31 mars 2007

Komment Ellu Stínu

Ekki pæla í prinsum. Þeir koma heim til þín og segja: Hey þetta er kastalinn minn. Alveg þangað til þú ert farin að trúa því. Svo ferðu samt með málið fyrir rétt og hver er dómarinn: Prinsinn!!! Hann dæmir þig í fangelsi og hver er fangavörðurinn?? Jú mikið rétt prinsinn. Og svo kemur einhver og segist vilja fara með þér langt í burtu. PRINSINN!!! Auðvitað ferðu....


Komment Ellu Stínu hjá vinkonu sinni Elísabetu Ronaldsdóttur kvikmyndamógúls sem er líka engill og kvikindi, betaer.blog.is

Hlekkir ástarinnar

Ella Stína tældi menn inní lokaða herbergið og þeir héldust þar við svo lengi sem hún sagðist ekki elska þá. En um leið og hún tjáði þeim ást sína breyttist hún í gamla norn, ástarjátningin kallaði fram hennar rétta andlit, og það var sérlega óhuggulegt að sjá þetta litla barn breytast í gamla hatursfulla norn. Mennirnir létu auðvitað ekki sjá sig aftur en næsta sem fréttist af norninni var að hún sást staulast áfram í hlekkjunum, tautandi fyrir munni sér: Ég er í hlekkjum ástarinnar.

Guð fyrir utan

Ella Stína skrifar um guð. Þá dettur hún úr karakter. Guð er fyrir utan.


Meira um það síðar.

Ella Stína hugleiðir

Var allt sem Ella Stína skrifaði Róbert. Hvert orð? Var textinn dulkóðaður og þegar dulmálslyklarnir höfðu verið ráðnir kom í ljós að hvert orð þýddi Róbert. Ekki bara nafnorðin, heldur líka sagnorðin, fornöfnin, forsetningarnar, já allt þýddi Róbert. Átti Ella Stína að hætta skrifa ef allt sem hún skrifaði þýddi Róbert. Átti hún þá að byrja að tala. Var það ekki á sömu bókina lært, - hvað með stamið, hikið, þagnirnar, mismælið, leiðréttingarnar, það sem var ósagt látið, þýddi það ekki Róbert? Átti Ella Stína að hætta að tala? Hún sem var tiltölulega nýbyrjuð að tala. Átti hún kannski að dansa í staðinn? En gat það verið að hreyfingar líkamans þýddu líka aðeins eitt: Róbert. Og hvað ef hún byrjaði að mála, spila fótbolta, lesa, hlusta, horfa út um gluggann, elda mat, hringja, ganga á fjöll; ef þetta þýddi nú allt Róbert. Hvað ef öll tjáning Ellu Stínu þýddi Róbert. Ella Stína vissi ekkert hver Róbert var. Það kemur örugglega sér kafli um það en Ella Stína varð að vita hver Róbert var tilað byrja á að leysa gátuna um tjáninguna og hugsanlega dulkóðun. Ella Stína var heimsveldi. Var hann keisari í Ellu Stínu? Ella Stína snarminnkaði. Þýddi Róbert eitthvað annað en Róbert. Kannski hafði einhver verið á undan Róbert. Ef Róbert var keisari í heimsveldi Ellu Stínu hlaut einhver að hafa ríkt á undan honum og annar þar á undan. Ella Stína varð að lesa sagnfræði en það var sama hvað hún gúgglaði, hún fann ekkert um keisarana í Ellu Stínu. Hún varð að fá sér kaffi og hlusta aðeins á vindinn. Hafði Ella Stína upphaflega verið keisari í Ellu Stínu og misst völdin? Ellu Stínu fannst það ekki líkt sér að vera keisari, hún var meira svona villibarn, en kannski hafði villibarnið breyst í keisara.

Ella Stína mundi eftir Biblíunni þarsem stóð: í upphafi var orðið og orðið var hjá guði og orðið var guð og eitthvað svoleiðis. Var orðið þá í upphafi guð og þýddu öll önnur orð guð? Var öll tjáningin lofsöngur til guðs. Þá mundi hún eftir prestinum afa sínum sem hafði sagt að orðið eða logos þýddi regla eða lögmál. Var guð lögmál. Var til kærleikslögmál. Hafði guð upphaflega verið keisari í Ellu Stínu og einhver ýtt honum úr hásætinu, fyrsti keisarinn, já Ella Stína veit að þetta er algjört bull en þá mundi hún eftir bull-lögmálinu, guð hafði kannski ekki verið keisari heldur inní frumunum á Ellu Stínu eða ekki inní þeim, guð var kannski frumurnar, og vildi guð kannski að maður breytti orðunum í eitthvað annað svo tjáningin yrði sem ríkulegust? Og maður endaði aftur hjá guði. Nei, Ella Stína var feimin við guð og líka Jesú og Maríu Mey og hún vissi að á undan Jesú og öllum höfðu verið aðrir og það var alltaf verið að skipta um. Ella Stína er komin út í móa og liggur þar og horfir uppí himinninn og lóan er komin.

Og hvað ef Ella Stína þýddi Róbert? Þá var búið að útmá Ellu Stínu. Heimsveldið útmáð með einu pennastriki. Var eitthvað sem þýddi ekki Róbert? Hvað með guð? Guð hlaut að þýða Róbert ef allt snerist um hann, hvert einasta orð, hreyfing. Tjáningin var tilbeiðsla eða var hún það. Var öll tjáning tilbeiðsla? Var ekki sum tjáning hreint og beint hatur. Og hatur er ekki tilbeiðsla, tilbeiðsla er eitthvað sem festir í sessi, tignar og tilbiður, en hatrið brýtur niður og festir kannski annað í sessi. Hatrið getur líka tignað eða er maður þá farinn að misnota orðin? Ella Stína er einmana. Enginn er að lesa um heimsveldið hennar. Enginn skrifar komment. Ella Stína grúfir sig yfir blöðin, hún er sagnfræðiritari hjá keisara heimsveldins, hún er ekki lengur útí móa, nei, lóan er farin, hún er að skrifa fyrir sjálfa sig, hún uppgötvar að sennilega hefur hún hatað guð, og ef hún byrjaði að elska hann myndi allt brotna inní henni. Leysast uppí kærleiksljósi. Ella Stína er byrjuð að ritskoða, hún ýtir ekki lengur á publish post, hún ýtir á save as draft, hrafnarnir fljúga fyrir utan turninn hennar í Rómaveldi. RÓMAVELDI, æpir Ella Stína upp yfir sig. Stendur Rómaveldi ennþá! Auðvitað, við erum í leifunum af Rómaveldi, páfinn er enn að vínka sínum hvíta hanska af svölunum. Leifarnar. Það var aldrei gert ráð fyrir leifunum. Leifunum er hent nútildags en þótt einhverju sé hent er það enn til. Við erum á öskuhaugunum, æpir Ella Stína aftur. Eru þetta Öskuhaugar Ellu Stínu? Wall mart, er það öskuhaugar Rómaveldis. Gleymdist að eyða öskuhaugum Rómaveldis? Ellu Stínu langar að deyja, hætta að skrifa en það er sama, orðin koma áfram og fara beint á öskuhaugana ef hún skrifar ekki. Hún er ráðvillt, hún saknar Róberts, hún elskaði hann og er dauðhrædd við að ýta á publish post fyrir slysni því þannig er heimurinn, sumt gerist fyrir slysni. Maður verður að passa sig. Hvar eru hlekkirnir, spyr Ella Stína. En hlekkirnir eru ryðgaðir, þeir eru orðnir að ryðmylsnu og Lokaða herbergið hefur sáldrast niður. Það er ekkert eftir nema heimurinn.

Er Ella Stína tilbúin?

Ef Ella Stína ætlaði að fara að lifa í heiminum og hætta að vera í lokaða herberginu eða hlekkjunum þýddi það aðeins eitt: Hún varð að hætta að lifa í metafóru.

Metafóran var niðurnjörvuð, laut rígbundnum lögmálum, fagurt fangelsi, hver nagli hafði ákveðna meiningu, eða hvað vissi Ella Stína um metafóru. Var Ella Stína kannski metafóra.

