21 maí 2008

Ræður og uppákomur í afmælinu mínu 16. apríl

Þarsem ég er óðum að nálgast jörðina skal nú greina frá afmælinu mínu, ég bauð gesti velkomna og sagði eitthvað sniðugt, ég man ekki hvað, ég var í hvítum kjól, svo gaf ég Illuga orðið, hann var veislustjóri og sagði ég hefði haft djúp áhrif á líf hans sem krakka og hann hefði orðið fyrir áfalli þegar hann uppgötvaði að ég laug að honum, fyrirgefðu Illugi. En svo las hann rosalega flotta ræðu frá Kristjóni elsta syni mínum sem býr á Spáni, mjög hjartnæm, skáldleg ræða þarsem hann þakkaði mér fyrir að hafa gefið sér strumpahús og bar kveðjur frá fjölskyldunni. Já hvað var nú fleira, svo kom Ævar og söng Makka hníf við undirleik Viðars, ég elska þetta lag og hafði pantað það sérstaklega, svo flutti bekkjarbróðir minn Friðgeir ræðu, ég var í nettu sjokki yfir því að bekkurinn gerði ekkert, en Friðgeir trompaði allt með furðulegum söng af Sined OConnor plötu og póstmódernískum stælum, svo flutti Vilborg ræðu um gamla góða þjófnaðinn á Ísafirði og þakkaði mér fyrir að gefa sér hugrekki, Guðrún Ásmundsdóttir kom með ræðu um pabba enda ágætt þarsem hann var fjarri góðu gamni, svo flutti mamma ræðu og þakkaði öllum fyrir að koma því það myndi gleðja mig, já mamma er nú sæt og svo sagði hún að uppeldi tvíburanna væri kraftaverk, Jökli fannst það eitthvað voða fyndið, svo kom Sverrir skólabróðir minn úr Hagaskóla og hummaði afmælissönginn og talaði um Tilfinningatorgið, og svo var sunginn afmælissöngurinn, Kolbrá litla systir mín reið á vaðið og hennar ræðu hefur verið skil hér með fimm stjörnum, ég er að hugsa um að biðja hana um að taka útfararræðuna líka, tvíburarnir héldu enga ræðu, ég fékk hana um nóttina, allskonar ásakanir um kókapöff and stöff, mjög flott, ég er kannski að gleyma einhverju, en það kemur þá, þetta var svo yndislegt afmæli og allir að tala vel um mig og gleyma öllu hinu, svo má allsekki gleyma uppákomu Daníels Sigurðssonar vinar míns og uppáfinningamanns sem sneri útúr dægurlagatexta til mín og spann í kringum þetta langan performans svo allir héldu hann væri konseptlistamaður. Og viti menn, Hans Jakob frændi minn flutti ræðu svo allir úr öllum fjölskyldum komust að. Það sýnir nú hvað ég er þroskuð að ég gleymdi því að ég ætlaði að gera gjörning en mundi eftir því í lokin og flutti gjörninginn: Það sem ég hef lært af lífinu, - með hjálp Vilborgar í mínum bekk. Fyrsta sem ég hef lært er að þegja. Annað að vera góð við börn. Þriðja að ferðast.

Engin ummæli: