31 ágúst 2009

Morgunljóð

Hann sagði mér
að hausinn á honum
væri tómur
svo ég tók hann
upp að hjarta mínu
þar var allt dauðhreinsað
eftir síðasta haus.


Hann sagðist aldrei
mundu gera það aftur
hann hafði bara misst stjórn.


Ég fékk það beint
framan í mig
en það var ekki neitt
aðeins merki.


Ég fór að hugsa um
Hvort ég ætti að hreyfa mig
Svona eða hinsegin
Til hægri eða vinstri
Hvort ég ætti að segja
Þetta eða hitt
Og hvort ég ætti að
Segja það svona eða hinsegin
Bara allt allt í lagi
Svo framarlega sem ég gerði
Engin mistök.

30 ágúst 2009

Andleg vakning

Ég sá það ekki
fyrren ég braut
niður veggina
að ég bjó
í klaustri.

*

Umkringd

Þá rennur upp fyrir mér ljós

að ég er á bersvæði

umkringd öllum

þessum mönnum.

Og eina leiðin út

er að kíkja í bæklinginn,

Ikea-bæklinginn.

*

Taugaáfall

Ég er að reyna að fá
taugaáfall

öðru vísi get ég ekki skilið

að ég stjórna ekki

heiminum.

*

Ástarljóð

Mig langar að yrkja ástarljóð
um venjulegan mann,

ekki fótboltamanninn sem rífur
kjaft við dómarann og er merki
um það villta í náttúrunni,

ekki skipstjórann sem stýrir
að landi sem hann á ekki,

ekki alkóhólistann sem ég ein
get sent í meðferð,

ekki fangann sem ég þarf
að frelsa úr fangelsinu,

eða innilokaða manninn
sem ég opna uppá gátt,

ekki manninn sem er nógu langt
í burtu tilað hægt sé að elska hann,

ekki manninn sem meiðir mig
svo ég geti fengið bernskuna mína aftur,

ekki rómantíkerinn sem bullar tóma
froðu og ég baða mig í,

ekki leikarann á sviðinu
svo ég fæ ofbirtu í augun,

ekki þennan sem vill breyta mér
í mömmu sína og vælir í mér,

ekki pabba minn sem á bjarga mér,
hlusta á mig, stjana við mig, dýrka mig,

leiða mig áfram einhverja leið
sem ég vil ekki fara

af því ég þykist vera blind og opna
augun bara þegar ég sé hann í hlutverkinu,

og ekki manninn sem ég get meitt
og tekið allt frá af því það er svo gott að meiða

á meðan finn ég ekki eigin sársauka,

ég á nefnilega engan sársauka
og sýningin gengur út á það,

sennilega finn ég ekki manninn
fyrren ég afsala mér heiminum mínum.

*

27 ágúst 2009

Sama sagan

Stundum endurtekur sama sagan sig og þá er það sagan sem skiptir máli, ekki endurtekningin....meira bullið í þér stundum Elísabet, meira yndislega bullum bullið í þér yndislega Elísabet.

18 ágúst 2009

Lífið á Framnesvegi

Embla Karen kom hér í gær og hélt tónleika fyrir tíu lukkutröll, litaði myndir, huggaði agnarsmáa gyðju og lét hana fara að sofa, gaf nokkrum leikföngum að borða, og trallaði um og gladdi hjarta ömmu sinnar. Svo í dag komu Zizou og Keano og voru hér allan daginn, við fórum í tvo göngutúra, annan út að Eiðistorgi, og þá var ég bara búin að drekka einn kaffibolla, jamm, og lífið var allsekki komið í gang en eftir göngutúrinn vissi ég hvað átti að gerast næst í sögunni minni, og það var dásamlegt.

Í seinna skiptið fórum við Sólvallagötuna og inní Hólavallakirkjugarð, þarsem við hittum leiksýningu í fullum skrúða, ég fékk kaffi og þeir aðdáun, Raggi frændi var samt smeykur, hélt ég væri með úlfa. Fórum svo í Hljómskálagarðinn þarsem þau veiddu nokkrar gæsir, endur og máva og tóku svoleiðis heljarstökkin tilað ná því.

Og nú er jazz í útvarpinu, áðan var viðtal við Lilla Berndsen þann mikla sómamann sem var nágranni okkar Garps og Jökuls á Ránargötunni og yndislegur. Því miður tapaði Víkingur, ég bara úff, þeir voru með unna stöðu. Óþolandi leiðinlegt.

Og af því ég átti ekkert í ísskápnum eldaði ég hrísgrjón, steikti egg með fullt af hvítlauk, sauð gulrófur og þetta var fullkomin máltíð. Zizou nagaði í sundur eitt lukkutröll. Mjög gaman hjá henni og Keano dáðist að. Svo slógust þau aðeins í stofunni, minnir alltaf á dans slagsmálin þeirra.

Blíbb.

Vissi ekki um stöðu sína

Loksins reyndi hún að finna útgönguleið, ánþess að vita af því, kannski hafði hún reynt það áður en þetta var ein af tilraunum hennar tilað komast út, ætlaði að fljóta út í ástinni en þá stoppaði geðveikin hana, en svo komst hún út í geðveikinni, var alltíeinu farin að frelsa heiminn og gera allskonar gloríur, eina leiðin tilað komast út var að verða geðveik, hún þekkti enga aðra leið, hún varð geðveik af öllum leiðum, líka ástinni.

13 ágúst 2009

Fór loksins út

Einu sinni var stelpa og þegar hún fór loksins út úr herberginu fór hún í bæinn og sparkaði í allt, tildæmis alla búðargluggana, borðin, ljósastaurana, bíla og bekki.

Veikleiki

Veikleiki minn er að halda í það sem er farið.

12 ágúst 2009

Eldsvoðinn

Og þegar að endingu hún fór fyrir rétt lýsti hún öllu mjög furðulega, sagði að það legið ís yfir öllu, sprungur í ísnum og sumar sprungurnar ófærar, tíðir jarðskjálftar og eldgos, myrkur og hún á náttfötunum að bjarga fjölskyldunni úr ægilegum eldsvoða.

Siðferðileg hetja

Ella Stína ásetti sér að verða siðferðileg hetja og segja aldrei frá ástandinu á bernskuheimili sínu enda gleymdi hún öllu mjög fljótlega.

10 ágúst 2009

Ég er of andleg.

Ég er orðin of andleg, allt í sambandi við mat og peninga, þe. sem snertir líkamann er mér ofviða, áðan þurfti ég skera banana útí súrmjólkina mína og það var þvílíkt starf, líka að hringja í endurskoðandann, tollstjórann og þessa aðila. Mér finnst ekkert mál að fara á fundi en ef ég þarf að fara í sund byrja viðræðurnar í höfðinu á mér. Ég verð að fara líta á sundið sem bænastund.

Ég vil fá að hlusta.

Í dag var ég að hugsa um að selja húsið mitt og hætta að skrifa og gera hvað? Ferðast, kaupa hús útá landi, byrja að leika eða dansa eða lesa. Aumingja litla bloggsíðan mín eða flytja á Selfoss þarsem sægur af ömmustelpum eru til húsa. Fór í sund og synti 20 ferðir í dag og í gær, tók til í geymslunni. Leiddi fund og fór svo með Huldu í labbitúr með Keano og Zizou, undursamlegt fallegt og logn logn, íslenskt logn, hver fann uppá þessu landi?

06 ágúst 2009

Vantar eina hugsun

Fór að sofa á miðnætti tilað vakna níu en vaknaði klukkan 14. eða tvö. Hvað er að gerast, afhverju er ég svona þreytt, eru þetta hómópatatöflurnar sem konan gaf mér tilað líkaminn myndi losa um áföll sem hún sagði hefðu fest sig þar. Ég steinsvaf allavega og vaknaði dauðþreytt og hélt áfram að sofa, ég er líka stanslaust að hugsa um bækurnar mínar, hvort ég eigi að taka frí, eða skattinn minn uppá hálfa miljón, plús sekt uppá aðra hálfa milljón, sjálfstraustið er ekki í lagi af því að hausinn er með of margar hugsanir.