28 maí 2008

Reið útí hvað.

Konan var svona reið. Reið útí lífið. Hún var reið útí karlmenn, útí börn, útí guð, út sóleyjar og túnfífla, útí bíla, útí ský, útí farsíma og sms, útí hringingar, útí útidyrahurðir, útí fingur, útí hringja, útí snertingu, útí hitt og þetta, útí hamagang, útí þögn og kyrrð, útí sjálfa sig, já hún var svona reið útí sjálfa sig en þóttist vera reið útí allt annað.

En afhverju var hún svona reið útí sjálfa sig, fyrir hvað hún var ljót og sein á fætur, hvað hún átti fáa vini, hvað hún átta marga vini, hvernig veðrið var, hvernig hún var í laginu, hvernig hún var ekki í laginu, að hún var ekki búin að öllu, að hún hafði ekkert gert, að hún bað ekki bænir á hverjum morgni, að hún eldaði ekki hafragraut, að hún bauð ekki öllum í læri alltaf. Hún var reið útí sig fyrir allt.

Hvernig stóð á því. Af því hún vildi að reiðin ætti garð þarsem reiðin fengi að vaxa og konan var þessi garður fyrir reiðina.

Hvað hafði reiðin gert fyrir konuna sem enginn hafði gert?

Engin ummæli: