01 júlí 2007

Býflugnakenningin

Ég er æðisleg. Og það er sól. Ég get komið auga á það enda eru augun í mér djúpir brunnar. Í gær skilaði ég inn TVEIMUR leikritum í keppni í Ameríku og hélt matarboð. Ég veit ekki hvaða vættur er yfir mér en það hlýtur að vera engill sem gjörsamlega dýrkar mig og stráir blómum í götu mína hvert sem ég fer.

Hinsvegar hefði þetta ekki tekist nema með hjálp Jökuls sonar míns og vinkonu minnar Elísabetar Ronaldsdóttur. Þegar ég uppúr hádeginu var farin að klúðra leikritinu hringdi Elísabet og gaf mér býflugnakenninguna, mjög góð vinnuaðferð. Snilld einsog Elísabet er frá upphafi til enda og sætleikinn sjálfur. Takk Elísabet. Ég elska þig. Og Jökull, hann er ótrúlegur, hann hefur þessa fullkomnu ró, stáltaugarnar, ástina og nennti að senda fyrir mömmu sína og borga af eigin visakortinu. Ég var alveg að gefast upp undir miðnætti þegar ég hringdi í hann og bara við að heyra röddina hans varð allt skýrt og allt í lagi. Það hlýtur að vera gaman að vinna með honum. Takk Jökull. Ég elska þig. Svo fór ég niðrað sjó í miðnóttinni og getið hvað! Engir mávar en æðarkollur með ungana sína að láta sig svífa í algleymisleiðslu guðdómsins. Ú ú ú... guðinn ú.

Ég hafði einn dag, einn dag, tilað rúlla upp öðru leikritinu, þe. skera það niður, ég elska að vera svona ákveðin, allt mitt rugl er bara tilað fela ákveðnina mína, því ákveðnin er það fallegasta sem ég á og ég er svo falleg og svo er margt fleira.

Matarboðið var töfrandi. Og kannski það sem þurfti tilað leikritin kæmust í loftið eftir sæstrengnum. En ég prófaði að gera nýjan rétt með lærinu, bara af því ég er svo stórkostleg og hef nýjungagirnina alveg á valdi mínu. Fyrir utan áhættuþörfina sem drífur svona mannkyn áfram einsog mig. Svo hringdi Garpur og spurði: Hvernig gekk matarboðið. Og ég sagði vel nema ég var soldið feimin. Þú feimin mamma, ég hef aldrei séð þig feimna. Garpur hefur þekkt mig í 23 ár. Svo kannski er þessi feimni orð yfir eitthvað annað. Maður verður stundum að nota önnur orð svo krossgátan gangi upp.

Uppáhaldsliturinn minn í dag er bleikur og fjólublár og svona ljósljósblár.


*

Það komu margir fleiri englar. En kannski blogga ég sérstakt englablogg.

Elísabet engill og englakrútt

*

Engin ummæli: