit ég hvað ég ætla að kjósa á morgun.....

ÉG ÆTLA AÐ KJÓSA LEIÐANN.

Broskerling.

Í hallargarði einmanaleikans

Í hallargarði einmanaleikans
er margt um manninn
og enginn með sjálfum sér
fyrren skyggja tekur.

Rósir með þyrnum
opnast aðeins í úfnu bergmáli
úlfarnir liggja afskornir
undir fullu tungli.

Einhver leikur á líru
fyrir stjörnubjarta elskendur
í blárri nóttinni.
Einn langur koss deyr út.

Grímubúningar stíga fölir dans
í hallargarði einmanaleikans
ung stúlka teiknar
nafnið sitt
á glugga með frostrósir
í augunum.

*

21 apríl 2009

FRELSI Á VEGG - Frelsi á vegg, ný bók eftir Garp

Það er kooooooooooooooooooomin út nýýýý bóóóóók, BÓK, LJÓÐABÓK eftir Garp, Garp I. Elísabetarson og hún hefur að geyma ljóðaperlur sem smjúga inní taugarnar, og útlitið er óaðfinnanlegt, kápan er eftir Ingunni Sigurpálsdóttur kærustuna hans Garps.

Í bókinni má finna 15 ljóð sem höfundur hefur ort á undanförnum árum á vegferð sinni um heiminn og tilfinningalífið.

Bókin er gefin út í 20 eintökum í tilefni 25 ára afmælis höfundar.

Þetta er svo falleg bók, ég las hana þrisvar í gærkvöldi áðuren ég fór að sofa og vaknaði klukkan átta, ný og betri manneskja. ÞETTA ER BÓKIN Á NÁTTBORÐINU.

Ég vil óska Garpi til hamingju, ég er ótrúlega stolt af honum, ég er svo ánægð með þegar menn gefa eitthvað út í staðinn fyrir að byrgja það inni. Ég leyfi mér að birta ljóð úr bókinni:

*

Fundur

á göngu við erum,
vináttubrú

á botni við syndum,
á kafi, í kærleikshafi,

nautnastundir,
trúnaðarfundir.

*

20 apríl 2009

Hausinn á mér er vél

Vél sem aldrei stoppar, sem er of mikið smurð, stillt á of mikinn hraða, of hægan hraða, of lítið smurð. Hvernig á að hugsa um vélar. Þessi vél hugsar vélrænar hugsanir, óttinn er oft smurningin og þá koma þær þjótandi, eitthvað kemur fyrir, þú ert ekki nógu góð, en ef vélin er smurð með kærleika þá koma gneistar í myrkrinu einsog undan hófaförum í ævintýraleit.

Var að skríða á fætur

Er á fyrsta kaffibolla, búin að klippa sprota af reynitré og hann er að laufgast hér á borðstofuborðinu, bráðum ríf ég vegginn, vaknaði of seint tilað sjá sæta manninn á hádegisfundunum, en sá sýningu Páls á Húsafelli í gær, magnaða sýningu og hann með þessar flottu axlir, svo fór í barnaafmæli til Huldu og Valla, þarsem börnin Bragi Þór og Nína María Elísabet héldu uppi fjörinu, át of mikinn sykur í gær, fékk ekkert að borða nema skyr þegar ég kom heim, talaði við Jökul sem er að flytja heim á morgun, rifjaði upp nokkrar minningar og vildi troða uppá hann bréfi til Roy Keene einsog venjulega, en hann tók því hetjulega því hann er hetja, á laugardaginn var ég að passa Emblu Karen Garpsdóttur, hún var ekki í góðu skapi yfir því að þurfa sitja uppi með ömmu sína en sprellaði þessi lifandis býsn eftir að hún fékk að fara úr náttfötunum, já og svo fór ég í leikhúsið, að sjá ég heiti Rachel Corrie. Um ameríska stelpu sem verður fyrir ísralelskri jarðýtu í Palestínu. En ég er með verk í augunum, sakna Arnar, blés aftur út, svaf til hádegis, fór að sofa klukkan þrjú í nótt, fékk hugsanabyl, HUGSANABYLUR, það er orðið, ég er veður.

ÉG ER VEÐUR.

DREYMANDI VANDRÆÐASKÁLD einsog Rachel Corrie sagði.

