31 maí 2008

Ég útskrifast

Ég útkskrifast í dag og það verður frábært, um að gera að gleyma allri félagsfælni og siðahrolli, og njóta þess, að ég hef mætt í skólann hvern einasta dag í þrjú ár, aldrei verið veik, varla komið of seint og lært alveg óskaplega mikið og margt, þessi skóli er alveg búin að breyta lífi mínu, yndislegur skóli og BEKKURINN MINN ALVEG YNDISLEGA STÓRKOSTLEGUR, ég elska þau, gáfuð, yndisleg krútt, lifi leikhúsið, jæja, þeir sem vilja senda mér blóm, skeyti og gjafir sendi það bara heim til mín og hengi á hurðarhúninn. Ég verð í hvítum kjól og svörtum skóm, eða gylltum kjól og írsku skónum með fíflahala....

Ingunn tengdadóttir mín og ömmustelpan Embla Karen verða viðstödd útskriftina og kannski Garpur ef hann kemst.

Til hamingju Elísabet.

30 maí 2008

Túrtappi og tár

Ég er að útskrifast úr Listaháskólanum á morgun þarsem ég hef verið við nám í þrjú ár. Ég er búin að læra margt í skólanum, tildæmis að ég get ákveðið með tíu mínútna fyrirvara að koma nakin fram og draga útúr mér túrtappa og fengið 8.5 í einkunn og svo hitt, skrifað leikrit í tvo mánuði og fengið 6.0

29 maí 2008

Jarðskjálftinn sagði: Ég ræð

Það kom jarðskjálfti í dag, ég var að tala við Huldu í símann, sjötíu ára gamla húsið okkar sveigðist til og frá, titraði, eitthvert óskaplegt afl úr iðrum jarðar sagði aðeins tvö orð: Ég ræð.

Kristín Bjarna á stórafmæli

Hún vinkona mín, til þrjátíu ára, á stórafmæli í dag 29.maí, ég þori ekki að segja hvað hún sé gömul því hún er svo mikil filmstjarna, það er ekki víst hún vilji það, það verður þá að koma fram í kommenti, ég kynntist Kristínu fyrst þegar hún kom heim með pabba, hann kom heim tilað deyja en hún sat við saumavélina og saumaði á hann slopp svo hann gæti dáið, það passaði svona nokkurnveginn og sloppurinn passaði alveg þótt hann mátaði aldrei sloppinn. Svo sá ég Kristínu næst á horni Týsgötu og Skólavörðustígs, þá var hún að tala við sjálfa sig af því hún var svo sorgmædd. Hún var oft gestur í Suðurgötunni og orti ljóð í hvert sinn hún kom í heimsókn og hló þá að öllu, hún var byrjuð að hlæja og síðan hefur hún verið hlæjandi, á mínu heimili er hún kölluð Hlátursskjóðan af því að r0kurnar svoleiðis standa út úr henni, lífsglaðar og smitandi, það eru örfáir sem hafa fengið þess heiðurs aðnjótandi að vera uppnefndir en Garpur og Jökull sáu um það, hún var einsog einhver síhlæjandi ævintýraprinsessa í þeirra augum og hló mest við eldhúsborðið, hún var líka einsog farfugl, hún kom og fór, sást ekki mánuðum saman en sat svo dag eftir dag við eldhúsborðið og hló og alltaf með ljóðabúnka með sér. Og sína sérstöku sýn á lífið. Alltaf til í að sjá heiminn útfrá sínum sjónarhól, Kristínarhól, þegar ég var löngu búin að negla niður heiminn ásamt öðrum vinkonum mínum kom Kristín og sagði: Hvað með það? Og er eitthvað slæmt að hafa þráhyggju??? En í mínum íslenska vinahópi hefur það þótt næsta glæpsamlegt en Kristín talar um þráhyggjur einsog sérstakar vinkonur sínar eða gjöful element. Já svo heimsótti hana til Haga þarsem hún bjó sem krakki, hún var ljóð strax á barnsaldri, ég kynntist foreldrum hennar, systkinum hennar, silungsvatni sem sál hennar dvelur jafnan í, harmoníkkuböllum, sveitaböllum, þúsund milljón svönum sem syngja allar nætur þar fyrir norðan, ég held líka að það sé sál Kristínar. Svo fórum við norður að ná í Kristjón á einhverjum furðulegum bíl, já komumst alla þessa leið og ég ólétt að tvíburunum ánþess að vita það. Þar á undan hafði ég búið hjá henni á Öldugötunni eftir að Suðurgötuævintýrið leið undir lok og dópheimurinn gleypti ástina sem hafði búið mig til uppá nýtt, þar svaf ég í stofunni og Kristín hvæsti á mig einhverntíma þegar ég svaf hjá manni heima hjá henni og klóraði hann svo mikið á bakinu að hann er sennilega tattóveraður síðan. En það voru allskyns stórmenni að heimsækja hana, svona fallega skáldkonu og leikkonu undir súðunnfi sem átti fallega hringborðið og var alheimsbóhem og húnvenstk blóm, Thor, Atli, Rúnar, og ég veit ekki hvað, þeir sátu svoleiðis um hana og sungu mansöngva fyrir utan í bjartri vornóttinni ef hún hleypti þeim ekki inn. Hún labbaði alltaf mjög hratt og gerir eiginlega ennþá. Við fórum mikið saman í sund og svo varð ég geðveik og spurði hana hvort hjartað gæti brostið. Og ég hefði ekki munað þetta nema hún mundi þetta. Og hún var algjör skvísa og er ennþá. Svo er hún líka örlætisbolti, hún getur alltaf lesið eftir mig, og ég er alveg í lausu lofti ef hún getur það ekki og hún kemur alltaf með önnur komment og svo gerir hún kröfur, þegar hún fær eitthvað að lesa spyr hún: Hvað viltu að ég hugsi um?

