28 febrúar 2013

Grín er ekki bara grín

Grín hefur verið notað til þess að upphefja, gagnrýna, niðurlægja, sameina og splundra. Grín MacFarlane, þá sérstaklega hið margumrædda „We Saw Your Boobs“ lag snérist um að hlutgera konur.

26 febrúar 2013

Miðnætti

Það hvín í rigningunni og það lekur inn um nýja gluggann, ... gamli glugginn lak aldrei, búinn að vera hér frá því húsið var byggt, það eru hviður í rigningunni, það er allt blautt, regnið hamast, ....

25 febrúar 2013

Þorvaldur Þorsteinsson minn

Það eru kannski ekki eins skörp skil milli lífs og dauða og við höldum, en nokkrum klukkutímum eftir ég frétti andlát Þorvvaldar leit ég uppí risgluggann á gula húsinu þarsem hann bjó þegar hann var í landi og ég man ekki hvort ég spurði hann hvað ég ætti að gera en hann svaraði: Mundu eftir að sinna myndlistinni. Mér fannst það soldið skrítið af því ég var rithöfundur.

24 febrúar 2013

Reynimelsdraumur frá 2010 24.okt

Mig dreymdi ég væri á gamla Reynimel og byggi í kjallaranum einsog ég gerði um tvítugt og líka sautján ára þegar Kristjón kom í heiminn, í einu herbergi ónotuðu var ek. geymsla en samt ekki geymsla en þar voru nokkur málverk, svo fannst mér manneskja af málverkinu vakna upp og koma til mín, og ég varð hrædd og hélt hún væri innbrotsþjófur en í rauninni held ég hún hafi vaknað upp annaðhvort úr geymslunni eða málverkinu, - hún kom nálægt mér, ég sá að þetta var ég en var samt hrædd, við sjálfa mig, - ég fór útúr húsinu og var að reyna að hringja á lögregluna, - en málið er ég að veit ekki frá hvaða tímabili þessi draumur var.

Kalliði mig Væng og Kistan, stórmerkilegt (28.júlí 2012)

Amman: Embla hvernig finnst þér þegar þú ert kölluð prinsessa? Embla: Ekki skemmtilegt. Amman: En hvað má kalla þig? Embla: Kalliði mig Væng. Amman: Ef þú heitir Vængur hvað heiti ég þá? Embla: Kista, þú heitir Kista, hæ Kista. Amman: Hæ Vængur. Embla: Hæ. Amman: En hvað er í þessari kistu? Embla: Hún er lokuð. Amman: Lokuð!? Embla: Hún er læst! Amman: Og getur enginn opnað hana? Embla: Nei, enginn, nema þú. Amman: Ég!? Embla: Já, opnaðu lófana. Amman: Opna lófana. Embla: Opnaðu svo mallakútinn.

Draumur sem mig dreymdi 27.september 2010 og rættist

Mig dreymdi ég varð hrifin af Grænlendingi, hann var pabbi stelpu sem ég kannaðist við. Hann var með sítt gljáandi svart hár og ég kyssti hann. Það var reyndar flóki í hárinu á honum. Mér fannst hann ætti að vera maðurinn minn, svo vorum við alltíeinu lögst á þröskuld á apóteki og það var ekki eins gott að kyssa hann og í byrjun. Þá kom ungur maður hlaupandi og sagði hann þyrfti að koma strax, því það væri vesen. Þá kom í ljós að Grænlendingurinn var bæjarstjórinn í þessum bæ.

18 febrúar 2013

Klúturinn

Óskar kemur gangandi stíginn. Elísabet er á tröppunum að taka ljósmyndir. Henni sýnist hann vera fullur, hann er með sár í andlitinu og gengur allur rykktur til og frá. Ég sakna klútsins míns, segir hann. Það er enginn klútur hér, segir hún. Ég kom af því ég saknaði klútsins. Ertu fullur. Nei, ég var að koma af sjónum í gærkvöldi. Ég ætla biðja þig um að fara héðan. Þú verður þá að hringja á lögregluna. Það er enginn klútur hér. Ég saknaði klútsins og saknaði líka þín. Ég hef ekkert við þig að tala, sagði Elísabet og fór inn.

17 febrúar 2013

Sagan

Það hvín í öllu, það er vetur, en það er hlýtt, það var gott að sjá himinninn þegar ég vaknaði, ég veit ekki hvar neitt á að vera, á ég henda rúminu, það er svo mikið af öllu, skrauti, myndum og dóti, allskonar og hvað á ég að skrifa um, ég veit ekkert hvað ég á að skrifa um, það hvín ennþá soldið í og ég elska puttana á mér og ég er að hugsa um allt þetta sem ég á, hæfileikana, leikritin, sögurnar, ég snýst bara í hringi, samt er ég búin að gera fullt, bað guð um að ég mætti vera ánægð. Og ég má fara létt með þetta, Elísabet, búðu til bók, eina bók í dag, lofaðu, ókei.

16 febrúar 2013

Þarf að skoða það

Málið er að ég beiti líka ofbeldi og fallegi hundurinn í sjónvarpinu er að deyja og ég þoli það ekki, hann er algjör hetja, en afhverju bregst ég við með ofbeldi, þarf að skoða það.