18 apríl 2009

Meira um guð - heyrt á fundi

Ég heyrði soldið um guð í morgun, - að ef maður byrjaði að tala við hann þá yrði hann til. Þannig að sköpunarsagan er svona núna:

Og svo fór ég að tala við guð og þá varð guð til. Og guð sagði að þetta væri harla guð og ég sagði takk guð. Og svo sagði ég við guð: Guð getur þú hjálpað mér að vakna á morgnana því ég bara sef og sef og held ég sé komin með krabbamein svo ég fer aftur að sofa og vakna ekki fyrren um hádegið og þá er orðið of seint að fara á fund en það er einn sætur maður á fundinum en ég hitti hann aldrei en hann er bara á hádegisfundum svo hvað á ég að gera guð, ef þú gætir hjálpað mér að vakna, því mér finnst líka gott að vakna á morgnana og eiga svona stund með mér þarsem ég er bara að skrifa og hef mig svo til og fer á fund og hitti fólk og heyri í öðrum og er í rauninni alveg sama um þennan mann, ég nenni ekki alltaf að pæla í mönnum guð, í alvöru, ég er orðin yfir mig þreytt á því, það er einsog þetta sé einhver skylda.

Og guð, afhverju lætur þú mig röfla svona, ég stoppa ekkert, hvað getur stoppað mig guð, ég er að spekúlera hvað þú hefur að segja núna fyrst þú hefur orðið til. Því ég gæti kannski orðið skotin í einhverjum stelpum í staðinn og afhverju lætur þú mig röfla svona, kannski vantar mig bara ást guð og ætti að láta renna í bað.

Ég er skotin í vatni. Og vatnið er skotið í mér.

Og guð sagði: Ég bjó til vatn sem yrði skotið í þér og þú í vatninu og jörð sem yrði skotin í þér og þú í jörðinni, eld og loft, en þú átt að passa þig á þessu og ekki láta flæða uppúr baðkarinu.

Fjóla aðgreinir sig frá Báru

Já, góðan daginn, þetta er Fjóla á Ásvallagötunni, ég ætlaði bara að láta vita að ég er ekki Bára á Sóleyjargötu, nei, ég er allt önnur kona, Ásvallagötu, ekki Sóleyjargötu. Auk þess er ég með millinafnið: Ráðhildur en Bára er ekki með neitt millinafn.

Leyndarmál

Ég sef svona tíu og tólf tíma á dag og drekka tíu lítra af vökva þangað til gúlpar í maganum á mér. Er þetta þunglyndi eða eitthvað sem maður ætti ekki að segja frá.

Ég er búin að gera helminginn af heiminum að læknum, og hinn helminginn að hjúkrunarkonum, eini sjúklingurinn er ég sem heimurinn snýst í kringum um. Æ æ æ, aumingja Elísabet.

*

Ég gleymi hinu góða sem ég geri, einsog í gær lét ég FIMM ÁRA GAMLAN DRAUM RÆTAST og fór uppá Suðurlandsbraut 16 alla leið í Rafha umboðið og keypti síu í viftuna fyrir eldavélina. Og maðurinn setti það í fyrir mig því ég breytti honum í lækni á staðnum.

Og hér kemur viðtal úr sjúkraskýrslum Elísabetar: Staðsetning: Elísabetarspítali. Elísabet liggur undir sæng í hvítum rúmfötum og bifast ekki. Hjúkrunarkona kemur inn.

H: Ætlarðu ekki á fætur.

E: Ég er veik.

H: Hvað er að þér?

E: Láru vinkonu minni er illt í bakinu.

H: Láru vinkonu þinni?

E: Já, ég finn svo til með henni. Ég er að drepast.

*

Næsta dag kemur hjúkrunarkonan inn:

H: Jæja, á fætur.

E: Ég er helsjúk.

H: Hvað er það núna.

E: Hann elskar mig ekki.

H: Hefurðu talað við hann.

E: Nei, ég bara veit það.

*

16 apríl 2009

Ég á afmæli :) :) :) :) :) :) :)

Sextándi apríl, skrítið að vera orðin svona gömul, ég vissi að 51 tæki við á eftir 50, en svo gerðist það, en ég er líka mjög þakklát fyrir þennan háa aldur og er með flís í hælnum, eitthvað úr fyrri heimsstyrjöldinni og sól úti, og ég skrifa og skrifa, var reyndar að vakna, 11.45. Svefnpurrkó.

