30 júlí 2007

My Secret

I must take care of things.

If I am sick I cant take care of things. So the only way for me stop taking care of things is being sick.

If I throw things away I am not taking care of them and not keeping the secret.
Secrets are like that. You should keep them. I have started to tell my secret.


*

To keep a secret it is neccessary to build walls and doors. So nobody can find the secret, only the doors and walls. This last thing I learned from a book called: Women who run with wolves. By Clarissa Éstés.

29 júlí 2007

Sóleyjarvöndurinn

LILJA: Þetta byrjaði með því að hún fékk mynd af honum í pósti.

HERDÍS: Mynd af honum í pósti?

LILJA: Já, hún fékk mynd af honum í pósti. Hún sagðist hafa hent fyrstu myndinni, rétt litið á hana, samt var þetta skýr mynd, svo liðu einhverjir mánuðir, þá fóru þær að berast vikulega, oft margar í einu. Hún henti þeim öllum, þangað til hún hengdi eina þeirra uppá vegg.

HERDÍS: Uppá vegg?

LILJA: Svo sat hún og horfði á myndina.

HERDÍS: Og hvað.

LILJA: Svo hengdi hún allar myndirnar upp. Hún fór ekki útúr húsi. Sat bara og horfði á myndirnar, loks var hún búin að veggfóðra með honum.

HERDÍS: Var þetta einhver sem hún þekkti.

LILJA: Nei, þetta var ókunnugur maður. En eftir því sem hún horfði lengur á hann fannst henni hún kannast eitthvað við hann.

HERDÍS: Vissi hún hver sendi henni myndirnar.

LILJA: Hún hélt kannski að hann hefði gert það.

HERDÍS: Hann hver?

LILJA: Þessi á myndunum.

HERDÍS: Hver var þetta?

LILJA: Hún þekkti hann ekki.

HERDÍS: Fannst henni þetta í lagi.

LILJA: Hún hafði áhuga á honum.

HERDÍS: Áhuga?

LILJA: Er þetta ekki soldið einsog áhugamál.

HERDÍS: Þetta er ekkert áhugamál.

LILJA: Áhugi hennar beindist allur að honum. Hún hafði ekki áhuga á neinu nema honum.

HERDÍS: Kallarðu þetta áhuga?

LILJA: Hvað er hægt að kalla þetta.

HERDÍS: Má ekki segja að þessi áhugi hafi farið úr böndunum.

LILJA: Hún gat ekki haft augun af honum.

HERDÍS: Þú talaðir við hana.

LILJA: Hún gat ekki talað um annað en hann.

HERDÍS: Gastu ekki komið vitinu fyrir hana.

LILJA: Hún sagði mér alla söguna.

HERDÍS: Jæja.

LILJA: Hvort hún ætti að segja honum að hún elskaði hann.

HERDÍS: Elskaði hann!

LILJA: Já.

HERDÍS: Hún þekkti hann ekkert.

LILJA: Henni fannst hún vera farin að þekkja hann.

HERDÍS: Og hvað sagðir þú.

LILJA: Ég spurði hvort hún vildi ekki reyna að sleppa takinu af honum. Hún sagðist margoft hafa reynt það. Áðuren en hún vissi af var hún aftur farin að horfa á myndirnar. Hún hefði hent þeim en það bærust alltaf fleiri myndir.

HERDÍS: Þetta er ekki í lagi.

LILJA: Ég veit það ekki. Ég spurði hvort hún gæti ekki lagt þetta í hendurnar á æðri mætti. Hún sagðist margoft hafa reynt það, stundum oft á dag.

HERDÍS: Ha?

LILJA: Svo sagðist hún hafa prófað þakklætið.

HERDÍS: Hvaða þakklæti.

LILJA: Að vera þakklát fyrir myndirnar. Þakklát fyrir þetta allt.

HERDÍS: Ekki batnar það.

LILJA: Hún fékk ljóð frá barnabarninu sínu, þrettán ára stúlku, sem byrjaði svona: Ég er skotin í strák, ég er því mjög þakklát. Hún sagðist verða að komast út. Það virkaði ekki að sleppa takinu eða biðja æðri mátt, svo hún ákvað að vera bara þakklát.

HERDÍS: Fyrir að sitja inni alla daga og horfa á myndir af ókunngum manni.

LILJA: Hún elskaði hann.

HERDÍS: Jájá.

LILJA: Okei, nema svo varð hún þakklát og þá þorði hún út. Hún opnaði dyrnar og sá sóleyjar við þröskuldinn, hún týndi sóleyjarnar saman í vönd. Og setti þær í vasa á borðið inní húsinu. Þegar hún sá sóleyjarvöndinn áttaði hún sig á því að þetta var einmanaleikinn, að hún væri svona einmana.

HERDÍS: Einmana!?

LILJA: Já, einmana.

HERDÍS: Var hún þá ekki ástfangin.

LILJA: Ég veit það ekki.

HERDÍS: Bara einmana.

LILJA: Það er nú það.

HERDÍS: Hver sendi henni myndirnar.

LILJA: Ég held að hann hafi sent henni myndirnar.

HERDÍS: Afhverju ætti hann að hafa gert það?

LILJA: Hann hefur kannski verið orðinn svona leiður á sjálfum sér.


*

28 júlí 2007

Ella Stína vill fá smá frið

takk, hún er að raða bókum í bókaskápinn sinn, svo ætlar hún að skrifa þær. Það er sól og hún er svona mikill stærðfræðingur. Og blóm.

