29 febrúar 2008

Barnabarnið

Ég er búin að vera hugsa um barnabarnið í allan dag, hún hefur kannski verið að hugsa til mín líka, hver veit, hvenær kemur skrítna kerlingin sem segist vera amma Elísabet aftur í heimsókn til mín, eða hvenær fæ ég að koma í Töfrahúsið hennar, þetta er annars ágætis vagga, best ég kúri áfram og láti stjana við mig, takk, namm, namm, takk, - svona lítil dásamlega mannvera fædd í heiminn og stjörnurnar dansa á himnum.

28 febrúar 2008

Skrítinn draumur

Síðustu nótt dreymdi mig ég bjó á Melunum, á Grenimel held ég, það voru amk. tveir þakgluggar og trén náðu uppyfir húsið og það voru villikettir í trjánum, feitir villikettir, þeir klóruðu í þakgluggann, ég ögraði öðrum þeirra. Hann hvæsti og setti klóna í gluggann. Svo var ég komin í leikhús og þar var kona með eins-manns-sýningu. Hún gerði tásnyrtingu á mér, það var svo flott að það var eitthvað japanskt við það, blandað af japönskum kökum og minnti soldið á flottu handklæðin sem ég gaf krökkunum í jólagjöf síðast, allavega meiriháttar sjúklega flott. Við sátum í hring í leikhúsinu, ég var lengst til vinstri og Árni Kristjáns í mínum bekk sat hinumegin fremst og brosti til mín. Svo fór leikkonan og gerði tásnyrtingu á annarri konu sem ég held ég hafi þekkt og þá varð ég afbrýðissöm en var að hugsa það í draumnum að það væri fáranlegt útaf því ég væri með svo flottar tár og svo vel snyrt.

Við

Við viðurkenndum vanmátt okkar gagnvart áfengi og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi.

Það erum semsagt VIÐ.

Þetta eru spor sem maður stígur með öðrum.

Dularfullt

Ég veit um einn part í mér sem er ekki hræddur við þessa þreytu en hún er sofandi.

Svo þreytt

Ég er svo þreytt að ég sofna standandi og þegar ég vakna er ég að hugsa um guð, hvort ég eigi setja bensín á bílinn eða fara útí sjoppu að kaupa kók.

Rauða fjöðrin

Ég fékk verðlaun á föstudaginn, rauða fjöðrin - veitt fyrir bestu kynlífslýsinguna í bókmenntum síðasta árs. Svona skrautfjöður. Ég las upp úr Lásasmiðnum fyrir alla helstu þingmenn Sjálfstæðisflokkinn, ritstjóra Morgunblaðsins og lögreglustjórann og já Óttar Proppé var þarna líka. Pétur Blöndal stórvinur minn og forseti klúbbsins Krumma sem stóð fyrir veitingunni sagði mér þetta kæmi í öllum fjölmiðlum, en ég hef hvergi séð staf, lögreglustjórinn hefur kannski bannað það.

Sprungin blaðra

Ég var einsog sprungin blaðra eftir ég skilaði ritgerðinni, enda var ég með ræðu og gjörning á föstudagskvöld, ræðu og gjörning í stórafmæli á laugardag og tvö gjörninga eða leikhús á mánudeginum. Svo ég er að safna í nýja blöðru og dreymir mikið.

27 febrúar 2008

Hvernig Garpsdóttir eignaðist tunglið

Kvöldið sem hún Garpsdóttir fæddist var fullt tungl, það varð einmitt fullt á augnablikinu þegar hún fæddist, og svo var amma hennar alltaf að gá að tunglinu fyrir hana, hún kíkti útá tröppur kvöldin á eftir, leit á tunglið og sagði svona í hálfum hljóðum: Já, þarna er tunglið hennar Garpsdóttur, best að muna eftir því og segja henni frá því þegar hún verður stór, og svo kíkti hún á tunglið á hverju kvöldi og sagði alltaf: Já, þarna er tunglið hennar Garpsdóttur, - tunglið minnkaði auðvitað dag frá degi en alltaf sagði amma hennar Garpsdóttur það sama: Þarna er tunglið hennar Garpsdóttur og svo varð tunglið pínulítið og aftur stórt en af því að amma hennar gat ekki hætt að segja: Þarna er tunglið hennar Garpsdóttur, þá eignaðist Garpsdóttir smámsaman tunglið og stundum á hún það pínulítið og stundum alveg fullt.

26 febrúar 2008

Garpsdóttir kom í heimsókn!!!

Hún Garps og Ingunnardóttir kom í heimsókn áðan, það var guðdómlegt, ótrúlega yndislegt, hún var bara hér í heimsókn, með fallegu augun sín og undrandi íhugula svipinn, svo er hún svo kröftug, með fallega húð og mikið af svipbrigðum. Ég féll alveg í stafi yfir henni, líka að hún væri komin hingað á Framnesveginn í eigin persónu.

Foreldrarnir fengu smáathygli líka, þau eru nú öll alveg sætust í heimi, og lífið verður allt svo enn dýrmætara. Takk Takk Takk. En hugsa sér, hér býr maður í átján ár og þá einn daginn: Bánk bánk bánk, Hæ amma, Garpsdóttir, má ég koma inn.

Svo fékk ég að halda á henni og það var einsog hafa alheiminn í fanginu.

21 febrúar 2008

Þetta barn er flotaforingi

Ef þið viljið sjá nýfædda ömmubarnið mitt er mynd á slóðinni http://www.februar.barnaland.is/

Eða einsog segir í ljóðinu:

Einhverstaðar undir stjörnubjörtum himni
á þetta barn flota á hafinu.

*

20 febrúar 2008

Hún er komin

Dóttir Garps og Ingunnar er komin í heiminn. Hún fæddist 19.febrúar.

Þetta er eitthvað ótrúlega fíngert og flott. Ég hef lítið heyrt ennþá nema bara af hamingjunni. Ég dansaði útá tröppum og hrópaði yfir allt hverfið: Hún er komin, hún er komin.

Ég talaði við Jökul og Kristínu og við vorum í hamingjuvímu. Jökull var í Ameríku og hafði fengið að heyra í henni yfir Atlantshafið. Hún öskraði alveg: Jöööökuuuull. Svo talaði ég hálfa sekúndu við hinn nýorðna pabba en hann mátti ekki vera að neinu því hann var malandi af hamingju að sinna móður og barni sem var strax orðið svangt.

Hvað get ég sagt: Velkomin. Til hamingju.

*

16 febrúar 2008

Galdrasaga II

Þegar ég kom til Írlands tók Beckett á móti mér á flugvellinum. Ég sagði þetta auðvitað engum en fyrir þá sem ekki vita það hefur Beckett legið í gröf sinni síðan 1989 en þá gaf ég út fyrstu ljóðabókina mína. Hvað um það, ég var þrjá mánuði á Írlandi og síðasta daginn bilaði síminn minn og ég þurfti að leita á náðir nágranna míns. Hann hét Barry og var ungur leikari. Ég hafði ekki vitað af honum áður því ég þekkti ekkert nágrannana. Þegar hann hafði gert við símann minn spurði ég hvort ég mætti gefa honum fimmtíu kíló af kartöflum sem vinur minn hafði gefið mér þegar hann keyrði mig heim. Ég hafði verið að grínast með það að stofna kartöflugarð á Írlandi en vissi að ekkert yrði úr því og Barry þáði kartöflurnar. Það kom í ljós að hann var að leika í Beckettleikhúsinu í leikriti eftir Beckett. Leikritið hét Dante and the lobster. Ég veit ekki hvað titillinn táknar, en veit bara að Beckett vildi staðfesta komu sína.

Daður

Hann hélt því fram að daður væri galdur, en ég hallast að því að daður sé kurteisisreglur.

Galdrasaga

Einu sinni var ég skotin í manni. Hann var nýfluttur á Kvisthagann. Svo kom vinkona mín, hún bjó í útlöndum þegar hún var heima hélt hún til hjá bróður sínum sem bjó á Kvisthaganum. Hún var orðin leið á að heyra mig tala um manninn en ég bauðst tilað labba með henni heim, kannski myndi ég hitta manninn á Kvisthaganum. Það var kvöld og enginn á ferli. Svo á horninu á Kvisthaga og Hjarðarhaga hittum við Pizzasendil, hann var ör og óðamála og spurði um ákveðið númer á Kvisthaganum. Ég sagði honum það væri innarlega. Svo héldum við áfram. Þegar við gengum lengra sáum við hvar maður stóð útá tröppum og var að tala við Pizzasendil. Það var maðurinn á Kvisthaganum. Ég kallaði á hann. Hæ, sagði hann. Hæ, áttu heima hérna, spurði ég. Já, ég var að flytja inn, ég var að mála. Þetta er vinkona mín, sagði ég. Svo kvöddum við og ég fylgdi henni heim. Á leiðinni til baka var ég að hugsa um að banka uppá og fá að sjá íbúðina. En þá mundi ég eftir því að þetta var ekki á Kvisthaganum.

