01 mars 2012

Snilligáfa í viðhengi; neitakk!

Dásamlegur hugur eða óhuggulegur

Hugur minn hefur veitt mér óteljandi ánægjustundir, hugljómanir, frið, drauma, skringilegheit, ég og heimurinn erum stórkostlegur, hugurinn helsta tækið. En hugurinn hefur líka hrætt mig og ruglað, hugurinn orðið guð, fastur í einni hugsun, blóðugt stríð geysað, í þeim tilfellum er það sjúkdómurinn sem hefur veifar sprotanum.

Þegar ég heimsótti Jökul son minn og Kristínu tengdadóttur mína til Ameríku rak ég mig á það enn og aftur hversu óhugguleg geðveikin er. Hvernig sakleysislegur hugur minn reynir með ranghugmyndum að einangra mig og svelta mig, þangað til geðveikin er tekin við og minn eigin hugur hættur að starfa. Í paranojukasti ímyndaði ég mér að þau óttuðust mig, af því ég væri skrítin. Ég var orðin spennt þegar hér var komið sögu, meðal annars af því að geðveikin setti í gang og færði mér þessar hugmyndir á silfurbakka, Kristín sagði eitthvað við mig, ég man ekki hvað en ég þóttist greina ótta í rödd hennar, um kvöldið fórum við einsog venjulega útá fótboltavöll að viðra hundana og þau að skokka, þetta voru yndislegar stundir, himinninn yfir okkur, og rútína, fastur liður, og þarna spurði Jökull mig hvort ég væri til í að passa fyrir þau á laugardagskvöldið, og ég var alveg viss umað hann væri hræddur við mig, ég væri byrjuð að sýna maníueinkenni og hann áttaði sig á því, eða áttaði sig ekki á því.

En það var ég sem varð hrædd, hrædd um að lokast inni í geðveikinni, því að þetta er hún, hugsanir sem umkringja mig, næst dettur mér eitthvað annað í hug og þannig koll af kolli, að endingu er ég lokuð inní hausnum á mér, enginn kemst að mér og ég kemst ekki út, og svo tekur við það stig að ég vil ekki komast út og finnst allir vera fjandsamlegir.

Hræðilegast í þessu tilviki var að sjúkdómurinn var að reyna útiloka ást sonar míns og tengdadóttur minnar, fjölskyldunnar sem ég þekkti, treysti og elskaði. Og ég kemst ekki af án ástar og tengsla, en sjúkdómurinn reynir að rústa því, - í mínu nafni.

Og ég er endalaust... endalaust... frá morgni til kvölds á varðbergi gagnvart hugsunum mínum, það er ótrúlega þreytandi, en ég er líka farin að geta dansað án þess að hugsa, farið í göngutúr með hundinn án þess að hugsa, og meðtekið alla þessa ást sem ég hef fengið frá Jökli og Kristínu sem sögðu frá upphafi heimsóknar minnar; mamma, þú hugsar of mikið, þú átt ekki að spyrja um leyfi fyrir neinu í húsinu, þú mátt vera einsog þú ert, þá ert það þú... við elskum þig, ... og það er öll þessi ást sem er læknismeðal og kallar fram tár.

Þú ert ekki leiðinleg, þú mátt vera með, þú mátt koma með, þú mátt fá þér, já við skulum hlæja að þér og stríða þér af því við elskum þig, þú hugsar of mikið, klesstan.

Oft ef ég verð þess áskynja að einhver elskar mig verð ég hissa, eina vitið er að sýna þakklæti og sýna ást á móti.

Fæ ég þá aldrei frið, verður þetta alltaf svona, það er fyrst hér í Ameríku að ég hef beðið guð um lækningu á geðhvörfunum, að það sé ekkert sniðugt við þau; snilligáfa í viðhengi, nei takk.

Ástæðan fyrir því að ég áttaði mig á að þessar hugmyndir mínar um ótta þeirra og að ég gæti greint raddir þeirra undir smásjá væri vottur af geðveiki, byrjun á maníu, var sú að í vor þegar ég var að skrifa leikritið mitt vaknaði ég einn morguninn heima hjá mér, heyrði fuglasöng og vissi samstundis að hann var skilaboð frá geimverum.

Og ég er heppin, það eru ekki allir sem gætu afborið allar þessar hugsanir, það eru ekki allir sem geta beðið um lækningu, það eru svo margir miklu veikari en ég einsog hún Neasa vinkona mín á Írlandi. Eða er einhver veikari en annar?

Hún gat gefið mér eitthvað sem enginn annar gat gefið mér, sögu sína og hvernig hún hleypti mér inní líf mitt, hún var annað hvort í maníu eða þunglyndi, og dvaldi langdvölum á spítalanum. Ég söng fyrir hana Sofðu unga ástin mín útí garði og hún kom auga á það sem ég hafði ekki komið auga á, þetta lag var geðveikt, og hún skildi ekki að það væri sungið fyrir lítil börn.

Ég var heppin að hitta hana, ég hitti hana í lestinni, hún hafði strokið af spítalanum, hún sagði mér að hún væri með geðhvörf, tvær manneskjur hittast í lest og svo urðum við vinkonur, hún sendi mér jólastjörnu á netinu, hún sýndi mér hvar bangsinn svaf, hún var stolt af mér og sagði hinum sjúklingunum að ég væri að skrifa bók um geðhvörf og þá myndi okkur öllum batna.

Sjálf skrifaði hún aldrei meira en eina setningu af því hún var lasin og gat ekki skrifað meira, en þessar setningar voru einsog brautarteinar sem eru lagðir svo vonin geti ferðast.