27 júlí 2007

Barnabörnin

Barnabörnin, ömmutvíburastelpurnar mínar, eru búnar að rústa lífi mínu, það stendur ekki steinn yfir steini, og það á einum degi.

Það getur þó hugsast að líf mitt hafi verið rúst, og þær hafi komið því aftur á réttan kjöl.


Maður veit ekki alltaf hvað snýr upp og niður.

*

En þetta er einsog í þráhyggjunni, í þráhyggjunni er allt á sínum stað og það má ekki hreyfa neitt einsog á Þjóðminjasafninu. Þráhyggjan kemur af því eitthvað er bælt. Trúið þið á bælinguna. Mátt bælingarinnar. Það er sem er bælt leitar út. Já já. En það getur semsagt verið að líf mitt hafi verið ein þráhyggja, - eitthvað hafi verið bælt semsagt - og nú hafi ömmubörnin rústað því, rústað þráhyggjunni, lífi mínu, þarsem allt var á sínum stað.

En það eru komin blóm í öll glös í húsinu, baldursbrár sem þær hafa tínt.

26 júlí 2007

Jóhanna segir þetta

Mér þykir vænt um ömmu mína, hún er rithöfundur og ég fer alltaf í sund með henni og hún kaupir ís fyrir mig. Ég gaf henni gjöf í gær og hún var mjög ánægð með gjöfina, það eru tveir putta-hvolpar. Sem hún getur notað í leikhúsið sitt. Ég elska ömmu mína og þetta er Jóhanna ömmustelpan hennar,

bless, Jóhanna.

Alexía segir þetta

Hæ allir saman,

ég er komin til Íslands, ég kom til Íslands í gær og ég lenti klukkan eitt og ég er hjá ömmu Elísabetu og hún var í sjónvarpinu, það er gaman hér á Íslandi, ég er fara í ferðalag með afa mínum, og sund með Elísabetu og Jóhönnu systur minni, ég er með brúnt hár og blá augu og get gert fullt af íþróttum og ég get labbað í brú, og ég á fullt af peningum.

Bless, Alexía

Jökull bjargaði á línu

Jökull er uppáhaldsfótboltamaðurinn minn, fyrir utan leikni og tækni, þá hefur hann svo mikla fegurð og stíl og eitthvað persónulegt.

Jökull er númer tíu hjá Víkingi. Víkingur vann í gær, loksins. Jökull bjargaði á línu.


*

Jökull er galdramaður á vellinum. Draumgaldramaður. Draumgaldur er sérstakt fyrirbrigði og ég veit ekki neinn sem hefur vald á því nema hann.


*

Jökull Elísabetarson nr. 10

25 júlí 2007

One of my many theories

If I am stuck, I am safe.



*

23 júlí 2007

14 ár og níu mánuðir

Mér skilst bloggið mitt sé svo fullkomið að það sé ekki hægt að kommenta. Ég ætti kannski að kommenta sjálf. Ha ha ha. Annars var ég í þunglyndi í dag, svo lét ég einsog vitleysingur og mæli með því að láta einsog vitleysingur, svo fór ég í sund og læknaðist af þunglyndinu.

*

Á edrúafmæli í dag: 14 ár og níu mánuðir.



*

Whats his name again

Það er alltaf gott í sjóinn í hausnum á mér nema þegar ég hugsa um karlmenn whats his name again þá gerir brjálað veður, þrumur og eldingar, mannskaðaveður, whats his name again, ég veit ekki útaf hverju þetta er, sennilega eitthvað úr fyrri lífum, whats his name again.

22 júlí 2007

Bókasafn Elísabetar

Ég labbaði í huganum útí Flatey og staðnæmdist mér til mikillar undrunar hjá bókasafninu og svo heyrði í fuglum. Ég nenni ekki lengur neinu veseni. En ég bjóst við að finna nýju bókina mína á bókasafninu í Flatey, stendur yst í götunni, pínulítið hús, örugglega eitt minnsta bókasafn á landinu, en ég fann hana ekki og það var alltílagi. Ég settist fyrir utan og hlustaði á fuglana og horfði á sjóinn. Ég les aldrei bækur en ég elska bækur og bókasöfn. Ég hef komið í bókasafn í Ungverjaland sem var einsog klaustur, heilagur staður, bækur eru erótískar í eðli sínu, leyndardómsfullar, lokaðar, það verður að opna þær, fletta blaðsíðunum, nota fingurgómana viðkvæmustu staði líkamans, lesa orðin sem snerta við einhverju í sál manns.

*

Ég ætla prófa fara aðra ferð og vita hvort ég finn bókina sem ég er að skrifa.

21 júlí 2007

Eitthvað nýtt er að byrja.

Húmar að kveldi, dásamlegt.

Ég ætla bara segja hvað ég sé dásamleg áðuren ég fer að sofa, ég er svo dásamleg, og lífið er svo dásamlegt að það þarf ekki nema rétt að kíkja og þá sér maður það, og stundum þarf ekkert að kíkja, stundum blasir það við, og ég er að skrifa sögu sem kemur útí haust og var að vinna eftir ströngu plani sem fór allt fjandans til í dag. Þá hjálpaði það mér að ég bakaði köku í gær, kakan varð að vera tvo tíma í ofninum. Sagan mín er búin að vera allan daginn í ofninum, svona svipað og þegar ég bakaði rúgbrauð allan daginn 17 ára gömul norður á Ströndum á olíueldavélinni, þrumari, sagan mín verður semsagt þrumari. Já svona er lífið dásamlegt og líka fótbolti.

Jökull og Kristín komu í heimsókn í dag og bara þegar ég hugsaði um það varð lífið enn dásamlegra. Hugsa sér, þau sátu hér við eldhúsborðið. Eldhúsborðið er dásamlegt, það á sér langa sögu og ég elska sögur, það háir mér stundum, einsog með sófann minn sem á sér sögu, Einar Ben. lá í honum og sófinn er þannig að það þarf að klæða hann gulláklæði. Afi og amma áttu eldhúsborðið. Þegar maður segir sögu þarf maður bara að gera deigið, setja það í lítinn pott, setja litla pottinn í enn stærri pott og passa svo að það sé nóg vatn. Og ekki gleyma að kynda vélina á svipuðum hita allan daginn. Svo er bara alltíeinu komin bók. Dásamlegt.

Svo hugsar maður bara um hvað lífið sé dásamlegt og allt.


*

Annars er stefnan að vera með stand-up-comidian um mín karlamál. Ég veit um einn sem ætlar að kaupa sig inn. Dásamlegt.

20 júlí 2007

Dans í lokuðu herbergi

Fyrsta ljóðabókin mín hét Dans í lokuðu herbergi. Kom út 1989. Ég sé það soldið í öðru ljósi þegar allt þetta "dans í lokuðu rými" stendur yfir. Rými er reyndar orð sem þoli ekki. En hvað fór eiginlega fram í:

DANS Í LOKUÐU HERBERGI

Dyrnar á milli innri og ytri heims

Ekki gleyma hvar innri heimurinn sést. Í ytri heiminum. Your secret life and everything, það sést, þráhyggjurnar, hræðslurnar, þögnin, ruglið, þetta dásamlega, þetta litla og undursamlega, þetta brothætta, já allt sést það í ytri heiminum.

Svo hvernig væri að skrásetja núna, ekki heimsbyggðina en heimili sitt.

*

Þú átt ekki lengur neitt innra líf. Það sést allt. Eina sem þú getur gert er að fela þitt ytra líf.


*

Sweet baby. Dont forget the doors.

Undursamlegt miðnæturboð

Ég var með miðnæturboð í kvöld. Það er farið að dimma, skrítið og ég án þess að gista ofaní eldgíg eina sumarnótt. Ég elska björtu næturnar svo mikið að ég gæti sprungið inní nóttina.

En ég bakaði yndislegan heimilisfrið, eina kakan sem ég kann að baka. Með döðlum og súkkulaði.

Og gerði ævintýralegt ávaxtasalat, fulla skál, stóru rósóttu skálina, Bláber, jarðarber, nektarínur...

Og flatkökur með spægipylsu, hangikjöti og graflaxi.

Te í töfrakatlinum,...

foreldrar hennar Ingunnar komu hér, mamma, Garpur, Ingunn, Jökull og Bassi. Það vantaði bara Kristínu. En Jökull lagði blessun sína yfir heimilisfriðinn. Ég hef orðið svo fræg að baka Heimilisfrið í Norður-Karólínu eftir sérstakri ósk, svo frá Ísafirði 1978 -

Yndislegt fólk og gaman að bjóða fólki heim, ég ætti kannski að gera meira af því. Ég er líka svo yndisleg, ekki gleyma því. Og mér þykir svo vænt um fólkið mitt. Ég sá meiraðsegja Garp spila fótboltaleik í kvöld.

Það eru einhverjir að tala saman úti...lífið er dásamlegt.

*

18 júlí 2007

Góða ferð Kristjón

Það er svo erfitt þegar Kristjón fer, nú var hann að fara til Spánar þarsem hann býr, ég vil hafa hann hjá mér, ekki hjá mér, af því hann er sonur minn og 32 ára en einhverstaðar þar sem ég veit af honum og get knúsað hann og heyrt röddina í honum og það er svo gaman að tala við hann og ég var heillengi að tala við dætur hans, barnabörnin í símanum í kvöld og þetta er svo yndsilegt fólk og ég elska þau svo mikið að ég fæ kökk í hálsinn og fer að skæla. Góða ferð Kristjón, ég elska þig.

Og alltaf þegar ég hitti hann verð ég mamma hans Kristjóns og það er alveg sérstakt einsog það er sérstakt að vera mamma hans Garps og mamma hans Jökuls, ég á svo mikinn fjársjóð í lífinu að ég er að hugsa um að fara sofa.

Og ef einhver heldur að ég viti ekki að þetta fólk sé orðið stórt er það ekki svoleiðis en það leitar alltaf meira og meira á mig að skrifa bók um hvernig er að vera mamma, the terrible mother, the sick mother, the elisabet mother, eða einsog Garpur sagði við mig einu sinni:

Mamma, takk fyrir að gera líf mitt að ævintýri.


*

Nú er ég alveg hágrátandi. Það er líka útaf því að Kristjón fór alltaf í burtu, hann fór til Bolungarvíkur og nú fer hann til Spánar og ég er einsog gamla kellingin í leikritinu hans pabba: Ég þoli ekki þegar fólk fer. Flight þetta og hitt. En svo þoli ég það alveg, þetta er lífið og ég þekki það, svo koma bara þessi móment, mmóment sem virka einsog hyldýpi í tímanum eða sem hnýta allt saman.

17 júlí 2007

Innri heimurinn - The inner world

Vitið þið hvar innri heimurinn sést?

*

Mikið rétt, í ytri heiminum...


*



Do you know where you can find the inner world? In the outer world.

*

Þáttaka í eigin lífi

Vilt þú taka þátt í eigin lífi?

Er hausinn á þér fullur af fólki sem þú veist ekki hvernig komst inn. Ert þú fjarverandi í eigin lífi af því þú ert í hausnum á einhverjum öðrum?

Elísabet kom í heimsókn

Ef þið viljið sjá brot af Heimsveldi Ellu Stínu ættuð þið að kíkja á eina skemmtilegustu bloggsíðu landsins hjá Betu Ronalds www.betaer.blog.is

Hún kom í heimsókn til mín í gær og fór um einsog stormsveipur enda var hún nýkomin frá ömmu sinni sem ræktar valmúa í stórum stíl og postulínsskó.

Það sýning á heimili mínu á bloggsíðu hennar. Og um Fatímusjóðinn hennar mömmu. Viti einhver ekki hver örlögin eru, þá eru þau mamma.

www.betaer.blog.is

16 júlí 2007

Ástaryfirlýsing

Mér þykir svo vænt um þessa stelpu eða konu með hausinn fullan af hugsunum.

*


Ástin lætur manni batna.

15 júlí 2007

Pínulítið um frið

Friður er tildæmis þegar ég ligg í sófanum og þótt gólfið sé óryksugað er það allt í lagi. Friður er þegar hlutirnir mega vera einsog þeir eru og ég þarf ekki að byrja stríð í höfðinu á mér þótt þeir séu einsog þeir eru.

Töfradrottningin sagði ég hefði svo mikla ró í mér. Þú hefur svo mikla ró, sagði hún. Þessi mikla ró breytist stundum í vélbyssuskothríð á lyklaborðinu en það er áfram ró, fullkomin leiðslukennd glaðvakandi ró.


*

Sveitaheimur Ellu Stínu

Sveitin er göldróttur heimur og sá heimur á auðveldara með að brotna upp og sameinast heldur en hennar innri heimur sem stöðugt brotnar upp og hún á enga gleym mér ei tilað líma hann saman.

Heimurinn er ekki stöðugur, hann er endalausir, litir, form, tónlist, hreyfing, lögmál, pláss sem fer hvað inní annað, brotnar upp og sameinast, tilað brotna aftur upp.

Hún er mjög lítil og er í þessum heimi.


*
Hún tekur eftir sóleyjum í þúfunum og gleyméreiunum sem eru með töframátt og geta límst við mann, svona ofurfíngerðar og gleym mér ei. Og fífunum í móunum sem afi hennar sýndi henni, margar saman í hálfgerðri mýri og hún elskar mýrina og labba berfætt og láta mýrina klístrast milli tánna á sér og stundum koma verulegar hættur, mýrarpollarnir, með rauðum lit úr jörðinni, svo eru fíflarnir, sem verður að tína og búa til vönd úr og knipsa blóminu af, og prófa að sjúga mjólkina úr og hún er svo römm en samt fíflamjólk, og skreyta drullukökur með fíflum og sóleyjum og afi hennar segir henni frá störinni sem fólk tíndi í gamla daga tilað setja góða lykt í fötin.
Hún tekur eftir þvi hvernig kýrnar sletta hölunum, hvernig klaufirnar fara á kaf í mýrina, hvernig júgrin eru sneisafull, hvernig augun í þeim eru, sorgmædd en hugsandi og líka blíðleg, hvernig fjallið fyrir ofan bæinn er og hrafnarnir í fjallinu, og á bak við fjallið eru útlönd og álfar í hamrinum og hún er lítil og stundum brotnar heimurinn upp tilað sameinast.

Þóra á afmæli í dag

Hún lengi lifi húrra húrra. Ég kynntist Þóru í Arabalöndunum, við sátum saman í rútunni og hlógum einsog brjálæðingar, sérstaklega yfir því sem var ekki fyndið. Þóra hún er sæt og góð og skemmtileg og góður vinur, hún gaf mér bók frá Íran og dró mig útí Gróttu í gærkvöldi.

Í afmælinu hennar í fyrra talaði ég um hláturinn hennar sem lendir í einu af topptíu sætunum yfir magnaðasta hlátur í heimi, já svo talaði ég um tárin. En ekki síst þann merkilega eiginleika okkar Þóru að geta breytt karlmönnum í töframenn, - og það fyrsta sem þeir gera er að láta okkur hverfa ha ha ha.

Til hamingju með afmælið Þóra knús.

HA HA HA.

14 júlí 2007

Barnið í kvöldsólinni

Einu sinni var barn og það var alltaf verið að setja eitthvað inní barnið þangað til það var orðið alveg úttroðið. Þá dó það næstum því en svo einhver labbandi í kvöldsólinni og hafði þekkt barnið fyrir löngu og bjargaði því.

Ég er saklaus

Ég er saklaus einn dag í einu og nenni ekki lengur þessari sekt, ég lýsi yfir sakleysi mínu.


*

Ég tala svo fallega með höndunum.


*

Örlögin eru eitthvað að ráðstafa mínum karlamálum en ég hef ekkert heyrt ennþá.


*

Mamma kemur alltaf með þetta, ég veit ég hljóma einsog sjö ára og það er sjö barn sem ég varðveiti inní mér einsog þessa 49 ára.


*

Ég vil bara fá að skrifa í friði. Vill einhver fara útí búð fyrir mig og færa mér kaffi að skrifborðinu, very nice.


*

Stundum þarf að hita upp, ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki fótboltann tilað sækja minn lærdóm til, hita upp, klára leikinn og ég veit ekki hvað og hvað.


*

Ég er full af ást og kærleika, áðan var ég full af pirringi og stressi, var að reyna finna sökudólg og allt hlyti að vera mér að kenna. En svo breyttist það svona og það er leyndarmál útafhverju, en það er útaf því að ég er farin að kunna á sjálfa mig, þetta er allt spurning um tilfærslu valds. Vald hefur rými og tíma. Skák er vald, rými og tími. Ást í fótinn.

13 júlí 2007

Elísabet beib

Ég var í sjónvarpinu í kvöld og er orðin BEIB. Fékk sms frá Þóru vinkonu minni og frá Kolbrá að ég væri rosaflott, og Guðmunda Elíasdóttir besta söngkona á Íslandi og söngkennarinn hringdi líka og sagði ég hefði verið svo falleg og já góð í að koma fyrir orði, takk fyrir skemmtunina, sagði hún. Gaman að vera beib. Ég er að bíða eftir fleirum svona beib-kommentum, ég var auðvitað í smínki frá hádegi, ha ha ha, en þeir sem vilja sjá mig í Kastljósi ásamt Illuga Gunnarssyni og Brynju tala um nornir, allabúð, glæpafélagið sem vill kaupa sér álversréttindi hér, nota bene þeir eru bendlaðir við blóðdemanta í Afríku. En ég verð að skrifa aðeins um meira um beibið mig, svona Famme Fatele hárgreiðslu, já ýtið bara á ruv.is

Ég stefni núna að því að verða megabeib.

En ég elska að vera í sjónvarpinu, helst í kappræðum og segja sögur af Zidane.

Elísabet Megabeib. ÉG ER ORÐIN ÞAAAAÐÐÐ!!!!!

Tókuðu eftir því hvernig þetta gerðist....oh.


ps. ég þorði samt ekki að fá mér vatnssopa, ég var skjálfhent, ég er svo mikið krútt, ég elska skjálfhentuna í mér, fæ mér næst stóran sopa. Gúlp!

12 júlí 2007

Ella Stína labbar hægt

Ella Stína labbaði mjög hægt í kvöld eftir sólarlagsbrautinni og þá sá hún margt mjög dásamlegt einsog æðarkollur og blika og skarfa og kríur og strá mörg saman einsog vöndur, mjög mörg saman sem bærðust þokkalega í vindinum, og baldursbrár og ekki köttinn sem hún sá síðast og ölduna falla að og skilningarvitin náðu þessu öllu í rólegheitunum því hún labbaði svona hægt og rólega og þá sá hún allskonar undur og stórmerki og eitthvað lítið og undursamlegt sem sést ekki venjulega. Og ég sakna svo barnabarnanna að það liggur beinast við að selflytja þau til landsins.

Ella Stína. Prella Prina.

Fucking with everybody

Once upon a time there was a man and he was fucking with everybody and so he got his name: The man who was fucking with everybody but nobody called his name so he never got his real name, so he lived in imaginare world and of course he was fucking with it.

To be continued.



Dedicated: To Eninem.

Hlekkurinn

Þegar ég varð fyrst amma 14.apríl 1997 varð ég fyrir andlegri reynslu.

*

Mér fannst ég gjörsamlega ómissandi og algerlega gagnslaus. Tindrandi mótsögn og ég uppgötvaði að þetta er tilfinning hlekksins.



*

Tengdadæturnar

Ég elska líka tengdadæturnar, af því ég nefndi börn og barnabörn, ég nefndi að vísu ekki syni mína, þeir eru ekki börn en ég hef rosalega gaman af börnum og næ alltaf sambandi, börn eru alltaf að segja mér eitthvað sem enginn annar segir mér og kannski verð ég fullkomlega ég gagnvart börnum, bók um það síðar, en þá nefni ég syni mína og tengdadæturnar, viljiði pæla í því, ÞRJÁR tengdadætur, þær koma skipinu alltaf á réttan kjöl og eru svo yndislega ungar og fallegar konur sem hægt er að tala um allt við, skóla, grænar baunir, fótbolta, nám, drauma, réttlæti, leiðir, ást, börn, peninga, og allt, - tengdadætur eru eitthvað það stórkostlegasta sem um getur, og ég segi bara takk stelpur. TAKK.


Þessvegna er Ella Stína kannski Ella Stína af því hún sér heiminn einsog barn. Ég er Ella Stína en samt er ég Elísabet. Þetta er ekki flókið. Og kannski þarf ekki að leggja niður Heimsveldi Ellu Stínu af því það er lokaða herbergið.


*

Klukk handa Elísabetu Ron.

Sko, ég þoli ekki klukk og allsekki keðjubréf, ég hendi þeim öllum, gives me the creep, en klukk handa Elísabetu er ókei, en spurningin með leyndarmálin, ég skal athuga það: Here it goes.

1. Ég get komið hlutunum í lag.

2. Ég er einbeitt og ákveðin.

3. Ég er með langar neglur í augnablikinu og alltaf að dáðst að þeim.

4. Ég er búin að gera gat í vegginn.

5. Ég er sæt.

6. Ég er vel vaxin.

7. Ég elska bækur, karlmenn, tísku, öræfin, kókakóla, bíla, augnablik sem verða til af sjálfu sér, hús, börn, barnabörn, axlir, fallegar raddir, guð.

8. Ég er snillingur í að verða undrandi.

11 júlí 2007

Ástin brýtur grindverk

Einu sinni var ég að lesa sögu úr Lúðrasveitinni um unglingsstelpu sem hafði skriðið inní sængurver útí kirkjugarði og svo hafði fiðrið þyrlast í myrkrinu einsog ástin og að ástin væri hlý, mjúk og kitlandi, og þá kom Jóhanna barnabarn stökkvandi uppum hálsinn á mér, fimm ára gömul og sagði: Ó amma, ertu að lesa um ástina, og Alexía tvíburasystir hennar bætti við eftir andartaksþögn: Já, ástin brýtur grindverk.

