26 nóvember 2008

Tían átti töfraleik

*

Númer tíu átti töfraleik
tæklaði þetta sjálfur
Þurfti ekkert þykjustumeik
þruman var hann sjálfur.

*

Þetta er um Jökul í síðasta leik, hann tók leikinn í sínar hendur, sólaði þvílíkt, fór inní varnarvegg og útúr honum aftur, skaut á markið og annar nýtti sér frákastið, það var jöfnunarmark og í framlengingu varð mark úr aukaspyrnu sem Jökull tók.

Tólfsporagarðurinn

Síðasta sunnudag fór ég á AA-fund á meðferðarstöð, meðferðin er byggð á Hazelden sem þykir mjög fín. Í kring er garður, tólfsporagarður, maður getur gengið sporin, farið inná litla reiti, sest á bekk og lesið á skilti ýmis spakmæli og það sem viðkemur hverju spori.

Þarna í garðnum hafði guð skrifað á lítið skilti sem stóð uppúr moldinni:

WORRYING IS A LACK OF FAITH.

Elstu fjöll í heimi

Elstu fjöll í heimi finnast í Norður-Karólínu, Smokey Mountains. Cherokee Indíanar bjuggu í fjöllunum en voru neyddir til að ganga alla leið til Ohio á verndarsvæði. Ferðin tók margar vikur og er kölluð:

The trail of tears.

En það hlýtur að búa andi í fjöllunum sem gaman væri að láta segja sér eitthvað.

22 nóvember 2008

Kveðskapur Ellu Stínu

Dúkana þeir lögðu létt
lögðu þá á borðið
Spartans spilaði ansi þétt
Spartans hafði orðið.

*

Dúkarnir eru liðið Duke sem Spartans (lið Jökuls) lagði að velli í gær í spennandi leik, 2-0

Fréttir frá Karólínu

Jökull og félag hans Spartans eru komnir í 32 liða úrslit yfir öll Bandaríkin. Það var svo kalt á vellinum að ég varð að dansa... og hrópa Common Blue Get Trough... það rímar sko. Ég er orðin lukkudýr hérna, það er eiginlega forsíðufrétt

ELLA STÍNA LUKKUDÝR......:)

Ég veit bara ekki alveg hvernig lukkudýr, sennilega einsog ég er, frábær og allt það, og meira frábær, en allir foreldrar eru búnir að hlaupa uppum hálsinn á mér og segja: You brought us luck, og meiraðsegja þjálfarinn sagði Jökli að við hefðum ekki tapað leik síðan ég kom. Ég er í rauninni snortin yfir þessu, lukkan er ekkert lamb að leika sér að, svo ég sagði bara thank you. Oh thank you. Nei, í alvöru þetta er fallegt og mér finnst það. Hélt bara að þetta kæmi aldrei fyrir mig, en það var einmitt það sem ég hugsaði þegar ég varð ólétt að tvíburunum.

Við Kristín keyrðum til Durham, Kristín er algjör ökuþór og ekur hér um Bandaríkin þver og endilöng einsog ekkert sé, framhjá risastórum trukkum, brjáluðum pallbílum, klikkuðum sportbílum, og svo ræðum við um lífið og tilveruna.

Og óskuðum okkur þegar við sáum stjörnuhrap.

Annars er ég komin með nokkur próf:

1. Ég er komin með próf á hundaól.
2. Ég er komin með próf á uppþvottavélina... næstum því.
3. Ég er ekki komin með próf á sjónvarpið eða videóið.
4. Ég er komin með próf á innkaupakerru í Wal Mart.
5. Ég er komin með próf á hliðin sem þarf að loka á fótboltaavellinum svo hundarnir sleppi ekki út þegar þeir eru að hlaupa um.
6. Ég er komin með próf á pepsidósina.

Og ég get farið út með ruslið og sagt við manninn sem býr í ruslagámnum: Enjoy, þegar hann segir: This is too much.

18 nóvember 2008

Ellu Stínu kveðskapur

Ofdekruð í Amerík
af öllum þar og einni tík
fær að vera sjónvarpsfrík
og fíla sig í pepsi-klík.

