11 júní 2014

Sálin myndi aldrei ráðast á lílkamann

Ég fór uppá Bráðamóttöku geðdeildar sem er sosum ekki í frásögur færandi nema ég hafði ekki farið þangað síðan ég var í skaðlegu sambandi, þá var ég þar einsog grár köttur, en nú hafði ég semsagt glímt við svepp í fimm mánuði og var að verða vitlaus af því svo ekki sé meira sagt. En þarna sit ég og maður á móti mér, það drýpur af honum svitinn, hann titrar og skelfur, eirir hvergi svo hann stendur upp og sest niður aftur og eftir nokkra stund fæ ég það uppúr honum hvað sé að honum: Sálin er að ráðast á líkamann.

Hér ætti sagan að hætta því hún er svo fín, en það er þetta sem við geðsjúklingar erum að fást við alla daga, og eitthvað í þeim dúr og ef þér finnst þetta kannski fyndið þá hef ég aldrei eða sjaldan séð þjakaðri mann.

Ég sagði honum að tala við sálina og bað hann að segja með mér: Kæra sál, viltu hætta að ráðast á líkamann. Maðurinn gerði það og var ég nokkuð undrandi, og virtist honum líða betur, og nú er ég farin að tala einsog geðlæknir enda fannst  mér ég ætti að fara um heim og lækna fólk og kenna því að tala við árásargjarnar sálir, sem er furðulegt því ég sagði honum í fyrstu: SÁLIN MYNDI ALDREI RÁÐAST Á LÍKAMANN.

En hvað veit maður?

03 júní 2014

Himnekst sumar

sjórinn sléttur og blár
gróðurinn vex og vex
og ég væri til í göngutúr

18 apríl 2014

Bollinn

Einu sinni var stelpa sem var heima hjá sér og hún starði ofan í bollann sinn og sá að hún var kona en ekki stelpa og þá braut hún bollann.

Kúlan

Einu sinni var kúla og einu sinni var kúla og einu sinni var kúla og hún sprakk. Þá var hún sett í rannsókn en niðurstöðurnar týndust. En brotin týndust ekki, fólk var alltaf að stinga sig á þeim, og kúlan sjálf, það sem eftir var af henni.

 

 


03 mars 2014

Fjársjóðskistill

Ein kona hafði pressað niðrí sér barnið og barnæskuna en þegar pressunni af aflétt kom ýmislegt í ljós einsog þegar fjársjóðskistill er opnaður, einsog það væri enginn að hugsa um hana í þessum heimi, og hún þyrfti að bera áhyggjurnar ein, og spurning hvort hún hefði bein því hún dragnaðist svo áfram og hún vissi ekki hvað hún átti að gefa sér að borða því það var allt eitrað í búðunum með rotvarnarefni og svoleiðis og hvað fleira kom í ljós, jú lítið samband milli lítils barns og náttúru þarsem hún labbaði í skólanum í holtinu og móaum og fjöll og himinn og veður, og Valhúsahæðin fyrir ofan, skófir á steinunum og árstíðir á stígnum en ef hún hugsaði sér að komast burt og komast í þetta samband stóð kirkjan opin þarsem hún þurfti að skammast sín og vinna í sjálfri sér.

Já og áhyggjurnar í kistlinum af öllum og botnlaus hræðslan og heillandi myndirnar af slysum og ólukkum svo hún komst ekki útá pósthús eða í hreinsun, eða í bankann, þetta var allt í kistlinum, og hún vorkenndi sér óskaplega, alveg óskaplega og hugsaði sér ef hún hyrfi alltíeinu eða einhver kæmi og bjargaði henni og þá gerðist það undursamlega, það spratt einhver fram í hennar eigin haus, lævís rödd sem sagði: Viltu drekka kaffi með mér. Og svo héldu samræðurnar áfram þangað til hún var komin í ofbeldissamband og vissi ekki hvernig það hafði gerst.

Búmps.

*

Annað ljóð

Konan sem var alltaf veik var alltaf veik og vissi að við erum öll sjúklingar og blóm og öll veik inn við beinið og stundum var einsog væri eitthvað inní henni sem vildi gera hana veika en hún vissi ekki hvað var inní henni því hún var svo sæt.

*

Kannski batnar mér ef ég fer að skrifa en ég held ég þurfi að komast í frí

Ljóð

Mér er illt í augunum
hjartanu
og píkunni
og langar að hitta hann.

*

Ella Stína bað aldrei um hjálp því hún vildi ekki skammast sín

04 febrúar 2014

Ég gaf mér rósir, rauðar og appelsínugular....

Kristjón Kormákur er 38 ára í dag og Ingunn er 29 ára í dag

Áföllin

Einu sinni þegar hún fékk eitt áfallið í viðbót titraði hún öll og skalf og var viðkvæm einsog við, og hún hafði alltaf verið að fá áföll og nú var eitt komið enn og hún hugsaði með sér hún kæmist ekki út og þyrfti að fara í fjórtán sálfræðitíma, en svo af því það voru mánaðamót þá mundi hún eftir því að hún fór alltaf í bankann og hún fór í bankann.

Hnefinn

Einn morgun vaknaði Langantína Fúdúdú við það að síminn hringdi. Það var læknir í símann og sagðist heita Ari. En þú hefur sjálfsagt ætlað að heyra í hinum Aranum, sagði hann, ég er barnalæknir. Ég er ekki barn, sagði Langantína Fúdúdú. Ég sé það á kennitölunnni, sagði hann og henni fannst leiðinlegt þetta með kennitöluna.
Ég er barn, sagði hún þá.
Ertu barn, spurði hann.
Ég er barn í hálsinum.
Nú.
Já.
Já já. Athyglisvert.
Þegar ég var lítið barn tróð pabbi minn hnefanum á sér ofaní kok á mér og sagði:Þú ert ekki til. Og ég sagði á móti: ég er til, ég er til.
Ég er að flýta mér soldið, sagði Ari barnalæknir.
Já en ég er barn í hálsinum og í fimm ár er ég búin að vera drekka 5 til 10 lítra af vökva, gosi, og helst ávaxtasöfum, og ég drekk ekki, ég sturta þeim í mig.
Það er nefnilega það.
Já og allt er komið úr fúnksjón, nýrun, endalaus bjúgurinn, ég er að reyna eyðileggja hnefann en eyðilegg sjálfa mig í staðinn.
Það er ekki gott, sagði Ari barnalæknir.
Ég verð að sprengja hnefann.
Sprengja hann?
Já áttu dýnamít?
Nei bara magnyl.
Ég verð að fá dýnamít.
En ef þú sprengir hálsinn springur allt annað.
Ég skil.
Þú verður að fá engil og biðja hann um að draga hnefann úr þér.

En hvað gerir engillinn við hnefann.
Tja, ætli hann segi ekki, vertu ekki svona hræddur við að vera pabbi.

*

Það er eitt í viðbót, sagði Langantína Fúdúdú.
Nú já, sagði Ari barnalæknir.
Vertu ekki svona hræddur við að vera pabbi hennar Langantína Fúdúdú.

*

En svo er eitt í viðbót, spurði Langantína Fúdúdú.
Sem er, spurði Ari barnalæknir á móti.
Hvert fer engillinn með hnefann.
Í himnaríki sjálfsagt.
Það er ekki hægt að hafa hnefa í himnaríki.
Kannski setur hann hann í helvíti.
Þar sem hann brennur upp?
Já er það ekki, svo hefur maður heyrt.
Ég vil frekar, sagði Langantína Fúdúdú stinga hnefanum niður í hól og þar verður skilti þarsem stendur: ÞEssi hnefi var í hálsinum og kokinu á stúlkubarni og konu í 45 ár.

*
Það er hægt að hafa hnefa til sýnis.
Nú.
Nei, það væri bara hlægilegt.
Hnefi er aldrei hlægilegur. Ég vil að minn hnefi verði til sýnis.
Þinn hnefi?
Já, hann var í mér í 45 ár. Þá hlýtur hann að vera minn.
En afhverju viltu losna við hluta af sjálfri þér.
Hann vinnur gegn mér.
Kannski geturðu notað hann til að berjast.
Berjast?

*

Veistu hvað mér detttur í hug.
Hvað.
Kannski nær hnefinn lengra, kannski stoppar hann ekki í kokinu.
Nú?
Já kannski nær hann niðrí rassinn.

*

Það er allavega ekki hægt að sýna hann, það verður að fela hann.
Ég sá í sjónvarpinu, það er listaverk sem heitir Hnefi auðveldisins, það er er á safni í glerboxi.
Hnefi auðvaldsins.
Já minn heitir Hnefi Ellu Stínu.... eða Hnefi Langantínu Fúdúdú.
Þetta er semsagt þinn hnefi, þú ert að ljúga því að pabbi þinn hafi rekið hann á kaf ofaní kok á þér.
Hann getur ekki heitirð: Hnefi pabba.
Nei, það er satt.

*

En veistu hvað ég uppgötvaði, það voru demantar á peningaseðli á þessum Hnefa auðvaldsins. Það voru demantarnir sem komu mer á sporið  því ég skrifaði eða las einu sinni sögu um stelpu sem var með stein, í hálsinum, og á steininum voru gildrudemantar, eitraðir gildrudemantar sem draup úr. Getur verið að hnefinn hafi nei steinninn meina e´g hafi breyst í stein, og ef það var hnefi allan tímann, voru þá demantar á honum, gildrudemantar svo maður vilji hafa hann?

Demantar?

Já.

Á hnefanum?

Og getur verið það sé eitthvað inní hnefanum?

Einsog hvað?

Vegabréf.

*

07 janúar 2014

Ævintýrið

Einu sinni bað ég um fund með Alkóa
Alkóa með þjótandi frá New York tilað hitta mig
Ég var soldið hissa en þetta kitlaði hégómataugina.
Kannski hafði enginn viljað tala svona lengi við Alkóa.
Alkóa spurði hvar við ættum að hittast
og ég var ekki viss
sonur minn stakk uppá fótabaðinu útá Nesi
en þá fannst mér ég vera komin of nálægt Alkóa

það varð úr að við hittumst á Kaffi Hljómalind
Alkóa sagðist elska svona lítil kaffihús
sem að væru með lífrænar kökur og sjálfbært kaffi
og hlýtur að hafa vitað að eigandinn var á móti Alkóa
Alkóa sagðist alltaf fara á Hljómalind
þegar Alkóa væri á Íslandi
og svo fórum við að tala saman
Alkóa hélt kannski að ég ætlaði að leggja niður vopnin
og segja Amen Alkóa
en í fyrsta lagi hafði ég ekkert umboð til þessa eða löngun
heldur var erindið að bjóða Alkóa í bíó
ég var búin að kaupa bíómiðana
og rétti Alkóa yfir borðið
Alkóa brosti sínu blíðasta og þakkaði fyrir sig
hann ætlaði að gefa miðana litlum frænda sínum
já Alkóa var svo góður við börn
Alkóa sagði mér líka frá því þegar Alkóa var lítill drengur í New York
þá hefði Alkóa verið svo hrifinn af náttúrunni
og alltaf verið að kafa í sjónum
með hvölum og höfrungum
Alkóa kafaði oft ennþá
því náttúran væri svo stókostleg og í framhaldi af því sagði Alkóa mér frá því
að Alkóa ræktaði lítil rauð blóm í bakgarðinum á álverinu í Ástralíu
já svona hugsaði Alkóa um náttúruna
mikið var þetta fallegt
rauð blóm
rauð ilmandi blóm
þegar samtalinu var lokið og ég hringdi í mömmu tilað láta hana vita hvernig hefði gengið
sagði ég henni frá rauða ilmandi blóminu
þá fnæsti mamma og hvæsti út úr sér:
Já, þeir eru allir að rækta rauð blóm í bakgörðunum.