Gummi vinur minn

segir að hjartað í mér sé það heilagasta í mér.


*

Kristín á afmæli í dag

Töframærin og tengdadóttir mín Kristín Arna á afmæli í dag. Hún lengi lifi húrra, húrra. Kristín er svo falleg og gáfuð og hafði úrslitaáhrif á það að ég hélt áfram í skólanum í fyrra. Hún sagði: Hugsaðu þetta fram að áramótum, þegar ég vildi hætta.

Kristín er vísindamaður og tilfinningavera, svo falleg og góð, töffari og töframær.

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ KRISTÍN.

10 júlí 2007

Gan teanga, gan tír

Þetta er írska og þýðir: Ekkert tungumál, ekkert land.

No Irish hand could have written the celebrated opening line of Pride and Prejudice: "It is a truth universially acknowledged that a single man in possession of good fortune must be in want of wife."

For all its wit and elegance, its too precise, too conscious, and, above all, too lacking in the essentially subversive irreverence.


*

Gangur leiksins

Það breytir alltaf gangi leiksins að skjóta á markið.

*

Þótt þú skorir ekki þá breytirðu gangi leiksins...
...með því að skjóta á markið.
Sól. Sól. Sól.

Ég svaf í tíu tíma og dreymdi heila hrúgu af litlum draumum. Er búin að setja í þvottavélina. Kannski á ég bara frí í dag, vann alla helgina. Elísabet sæta. Og hvítu blómin, ég tók blóm í fóstur fyrir 19 árum frá Kolbrá litlusystur, og 19 árum seinna báru þau blóm, lítinn blómvönd, svona brúðarvönd, stjörnubrúðarvönd eða brúðarstjörnuvönd. Af því annar afi minn var prestur er ég ótrúlega trúuð og sé hin trúarlegu element allstaðar, einsog ég nei hér lendi ég í ógöngum. Þetta er eitthvað um að himinninn giftist jörðinni.

Sennilega efni í heila Biblíu.

En Kolbrá hún hefur skellihlátur og er einn besti lesandi sem ég veit um. Að vera lesandi jafngildir því að vera höfundur. Hún er líka sæt, með ljósa lokka, með rauðleitum blæ og dreymandi stríðnisleg augu, hún er svona mögnuð, um hana má lesa á hinni síðunni minni: Galdrabók Ellu Stínu - og pressa þá á linkinn fjölskyldan. En Kolbrá er jarðbundið krútt, hún er yngst í fjölskyldunni og nýtur því ýmissa forréttinda einsog að geta sagt hinum til syndanna, einsog mér þegar hún kom með nýjar hugmyndir um bloggið mitt. Meira um það síðar, leyndó peyndó.

En það magnast upp gleðiorka við þetta.

Best að koma sér útí sólina. Ég er í pilsi. Fiðrildapilsi.

09 júlí 2007

Mamma klappar alltaf mest fyrir mér. Þegar Sýrlendingar höfðu beðið mig um að yrkja friðarljóð og ég orðið við þeirri bón og flutt það í tilkomumiklum ævafornum rústum rómverska heimsveldisins þá sá ég hvar mamma sat og klappaði einsog hún hefði unnið lukkubangsa í Tívólí.

*

08 júlí 2007

Ég fékk að heyra það í vetur í skólanum að hreyfingar mínar væru svo fallegar, já líð eða svíf á jörðinni. Með þokka. Sjálf hafði ég ekki hugsað um hreyfingar fyrren ég sá Einar Þór Daníelsson þann knáa fótboltakappa og hreyfingar hans, síðan er ég ofurviðkvæm fyrir hreyfingum.


Ég er hreyfing. Vertu hreyfing.


*

Fyrir þá sem ekki vita það, þá dansa ég á hverjum degi, jú Katrín veit það, en aðrir vita það ekki, ég dansa í einrúmi, oft á dag og er örugglega að undirbúa mig fyrir eitthvað, það er bara eitthvað nýtt byrjað í lífi mínu.

En ekki segja neinum. Dans.

Ef ég dansa ekki þá er eitthvað að, þá er ég sennilega að hugsa. Svo ég dansa. Og það er ekki hægt að hugsa meðan maður syngur.

Guðmunda Elíasdóttir sagði mér að syngja meira. Syngdu meira, sagði hún. Já, sagði ég, ég skal syngja meira. Ég er alltaf syngjandi, ég er svo dásamleg, ég syng þegar ég skrifa. Og ef það er sárt er ég að gera vitleysu, það er aldrei sárt að syngja, stundum erfitt, ég lærði söng í átta ár, ef gengur vel að skrifa þá er ég að syngja.

Ég meina hafiði vitað dásamlegri manneskju en mig.

Blómin í garðinum

Njóli, hvönn, baldursbrá, sóleyjar, fíflar, biðukollur, þetta eru blómin í garðinum mínum og hendur.


*

Fullkomið kynlíf

Ég lét renna í ungversku könnuna mína sem ég keypti uppí fjöllum í Ungverjalandi, ískalt tært vatn úr krananum og fyllti hana næstum uppað börmum, setti svo þrjá sítrónusneiðar útí og æðarnar í kjötinu verða örlítið þrútnar í vatninu; fullkomið kynlíf.

07 júlí 2007

Allt undir kontról

Það er allt undir kontról nema eitt blóm

og þetta blóm er lífið.