Heimurinn á hinn bóginn, hann var ekki metafóra. Heimurinn er... hvað skal segja,... spriklandi silungur ef þú skilur hvað ég meina, þar sem lögmálin gátu brotnað, staðið á sér, flýtt sér, eitthvað óvænt gerðist sem var ekki hægt að fella inní kerfið, dásamlegur og virtist gerður úr ást og kærleika eða hvað gat haldið himintunglunum á braut sinni annað en kærleikur, nei maður bara annaðhvort varð að halda endalaust áfram ef maður ætlaði að útskýra eða tala um heiminn, eða stoppa og horfa agndofa á dýrðina, nú eða finna hrollinn.

Og heimurinn var með mörgum öðrum.

En aðalmálið er: Heimurinn er ekki metafóra og var Ella Stína tilbúin að hætta að lifa í metafóru.

30 mars 2007

Valið hennar Ellu Stínu

Ella Stína á ekki um annað að velja heldur en heiminn, eða hvað? Hún hefur þrjá kosti, lokaða herbergið, hlekkina eða heiminn. Það er að segja, hún getur flakkað á milli lokaða herbergisins og hlekkjanna, fram og aftur, það gæti endað með geðveiki eða dauða þar sem lokaða herbergið er geðveikin og hlekkirnir dauðinn. Því það er ekki bara þannig að Ella Stína dragi áfram sína hlekki, ónei, hlekkirnir geta líka dregið hana til dauða. Hlekkirnir geta öðlast sjálfstætt líf. Það hlýtur að vera til saga um það. Já saga um Ellu Stínu á bjargbrúninni og hlekkirnir dingla fram af og engill kemur Ellu Stínu til hjálpar á bjargbrúninni á síðustu stundu og hvíslar í eyra hennar: Þú ert á bjargbrún Ella Stína. Ó, sagði Ella Stína, ég sem hélt að ég væri að greiða gíróseðil frá Rauða krossinum í bankanum.

Svo núna hafa þau undur og stórmerki gerst að Ella Stína hefur ekki bara fundið hlekkina heldur líka heiminn. Lokaða herbergið fannst 2004 og hafði þá legið undir ryklagi í langan tíma, hvort það var ryk eða beinamylsna, nei grín. En þegar svona margir staðir finnast á skömmum tíma þýðir að einhver sérstök hreyfing er á himintunglunum eða eitthvað.

Þetta er einhver bylgja.

Einsog þegar margir fljúgandi furðuhlutir eru tilkynntir frönsku geimferðastofnunni á sama tíma. Þetta er allavega einhver bylgja. Hreyfing.

Hreyfing Ellu Stínu.

Svo núna á Ella Stína semsagt tvo kosti, það er halda áfram flandrinu á milli lokaða herbergisins og hlekkjanna EÐA fara útí heiminn. Eða bara vera í heiminum. Verður hún að gera einsog í ævintýrunum og fara útí heim.

Og hvað á hún að gera ef hún byrjar að hugsa Róbert.

Og hvað á hún að gera ef allt verður skyndilega mjög erfitt.

Á hún þá að breiða út faðminn og láta fallast á hnén í auðmjúkri bæn og hvísla: Vorið, vorið, sólskin og vorið.

Hvað ef hún myndi segja Róbert í staðinn fyrir sólskinið og vorið?

Eða ef hún stæði bara á miðju gólfi í bankanum þegar gjaldkerinn kallaði númerið hennar og gæti ekki hreyft sig útaf hlekkjunum?

Verður hún ekki að eiga vini? Verður hún ekki að fá sér spjald um hálsinn þarsem stendur: Hringið í þetta númer ef hún segir Róbert eða hreyfist ekki.

Og hver getur sagt Ellu Stínu að heimurinn muni ekki leggja á flótta undan henni?