Galdrar

Það voru galdrar
þegar ég sá þig fyrst,
hvernig á annað að vera,
ég á fæðingardeildinni
og þú með rauða rós.

Þvottavélargaldur

Þegar ég var hætt að hugsa um þvottavélina sem ég þarfnaðist þá kom þvottavél til mín, hún labbaði upp tröppurnar, bankaði og þegar ég opnaði sagði hún: Elísabet, ég elska þig.

*

skv. galdrinum: Allt sem þú þarfnast kemur til þín

The Tablecloth

I sent my landlord in Ireland a table-cloth from Syria. I sent it in B-post to be practical. There are no signs of the table-cloth so far, - I sent it almost a month ago. Greg is worried that the table-cloth is all alone in a huge scary warehouse. Then I asked him to check the universe. He called them. There was no answer. Probably lunchtime, he said.

Flísin skolast út

Ég er búin að komast tvisvar í sund þessa vikuna og það er kraftaverk, fyrst komst ég að afgreiðsluborðinu, svo komst ég inní búningsklefana, svo í sturtuna, í heita pottinn og svo komst ég í laugina og eftir átta ferðir fann ég hamingjuna, hljóðið í vatninu, rigninguna, líkamann í vatninu, sundtökin, very nice. Synti 3o ferðir í hvert sinn! Svo hef ég komist á tvo AA-fundi, farið á tvær skólasýningar, komist í skólann, komst í Krónuna að kaupa í matinn fyrir ellefuþúsundkrónur, dáðist að nýpússaða borðinu mínu, ég er ekki stuði tilað blogga, ég er að skrifa ritgerð uppá 25 blaðsíður og það er æði. Já, svo komst ég í sjónvarpsþátt. Ég komst líka uppá Blindrabókasafn að lesa, ég komst að heimsækja Braga frænda og komst tilað kaupa mér lampa, alveg sjúkan, er búin að komast ótrúlega margt, ég hef örugglega komist eitthvað fleira sem ég man ekki. En ég finn nefnilega ennþá smá fyrir þunglyndinu, það er einsog flís í heilanum en einsog aðrar flísar mun hún skolast út.

14 febrúar 2008

Töfrakona alheimsins

Móðir mín Jóhanna töfrakona alheimsins á afmæli í dag, hún er þessa stundina á toppi píramídans að galdra eitthvað dásamlegt. Eða bara háma í sig afmæliskökuna sína og allir með stjörnuljós fyrir neðan. Við komumst hingað, hrópar hún. Hún kemst allt sem hún ætlar sér, hún skipuleggur það allt sitjandi í stólnum sínum á Drafnarstíg. Mamma, til hamingju með daginn.

Mamma býr yfir eigin visku. Einu sinni kom ég til hennar og sagðist halda ég væri svo óviss karakter því ég breyttist eftir því við hvern ég talaði. Elísabet, stundi mamma. (Hún stynur alltaf þegar hún segir Elísabet!) Sko, það er eðlilegt að breytast svona. Þetta fer í gang þegar maður talar við þennan, og hitt fer í gang þegar maður talar við hinn. Hitt, spurði ég. Æ, Elísabet, stundi mamma. Þú veist hvað ég meina. Fólk er ekki eins. Og það fer allskonar í gang.

Alltíeinu sá ég heiminn einsog tónverk, þarsem þessi tónlist heyrðist þegar ég talaði við þennan og hin tónlistin heyrðist þegar ég talaði við hinn.

Svo mamma gaf mér tónlistina.

Það er þessvegna sem hún segir í sífellu: Elísabet, ertu að hlusta?

13 febrúar 2008

Ekki láta börnin fara að heiman

Þá er enginn sem kemur miljón sinnum á dag þjótandi innum dyrnar og segir mamma. Svo núna er farið að rigna innum dyrnar, nei flæða innum þær.
Þá er enginn sem fer með manni í Krónuna og heimtar tuttugu kexpakka og spænir þá upp á jafnmörgum mínútum.
Þá eru engar þrjár þvottavélar á dag sem þarf að þvo, hengja upp, brjóta saman og láta vita hvar er, því það er alltaf allt að týnast.
Þá er aldrei verið að leita að neinu daginn út og daginn inn, fótboltaskóm, fótbolta, allskyns furðulegum hlutum sem maður veit ekki af en veit hvar eru.
Þá er aldrei neinn að horfa á sjónvarpið.
Þá er aldrei neinn að spila rapptónlist í botni.
Þá er aldrei neinn að nenna ekki að vaska upp.
Þá er aldrei neinn að opna ísskápinn og segja:Það er aldrei til neitt að borða hérna.

12 febrúar 2008

Bumbukrílið á Hróa

Í kvöld gerðist sá merkisatburður að bumbukríli Garps og Ingunnar fór útá Hróa en Hrói Höttur skapar mikinn sess í lífi okkar hér á Framnesvegi. Þar hafa Garpur og Jökull borðað pizzur gegnum aldirnar þegar ekkert var til heima hjá þeim annað en kex, popp og pönnukökur. Bumbukrílinu fannst mjög notalegt á Hróa og hlustaði á seiðandi malið í foreldrum sínum og rausið í ömmu sinni, lagði nottla eyrun sérstaklega við þegar það heyrði spekina í henni. En þetta var yndislegt kvöld og vaxandi tungl.

07 febrúar 2008

Fallegasta fólki í heimi - á myndunum eru Ingunn og Garpur. Þau eiga von á barni á hverri stundu.


Ísbjarnarveiðar

Þegar ég var sautján ára norður á Ströndum fór ég daglega á ísbjarnarveiðar. Ég tók með mér hundana fjóra og setti byssuna á öxlina og þrammaði svo inní Ófeigsfjörð. Það var allt hvítt og blátt. Það voru tófuspor í snjónum og þarna voru líka tófuspor. Hundarnir snuðruðu um allt. Sjórinn féll að. Allt var hvítt. Stundum sá ég ísbjörninn hreyfast hinumegin við fjörðinn.

Pandóruboxið

Þegar Pandóruboxið er opnað ryðjast plágurnar uppúr því. Og hvaða plágur eru það, það gæti verið alkóhólismi, ástsýki, geðhvörf, þunglyndi, frekja, leiðindi, kaupæði, allskonar stöff sem er nauðsynlegt að vita af og loka ekki niðri. Margt sem við viljum ekki sjá. (Prédikarinn í mér!!!)

Það getur líka verið varalitur, ilmvatn, maskari, strikablýantur, púður, make-up.

06 febrúar 2008

Guð og maðurinn

Maður kom til himnaríkis og ásakaði guð um að hafa brugðist sér í lífinu. Guð sagðist alltaf hafa verið með honum og sýndi honum hvar tvenn spor lágu hlið við hlið í sandinum, spor guðs og mannsins. En stundum sjást bara ein spor, sagði maðurinn.
Þetta eru erfiðustu stundir þínar, sagði guð.
Mér finnst það ekki fallegt af þér að hafa yfirgefið mig þá.
Þarna varst þú svo lítill að ég þurfti að bera þig.

Afmæli og blómvöndur

Ég fór í afmæliskaffi til Ingunnar og Garps, það var ótrúlega dásamlegt, þau eru svo falleg og gera allt svo vel, ég ætla hafa þetta svona líka, og svo setti ég blómin mín í vasa þegar ég kom heim.

05 febrúar 2008

Hulan

Ég svaf niðri í nótt í Jökulsherbergi og hef ekki sofið niðri í sextán ár og fann að ég hafði elst þessi ár sem ég hef sofið uppi. Einhver hula að dragast yfir líf mitt.

04 febrúar 2008

Afmæli í fjölskyldunni

Kristjón elsti sonur minn skartar 32 ára afmælisdeginum sínum í sólarríkinu Spáni og Ingunn tengdadóttir mín sínum 23 afmælisdegi í fimbulkuldanum á Íslandi, og kasólétt, barnið gæti fæðst í dag og bæst í hóp afmælisbarnanna. En Kristjóni og Ingunni er hérmeð óskað innilega og útilega til hamingju með afmælið og megi þá fá fullt af knúsi, faðmlögum og góðum óskum.