*
Hvað verður til þess að maður gefur eftir? Þegar maður hættir að sjá bara sjálfan sig og sér einhvern annan. Hvernig í ósköpunum fer maður að því? Kannski bara guðsgjöf. Eða eitthvað í manni sjálfum, eitthvað sem guð setti í mann á síðustu stundu, og er þessvegna alltaf svolítið ófrágengið, og þarf sífellt að vera laga.

Ég elska lífið.



Bloggið er búið.

06 júlí 2007

Sund og afmæli

Ég var að koma úr sundi og þegar ég gat hætt að hugsa eftir tuttugu ferðir náði ég stórkostlega erótískum hæðum í vatninu, einsog við vatnið værum eitt, bylgjurnar, birtan, nautnin, gleðin. Tíu frjálsar, munúðarfullar gleðiferðir. Og nú er það bara egg og sardínur.


*

Elísabet Ronaldsdóttir á afmæli í dag. Hún lengi lifi. Húrra. Elísabet er svo fögur og fyndin, snillingur í að segja eitthvað óvænt og er VINUR MINN.

Skriftastóll Ellu Stínu

Írar fundu upp skriftastólinn. Ég hef lifað lífi mínu í skriftastól, alltaf dauðhrædd um að enginn sé að hlusta á mig. Alltaf jafn hrædd um að syndir mínar séu svo útþynntar að enginn hafi áhuga. Að ég geti ekki komið orðunum frá mér. Nú eða þá bara setið og hugsað. Beðið eftir því að einhver fyrir utan myndi segja eitthvað. En það hefur aldrei neinn sagt neitt. Í mesta lagi að einhver hefur byrst sig og sagt: Ertu að hlusta.

05 júlí 2007

Lífið er dásamlegt

Lífið er svo dásamlegt að ég er næstum með tár í augunum. Og allur júlígróðurinn. Kristjón er kominn til landsins, Kristjón elsti sonur minn algjör snillingur og yndisleg manneskja, og svo SKEMMTILEGUR. Hann kíkir kannski við á morgun to his great mama. Svo hefur hann gefið mér fjóra villinga í ömmugjöf. Prinsessuvillinga. Sem gera vonandi hann og Helgu gráhærð!!! Ég er búin að vera vinna í allt kvöld í sögunni minni í kjólnum! Og Jökull og Kristín eitt fremsta kærustupar heims kíkti við á bílnum og ég bauð þeim að horfa á videó en þau þáðu það ekki, þau eru fólk sem kíkir við óvænt með pizzu nema þegar þau eru boðin í læri. Yndisleg. Garpur og Ingunn krútt Kópavogs eru heima hjá sér. Stundum þykir mér svo vænt um fólkið mitt að ég fæ næstum verki eða svona góða verki, ástarverki. Til hamingju Elísabet. Þú ert Ísland. Ég horfði hinsvegar á Blóðdemanta í fyrradag. Hún var svakaleg. Og hver lék aðalhlutverkið:

Leonardo Di Caprio. Minn draumamaður og hann var ótrúlega góður, ég gat fundið þessa tension í honum allaleið frá Afríku og í sófann.

Það eru sérstakar kveðjur til mömmu hér af blogginu, móðir mín er snjallasta og fegursta kona heims, fyrir utan að hún hefur lykla að mörgum heimum. Á einum stendur Ella Stína. Hún þekkir mig einsog enginn annar þekkir mig. Ég sendi henni lagið Green green grass at home.

Mamma mín er göldrótt, trygglynd, skemmtileg, brjálæðislega skemmtileg, vitur, sæt, hugsjónamanneskja, skáld, mjúk, töffari, hefur áhuga á börnunum sínum og er alltaf að pæla í hvernig manneskjur þau eru, kynþokkafull (þetta sögðu þau í Arabaferðunum) viðkvæm, fyndin, sniðug, gáfuð, rosalega gáfuð, trúuð, vill að allir komi til hennar af því hún er ættmóðirin en kemur samt oft með vínarbrauð á tröppurnar, hefur ríka réttlætiskennd, þolir ekkert kjaftæði, kemur í galdraheimsóknir og þá verður allt í lagi, spyr: Hvernig hefurðu það? (Og meinar þunglyndið mitt svo hún spyr ekkert mjög oft)

Þegar ég átti erfitt var mamma alltaf að gefa mér verndargripi og biðja fyrir mér við Grátmúrinn. Ég uppgötvaði mörgum árum seinna undir Heklurótum að þetta hafði allt sín áhrif og að ég þarf vernd. Vernd.

Þetta var soldið um mömmu, svo kemur meira um mömmu af því mamma þolir ekki mikið hrós. Þótt það hafi verið hún sem bjó til Arabalöndin og Þúsund og eina nótt, það sá ég með eigin augum þegar ég fór þangað.

Ég starði hugfangin og töfrana og sagði svo; Maaaaaammmmmmmmmmaaaa.

Mamma elskar pabba ennþá.


Mamma, ég elska þig.


*

Og hvar er Máni og Rottweilerhundarnir hans. :)

Elísabet keypti kjól

Ég keypti ekki bara einn kjól, heldur tvo og pils. Ég hef ekki átt pils í trilljón ár og ekki þolað pils, en svo alltíeinu kom einhver pils-hugmynd og þegar ég fór í eina búð á Laugaveginum áðan þá kallaði eitt silkimjúkt fiðrildapils hvítt til mín og það var nú ekki á því verði sem ég hafði ætlað að kaupa, en ég varð að kaupa það og gerði skoðanakönnun í búðinni og það hættu allir að versla því þær urðu að fara taka þátt í mínu lífi. Það er líka mjög gott að koma við það ef einhver er skotinn í mér. Ég elska hendur, ekki hverjar sem er, en hendur.