*

13 nóvember 2008

Zizou

Hún er merkilegur hundur, stundum horfir hún í augun á mér, svo syngur hún, ég fékk tár í augun þegar ég heyrði hana syngja, þetta var svo mögnuð tjáning, hún hefur óþrjótandi áhuga á íkornum og skilur ekki afhverju þeir dansa ekki fyrir framan hana, svo er hún mjög gáfuð, hún tildæmis sest niður við umferðargötu og bíður eftir að Jökull og Kristín gefi henni grænt ljós. Uppáhaldsstóllinn hennar er Lazy-boy sem ég kalla núna Husky-boy, þar situr hún með mjög heimspekilegan svip. Stundum situr hún úti á svölum í djúpri hugleiðslu, í yogastellingu og hugleiðir á trén sem hvísla að henni leyndarmálum úr universinu.

Hússtjórn og hundarækt

Ég er búin að læra að búa til Tortillas og Lasagna, og svo hef ég fengið að halda í ólina hennar Ziz ou. Svona er lífið stundum öðruvísi en maður ætlar, maður fer í aðra heimsálfu tilað skrifa ævisögu sína en þá bara bætist við ævisöguna.

11 nóvember 2008

Mark aldarinnar!!!!

Jökull skoraði mark af 50-60 metra færi í síðasta leik, það var glæsilegt, boltinn sveif yfir hálfan hnöttinn og festist í netinu. Boltinn ætlaði aldrei að hætta að svífa, hann sveif og sveif og sveif... og endaði í markinu. Og þetta er töframark, það endurtekur sig í huganum, og festist í neti hugans, það var sól og stormur, og ég, Kristín og Zizou sátum réttumegin.... Vívívívívíííííííííí...

04 nóvember 2008

Neikvæðar hugsanir

Jæja, þá má maður hugsa neikvæðar hugsanir og vera reiður, reiði er líffræðilegt viðbragð við ógnun, .... þetta kemur útúr kreppunni, nú sé ég skýringuna á því afhverju ég gagnrýndi ekki allar sósurnar, í góðærinu mátti ekki vera reiður eða hugsa neikvætt um sósur, þá er ég að tala um þrjúhundruð sósur í hillu eftir hillu, þöglar biðraðir, einmitt þöglar biðraðir, það var aldrei neitt gaman á kassanum, ekki nema þegar ég skemmtilega og frumlega kom með appelsínuna mína og sagði sigrihrósandi við kassadömuna, SJÁÐU APPELSÍNUNA MÍNA, og benti svo allri biðröðinni á þessa stórkostlegu appelsínu, en nei nei, í staðinn tróðust allir, maður fékk ekki frið tilað setja í pokann sinn, borga með peningunum sem maður hafði eytt lífsorkunni sinni í að búa til, nei alltaf að flýta sér, sósurnar og kexið... áfram gakk, búðir undanfarið hafa ekki verið neitt annað en útrýmingarbúðir, ég er verulega pirruð yfir því, ég veit þetta er neikvæð hugsun, ég ætla ekki að dvelja þar lengi, BURTU MEÐ SÓSURNAR.

03 nóvember 2008

Til Ameríku!!!!

Ég er búin að lakka táneglurnar... fjólubláar, pakka oní risatösku, kaupa hangikjöt, þrífa eldhúsið fyrir leigjandann, og koma öllu haganlega fyrir í mínu herbergi, og ég var ALEIN heima í kvöld að elda hafragraut og þarf að fara með bílinn í smurningu á morgun, og hvað hvað meira, kaupa gjaldeyri ha ha ha ha ahahahahahahhahahahahah... svo hvað, já hverju gleymi ég, engu, ég ætla nefnilega að chilla í Ameríku hjá Kristínu og Jökli og Zizou....!!!!! Hundinum þeirra, úlfinum með bláu augun, ég er mjög spennt að vita hvar Zizou setur mig í goggunarröðuna, ... hvort ég fæ að fara út að labba með henni og sjá hana grafa holu, þessar holur eru mjög spennandi, og hvað fleira, ó já svo verð ég að kveðja Emblu Karen og Garp og Ingunni, Embla Karen fær loksins bláa trefilinn sem ég prjónaði á Írlandi-Íslandi, þetta er töfratrefill, það er svo mikið af róandi hugsunum í honum, og já eftir að pakka tannburstanum, en þetta er svona algjört rólegt kvöld, af því að vitið þið hvað!!!!!!!!!!!!!!

ÉG FÉKK BOÐSKORT FRÁ AMERÍKU...