Göfuglyndi Ellu Stínu

Ella Stína hafði tildæmis farið í skóla allt útaf tómu göfuglyndi. Til að fórna sér fyrir leikrit sem hún hafði verið að skrifa í fjórtán ár. Ekki af því hana langaði í skóla heldur langaði hana en hún losnaði ekki við Róbert það var sama hvað hún skrifaði það kom alltaf Róbert Róbert Róbert Róbert, þá vissi hún að hún var inni í lokaða herberginu og þurfti stjórn, hún var hætt að þola Róbert svo hún var að hugsa um að skipta um nafn á honum en hún hafði reyndar oft skipt um nafn á honum, svo hún var líka orðin hundleið á því, hún vissi ekkert hvað hún átti að gera annað en að skrifa því hvert orð var einsog skref sem leiddi hana útí heiminn en hún var mest hrædd um að það leiddi hana inní lokaða herbergið fyrir fullt og allt, því lokaða herbergið var alltaf að minnka, einu sinni hafði það verið svona þokkalega stórt, nú var það orðið bara ekki stærra en klósett en ég get alveg sagt ykkur við hvað Ella Stína var mest hrædd við og það var að þegar orðin myndu leiða hana útí heiminn og hún færi alltaf lengra útí heiminn myndi hún að lokum villast og týnast og einhver myndi gera henni eitthvað og hún myndi ganga fram af bjargi í blindbyl eða bíll klessa á hana eða einhver nauðga henni drepa og ræna allt í vitlausri röð eða hún myndi aldrei rata heim til sín án þess að hafa átt raunverulegt heimili fyrst og einmitt á þessu augnabliki var Ella Stína skelfingu lostin hvert þessi orð myndu leiða hana og svo hugsaði hún: OG HVAÐ EF EINHVER LES ÞETTA!!! Og þá myndi einhver vita hvernig henni liði og hvernig hún hugsaði. Það mátti enginn vita hvernig hún hugsaði. Ella Stína var búin að koma sér upp þvílíku hugsanakerfi að enginn gat fylgt því eftir og hún gat ekki einusinni skrifað það niður sjálf, eða hún reyndi það ekki einu sinni, - en jæja, og enginn mátti vita að Ella Stína gæti orðið hrædd því þá myndi þessi sami annaðhvort hlæja að henni eða hræða hana enn meira. Ella Stína var líka hrædd um að fara svo langt útí heiminn að hún myndi fara í maníu en það var sérstakt ástand sem Ella Stína hafði farið í þegar pabbi hennar dó eða hún varð fyrir ástarsorg eða eitthvað, komum að því síðar, byrjum á pabba hennar sem var fyrsta heilaskemmdin, eða gerði Ellu Stínu þann greiða að loka hana inní lokaða herberginu en ef lesandinn tekur núna eftir því hvað allt er ruglingslegt það er útaf því að óttinn hefur heltekið Ellu Stínu um að Róbert muni lesa þetta, Ella Stína vill alltaf að einhver stjórni henni, því hún veit ekki hvert hún á að fara..... heila málið... eina leiðin fyrir Ellu Stínu er að vera heiðarleg og skrásetja allar hugsanir einsog heimsbyggðin var skrásett á sínum tíma, þe. heimsveldið en það máttu víst ekki allir vera með í þeirri skrásetningu en Ella Stína gæti komist að kjarna málsins ef hún héldi bara ótrauð áfram nú eða þá bara bullað eitthvað og sýnt hvað maður getur verið hræddur, ráðvilltur, spenntur, glaður, vongóður en samt hræddur við að skrifa eða halda áfram og það sést allt í textanum því þetta er hún bara að gera fyrir sjálfa sig. Hún er hrædd við að fara útí heiminn. Af því heimurinn er utan við hana. Ella Stína situr núna einsog Pyþagóras og hugsar: Er lokaða herbergið þá ekki heimurinn? Og já. Nú var stutt stopp og Ella Stína komst að því að hún er sannfærð um að hún finni ekkert í sjálfum HEIMINUM af því heimurinn heitir ekki Ella Stína. Hægt er að kalla lokaða herbergið Ellu Stínu ef maður vill kalla það eitthvað, og hægt er að kalla hlekkina Ellu Stínu vilji maður kalla þá eitthvað en heiminn er ekki hægt að kalla Ellu Stínu, það þýðir að heimurinn er ókunngur. Og Ella Stína óttast að finna ekkert. Finna ekkert í þessum ókunnuga heimi. Sjá ekkert. Akkúrat. Hún heldur að hún sjái ekkert, heyri ekkert, að heimurinn fari framhjá henni. Og hún geti ekki sagt frá neinu í heiminum því þetta er ekki heimurinn hennar. En þá er það næsta verkefni fyrir Ellu Stínu að lýsa einhverju sem hún á ekki.