Tilstendur að fara í danstíma í dag, 5ryþma dans, svo væri gaman ef Embla Karen ræki inn nefið ásamt foreldrum sínum, jæja Elísabet, stop væntingar, lífið er dásamlegt, dásamlegt, en ég hef töfrandi viðmót sem aflar mér fljótunninna vinsælda og kökubakstur, með döðlum og súkkulaði, ég bara nenni ekki neinu nema fleygja mér í silkidúkinn. Kaffið sleppur. Ég er yndisleg og ótrúleg manneskja.

Tekið er á móti kommentum um lýtaaðgerðir og hamingjuóskir:

15 apríl 2009

Heilbrigði parturinn

Geðlæknirinn minn sagði mér að veita heilbrigða partinum athygli, svo hér sit ég mjög heilbrigð og þyrfti að fara til endurskoðandans, en ég veit ekkert heilbrigðara en það svo það er ekki nema von að maður vilji vera smá veikur ha ha ha ha en ég á afmæli á morgun ef mér endist heilsa og aldur til. Ha ha ha ha ha. Þetta var heilbrigða bloggið. Ég ætla að gá í ísskápinn. Og skipuleggja soldið og byggja brú á milli heima, bíddu afhverju þarf ég alltaf að vera byggja brú, það er löngu komin brú en nú er ég að missa þráðinn. Það er allt í lagi að vera einn heima og setja í þvottavélina, nei skrifa söguna mína. Bara svona einsog hún ætti að koma út á fimmtudaginn 16.apríl. Taaaaaaaaaaaaaaaaakkkkk.

14 apríl 2009

Jóhanna og Alexía 12 ára

Ömmustelpurnar mínar, Jóhanna og Alexía, eru tólf ára dag.... la la la lí lú lúía lú la la la

Tólf ára...ótrúlegt, þær eru gull, hjartagull, ömmugull, gullstelpur, yndislegir snillingar, fegurðardísir, hlaupaskott, skemmtilegar, góðar við ömmu sína og alla, og ég elska þær út af lífinu. Ég er svo heppin að vera amma þeirra.... la la lú lú lú ía ía ú.

TIL HAMINGJU HAMINGJU HAMINGJU.

*

13 apríl 2009

Heyrt á fundi

Guð er fljótari að bænheyra mig heldur en Pizza-staðurinn að afgreiða pizzuna mína.

*

Á veitingahúsinu

Stundum kemur þjónustustúlkan æðandi með gömlu hugmyndina um guð, refsandi og gagnrýninn, og ber á borð fyrir mig án þess ég hafi einu sinni pantað.

*

12 apríl 2009

Páskaþingvellir

Fór á Þingvöll í dag ásamt vini mínum, sá Öxarárfoss, Drekkingarhyl and everything og lét margra ára draum rætast um að heimsækja SKÓGARKOT þarsem forfeður mínir bjuggu, þeir létu mig hafa leyndarmálið: Þú þarft ró og kyrrð í þitt líf. Og keyptu þér svo hús á Laugarvatni, - sama tilfinning og ég fékk í Greensboro, en hvað verður þá um hafið? Þú þarft ekki að gera hafið að þráhyggju.
Nú?
Nei, hafið er bara hafið.
Ókei.

11 apríl 2009

Embla Karen fer niðrað tjörn

Ég fór með Garpi og Emblu Karen niðrað tjörn í gær, það var dásamlegt að sjá hana svona hugfangna horfa á fuglana, svani, endur, máva, gæsir, og vatnið speglaðist og á hreyfingu, ein lítil dama komin í heiminn, svo sæt og fín, og yndisleg að uppgötva heiminn. Ég var að passa hana um daginn, þá saknaði hún foreldra sinna svo mikið að hún tók mynd af þeim og setti í fangið á sér en varð þá svo yfirkomin af söknuði að hún beygði af. Það er svo yndislegt hvað svona litlar manneskjur eru stórar, og minna mann á hvað maður er mikil tilfinningavera og sannur í hjartanu.