29 júlí 2007

Sóleyjarvöndurinn

LILJA: Þetta byrjaði með því að hún fékk mynd af honum í pósti.

HERDÍS: Mynd af honum í pósti?

LILJA: Já, hún fékk mynd af honum í pósti. Hún sagðist hafa hent fyrstu myndinni, rétt litið á hana, samt var þetta skýr mynd, svo liðu einhverjir mánuðir, þá fóru þær að berast vikulega, oft margar í einu. Hún henti þeim öllum, þangað til hún hengdi eina þeirra uppá vegg.

HERDÍS: Uppá vegg?

LILJA: Svo sat hún og horfði á myndina.

HERDÍS: Og hvað.

LILJA: Svo hengdi hún allar myndirnar upp. Hún fór ekki útúr húsi. Sat bara og horfði á myndirnar, loks var hún búin að veggfóðra með honum.

HERDÍS: Var þetta einhver sem hún þekkti.

LILJA: Nei, þetta var ókunnugur maður. En eftir því sem hún horfði lengur á hann fannst henni hún kannast eitthvað við hann.

HERDÍS: Vissi hún hver sendi henni myndirnar.

LILJA: Hún hélt kannski að hann hefði gert það.

HERDÍS: Hann hver?

LILJA: Þessi á myndunum.

HERDÍS: Hver var þetta?

LILJA: Hún þekkti hann ekki.

HERDÍS: Fannst henni þetta í lagi.

LILJA: Hún hafði áhuga á honum.

HERDÍS: Áhuga?

LILJA: Er þetta ekki soldið einsog áhugamál.

HERDÍS: Þetta er ekkert áhugamál.

LILJA: Áhugi hennar beindist allur að honum. Hún hafði ekki áhuga á neinu nema honum.

HERDÍS: Kallarðu þetta áhuga?

LILJA: Hvað er hægt að kalla þetta.

HERDÍS: Má ekki segja að þessi áhugi hafi farið úr böndunum.

LILJA: Hún gat ekki haft augun af honum.

HERDÍS: Þú talaðir við hana.

LILJA: Hún gat ekki talað um annað en hann.

HERDÍS: Gastu ekki komið vitinu fyrir hana.

LILJA: Hún sagði mér alla söguna.

HERDÍS: Jæja.

LILJA: Hvort hún ætti að segja honum að hún elskaði hann.

HERDÍS: Elskaði hann!

LILJA: Já.

HERDÍS: Hún þekkti hann ekkert.

LILJA: Henni fannst hún vera farin að þekkja hann.

HERDÍS: Og hvað sagðir þú.

LILJA: Ég spurði hvort hún vildi ekki reyna að sleppa takinu af honum. Hún sagðist margoft hafa reynt það. Áðuren en hún vissi af var hún aftur farin að horfa á myndirnar. Hún hefði hent þeim en það bærust alltaf fleiri myndir.

HERDÍS: Þetta er ekki í lagi.

LILJA: Ég veit það ekki. Ég spurði hvort hún gæti ekki lagt þetta í hendurnar á æðri mætti. Hún sagðist margoft hafa reynt það, stundum oft á dag.

HERDÍS: Ha?

LILJA: Svo sagðist hún hafa prófað þakklætið.

HERDÍS: Hvaða þakklæti.

LILJA: Að vera þakklát fyrir myndirnar. Þakklát fyrir þetta allt.

HERDÍS: Ekki batnar það.

LILJA: Hún fékk ljóð frá barnabarninu sínu, þrettán ára stúlku, sem byrjaði svona: Ég er skotin í strák, ég er því mjög þakklát. Hún sagðist verða að komast út. Það virkaði ekki að sleppa takinu eða biðja æðri mátt, svo hún ákvað að vera bara þakklát.

HERDÍS: Fyrir að sitja inni alla daga og horfa á myndir af ókunngum manni.

LILJA: Hún elskaði hann.

HERDÍS: Jájá.

LILJA: Okei, nema svo varð hún þakklát og þá þorði hún út. Hún opnaði dyrnar og sá sóleyjar við þröskuldinn, hún týndi sóleyjarnar saman í vönd. Og setti þær í vasa á borðið inní húsinu. Þegar hún sá sóleyjarvöndinn áttaði hún sig á því að þetta var einmanaleikinn, að hún væri svona einmana.

HERDÍS: Einmana!?

LILJA: Já, einmana.

HERDÍS: Var hún þá ekki ástfangin.

LILJA: Ég veit það ekki.

HERDÍS: Bara einmana.

LILJA: Það er nú það.

HERDÍS: Hver sendi henni myndirnar.

LILJA: Ég held að hann hafi sent henni myndirnar.

HERDÍS: Afhverju ætti hann að hafa gert það?

LILJA: Hann hefur kannski verið orðinn svona leiður á sjálfum sér.


*

2 ummæli:

Kristín Bjarnadóttir sagði...

Einmitt!!! áhugmál eða þráhyggja, thats ðe spurning. Ást eða einmanaleiki? ...

Flottur þáttur! Og takk fyrir örlætið, svona ókeypis á netinu/kristín

Elísabet sagði...

já, þetta er auðvitað snilld, þetta með áhugann, að fá alltaf myndir í pósti, og vera orðinn leiður á sjálfum sér,

þetta varpar algjörlega nýju ljósi á ástsýkina, ég gæti orðið fræg í ameríku,

The Sunisland-bukket.