29 september 2011

Svefnloftið

Það er þungt loft á svefnloftinu, ég opna gluggann, hann er einsog bátsgluggi og við stímum til hafs, búin að skoða myndir af Jökulsdóttur, sallafínar og umferðarniður úti og vaknaði upp með mígrenikast útaf meðvirkni af því ég hélt ég hefði farið yfir strikið á Facebók en það var þá sama gamla hræðslan við að brjótast útúr sjálfum sér, því ég sjálf er herbergi sem ég þarf stundum að koma út úr svo ég lifi, já skrítið að hafa breytt sér í herbergi.

28 september 2011

Eitthvað nýtt

Það rignir og ég er að fá mér súpu, það rignir mjög mikið, ég heyri í regninu, það er núna að fara í rennurnar, það eru göt á rennunum, og smá vindur í greinum trjánna, geri ráð fyrir að hafið sé á sínum stað, fór í sjúkraþjálfun í dag og svo í kínverska búð, þarsem fengust fallegir hlutir og kókómjólk og grænn púði, blómsturpottar og bollar með hestum á. Ég keypti mér litla kók og kókosbollu í sjoppu á Hlemmi og hitti strák sem fannst fundir ekki fyrir sig, þetta er bara fólk að rifja upp eitthvað, sagði ég, of mikið talað um guð, sagði ég, hvenær hefur guð gert einhverjum eitthvað annars er ég of vanmáttug að tala um guð, en í dag ákvað ég að gera eitthvað nýtt.

27 september 2011

Í svefnrofunum

Á hverri nóttu og alltaf áðuren ég vakna og í svefnrofunum hugsa ég um hvað lífið sé ómögulegt og ég ætti að vera á Heklu, og ekki hverfa.

26 september 2011

Óskar í sófanum

Já í Einari Ben, áðan fann ég liljulykt, kom hún að utan eða úr mínu heilabúi, það er létt tónlist í útvarpinu, maðurinn sem ég elska er enn hér að drekka kaffi og návist hans er yndisleg og hann er í fallegri skyrtu, köflóttri, og gallabuxum og ég er skotin í honum, á einum stað, - það er kveikt á hinni tölvunni, og tré fyrir utan gluggann minn, síminn á borðinu, ég var að hringja í fyrirtæki og ég gæti hugsað´mér að kveikja á rauða kertinu, svo eru ljóðabækur eftir Heimi Má, og ég er að hugsa um nokkur leikrit og er með hausverk, hásinabólgu, þursabit, flökurleika, en efasemdum um lífið fer fækkandi, ég hugsa um litlu Jökulsdóttur sem er svo nýkomin í heiminn....

25 september 2011

Rautt kertaljós

Það er kertaljós á borðinu, sól úti og laufin bærast létt fyrir utan gluggann og rauð berin svigna á greinum trjánna, kertið er rautt og nágrannakona mín gaf mér það og bráðum kemur október, og litla septemberbarnið dafnar blítt og elskulega með sitt svarta hár, í dag er sennilega annar af síðari leikjum Breiðabliks, og ég sit hér á jórdönskum nærbuxum, svartri ullartreyju frá Noregi, og í peysu sem Hulda prjónaði á mig og allir dáðst að, ég var eiginlega að ákveða að gefa út nýja ljóðabók, ég læt alltaf birtast í huganum: Gefðu út, - en nú á ég allar þessar bænabækur, svo hvernig á ég að gefa út - hvernig á ég að taka ákvörðun, láta gera kostnaðaráætlun, en það hefur Jóhann Páll aldrei gert, svo er bara best að dúndra þessu út og koma í kiljuna.

Í gær hringdi í mig kona og sagðist hafa kíkt á bloggið mitt, þetta er skrifað fyrir hana og hún beðin að gefa gaum að ytra umhverfi sínu, gluggum, kertum, nærbuxum, frekar en öllu hennar innra og óstýriláta sálarlífi.

Ég heyri tikkið, sé fingur mína hreyfast, það er nautn.

*

15 september 2011

Jökulsdóttir horfir á heiminn

Lítið dásamlegt barn er komið í heiminn, hún Jökulsdóttir og Kristínar, með kolsvart hár og augu heimsins, heimurinn er ekki samur eftir að hún hefur horft á hann, hann pússlast allur saman og verður almennilegur heimur, iðar í skinninu eftir að hún opni augun á morgnana og horfi á hann, og svo sæll allan daginn að hún skuli vera horfa og hafa þau opin, augun eru dimm og djúp, viðkvæm og blíð, göldrótt og gáfuleg, eitthvað alveg nýtt í heiminum, nýjustu augun í heiminum og þess vegna verður heimurinn aldrei eins eftir að þessi augu fóru að opnast og horfa á hann, heimurinn verður stundum feiminn, alsæll, sterkur, fagur, titrandi, umfram allt heimur, og svo þegar hún fer að sofa á kvöldin titrar heimurinn af hamingju og bíður þess það komi morgun og hún litla Jökulsdóttir fari að horfa á sig.