Hún dæmir mig aldrei. Hún bara elskar mig. Og svo er hún svo sæt.

Svo lék hún og dansaði á bryggjunni og lánaði mér gular trúðabuxur sem gáfu mér lífið uppá nýtt.
Hún dansar tangó.

Hún trúir á tangó.

Hún yrkir tangóljóð.

Hún er með sterka réttlætiskennd. Hún er vitur.

Hún fékk krabbamein og bloggaði krabbameinið úr sér.

Hún er heimur útaf fyrir sig.

Hún kom að heimsækja mig til Dublin. Svo ég hef vitni.

Hún tók einu myndirnar af mér sem til eru í Dublin.

Það er gaman að vera með henni.

Hún er femínisti.

Það er hægt að tala við hana um allt.

Ég vona hún verði hundrað ára. Hún er norn og engill. Hún er silungur, tré, vatnsköttur og hvítir skór í myrkrinu. Hún er eyrun mín.

Hún er hörkutól.

Gáfuð.

Ofurgáfuð.

Ljóðskáld.

Alvöru leikkona.

Hún er Kristín Bjarna og ég tek ofan fyrir henni að eilífu, hún er heilt fang af örlæti, forvitni og öllum sínum útúrsnúningum sem snúast alltaf í skemmtilega átt.

Hún er vinur.

Hún er vinur minn.

Hún kemur. Og þarna stendur hún með rauðu töskuna, mér finnst hún líka vera í rauðri kápu, hún er lent. Hún er komin.

Kriiiiiissssssssssssssstttttíín.

Allir elska hana.

Hún hugsar vel um sjálfa sig og er með húð úr sólargeislum, blá augu úr lynginu, sem stundum eru dreymandi, stundum hvöss, stundum glöð, stundum hugsandi.

Til hamingju með afmælið.

28 maí 2008

Konan talar við reiðina

Konan: Hvað hefur þú gert fyrir mig sem enginn annar hefur gert?
Reiðin: Finnst þér þetta svaravert.
Konan: Mig langar að vita það.
Reiðin: Ég ansa þessu ekki.
Konan: Annars nenni ég ekki að tala við þig.
Reiðin: Eru þetta þakkirnar fyrir allt sem ég hef gert.
Konan: Hvað hefurðu gert.
Reiðin: Það er ég sem ætti ekki að nenna að tala við þig.
Konan: Hættu þá að tala við mig.
Reiðin: Jæja, einmitt.
Konan: Ég vil samt fá að vita það.
Reiðin: Þögn
Konan: Þú hefur ekkert gert fyrir mig.
Reiðin: Þögn
Konan: Þú ert bara ömurleg, ömurleg reiði sem hefur eyðilagt og rústað lífi mínu.
Reiðin: Þögn
Konan: Ég tala aldrei við þig aftur.
Reiðin: Þú ætlar þá kannski að vera án reiðinnar.
Konan: Þögn
Reiðin: Mér þætti gaman að sjá það.
Konan: Þögn
Reiðin: Þú ert glötuð án mín.
Konan: Þögn
Reiðin: Þú getur varla sýnt reiði.
Konan: Þögn
Reiðin: Þú getur ekki verið reið.
Konan: Þögn
Reiðin: Hverfur bara inní einhverja sjálfsvorkunn.
Konan: Þögn
Reiðin: Og fýlu, ertu í fýlu, en gaman.
Konan: Þögn
Reiðin: Svo springurðu.
Konan: Þú ert ömurleg.
Reiðin: Ég vann.
Konan: Vannst hvað.
Reiðin: Þú byrjaðir að tala við mig.
Konan: Og hvað með það.
Reiðin: Á ég að segja þér hvað ég hef gert fyrir þig sem enginn annar hefur gert.
Konan: Ég vil ekki vita það.
Reiðin: Viltu ekki vita það?
Konan: Nei, ég kæri mig ekki um það.
Reiðin: Ég loka fyrir kærleikann.
Konan: Kærleikann.
Kærleikurinn: Það er kominn tími á þriðja sporið.

Reið útí hvað.

Konan var svona reið. Reið útí lífið. Hún var reið útí karlmenn, útí börn, útí guð, út sóleyjar og túnfífla, útí bíla, útí ský, útí farsíma og sms, útí hringingar, útí útidyrahurðir, útí fingur, útí hringja, útí snertingu, útí hitt og þetta, útí hamagang, útí þögn og kyrrð, útí sjálfa sig, já hún var svona reið útí sjálfa sig en þóttist vera reið útí allt annað.

En afhverju var hún svona reið útí sjálfa sig, fyrir hvað hún var ljót og sein á fætur, hvað hún átti fáa vini, hvað hún átta marga vini, hvernig veðrið var, hvernig hún var í laginu, hvernig hún var ekki í laginu, að hún var ekki búin að öllu, að hún hafði ekkert gert, að hún bað ekki bænir á hverjum morgni, að hún eldaði ekki hafragraut, að hún bauð ekki öllum í læri alltaf. Hún var reið útí sig fyrir allt.

Hvernig stóð á því. Af því hún vildi að reiðin ætti garð þarsem reiðin fengi að vaxa og konan var þessi garður fyrir reiðina.

Hvað hafði reiðin gert fyrir konuna sem enginn hafði gert?

His voice

When I heard his voice,
I never wanted anything bad to happen.

*

Konan og læstu hirslurnar

Einu sinni var kona og hún fékk mann í heimsókn og hann tæmdi allar hirslur hjá konunni, segjum hann hafi tæmt skartgripaskrínið, píanóið, bókaskápinn, bankahólfið, já allar hirslur, eða hjartað, lungun, mænuna, hugann, hann tæmdi allt hjá henni og hún var tóm á eftir og rúin öllu. Afhverju lét hún þetta viðgangast, kannski var þetta dramatilhneiging hjá konunni og hafði gerst oft áður, kannski hafði hún verið svona einmana og allt það svo hún lét þetta viðgangast, kannski var þetta ekki henni að kenna, en kannski gat hún ekki sett mörk, afhverju vildi konan vera rúin öllu, eða vildi hún það, svo hún þurfti ekki að taka ábyrgð á neinu. Og þegar allt hafði verið tæmt, þá gat hún orðið reið. Kannski hafði ekki fundið reiðina af því allar hirslur voru svona fullar og við það að þær tæmdust fannst reiðin. Bara afhverju var þessi reiði. (Framhald)

27 maí 2008

Markmiðinu náð

Ég fór í skólann með ákveðið markmið, að skrifa Mundu töfrana, það var síðan útskriftarverkefnið mitt, markmiðinu var náð.

!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Elísabet er yndisleg.

Snúningur á lífinu

Ég er búin að vera með hausinn í bleyti hvað ég ætti að skrifa næst þegar það rann upp fyrir mér að ég var að útskrifast úr leiklist, ég þarf bara ekkert að skrifa, ég fer bara að leika.

Nett þunglyndi eða meira þreyta

Einsog í dag var ég viss um að ég væri afspyrnu vondur rithöfundur og hefði einhvernveginn tekist að plata fullt af fólki tilað trúa því ég væri ekki svo slæm, ég var að lesa bækurnar mínar inná blindraspólur þegar þetta rann upp fyrir mér, og ég hugsaði bíddu hvenær trúði ég að þetta væri gott, ég á sennilega allsekki að vera rithöfundur, hvað á ég að taka mér fyrir hendur.

Töframaðurinn Bob Dylan

Ég sá strax að þetta var hann. Bob Dylan. Hann var svo fallegur, töfrandi, einsog töframaður, seiðmaður, galdramaður með orgel sitt og röööööööööööööööddin. Röddin. Hann hefði getað verið þúsund ára gamall. Með hatt og fjöður í hattinum, aðeins álútur, húmorinn, lífsgleðin, valdið, tæknin, hæfileikarnir, ég varð svo glöð, ég brosti, ég dansaði, ég hef séð Bob Dylan. Bob Dylan. Svona strákslegur líka og flottur. Tónleikarnir voru undursamlegir, lögin falleg, spilamennskan svo þétt, svo gott að heyra svona góða tónlist og Bob í miðjunni, galdrandi og maður hugsaði bara hvað margt sniðugt kemur frá Ameríku. Bob Dylan gerir Ameríku alveg stórmerkilega. Og svo í lokin þá tók hann Blowing in the wind.... í nýrri útgáfu, ég gat ekki orða bundist og sagði: Þakka þér fyrir, Bob Dylan. Því ef einhver skilur blowing in the wind... þá er það ég... bæði blowing and the wind.

Ég og Bob Dylan

Elínu Öglu fannst að Bob Dylan ætti að sofa hjá mér, hún hugsaði þetta - bara ósjálfrátt - á tónleikunum. Hann þarf bara að sjá hana, hugsaði hún svo. Á meðan var ég að troða mér upp hægri vænginn og allir þessir öryggisverðir höfðu þau áhrif á mig að mig langaði að afklæðast og hlaupa í snatri fyrir framan sviðið og hrópa Hæ Bob. Og vita hvort ég fengi að halda ræðu um hin íslensku öræfin. En Elín Agla sagði að karmað væri komið í gang og þetta myndi sennilega gerast einhverntíma í haust. Ég og Bob Dylan.

25 maí 2008

Hvolpurinn Sísú

Á að vera komin í hendur eiganda sinna, Jökuls og Kristínar í Ameríku. Sísú er gælunafn knattspyrnukappans Zidane. Og þessi hvolpur er algjör úlfur og sætur, hlakka tilað sjá hann. Mér þætti gaman að sjá mig nenna að ala upp hund, eða kött, ég er letihaugur en er að ala upp nokkur blóm og nú blómstrar eitt í kirkjuglugganum.

