26 apríl 2013

Sólbjartur tviburaafmælisdagur

Til hamingju Elísabet, í dag eiga tviburarnir afmæli, ég sit einmitt hér þarsem þeir ólust upp, í húsinu, það er sól og bjart, en það er einmmitt það sem þeir hafa gefið mér, ég elska tvíburana, öll þessi hreyfing, húmor, gleði, uppátæki, samband, skemmtilegheit, þrautsegja, úthald, og útidyrahurðin,

24 apríl 2013

Englatárin og stríðið


Engilinn. Í dag langar mig tilað vera góður... einsog ég er alltaf... ég er alltaf svo góður, svo góður, svo góður. Já. Sést ekki örugglega hvað ég er góður.
Barnið kemur.
Engillinn. Barn! Mig langar einmitt að vera góður við barn. Hæ barn.
Barnið snýst í hringi.
Engillinn. Sérðu hvað ég er góður.
Barnið. Ég er blint. Ég sé ekki neitt.
Engillinn. En heyrirðu það á röddinni.
Barnið. Segðu eitthvað.
Engillinn. Þú góða og fallega blinda barn sem hefur nú hitt engil.
Barnið. Ertu engill?
Engillinn. Heyrist það ekki.
Barnið. Segðu eitthvað smá meira.
Engillinn. Í dag kláruðust öll stríð.
Barnið. Ég var að koma úr stríðinu.
(Engillinn. Drapstu einhvern)
Engillinn. Var það ekki búið.
Barnið. Nei, það var heilmikið eftir. Það var allt búið nema stríðið.
Engillinn. Ég skil.
Barnið. Ég skil ekki neitt. Ég er búin að missa sjónina.
Engillinn. Út af stríðinu?
Barnið. Já, það kom sprenging og ég sá ekki neitt.
Engillinn. Bara allsekki neitt. (Blakar væng)
Barnið. Ég féll til jarðar.
Engillinn. En svo hefurðu staulast á fætur...?
Barnið. Mér finnst einsog einhver hafi tekið mig í fangið.
Engilllinn. Guð kannski.
Barnið. Guð var löngu horfinn.
Engillinn. Og ætlarðu aftur í stríðið?
Barnið. Já, ég ætla að vinna stríðið.
Engillinn. En þú ert bara lítið barn.
Barnið. Tekur upp hníf. Komdu ekki nálægt mér.
Engillinn. Ég hélt að þú værir lítið gott og fallegt barn sem hefðir misst sjónina í stríðinu, fallið til jarðar, einhver tekið þig upp og borið þig hingað til mín sem er engill.
Barnið. Þú kemur með mér í stríðið.
Engillinn. Hefur þú einhverntíma séð engil í stríði.
Barnið. Ég sker af þér vængina.
Engillinn. Þetta er fallegur hnífur.
Barnið. Otar hnífnum. Ég er blind í alvöru.
KANNSKI VILL BARNIÐ EKKI SEGJA HVAÐAN ÞAÐ KEMUR.
Engillinn. En ég var að hugsa um að sýna þér eitthvað gott og fallegt. Svo þú gætir gleymt stríðinu.
Barnið. Ég get aldrei gleymt því. Ég er lifandi minnismerki um stríðið.
Engillinn. Já en kannski getum við breytt því, þú getur fengið sjónina aftur, ef ég gæti tildæmis grátið þá get ég sett tárin í bolla og þú setur þau í augun og færð sjónina aftur.
Barnið. Er það svo?
Engillinn. Málið er að ég get ekki grátið. Allir englar eru sígrátandi, alltaf með tár á hvarmi, en það er alveg sama, ég get ekki kreist fram tár.
SVO ÞEGAR BARNIÐ FER ÞÁ GRÆTUR ENGILLINN EN ÞÁ ER ÞAÐ OF SEINT.

Bíddu aðeins


Engill snýr hnattlíkani fremst á miðju sviðinu. Hann er að leita að einhverjum tilað vera góður við einhverstaðar í heiminum.
Þá kemur gangandi barn yfir sviðið. Það segist vera að koma úr stríðinu, það
Einu sinni var lítill strákur sem kom heim úr stríðinu. Þetta var fimm þúsund ára gamalt stríð svo strákurinn var fimm þúsund ára gamall, hann ætlaði rétt að hvíla sig því hann vissi að stríðið myndi brátt byrja aftur, og hann yrði alltaf lítill strákur því hann gat ekkert orðið stór, hann hafði engan tíma tilað vaxa, því stríðið byrjaði alltaf svo fljótt aftur, stríðinu var haldið gangandi, það kom kannski friður í smá stund, .... svo byrjaði stríðið aftur og hann varð að fara aftur í stríðið þótt hann væri svona lítill. Ég heyri að stríðið er byrjað. Ég er farinn. Bíddu aðeins segir Engillinn. 

23 apríl 2013

Hafsins hetjur og systurnar

Það er ég viss um að systur, mæður, dætur og eiginkonur hafa margoft bjargað svokölluðum hafsins hetjum frá drukknun og dauða með því að senda hetjurnar í krabbameinsskoðun þegar hóstinn var að kæfa þær og í lungnabólgu rannsókn þegar þær höfðu ofkælt sig á dekkinu..

22 apríl 2013

Dansarinn

Dansarinn dansaði ekki bara úti á tröppum eða inní eldhúsi eða við klettinn, hann dansaði bara. 

Líf í hlekkjum lesið allt um lif í hlekkjum

Líf í hlekkjum - endurbirt af gefnu tilefni


Ella Stína dragnaðist upp tröppurnar á Lindarbrautinni með hlekkina í eftirdragi, hún hafði einsog venjulega verið lengi heim úr skólanum útaf hlekkjunum, hlekkirnir höfðu farið í taugarnar á kennaranum og hann hafði látið hana sitja eftir einsog venjulega útaf hlekkjunum, krakkarnir höfðu strítt henni í frímínútum og híað á hana: Ella Stína í hlekkjunum, Ella Stína í hlekkjunum. Ella Stína hafði bara getað verið eina mínútu í frímínútum því hún var svo lengi eftir göngum skólans af því hún var í hlekkjum. Stundum komst hún alls ekki úr sporunum og stóð bara þarsem hún var, alveg heillengi og einhver ýtti við henni og hún datt eða einhver spurði hvort hún væri ekki að koma en þá sagðist hún vera að hugsa. Já, hugsaði Ella Stína, hlekkirnir fá mig til að hugsa. Og svo silaðist hún áfram og bankaði á dyrnar þegar tíminn var hálfnaður. Kennarinn opnaði og það leið heil öld áðuren hún komst í sætið. Það var alltaf verið að kalla á Ellu Stínu til skólastjórans útaf hlekkjunum og hún átti mjög erfitt með að komast þangað. Hlekkirnir voru mjög þungir. Hún gat auðvitað aldrei verið að leika sér með krökkunum í frímínútum, hún gat ekki hlaupið um eða neitt og hún var aldrei valin í liðið, allt útaf hlekkjunum. Og það vildi enginn vera samferða henni heim því hún var svo lengi og líka lengi að svara því hún þurfti fyrst að reyna að tosa hlekkjunum áfram. Ella Stína vildi óska þess að einhver eða eitthvað leysti hana úr hlekkjunum en því var ekki að heilsa. Að einhver væri með lykil, og það var þá sem Ellu Stínu byrjaði að dreyma. Hlekkir opna okkur leið inní draumaheiminn. Draumaheimur Ellu Stínu braut sér leið einsog hvert annað heimsveldi yfir öll lönd og fór um einsog eldibrandur og skildi eftir sig sviðna akra og rotin tún en það var allt í lagi, Ella Stína gat þá verið í draumaheiminum og ekki í hlekkjum á meðan. Þetta er reyndar smá útúrdúr. Eina leið Ellu Stínu tilað komast úr hlekkjunum var að komast inní lokaða herbergið. Lokaða herbergið var gætt töfrum. Já fyrst ég nefni töfra, þá einsog fyrir töfra féllu hlekkirnir af Ellu Stínu. Hún gekk um lokaða herbergið og sagði aðeins eitt orð: Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert. Það var einsog orðið Róbert væri töfraorð sem myndi halda henni inní lokaða herberginu. Ef hún hætti að segja Róbert var einsog eitthvað hræðilegt gæti gerst. Ella Stína var nefnilega löngu búin að gleyma að til væri heimur fyrir utan lokaða herbergið. Pabbi hennar af því hann var svo góður maður, hann hafði á sínum tíma, já læst Ellu Stínu inni í lokaða herberginu og hent lyklinum. Kannski af því hann var svo leiður á hringlinu í hlekkjunum. Ellu Stínu fannst það svo stórkostleg lífsreynsla að vera læst inni að við fyrsta tækifæri læsti hún sig inni og gleypti lykilinn. Svo hafði hún semsagt gleymt því að til væri heimur fyrir utan.

Hún gleymdi því í mörg ár. Mörg herrans ár. Já marga tugi ára. Þá var Ella Stína læst inní herberginu. Það var ekki fyrren hún kynntist þessum Róbert að hana langaði tilað hætta að segja Róbert og fór að rannsaka þetta vísindalega.

Er Róbert fyrir utan, spurði hún sjálfa sig. Eftir að hún hafði komist að því að orðið Róbert þýddi ekkert annað en aðferð tilað halda henni í lokaða herberginu.

Það verður alltaf að vera eitthvað sem heldur manni föstum, já föstum á sama stað.

Nei, svaraði Ella Stína sjálfri sér, hann er ekki fyrir utan. Eða þeas. hún sagði Róbert er ekki fyrir utan. Því Róbert var Róbert en ekki Róbert. Svona stærðfræðilega séð.

Hvað er fyrir utan, spurði Ella Stína sjálfa sig. Og það var þá sem hún fann konuna í hlekkjunum.

Hvort er betra að vera í hlekkjum eða í lokuðu herbergi, spurði Ella Stína sjálfa sig.

Þegar hún var í hlekkjunum þurfti hún ekki að hugsa Róbert en allt var mjög erfitt og mjög þungt og gekk mjög hægt fyrir sig og frestaðist og silaðist áfram.

Þegar hún var í lokaða herberginu gat hún nánast flogið, hlekkirnir hrundu af henni og eina sem hún þurfti að hugsa var Róbert, þá hélst hún í lokaða herberginu.

Svo það er spurning um þriðja staðinn.

20 apríl 2013

Ég átti afmæli 16.apríl

Lífið er gott

Nú er sól og yndislegt veður, ég var að lesa Lásasmiðinn, þvílík snilldarbók og alltíeinu fyndin, alveg mögnuð og á heimsmælikvarða, svona bók hefur bara ekki verið skrifuð áður, það er ég viss um, og himinninn er heiður og blár og fingratakkið glæsilegt að sjá, gluggarnir opnir og þakglugginn á efri hæðinni úr lagi genginn og þarf að opnast með herðatré, kannski nenni ég útí búð, kannski er sjórinn blár og lífið er gott.

14 apríl 2013

12 apríl 2013

Á morgun verður víst allt fullt af norðurljósum

Lífið er dásamlegt, svo falleg kvöldbirtan og eitthvað nýtt að byrja

Kvíði og tómarúm

Mér finnst alltaf einsog ég sé að verða bráðkvödd, muni hníga niður fyrirvaralaust án þess að hafa ráðrúm til að renna augunum í kringum mig í stofunni, þarna er blái sófinn sem tvíburarnir sátu í þegar þeir horfðu á fótbolta, guli stóllinn sem ég sat í kvöldið sem Embla fæddist, grænu gluggatjöldin sem amma saumaði, já að ég hafi ekki ráðrúm tilað koma mér fyrir í fallegri stellingu en muni hrynja niður einsog slytti eða hrúgald, einhverveginn, svo hafi ég engan tíma tilað fara uppá öræfin eða skipuleggja jarðarförina, og hver skyldi svo finna mig, enginn, hér hefur enginn komið eða bankað í háa herrans tíð og ég hef heldur ekki bankað hjá neinum, og er með verk í fingrunum, ég held það séu æðarnar sem eru orðnar svona þröngar af nikótíntyggjó, og líka æðarnar um hjartað, en ég held að kvíðinn vilji fylla uppí tómarúmið sem ástin gerðí einusinni.

Mér finnst alltaf einsog ég sé að verða bráðkvödd

Bjartasta vonin

Ég pantaði mér skilti á hurðina í gær sem stendur á BJARTASTA VONIN. Mér fannst það eitthvað svo fallegt, og mér finnst að allir eigi að bjarga mér, kannski er ég munðarlaus prinsessa, eða drottning, gömul drottning sem nennir því ekki lengur og lifir á forni frægð, hvaðan kemur hræðslan, mér finnst eitthvað svo mikil hræðsla, og í gær var mikill kvíði einsog stórt gap þegar ég ætlaði að fara að sofa, og svo fattaði ég tómarúmið.

Aprílsólarkuldi

Alltaf sól á morgnana, ískalt og ég hugsa alltaf það sama, hugsa um hann, hugsa um ég sé að deyja, um öll bréfin sem ég eigi eftir að skrifa, svo er einhver að bora ofaní jörðina og rödd í útvarpinu að tala um plastpoka til að skyggja fræin og ég veit ekkert hvernig hlutirnir eiga að vera og ég var á meðvirkninámskeiði í gær og það liggja víst börn í blóðpollum eftir foreldra sína, afleiðing af alkóhólisma, og hvað á ég að skrifa um, get ég ekki bara dansað, ég dansa soldið.

10 apríl 2013

Allt varð svo dýrmætt

Allt varð svo dýrmætt, draslið, og túlípanarnir, ég sá þá, einsog í sköpunarsögunni, og þetta voru harla góðir túlípanar, ég var ein, enginn tilað passa mig, ég var stelpan hans pabba, draumaheimurinn minn

Ég er að semja Skilnaðardansinn og Skilnaðarfagnið....

einmana sól

Ég er einmana sál á ráfi um eyðimörkina þegar ég sé allt í einu að þar vaxa hvít blóm, hvít blóm með safadropa í miðjunni sem sólin skín á svo dropinn sýnist tilbiðja sólina..