Nema þá að kalla heiminn Ellu Stínu og þá gæti Ella Stína verið glötuð að eilífu eða hvað. Allavega Ella Stína, lýstu einhverju sem þú átt ekki. Ella Stína hefur nefnilega eignað sér allt. Og það sem hefur ekki eignað sér vill hún eignast. En það er önnur saga. Bíðum spennt eftir að Ella Stína leysi verkefnið: Lýstu einhverju sem þú átt ekki.

Ella Stína gleypir heiminn

Nú hefur borist komment frá Frk. Lyng um að hugsanlega sé Ella Stína hlekkjum við heiminn, og hvort hún sé utan við heiminn eða heimurinn utan við hana, Ella Stína lenti í hugsanaflóði hvort hún sé hlekkjum við heiminn og líka lokaða herbergið. Þetta hefur allt valdið henni þvílíku hugarangri að hún er að hugsa um að gleypa heiminn.

29 mars 2007

Heimsveldið endurreist

Heimsveldi Ellu Stínu var að riða til falls út af skúmaskotum sem þoldu ekki dagsins ljós. Þá tók Ella Stína fram sitt keisarahugrekki og viti menn, á eftir kaflanum: Líf í hlekkjum er að finna komment frá Katrínu sem gæti skipt sköpum í Heimsveldi Ellu Stínu og endurreist það svo um munar, treyst það í sessi, þanið það út, og umfram allt gert það að alvöru HEIMSVELDI. - Meira um það síðar. En lesið nú kaflann og kommentið.

Hvernig var Ella Stína í hlekkjunum

Þið munið öll eftir Ellu Stínu í hlekkjunum. Sem dragnaðist upp tröppurnar á Lindarbrautinni með hlekkina í eftirdragi og var að koma heim úr skólanum. Ella Stína stundi mæðulega svo enginn heyrði. Hún hlakkaði tilað komast heim tilað fara bjarga hjónabandi foreldra sinna. Hún þráði að heyra þau segja: Hættum að rífast, við eigum lítið barn í hlekkjum. Þetta litla barn er tilbúið að bera sína hlekki um allt bara ef þú hættir að drekka og ég hætti að nöldra í þér fyrir það, heyrði hún mömmu sína segja. Mamma hennar sagði yfirleitt eitthvað en pabbi hennar aldrei neitt. Ella Stína elskaði lífið í brjóstinu og hún þráði að einn daginn myndu hlekkirnir sjást og allir mundu segja: Sjáið þetta litla barn, hverju það hefur áorkað og í hlekkjunum. En það var sama hvað fólk tók eftir hlekkjunum, Ellu Stínu fannst aldrei neinn taka nógu mikið eftir því að hún væri í hlekkjum. Hún hafði verið uppnefnd en aldrei nógu mikið, henni hafði verið strítt en hún gat tekið við meiru, bara ef allur heimurinn myndi taka eftir því að hún væri í hlekkjum. Og að heimurinn myndi ekki hugsa um neitt annað en hlekkina hennar Ellu Stínu, hlekkirnir væru forsíðuefni hvern einasta dag og fólk talaði ekki um annað. Þetta brann á Ellu Stínu upp tröppurnar þarsem hún vissi að hjónabandið væri á síðasta snúningi. Ella Stína var samt ekki viss um afhverju hún vildi bjarga hjónabandinu, kannski vegna þess að það var ekki hægt að bjarga því. Það veit enginn, það er efni í heila bók. En upp komst Ella Stína og alla leið inní eldhús þarsem mamma hennar lá fram á borðið og pabbi hennar hafði ekki komið heim í marga daga. Hjónabandið sjálft var hvergi sjáanlegt. Hvar varstu, spurði mamma hennar. Í skólanum, sagði Ella Stína. Voðalega varstu lengi, sagði mamma hennar. Það eru hlekkirnir, sagði Ella Stína. HLEKKIRNIR, öskraði mamma hennar, hvaða hlekkir. Hlekkirnir mínir, sagði Ella Stína, líf mitt er í hlekkjum. Ef einhver er í hlekkjum hér þá er það ég, sagði mamma hennar. En Ella Stína gat ekki séð neina hlekki á mömmu hennar en hún vildi ekki særa hana svo hún sagði ekki neitt. Ella Stína var svo góð í hlekkjunum. Haldi einhver að Ella Stína hafi verið sár, bitur, reið, pirruð, örvæntingafull, öskuill, hatursfull, - yfir því að vera í hlekkjum þá er það misskilningur. Ella Stína vildi öllum vel þótt hún væri í hlekkjum. Á ég að fara útí búð mamma, ég get alveg farið útí búð og eldað matinn og allt, sagði Ella Stína og reyndi að hughreysta mömmu sína. Ella Stína hugsaði um svöngu börnin í Afríku og seinna þegar hún varð stór varð hún líka svo skilningsrík, hlekkirnir gerðu hana svona skilningsríka,og þótt hún þyrfti að bíða á rauðu ljósi þá pirraði það hana hreint ekki neitt.