Frá skólanum hans Jökuls, um að vera viðstödd hátíðahöldin þegar hann útskrifast,... ég er búin að lesa það í bak og fyrir, graduation from University of North Carolina Greensboro.

01 nóvember 2008

Skemmtilegt

Ég var að spyrja geðlækninn minn hvort honum þætti vænt um mig, jú, svaraði hann. Þykir þér örugglega vænt um mig, ítrekaði ég. Já, sagði hann, þú ert svo skemmtileg. Þú gerir allt svo skemmtilegt. Þú gerir lífið skemmtilegra....

Elísabet... gerir lífið skemmtilegra!

En nú er ég að fara að sofa, ég sef mjög skemmtilega.

Vindurinn Ella Stína

Vindinn, já og svo á ég vindinn, sem stundum blæs blíðlega og stundum varla stætt, vindurinn sem æðir áfram, og vindurinn sem strýkur vanga minn ljúflega, hlýr vindur, kaldur vindur, allskonar vindur og ég get verið einsog vindurinn

Hvað á ég? Listi...yfir það sem ég hef...

1. Hugarró
2. Fallegur sjór
3. Kristalsljósakróna í huganum
4. Hvíta gardínan
5. Hek
lu
6. Eldavél, ein hellan biluð, ég á eina bilaða hellu
7. Réttlætiskennd
8. Yndisleik
9. Kímnigáfu
10. Hús sem er töfrahús við hafið
11. Hús með sögu
12. Hendur og fingur, tíu alls
13. Þögn
14. Te, var að fá mér
15. Haframjöl, engifer, mjólk
16. Gleraugu
17. Fegurð
18. Neglur á tám og fingrum
19. Fjólublátt mjúkt efni
20. Undrun
21. Sætleika
22. Kvenleika
23. Hetjulund
24. Trúðlæti
25. Þrjár hurðir
26. Tvo sófa
27. Rauða tösku, fyrsta taskan mín or so to say.
28. Sköpunargáfu
29. Skauta, held ég alveg örugglega
30. Skautasvell, bráðum

Og mig dreymir á nóttunni

Hið dulda samhengi

Íslenska þingið fær aldrei að fjalla um neitt, ekki Íraksstríðið og ekki ýmislegt, og ekki lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en þingið í Úkraínu er að fjalla um sitt, hér er allt ákveðið bak við tjöldin enda ekki skrítið að íslenska landsliðið í fótbolta getur ekki neitt.

Ella Stína talar um góðærið

já, hér er ég í búðinni og það eru þrjúhundruð sósur og sjöhundruð kexpakkar, og trilljón kryddstaukar, og tvöhundruð tegundir af þistilhjörtum, og allt þetta gos, og allt þetta gos og allar þessar sápur, mikið er ég hamingjusöm, og allt þetta nammi, gos, djús, sviðasulta, álegg, sjöhundruð tegundir af kexi og allt þetta kaffi, sósur og súpur, og heill rekki af klósettpappír, og allir þessir ávextir, allt með rotvarnarefnum nema smá lífrænt og krumpað og betra, og þrjúhundruð sósur, þrjúhundruð sósur, þrjúhundruð sósur, ég ætla halda fund á austurvelli og segja frá því að það séu til þrjúhundruð sósur í búðinni.

Hm?

Afhverju þarf að tala svona mikið um kreppuna, það var aldrei talað neitt um góðærið.

Auðmennina heim!!!!

Einu sinni vildum við fá handritin heim. Við fengum þau heim, við stóðum tárvot á hafnarbakkanum tilað taka á móti þessum sundurnöguðu skinnum. En nú er annað brýnna, enda hitt í höfn, og það er "auðmennina heim" svo við getum aftur staðið tárvot á hafnarbakkanum, það hafa verið uppi kröfur um þetta en aðeins einn gefið sig fram, Hannes Smára búinn að lýsa því yfir að of geyst hafi verið farið í útrásinni og hann ætli að brjóta sparibaukinn sinn ef það mætti verða til þess að hjálpa einhverjum. Mér fannst þetta nú soldið flott hjá honum, bera vott um hugrekki, en það hefur enginn sýnt honum áhuga, ekki minnsti vottur, smá klausa á visir punktur is. Og ekki meir. Svo kannski hefur átt að vera svona, auðmennina heim - nema hannes.