Doris fær Nóbelinn

Ég frétti af því þegar ég kom heim að Doris Lessing hefði fengið Nóbelsverðlaunin, ég er í kvennaklúbbi rithöfunda, og við höfum ekkert rætt þessi stórtíðindi. Ónei.

03 febrúar 2008

Skírn í fjölskyldunni

Litli frændi minn var skírður í dag, hann steinsvaf en rétt vaknaði tilað heyra nafnið sitt, svo sofnaði hann aftur. Kirkjan var full af fólki, englum og ljósi. Foreldrar hans eru Ragnar Ísleifur Bragason og Ólöf Arnalds. Allt var fallegt í kirkjunni. Ég og Bragi frændi sátum saman. Barnið var skírt Ari Ísleifur, og verður þá sennilega kallaður Valgarður.

Veitingahúsið

Fyrirgefðu, en það er maður í höfðinu á mér, ég heyrði ekki hvað þú sagðir, grillaðar lambalundir, grillaðar lambalundir, grillaðir lambalundir, grillaðar lambalundir, grillaðar lambalundir og soðnar gulrætur var það ekki?

Pappírar undirritaðir

Ég man það núna að ég á sjálf hausinn á mér en þar hefur maður haft aðsetur í háa herrans tíð, afskaplega leiðinlegt verð ég að segja og hvar eru gallabuxurnar mínir og litirnir, og ég get ekki skilið tilveru mína nema skilja hana uppá nýtt, og ég er svona að velta fyrir mér hvernig ég öðlast yfirráð yfir hausnum á mér því ekki er hann í hjartanu á mér, því hjartað er lokað og þar hefur enginn verið á ferðinni í háa herrans tíð, mjög lengi meina ég, ég elska mig, ég er svo frábær og yndisleg, og hvar eru litirnir mínir og svo vantar mig nýtt rúm, þvottavél, kuldaskó og elskhuga, og ég er að hugsa að yrkja ljóð sem ég orti í dag og það er svona.

Ég sendi þér norn,
eina nornina í viðbót
og svartan væng
sem sólin skín ekki á,
en ég úthelli tárum mínum,
þau hrynja sem perlur
í ísilögðum helli
já, ég hef verið hér áður.
Það var hingað sem ég ætlaði að komast.

Og nú sé að veggirnir
eru klæddir rauðu flaueli,
hún situr og saumar úr blóði mínu
saumar nafn þitt
inní heilann á mér.

Og þá veit ég
að ég þarf að opna hjartað,
þar er guð lokaður inni.

Já, þá er þetta kannski bara spurning um guð, að treysta guði, hæ guð, ég er komin, bara treysta guði. Því mér er ekki treystandi, ég bara undirrita eina pappírana enn.

Heit og kröftug ást

Ég er búin að endur-formúlera hjartastöðina og hún segir:

Ég á skilið heita og kröftuga ást.

Ég á skilið heita og kröftuga ást. Ég á skilið heita og kröftuga ást. Ég á skilið heita og kröftuga ást.

Sálmur

Ó, Jesú bróðir besti
og barnavinur mesti
æ, breið þú blessun þína
á barnæskuna mína.

Ég er óendanlega mikils virði

Ég fór í kaþólsku kirkjuna áðan og þá fattaði ég að þunglyndið segir bara eitt: Þú ert einskis virði. Þessi orð eru geymd í jarðarorkustöðinni. Svo ég endurtók hvað eftir annað: Ég er óendanlega mikils virði, ég er óendanlega mikils virði, ég er óendanlega mikils virði.

Valgarður frændi minn

Ég var í veislu með Valgarði frænda mínum.
Jæja, sagði ég þegar liðið var á veisluna, best að fara heim og halda áfram í þunglyndinu.
Geturðu ekki bara byrjað á nýju þunglyndi, sagði hann.

02 febrúar 2008

Finnið og þér munuð be happy

Það þykir rosalega göfugt meðal andans manna að vera alltaf að leita, mannkynið er sent í leitina einsog hvert annað stríð, - um leið og það stendur í lappirnar, þetta þykir mér ákaflega þreytandi, afhverju á ég alltaf að vera leita að einhverju, - vinur minn benti mér á að ef ég væri að leita að tilgangi lífsins hlyti ég að hafa týnt honum, - einmmitt, ég kom með þetta allt í heiminn, og það er miklu betra að fá sér labbitúr og segja: Sjáðu, þarna er sjórinn, fuglarnir, litbrigðin í skýjunum, sólin og þarna kemur vinur minn gangandi, blessaður.

Litlar spurningar

Þegar ég var unglingur gekk ég stundum um göturnar á nóttunni og hugsaði um tilgang lífsins. Mest langaði mig tilað finna tilgang lífsins og færa mannkyninu hann á silfurfati, þvílílkur leiðinda unglingur enda fór ég í þunglyndi um leið og ég var 14 ára og hellti svo brennivíni og seinna dópi oní þetta svo enginn myndi fatta neitt. En þetta þótti töluvert göfugt að vera hugsa um tilgang lífsins daginn út og daginn inn. Ég er búin að fá leið á svona svokölluðum stórum spurningum, ég er að reyna upphugsa einhverja litla spurningu einsog tildæmis: Hvenær kemur lóan?

01 febrúar 2008

Hrafn er snillingur

Bróðir minn hringdi áðan úr Trékyllisvík, og ég sagði honum frá þunglyndinu mínu, að ég hefði verið inná geðdeild, í þunglyndi, ég hefði ekki verið nóg á varðbergi gagnvart því, auðvitað væri hægt að finna ástæðu en það er ekki málið, kannski er það svona gróið í mig, ég er alltaf að passa að fara ekki í maníu, og þekki þegar hún bankar uppá og ræð þá við hana, en allar þessar raddir eða hugsanir, hvað ég sé ómöguleg, það kvikni í húsinu mínu, það vilji mig enginn, mér takist ekki að klára skólann, einsog saumaðar inní heilann, einsog þær séu að halda sýningu, kannski skauta á svellinu, ör eða skurður á sálinni, einsog þegar fólk sker líkamann sker ég í sálina, kannski verð ég einmana þegar þessar hugsanir hætta, eða finn tilfinningar sem þær hafa breitt yfir með sínum elskulegheitum, og alltíeinu fyllist mælirinn, nú skal ekki hugsa eina svona hugsun í viðbót, ekki eina, allsekki neina, og enga, en þær halda áfram, en ég þekki þær, þarna eruð þið þá, og hvað á ég að gera, ég get ekki lyft upp símtólinu þótt ég sé komin heim og litli bróðir minn segir mér að það sé val, ég vilji það ekki, akkúrat segi ég, guðslifandifegin að einhver skilur mig, að ég fái að vita að þetta sé val, allt þetta tuð, þetta er nefnilega tuð segir hann, þetta er ekkert nema tuð, já segi ég, og var reyndar of hress á geðdeildinni, svo er annað, ég er snobbuð fyrir maníunni, hún er hress og kát, biluð og brjáluð, samt fór ég á botninn og kæri mig ekki um hana, en vil helst ekki viðurkenna ég hafi farið í þunglyndi, þá hefði verið skárra að fara í maníu eða hvað, svo horfi ég á þunglyndissjúklingana, þeir eru allir að prjóna og púsla meðan maníusjúklingarnir eru á leið í vinnuna, keyrðir áfram af mission, ég var reyna setja upp sýningu, svo er ég bara útskrifuð í miðri sýningu, - tuð, þetta virkar svo ákveðin rödd: ÞÚ ERT ÖMURLEG ELÍSABET, en þá er þetta tuð, tuð að því leyti að þetta kemur aftur og aftur, sama tuðið, allt um hvað ég sé ömurleg, misheppnuð, ljót og leiðinleg, ég skuli bara raða öllu á sinn stað, og mér finnst skrítið að heyra bróður minn segja að þetta sé tuð, segist vilja búa til leikrit þarsem þunglyndið stendur við hliðina á mér og hvernig hægt sé að þagga niður í því, og ég spyr hvort hann fái svona þunglyndi eða tuð ennþá.

Á hverjum degi, segir hann.

Og hvað gerirðu þá?

Ég segi: Þetta er alveg rétt hjá þér.