Í næsta kafla fáum við að kynnast betur manngæsku, fórnarlund, skilningi, greiðasemi Ellu Stínu í hlekkjunum.

28 mars 2007

Líf í hlekkjum

Ella Stína dragnaðist upp tröppurnar á Lindarbrautinni með hlekkina í eftirdragi, hún hafði einsog venjulega verið lengi heim úr skólanum útaf hlekkjunum, hlekkirnir höfðu farið í taugarnar á kennaranum og hann hafði látið hana sitja eftir einsog venjulega útaf hlekkjunum, krakkarnir höfðu strítt henni í frímínútum og híað á hana: Ella Stína í hlekkjunum, Ella Stína í hlekkjunum. Ella Stína hafði bara getað verið eina mínútu í frímínútum því hún var svo lengi eftir göngum skólans af því hún var í hlekkjum. Stundum komst hún alls ekki úr sporunum og stóð bara þarsem hún var, alveg heillengi og einhver ýtti við henni og hún datt eða einhver spurði hvort hún væri ekki að koma en þá sagðist hún vera að hugsa. Já, hugsaði Ella Stína, hlekkirnir fá mig til að hugsa. Og svo silaðist hún áfram og bankaði á dyrnar þegar tíminn var hálfnaður. Kennarinn opnaði og það leið heil öld áðuren hún komst í sætið. Það var alltaf verið að kalla á Ellu Stínu til skólastjórans útaf hlekkjunum og hún átti mjög erfitt með að komast þangað. Hlekkirnir voru mjög þungir. Hún gat auðvitað aldrei verið að leika sér með krökkunum í frímínútum, hún gat ekki hlaupið um eða neitt og hún var aldrei valin í liðið, allt útaf hlekkjunum. Og það vildi enginn vera samferða henni heim því hún var svo lengi og líka lengi að svara því hún þurfti fyrst að reyna að tosa hlekkjunum áfram. Ella Stína vildi óska þess að einhver eða eitthvað leysti hana úr hlekkjunum en því var ekki að heilsa. Að einhver væri með lykil, og það var þá sem Ellu Stínu byrjaði að dreyma. Hlekkir opna okkur leið inní draumaheiminn. Draumaheimur Ellu Stínu braut sér leið einsog hvert annað heimsveldi yfir öll lönd og fór um einsog eldibrandur og skildi eftir sig sviðna akra og rotin tún en það var allt í lagi, Ella Stína gat þá verið í draumaheiminum og ekki í hlekkjum á meðan. Þetta er reyndar smá útúrdúr. Eina leið Ellu Stínu tilað komast úr hlekkjunum var að komast inní lokaða herbergið. Lokaða herbergið var gætt töfrum. Já fyrst ég nefni töfra, þá einsog fyrir töfra féllu hlekkirnir af Ellu Stínu. Hún gekk um lokaða herbergið og sagði aðeins eitt orð: Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert, Róbert. Það var einsog orðið Róbert væri töfraorð sem myndi halda henni inní lokaða herberginu. Ef hún hætti að segja Róbert var einsog eitthvað hræðilegt gæti gerst. Ella Stína var nefnilega löngu búin að gleyma að til væri heimur fyrir utan lokaða herbergið. Pabbi hennar af því hann var svo góður maður, hann hafði á sínum tíma, já læst Ellu Stínu inni í lokaða herberginu og hent lyklinum. Kannski af því hann var svo leiður á hringlinu í hlekkjunum. Ellu Stínu fannst það svo stórkostleg lífsreynsla að vera læst inni að við fyrsta tækifæri læsti hún sig inni og gleypti lykilinn. Svo hafði hún semsagt gleymt því að til væri heimur fyrir utan.