Mest smitandi hláturinn

Það er heilmikill hlátur í minni fjölskyldu, hann kemur úr dramatíkinni ho ho ho, ég og Kolbrá tildæmis springum alltaf úr hlátri, en svo er hláturinn í Jökli syni mínum, hann springur ekki úr hlátri en er með svona hlátur að maður verður að hlæja ef maður heyrir hláturinn hans, smitandi hlátur, hann er hér með tilnefndur.

Garðurinn í blóma

Reynitréð stendur allaufgað í garðinum, svo þungt, létt, grænt og höfugt, göfugt þetta tré sem hefur verið samferða okkur svo lengi, og fíflarnir á sínum löngu leggjum, minna mann þegar glókollar þutu upp og niður stíginn, ég heilsaði þessum fíflum áðan, stóð og dáðist að þeim og sagði: Þið eruð sætir.

Bókaskápurinn

Svo sópaði hann öllum bókunum ofaní strigapoka, hún hafði ekki hreyft eina einustu bók í háa herrans tíð en þetta voru allt bækur sem höfðu auðgað hennar sál.

24 maí 2008

Önnur kynslóð á KRvöllinn

Ég og Ingunn fórum með Emblu Karen að horfa á Garp keppa. Garpslið vann, Embla Karen svaf í vagninum og fannst þetta alveg toppurinn, að vera á vellinum að horfa á pabba sinn, kannski hefur hún séð leikinn í draumi.

Einn lítill sætur dagur

Ég er soldið einmana og ég er að hugsa um líf mitt, ég er líka soldið að hugsa um að fara í bað og svo væri gaman að sökkva nöglunum í einhvern vöðvastæltan.

23 maí 2008

Svo opnaði hann píanóið

Já, svo opnaði hann píanóið. Og tíndi uppúr því lítil lög en konan hafði ekki leikið á það óralengi og ekkert verið að læra á það, hann spilaði auðvitað einhver bulllög en konunni fannst þau soldið sæt og hann með svona fallegar axlir og hendur að leika á píanóið, hún hugsaði með sér að kannski væri hann píanóstillingarmaður, kannski væri hann fatlaður, eða einhverfur og hefði óvart farið í ísskápinn og skartgripaskrínið en hefði alltaf ætlað sér að stilla píanóið, hún mundi samt ekki eftir því að hafa pantað stillingarmann. Svo skellti maðurinn píanóinu aftur.

Hvað opnaði maðurinn næst?

Svo opnaði hann ísskápinn og konan var furðulostin, ætlaði hann að setjast að, var hann svangur, var hann að gera birgðakönnun, vissi hann ekki hvar hann var, hélt hann að hann væri kominn heim, eða væri staddur hjá móður sinni, konan horfði á ljósið í ísskápnum og það var eiginlega ekkert þar, egg, beikon, gamalt engifer, lýsisflaska, mjólk, gamlar kartöflur, kerti, rjómastautur... maðurinn lokaði aftur ísskápnum eftir að hafa sópað öllu í ruslið, gáði líka í frystinn og saknaði þess að finna ekki klaka í frystinum. Konan kíkti inní ísskápinn eftir að maðurinn hafði sópað öllu út. Það var einsog þessi ísskápur ætti engan eiganda. Og það þyrfti að þrífa hann. Hann setti allt í hvítan ruslapoka. Og gerði þetta allt þögull. Þögnin er fyrir elskendur, sagði hann.

Skartgripaskrínið

Kannski var maðurinn eitthvað sætur, kannski kom hann á viðkvæmu augnabliki, kannski var konan svo forvitin, og hissa þegar hann hafði opnað dyrnar með sínum eigin lykli að því er virtist vera og opnaði svo skartgripaskrínið. Konan var kannski svona veik fyrir því að hann opnaði skartgripaskrínið af því hún opnaði það aldrei sjálf, hún var bara alltaf með sömu skartgripina og var ekkert að skipta eða láta þetta standa opið eða leyfa barnabörnunum að leika sér að skartgripunum svo þegar hann opnaði skartgripaskrínið fannst henni það nánast einsog vísbending frá alheiminum, og tók svo eftir því að hann lét skartgripina renna í vasa sinn. En fattaði ekki neitt og hélt að maðurinn væri töframaður en ekki innbrotsþjófur.

22 maí 2008

Linda vinkona mín er alltaf að heimta raunveruleikann

Svo ég get alveg sagt einsog er þá eftir að maðurinn opnaði hurðina - eftir að hafa rjátlað við hana - þá opnaði hann skartgripaskrín konunnar.

Ég er gjörsamlega bit. Can anybody help me????

Snuðrarinn

Einu sinni var maður sem opnaði allar læstar hirslur hjá einni konu, hann var snuðraði og var að snuðra, ég veit ekki afhverju.... kannski var hann bara snuðrari. Eða svona óöruggur og varð að vita hvar allt var svo hann væri öruggur.

Fyrst fannst konunni þetta eitthvað heillandi og rómantískt að það væri verið að opna allt hjá henni, en svo þegar hann opnaði hryggsúluna þá fattaði hún að það var eitthvað bogið við þetta og hún þyrfti kannski að gefa leyfi eða opna þetta sjálf. Eða biðja hann um að opna hryggsúluna.