En hvað um þaðég ætlaði að bjóða Alkóa í bíó
á Pirots of the Carabbian
með Johnny Depp mynd númer 2
hún endaði nefnilega á svo magnaðan hátt
þarsem það var prédikað í lokin á þessari Hollywood mynd
að stórfyrirtækin og markaðsöflin eyðileggðu ævintýrið
ég hafði ekki áttað mig á því
en auðvitað
stórfyrirtækin eyðileggja ævintýrið
og um leið áttaði ég mig á því
að Kárahnjukavirkjun og hvert einasta álver
er kynnt sem ævintýri
Kárahnjúkavirkjun var kynnt sem ævintýri
stærsta framkvæmd Íslandssögunnar
hvað er það annað en ævintýri
lengstu göng í Evrópu
stærsta stífla í Evrópu
álver sem frelsaði menn úr ánauð
hvað var þetta annað en ævintýri
já Alkóa kunni tökin á ævintýrinu
enda líka löngu búnir að gleypa því
og við vorum búin að tapa því
og nú er ævintýrið í hættu
ef það er ekki glatað
og hvaða ævintýri er ég að tala um
ég er að tala um ævintýrið þegar maður liggur á árbakka með veiðistöngina sína
ævintýrið þegar vinir syngja saman inní tjaldi
ævintýrið þegar lítil stelpa safnar saman steinum í fjörunni
ævintýrið þegar hann fer á hnén í lautu tilað biðja hennar
ævintýrið að klífa fjallið og sigrast á sjálfum sér

horfa á spegilslétt vatnið og gátan er leyst
tína bláber í fötu og verða berjablár
fleygja sér í hátt grasið og dæsa af vellíðan og fá trú á lífið á nýjan leik
drekka úr læknum
vaða yfir ána
borða nesti undir berum himni
öll þessi ævintýri
vill Alkóa ekki sjá og býr til fals ævintýri
því stærsta framkvæmd Íslandssögunnar
það segir sig sjálft að það er mesta bull Íslandssögunnar
skálinn hans Ingólfs var stærri framkvæmd
eða veggurinn sem hinir úthýstu Írar hlóðu
og nú var ævintýrinu mínu úthýst
þvi hvað var það annað en ævintýri
að ætla að bjóða Alkóa í bíó.
En það er það sem markaðsöflin taka frá okkur,
ævintýrið.



Svo næst þegar einhver býður þér í ævintýri
skaltu athuga hvort um falsævintýri sé að ræða
eða raunverulegt ævintýri.
Og auðvitað áttum við að hittast í fótabaðinu útá Nesi
ef ævintýrið hefði fengið að ráða. 


ást er tími

í gær bjó ég til ommelettu, hafði ekki gert það í mörg ár, handa mér, ég skar niður lauk, og hvítlauk, úff hvítlaukur, þá þarf að plokka himnuna af, steikti sveppi, opnaði dós af aspas og skar niður tómata, ekkert salt, smá pipar þegar hún var til..... namm

06 janúar 2014

Sýndi mér kærleik og gaf mér að borða

Brokkólí buff í dag, gaman að steikja þau, snarkaði í ólífuoliunni.

Ýsa með kartöflum og smjöri í gær, mjög ljúffengt.

Já, það er gott þegar maður sýnir sér kærleik og gefur sér að borða, heitan mat.

Atlantshafshryggurinn liggur í gegnum mig

03 janúar 2014

Landnemarnir setja saman Ikea-rúm

Landnemunum brá heldur betur í brún þegar þeir .... með skógarbjörninn mjálmandi fyrir utan eftir hunangi, og Indíánana á gluggunum að bíða eftir að verða boðnir í kaffi, voru að setja saman Ikea-rúm