Hún gleymdi því í mörg ár. Mörg herrans ár. Já marga tugi ára. Þá var Ella Stína læst inní herberginu. Það var ekki fyrren hún kynntist þessum Róbert að hana langaði tilað hætta að segja Róbert og fór að rannsaka þetta vísindalega.

Er Róbert fyrir utan, spurði hún sjálfa sig. Eftir að hún hafði komist að því að orðið Róbert þýddi ekkert annað en aðferð tilað halda henni í lokaða herberginu.

Það verður alltaf að vera eitthvað sem heldur manni föstum, já föstum á sama stað.

Nei, svaraði Ella Stína sjálfri sér, hann er ekki fyrir utan. Eða þeas. hún sagði Róbert er ekki fyrir utan. Því Róbert var Róbert en ekki Róbert. Svona stærðfræðilega séð.

Hvað er fyrir utan, spurði Ella Stína sjálfa sig. Og það var þá sem hún fann konuna í hlekkjunum.

Hvort er betra að vera í hlekkjum eða í lokuðu herbergi, spurði Ella Stína sjálfa sig.

Þegar hún var í hlekkjunum þurfti hún ekki að hugsa Róbert en allt var mjög erfitt og mjög þungt og gekk mjög hægt fyrir sig og frestaðist og silaðist áfram.

Þegar hún var í lokaða herberginu gat hún nánast flogið, hlekkirnir hrundu af henni og eina sem hún þurfti að hugsa var Róbert, þá hélst hún í lokaða herberginu.

Svo það er spurning um þriðja staðinn.

Er það:

1. Þröskuldurinn
2. Elísabet Jökulsdóttir, Framnesvegi 56a, 101 Reykjavík
3. Lesandinn
4. Sáttasemjarinn
5. Raunveruleikinn sem segir: Það eru engir hlekkir, það er ekkert lokað herbergi, þetta er allt saman blekking. Og hvað tekur við þegar blekkingunni sleppir, getur Ella Stína sleppt blekkingunum.
6. Eitthvað annað?
7. Og þótt hún hætti að hugsa Róbert í herberginu þá hugsar hún bara annað nafn sem gæti alveg eins verið Róbert.

Ella Stína þekkti álfkonu

Ella Stína þekkti álfkonu sem bjó í klettunum. Svo varð Ella Stína stór og kom seinna á staðinn, þá fann hún silfurhnífapör í fjósinu og það var enn sami hrafninn í fjallinu.

Blái fíllinn

Einu sinni fór Ella Stína í sjóinn, svo datt hún um stein, af því hún var svo annars hugar, hún var alltaf svo annars hugar og við vitum nú öll út af hverju, það var einsog hún væri í öðrum heimi, svo annars hugar var hún þarsem hún datt um stein í sjónum þarsem hún var að vaða, hún ætlaði að vaða sér til skemmtunar því það var líka örlítið sólskin þennan dag en svo datt hún og drukknaði. Já hún drukknaði og enginn vissi það því Ella Stína lét engan vita. En Ella Stína drukknaði semsagt og líkið flaut uppá yfirborðið og flaut alla leið frá Seltjarnarnesi því það var einmitt þar sem hún hafði drukknað, já frá Seltjarnarnesi og að ferðamannaströnd á Spáni þarsem túristabörnin fundu líkið, já rákust utan í líkið á Ellu Stínu og héldu að þetta væri blár útblásinn fíll.

Þau drösluðu bláa fílnum á land og reyndu að hossa sér á honum en svo nenntu þau því ekki lengur og hentu honum aftur í sjóinn svo Ella Stína er einhverstaðar á floti, það veit enginn hvar.

27 mars 2007

einu sinni fór ella stína út að láta ræna sér og hún er ekki komin heim ennþá.