En ekki að það kæmi einhver töframaður: Ó, hryggsúlan er læst, ég opna hana fyrir þér, ójá takk töframaður, ... lásasmiður kannski, er hann enn á ferð. Maðurinn gat ekki verið í kringum konuna nema hann vissi nákvæmlega hvað væri inní henni, því hvað hann ætlaði hann að gera við það, já þetta er skrítin saga.

Afmælisgjafirnar

Gullhring frá mömmu sem amma átti og kjól sem amma átti
Rautt trúðanef fá Röggu Gísla tilað geyma í handtöskunni og setja upp gagnvart karlmönnum.
Rosaflottan bláan hring, risastóran, líka frá Röggu og Birki
Læri frá Gumma
Galdramaður frá Guðjóni og Jónu
Heilög hrísgrjón full af ljósi frá Elísabetu
Fallegar grifflur, líka frá Elísabetu
Heilög olía af fjalli frá Sveini Rúnari og Hauki syni hans
Mynd af mér, pabba og Hrafni frá Binna og Ástu blómasala
Pennasett frá Guðmundi og Ragga
Mynd sem mamma hennar Bryndísar gerði
Armband úr skeljum frá Elvu Ósk
Slípaðan hjartastein í boxi frá Valgerði Ben.
Græna húfu frá Báru og stelpunum í mötuneytinu
Andlitshreinsun frá Díönu
Skemmtikvöld frá bekknum
Nuddtíma hjá dansstelpunum
Ljóðabók frá Guttesen
Bók um skriftir frá Pétri Blöndal
Geisladisk frá Birgittu um mömmu hennar
Kuruzawamynd frá Steinunni Knúts
Bókina um Klepp frá Óttari
Tebolla göldróttan frá Anítu
Blómvönd frá Þórhildi og famílíu
Myndlistarbók og disk með Skúla Sveins frá Evu í skólanum
Hjartastein frá Gullu
Blóm frá Kalla Gúmm
Trefil og húfu frá Rúnu Testner
Ungfrú Töfra frá Þórey og Hilmari
Útsaumaða tösku frá Þuru og Vilborgu
Brúðkaupstösku frá Unu
Útaðborða frá Auði Bjarna
Hamlet-glas frá Guðrúnu Ásmundsd.
Mynd af mér og Önnu Maríu frá Önnu Maríu

Aukþess, sorrí ég man ekki frá hverjum:
Ilmkerti, búið að gleðja mig og veita mér frið
Bestu vinir, bók
Tveir hugleiðsludiskar
Leikbrúðu á puttann
Reykelsi, ótrúlegur ilmur
Penna

Fullt af yndislegum kortum sem ég geymi í stofunni tilað gleðja mig ef ég er leið eða efast um sjálfa mig, þá er fullur skrautpoki af yndislegum kortum með fallegum orðum handa mér
Fullt af blómum sem ilmuðu um allt húsið lengi á eftir.
Fullt af pening, eitthvað um hálfa miljón, hef ekki haft tíma tilað athuga reikninginn útaf lokaverkefni í skólanum. En takk takk takk og endilega gerið athugasemdir ef þetta stemmir ekki.

Það sem ég fell fyrir í fari karlmanna

1. Að hann sé naiv
2. Að hann geti sýnt ískalda skynsemi

en framar öllu að hann sé góður við mig og leyfi mér að vera góð við hann.

A game

When he sees
he can open
my locked door
he close again

and then I know
its a game.

21 maí 2008

Ræður og uppákomur í afmælinu mínu 16. apríl

Þarsem ég er óðum að nálgast jörðina skal nú greina frá afmælinu mínu, ég bauð gesti velkomna og sagði eitthvað sniðugt, ég man ekki hvað, ég var í hvítum kjól, svo gaf ég Illuga orðið, hann var veislustjóri og sagði ég hefði haft djúp áhrif á líf hans sem krakka og hann hefði orðið fyrir áfalli þegar hann uppgötvaði að ég laug að honum, fyrirgefðu Illugi. En svo las hann rosalega flotta ræðu frá Kristjóni elsta syni mínum sem býr á Spáni, mjög hjartnæm, skáldleg ræða þarsem hann þakkaði mér fyrir að hafa gefið sér strumpahús og bar kveðjur frá fjölskyldunni. Já hvað var nú fleira, svo kom Ævar og söng Makka hníf við undirleik Viðars, ég elska þetta lag og hafði pantað það sérstaklega, svo flutti bekkjarbróðir minn Friðgeir ræðu, ég var í nettu sjokki yfir því að bekkurinn gerði ekkert, en Friðgeir trompaði allt með furðulegum söng af Sined OConnor plötu og póstmódernískum stælum, svo flutti Vilborg ræðu um gamla góða þjófnaðinn á Ísafirði og þakkaði mér fyrir að gefa sér hugrekki, Guðrún Ásmundsdóttir kom með ræðu um pabba enda ágætt þarsem hann var fjarri góðu gamni, svo flutti mamma ræðu og þakkaði öllum fyrir að koma því það myndi gleðja mig, já mamma er nú sæt og svo sagði hún að uppeldi tvíburanna væri kraftaverk, Jökli fannst það eitthvað voða fyndið, svo kom Sverrir skólabróðir minn úr Hagaskóla og hummaði afmælissönginn og talaði um Tilfinningatorgið, og svo var sunginn afmælissöngurinn, Kolbrá litla systir mín reið á vaðið og hennar ræðu hefur verið skil hér með fimm stjörnum, ég er að hugsa um að biðja hana um að taka útfararræðuna líka, tvíburarnir héldu enga ræðu, ég fékk hana um nóttina, allskonar ásakanir um kókapöff and stöff, mjög flott, ég er kannski að gleyma einhverju, en það kemur þá, þetta var svo yndislegt afmæli og allir að tala vel um mig og gleyma öllu hinu, svo má allsekki gleyma uppákomu Daníels Sigurðssonar vinar míns og uppáfinningamanns sem sneri útúr dægurlagatexta til mín og spann í kringum þetta langan performans svo allir héldu hann væri konseptlistamaður. Og viti menn, Hans Jakob frændi minn flutti ræðu svo allir úr öllum fjölskyldum komust að. Það sýnir nú hvað ég er þroskuð að ég gleymdi því að ég ætlaði að gera gjörning en mundi eftir því í lokin og flutti gjörninginn: Það sem ég hef lært af lífinu, - með hjálp Vilborgar í mínum bekk. Fyrsta sem ég hef lært er að þegja. Annað að vera góð við börn. Þriðja að ferðast.