Svo keypti ég kjól sem sýnir form hinnar þroskuðu konu en ekki 14 ára ofurfyrirsætu af tískupöllum heimsins, og þegar ég kom niðrí Rokk og rósir og fann annan kjól sem æpti á mig af slánni, spurði ég: Er þessi ekki of stelpulegur, ha, við eigum allar að vera stelpur eitthvað. Þá sagði kona í búðinni: Þú ert nú alltaf svo stelpuleg. Og ég bráðnaði oní gólfið: Taaaaaaaaaaaaaaakkkkkk.

Annar kjóllinn er semsagt eiturgrænn með glimmer og hinn blár með örlitum skútum. Ég er æði. Og ætti kannski að vera skotin í einhverjum eða kannski er ég það fyrst ég fór alltíeinu að kaupa kjóla.

Ástin tekur tíma

Ég man það núna að ástin tekur tíma, og kemur smám saman í ljós, einsog mynd sem verið er að framkalla, og hvað þarf í framköllunarvökvann?

Einn dropa af eilífð, hvíslaði hún.

Og ilm af blóminu.

*

Svo verður maður að vera góður.

*

Hvítu blómin tóku tíma, þau tóku 19 ár. Og einn maður sagði ég mætti velja hvað þau táknuðu.

*

Tíminn er stundum svo feiminn.

*

En tíminn er svo magnaður. Maður veit bara ekkert hvað er á seyði. Tíminn er oft að galdra eitthvað, maður verður bara að passa tímann.

04 júlí 2007

Kósí hús

Það tiplaði hér inn tvítug blómarós, kósí hús, sagði hún, villigarður og svona á bak við, svo kósí. Að ekki sé minnst á heilagsanda-græna hurðina.

Söngurinn

ég elska að syngja, ég lærði söng í átta ár, ég get sungið og sungið og þá er gott að vera uppí fjalli eða útí sveit eða við sjóinn. söngur er ég og heimurinn saman.


*

Gleði

Það kom til mín maður og svo fór hann. Hann borðaði læri. Og ég vaknaði svo glöð daginn eftir að ég er að hugsa um að hafa það fyrir leyndarmál milli mín og hans.


*

Klúðraðu þessu

Ég er alltaf að refsa mér svo ég hætti að klúðra hlutum. En nú er komin ný tækni til sögunnar og í hvert sinn sem ég klúðra hlutum þá segi ég: Frábært Elísabet, þú klúðraðir þessu! Og næst þegar ég fer á svið þá hvísla ég að sjálfri mér áður: Klúðraðu þessu!!!

*

01 júlí 2007

Býflugnakenningin

Ég er æðisleg. Og það er sól. Ég get komið auga á það enda eru augun í mér djúpir brunnar. Í gær skilaði ég inn TVEIMUR leikritum í keppni í Ameríku og hélt matarboð. Ég veit ekki hvaða vættur er yfir mér en það hlýtur að vera engill sem gjörsamlega dýrkar mig og stráir blómum í götu mína hvert sem ég fer.

Hinsvegar hefði þetta ekki tekist nema með hjálp Jökuls sonar míns og vinkonu minnar Elísabetar Ronaldsdóttur. Þegar ég uppúr hádeginu var farin að klúðra leikritinu hringdi Elísabet og gaf mér býflugnakenninguna, mjög góð vinnuaðferð. Snilld einsog Elísabet er frá upphafi til enda og sætleikinn sjálfur. Takk Elísabet. Ég elska þig. Og Jökull, hann er ótrúlegur, hann hefur þessa fullkomnu ró, stáltaugarnar, ástina og nennti að senda fyrir mömmu sína og borga af eigin visakortinu. Ég var alveg að gefast upp undir miðnætti þegar ég hringdi í hann og bara við að heyra röddina hans varð allt skýrt og allt í lagi. Það hlýtur að vera gaman að vinna með honum. Takk Jökull. Ég elska þig. Svo fór ég niðrað sjó í miðnóttinni og getið hvað! Engir mávar en æðarkollur með ungana sína að láta sig svífa í algleymisleiðslu guðdómsins. Ú ú ú... guðinn ú.

Ég hafði einn dag, einn dag, tilað rúlla upp öðru leikritinu, þe. skera það niður, ég elska að vera svona ákveðin, allt mitt rugl er bara tilað fela ákveðnina mína, því ákveðnin er það fallegasta sem ég á og ég er svo falleg og svo er margt fleira.

Matarboðið var töfrandi. Og kannski það sem þurfti tilað leikritin kæmust í loftið eftir sæstrengnum. En ég prófaði að gera nýjan rétt með lærinu, bara af því ég er svo stórkostleg og hef nýjungagirnina alveg á valdi mínu. Fyrir utan áhættuþörfina sem drífur svona mannkyn áfram einsog mig. Svo hringdi Garpur og spurði: Hvernig gekk matarboðið. Og ég sagði vel nema ég var soldið feimin. Þú feimin mamma, ég hef aldrei séð þig feimna. Garpur hefur þekkt mig í 23 ár. Svo kannski er þessi feimni orð yfir eitthvað annað. Maður verður stundum að nota önnur orð svo krossgátan gangi upp.

Uppáhaldsliturinn minn í dag er bleikur og fjólublár og svona ljósljósblár.


*

Það komu margir fleiri englar. En kannski blogga ég sérstakt englablogg.

Elísabet engill og englakrútt

*