15 febrúar 2013

Ísafjarðarskápurinn

Sumir skápar eru merkilegri en aðrir, þetta er lítill skápur sem ég stal af Ísafirði og ég hef aldrei komist uppá lag með að nota hann, einu sinni geymdi ég þó nærbuxunar mínar í honum, svo ýmislegt dót, en það er óþægilegt að nálgast það í honum, svo reyndi sambýlismaður minn að geyma í honum rofa og þannig smálegt, ég hafði ætlað að geyma dót fyrir Ellu Stínu í honum, svo dreymdi mig að Ilmur leikkona vildi að ég sýndi Hilmari Snær hvað væri í honum, já og skápinn sjálfan en ég veit ekki enn hvað gera skal, skápurinn er tómur, þessi fallegi stolni skápur, gefum honum orðið: Ég er bara lítill skápur og enginn veit til hvers á að nota mig, enginn veit hvað er í mér, enginn hefur hlustað á mig, enginn veit hver bjó mig til, ég þori ekki að tala því ég hef aldrei talað, sjálfur veit ég ekki hvað á að vera í mér, kannski á ég bara að vera tómur.

13 febrúar 2013

Á kaffihúsinu

Mig langar að strjúka með mjúkum lófanum stinnan vöðva þjónsins á kaffihúsinu. Hann er í ermalausum bol og með svarta svuntu. En ég fer heim með strætó með umslag sem vinkona mín var að senda mér, mastersritgerðin hennar; móðurmynd í íslenskum skáldskap. En ég var einmitt að koma frá mömmu þar á undan, hún sagði það væri stuttur í mér kveikjuþráðurinn.

12 febrúar 2013

Að líða vel

Þegar þér líður vel verðurðu svo jákvæð, tilað gefa sjens, en þú ert búin að gefa nóg, þú gafst stóra gjöf, sumu verður að henda.

Rósavöndur

Ég er líka búin að beita smá bobbeldi, ég sló hann með rósavendi, rauðum rósum.

Þekkti annan þeirra

Dreymdi draum, ég var með rauðu töskuna og hún var full af nikótíntyggjó og það lá útum allt herbergið, þetta var á hótelherbergi og það var á horni á ganginum á hótelinu og fyrir utan herbergið voru tveir menn að slást og ég þekkti annan þeirra.

Öll þessi drykkja

  • Ég drekk svo mikið og búin að gera í fimm ár, safa, vatn, malt, appelsín, djús, litla kók,.... endalaus og endalaus þorsti, í nótt drakk ég heilan líter af ísköldu vatni og í nótt fór ég að hugleiða afhverju ég drykki svona mikið og komst að því að ég er að undirbúa mig fyrir dauðann, ... koma lífinu á hreyfingu 
  • Drekkur, pissar, drekkur, pissar, held í mér, skammast mín fyrir að drekka svona mikið, fyrir að pissa svona mikið, drekk, pissa, drekk, pissa, held í mér, ..... þetta er búskapur.... ég er allavega orðin voða 
  • þreytt um á þessu.........
  • voða þreytt á þessu
  • hvernig get ég hætt að drekka svona mikið
  • eða á ég bara líta á þetta sem 
  • tímabil
  • tímabil
  • tímabil

Ofbeldismaðurinn

Ofbeldismaðurinn er kominn inní mig
  • Ofbeldismaðurinn er kominn inní mig
  • hann segir mér hver ég er
  • ég sé ljót ómöguleg
  • og þreytuleg
  • afhverju ég geti ekki sofið
  • afhverju hringir enginn í þig
  • þú ert alltof feit
  • afhverju ferðu ekki í sund
  • þú ert alltaf að hugsa um það
  • hver heldurðu að vilji vera með þér
  • ísskápurinn þinn er tómur
  • þú getur ekki vaknað á morgnana
  • og svo langar mig að kýla sjálfa mig
  • eða það er ekki ég, það er hann
  • hann er kominn inní mig. 

11 febrúar 2013

Ég get ekki sofið og ég get ekki kúkað

Ég er að reyna verða fullorðin,... nánar um það síðar

Ég vil ekki hafa nafnið mitt framan á hurðinni, sagði Ella Stína, ég er meira svona leyni.

Ástin var orðin verulega vond, hún svaraði fyrir sig, hún brá sér í pöddulíki og klóraði keðjusagarmorðingjann

Eða kannski 1.september þegar ástin fékk einn skyndibitann enn og kölluð óþverri og padda

Dánardagur ástarinnar

Ástin dó 2.september 2012 eftir að það hafði verið stanslaust snúið uppá hana, henni haldið niðri og hún marineruð í ofbeldi, nísku, smásmuguhætti, stjórnsemi, æðisköstum, hún reyndi að standa sig,...


  • en henni tókst það ekki,... hún dó... 
  • birtist svo í ungum manni á óvæntum stað
  • feimin og hrifin
  • og undrandi
því hún ætlaði aldrei að koma aftur.

Ástin er dáin


  • Ástin er dáin
  • hún flaug út um gluggann
  • en fyrst flaug hún út um hjartað á mér
  • ísköld og skjálfandi
  • enginn veit hvert.

Túlípanar

Ég keypti fjólubláa túlípana í búðinni, það er soldið kalt, ég þvoði vasann, og keypti líka Fanta Remix eða hvað það heitir, get ekki sofið, en er heima hjá mér og öðru hverju að sjá eitthvað óhreint og það er svo góð tilfinning að þvo það, og svo var gert fjárnám í húsinu mínu.

Amma mín

Amma mín er æðri máttur í dag, ég svaf bara fjóra tíma og allt lekur inní hausinn á mér, líka allskonar rugl, mig langar að segja öllum frá þessum ofbeldismanni en ætla ekki að gera það í dag, ég er svo syfjuð, hvað langar mig líka að tala um hann, þetta er bara hausinn á mér, ekki hjartað, hjartað er löngu orðið afhuga honum, þá dó ástin.