Two green-eyed kids from Ireland

God sent me two green-eyed kids from Ireland to bring a new blood in my play, - which awakes the question what I do to struggle against new blood.

Tveir græneygðir krakkar

Mér voru sendir tveir græneygðir krakkar frá Írlandi tilað hleypa nýju blóði í leikritið mitt, það er svo spurning hvað maður gerir tilað streitast á móti nýju blóði.

Hvað skildi hann eftir?

Hann skildi eftir sjampóið sitt, dagblöðin sín og aðgöngumiða að turni Hallgrímskirkju, ég man ekki eftir fleiru nema stóran konfektkassa sem hann gaf mér og kristalsskál, allt þetta er auðtúlkað, og leiðir hugann að því er fólk skilur eftir hér í húsinu.

20 maí 2008

Í gullkjól af ömmu

Ég er alltíeinu farin að ritskoða bloggið mitt, hvað ég eigi að skrifa og hvað ekki, þá bara kafna ég, lífið er svo stutt og bloggið svo langt, mig langar rosalega í einhvern mann, reyndar ekki einhvern en ég þori ekki að hringja í hann, hann getur nú líka alveg hringt í mig, svo langar mig í sund, alveg meiriháttar en ég er sem lömuð einsog grjót inní líkamanum og finnst einhver ætti að hugsa um mig, leggja mig undir sæng og spæla egg og bacon handa mér, ég er enn að fatta leikritið mitt, það er magnað að vera útskrifast, ég er að hugsa um að mæta við athöfnina og vera í gullkjól af ömmu.

Neyðarkall frá norðurskauti

Já, ég varð mjúk þegar ég heyrði í honum, og langaði tilað hafa eitthvað fallegt í kringum mig, það er gott þegar allt verður mjúkt því þá breytist ég og verð öðruvísi og langar tilað segja þér eitthvað fallegt. Einsog tildæmis gefa þér að borða úr fallegu skálunum mínum, og ef mig langar í karlmann þá kemur alltaf skræka röddin þjótandi: Elísabet, þú ert ástsjúk. Viltu að ég drekki þér í stórum bala, segi ég þá - því stundum langar mig bara að sitja á steini og syngja fyrir hafið og einhver er að hlusta og segir svo komdu í rúmið eða á bak við stein. Eða bara útí buskann þarsem við erum tvö og getum andað, andað, andað.

Ég vaknaði einn morguninn

og fannst fuglasöngurinn vera skilaboð frá geimverum. Þótt augnablik sturlunarinnar væri óneitanlega seiðandi hringdi ég í geðlækninn minn. Hann sagði mér að auka lyfjaskammtinn og bætti við: Svo veistu það Elísabet að auðvitað er fuglasöngurinn skilaboð frá geimverum.

19 maí 2008

Blómið í hægri hendinni

Einu sinni var lítið barn sem hélt á blómi í hægri hendi.

Ella Stína verður Elísabet

Þessi litli heimsveldisblettur.... hm, já mig vantar að smyrja heilann á mér, með smjöri kannski eða hita hann í eldi, ég er einmana, viðkvæm, sterk, og langar tilað hafa átta hendur sem allar snerta aðrar átta hendur, ég er feimin, skyldi einhver lesa þetta, læknirinn minn sagði ég fyndi öryggi í hættuástandi en óöryggi í hinu, sem er núna, hættuástandi hefur verið aflétt, Elísabet vilt þú kannski fara gera þig skiljanlega, já ókei, ég er tómarúmi, spennufalli eftir frumsýningu, mjög hamingjusöm, bara feimin að segja frá því, puttarnir voru settir á mig aftur. Guð gerði það.

13 maí 2008

Ein manneskja stóð upp í myrkrinu og svo allir

Frumsýningin á Mundu töfrana var falleg... eitthvað réði ríkjum sem tók alla inní heiminn á sviðinu, ég var bara svo snortin, leikararnir voru svo góðir.... og yndislegir og magnaðir. Svo var klappað, ein manneskja stóð upp, vá hún er hugrökk, hún stóð þarna heila eilífð, svo stóðu allir upp, mínar villtustu vonir....

uppgötvaði svo í gær ég þarf að gæta mín. Einsog Mánadís sagði: Gættu þín.

08 maí 2008

Hrifning...

Hverju ég hrífst af í fari karlmanna:

1. Frosin rómantík
2. Ævintýramennska
3. Eitthvað villt

Svo er voða skemmtilegt ef þeir geta leikið.

Og eldað mat, kósí.

ps. Það er ekkert að marka mig þessa daga, dómgreindin er farin, ég hélt eitt andartak í morgun að fuglasöngurinn væri skilaboð utan úr geimnum. Svo fór ég og vaskaði upp. En þetta var soldið sjokkerandi. Left the earth for a moment...

... og hvar er fallhlífin mín. Oj, ég held að fallhlífar séu ruddaskapur nema í hernaði, geta komið sér vel, en ég er að hætt að vera blá, ég ætla vera grá.

07 maí 2008

Hamhleypa og krútthleypa

Sko allir eiga að elska mig og krúttast í mér því ég er að fara frumsýna og á voðalega bágt,

Mundu töfrana, 10. 13. 16. maí. í Kassanum, Þjóðleikhúsinu.

Komið endilega...

mig vantar einkabílstjóra, þjón, einkarita, tölvufræðing, saumakonu, nuddara, sjómann, tertu, gullgullgulleitthvað, gullfoss bara, og ég er krútt, búin að fá smá leið á krútt og knús, ég er ekki með raunveruleikaskynið í lagi fyrst ég er að blogga,

en þeir síðustu sem ég hef sofið hjá eru eftirtaldir.... æ nú man ég það ekki.

En það kemur. Það kemur allt og sumt fer...

lífið er svo dásamlegt, takk guð.

04 maí 2008

Mundu töfrana 10.maí

Nú þegar vornóttin er að leggjast yfir hjörtu vor einsog gegnsæ slæða og gerir okkur svo þakklát og bljúg, svo tindrandi viðkvæm blóm, eitt vor enn, þvílík titrandi dýrð, þá verður frumsýnt eitt lítið leikrit eftir mig, næsta laugardag kl. 22 um kvöldið. Og svo verða tvær aðrar sýningar, amk. 16. maí. Já Mundu töfrana, mundu töfrana.

Leikritið er um konu sem lifir í ævintýraheimi og þegar raunveruleikinn bankar uppá (ef hann er ekki orðinn leiður á því) býður hún honum inní ævintýraheiminn. Og lætur þá slást... ha ha ha. Djók. Reynir að koma þeim í hjónaband. Svo getur hún verið í kremjunni, hvar er næsta kremja, hvar er þilið milli ímyndunar og raunveruleiks. Og er til einn raunveruleiki eða margir. Hættu Elísabet!!!! Hvar er limmósínan þín og hvar er appelsínan þín.

En persónur og leikendur eru: (Þetta verður leiklestur sem er æðsta form leiksýninga)

Töfrakonan. Þorbjörg
Ella. Lilja Nótt.
Bróðirinn. Walter.
Græni maðurinn. Stefán Benedikt.
Tárið. Hannes Óli.
Hollywoodleikari. Andrew Keane.
Barnið. Vigdís.
Ballerína. Vigdís Eva.

Svo getur vel verið að ég hoppi inní... ef snúsnúbandið verkast þannig. Nei, best að sitja í salnum, ég er búin að vera svo mikið á sviðinu í skólanum að ég er búin reyna vera troða mér inní sýninguna en gengur ekkert, hugsa ég fari bara í Bláa Lónið á meðan.

Jæja ég er að bulla mig útí móa og verð að hugsa um gula birni tilað fá orku. En það virkaði.

Töfragarðurinn?
Töfragarðurinn?
Þetta er hún.
Hún?
Já hún.

Erum við inní henni.
Nei, hún á eftir að ná okkur.
Hún er svo veik.
En hún er falleg.
Já, hún er svo falleg.

Ástin er veik.
Já.
Við verðum að vera góð.
Hversu góð.
Mjög góð.

En ef hún er svona veik?
Þá leggjum við hana í rúmið.
Látum hana kúra á milli okkar.
Þá hlýnar henni.
Og allt verður gott.

Við skulum vera þar alltaf.
Alltaf?
Já alltaf.
Og hvernig er alltaf.
Hjá henni.

En ef okkur langar burt.
Okkur langar ekki burt.
Af því þetta er hún?
Eigum við að setjast.
Já, þetta er fínt.

Sjáðu augun í henni.
Þau eru slokknuð.
En þau er falleg.
Það gæti kviknað á þeim.
Það gæti gert það.

Hvert er hún að fara?
Inní örvæntinguna.
Örvæntingin er falleg.
Örvæntingin?
Örvæntingin já.

Vorið

Sauðburðurinn er að byrja, árnar að vaxa og fíflarnir stinga upp kollinum.

01 maí 2008

Hellisbúarnir

Einu sinni var kona og það gistu stundum hjá henni hellisbúar í nokkra daga svo hún lánaði þeim lykil. En það var einsog við manninn mælt, þeir gleymdu alltaf að skila lyklinum.

Samskipti tveggja kvenna

Kona kom til konu og konan lánaði henni svefnherbergið sitt og konunni fannst það soldið túmöts og spurði hvort hún væri viss og konan sagðist vera viss og sagðist bara st0ppa í viku og svo lánaði konan konunni internetið sitt og vini sína og bíltúr útá land að skoða eldfjöllin og konan þurfti ekkert að borga og svo tók konan þetta allt saman af henni aftur og flaug burt og brotlenti inní tölvunni sinni en þar hafði hún verið að skrifa eitthvað allt annað en það sem var í gangi á heimilinu sem konan hafði lánað og sama dag flaug konan burt af landinu sem hún hafði lánað og sagðist ekki vera viss um að hún myndi gista aftur á þessu hóteli.

Dyrnar

Einu sinni var kona sem sagðist mundu henda annarri konu út ef hún skúraði ekki herbergið. Konan fór þá og skúraði herbergið og virðist ekki hafa áttað sig á því að það voru engar dyr hjá konunni.

Gestabókin

Í mínum augum hafa gestabækur alltaf verið mystískar, frá því ég var lítill krakki, llt skrásett, allt handskrifað, takmarkaðar upplýsingar og þó, sumir reyna að skilja eitthvað eftir sig, sumir skrifa stórt, aðrir lítið, sumir gleyma að skrifa í gestabókina. Ég eignaðist fyrstu gestabókina mína í fimmtugsafmælinu, ....þvílík gersemi.

ps. Þeir sem gleymdu að skrifa í gestabókina geta gengið að henni á píanóinu.

Afmælið mitt

Afmælið mitt var einsog í kirkju, allir svo glaðir, prúðbúnir og eitthvað heilagir, enda ég í hvítum kjól af Elísabetu ömmu minni, hann var hvítur með silfursprungum, ég setti líka upp giftingarhringinn hennar sem ég hafði geymt í bankahólfi, af því hann var svo dýrmætur og passaði heldur ekki á mig, alltof lítill, en viti menn einsog afi Kristjón sagði, hringurinn passaði á afmælisdaginn.

Og ég ætlaði að giftast þeim sem hefði beðið mín, og var með skipstjóra á staðnum en skipstjórann mega gefa saman ef giftingarandinn hleypur yfir fólk, en ég er að fatta það núna að ég hefði alveg getað beðið hans, ekki lengur, en beðið hans á staðnum, en kannski eru för eftir hné mín einmitt þar ef grannt er skoðað og strokið yfir gólfið.

dauðir hanskar

hendurnar á mér eru einsog dauðir hanskar eftir vinnu undanfarinna daga, og mig vantar að geta lagt þær yfir mig og "dáið" smástund, áðuren ég held áfram.

ps. mig vantar einhvern tilað þýða leikrit yfirá ensku, 30 bls.

Skipt um nafn

Ef maður lifir í helli þá getur verið mjög gott að skipta um nafn á hellinum og kalla hann þunglyndi.

En maður heldur að skáldskapurinn reddi öllu og segir: Ó, ég bý í helli. Bara enn eitt trixið tilað gera mann heimilislausan á jörðinni.

Gestakomur

Í dag kom þriðji gesturinn, hann einsog þeir fyrri reyndi að breyta heimili mínu í hellinn sinn, en þegar honum tókst ekki að stjórna hér öllu var hann á bak og burt. Ég nottla vissi ekki að til væru hellismenn, síðasti gesturinn er reyndar kona, hellisfólk og er soldið núna að reyna átta mig á því afhverju á þessum tímum sé til hellisfólk, það lifir auðvitað allt í okkur, en það er sama, það verður að átta sig á þessu, líka afhverju ég vil hafa hellisfólk fyrir guði, - ef það vegna þess að það hangir á löppunum einsog blóðsugur, einsog Óðinn, var Óðinn ekki alltaf í gestalíki, en ég er bæði með gesti fyrir guði, eitthver sem kemur að utan og bjargar lífi þínu, eða blóðsugur fyrir guði því mín trúarbrögð ganga útá að það eigi að sjúga úr mér blóðið, eða þeas. það eru mín gömlu trúarbrögð og þau dúkkuðu alltíeinu upp og nú er ég alveg hætt að skilja hvað ég meina, en einhver sem sýgur úr mér orkuna, afhverju er hann guð. Ég er reyndar hætt að hugsa, ég komst á botninn í analísu, og analísa ekki meir og held alltaf að ég sé að verða bráðkvödd, það er birtingarmynd kvíða, einmitt, birtingarmynd guðs er blóðsuga í helli, og ég hef verið að hugsa um ljósið, ljósið, ljósið. En ég er bara svona meðvirk, að vera meðvirkur er að afhenda líf sitt öðrum, en ég er svona meðvirk, þetta er sjúkdómur, en ekki ég, ég þyrfti að komast á fund, ég komst ekki á fund í gær, ég fór að Gullfossi, með gestinum auðvitað, það þarf að sýna öllum gestum Gullfoss og láta þá taka með sér orku heim, og vita hvar maður vill hafa þá.