29 mars 2007

Hvernig var Ella Stína í hlekkjunum

Þið munið öll eftir Ellu Stínu í hlekkjunum. Sem dragnaðist upp tröppurnar á Lindarbrautinni með hlekkina í eftirdragi og var að koma heim úr skólanum. Ella Stína stundi mæðulega svo enginn heyrði. Hún hlakkaði tilað komast heim tilað fara bjarga hjónabandi foreldra sinna. Hún þráði að heyra þau segja: Hættum að rífast, við eigum lítið barn í hlekkjum. Þetta litla barn er tilbúið að bera sína hlekki um allt bara ef þú hættir að drekka og ég hætti að nöldra í þér fyrir það, heyrði hún mömmu sína segja. Mamma hennar sagði yfirleitt eitthvað en pabbi hennar aldrei neitt. Ella Stína elskaði lífið í brjóstinu og hún þráði að einn daginn myndu hlekkirnir sjást og allir mundu segja: Sjáið þetta litla barn, hverju það hefur áorkað og í hlekkjunum. En það var sama hvað fólk tók eftir hlekkjunum, Ellu Stínu fannst aldrei neinn taka nógu mikið eftir því að hún væri í hlekkjum. Hún hafði verið uppnefnd en aldrei nógu mikið, henni hafði verið strítt en hún gat tekið við meiru, bara ef allur heimurinn myndi taka eftir því að hún væri í hlekkjum. Og að heimurinn myndi ekki hugsa um neitt annað en hlekkina hennar Ellu Stínu, hlekkirnir væru forsíðuefni hvern einasta dag og fólk talaði ekki um annað. Þetta brann á Ellu Stínu upp tröppurnar þarsem hún vissi að hjónabandið væri á síðasta snúningi. Ella Stína var samt ekki viss um afhverju hún vildi bjarga hjónabandinu, kannski vegna þess að það var ekki hægt að bjarga því. Það veit enginn, það er efni í heila bók. En upp komst Ella Stína og alla leið inní eldhús þarsem mamma hennar lá fram á borðið og pabbi hennar hafði ekki komið heim í marga daga. Hjónabandið sjálft var hvergi sjáanlegt. Hvar varstu, spurði mamma hennar. Í skólanum, sagði Ella Stína. Voðalega varstu lengi, sagði mamma hennar. Það eru hlekkirnir, sagði Ella Stína. HLEKKIRNIR, öskraði mamma hennar, hvaða hlekkir. Hlekkirnir mínir, sagði Ella Stína, líf mitt er í hlekkjum. Ef einhver er í hlekkjum hér þá er það ég, sagði mamma hennar. En Ella Stína gat ekki séð neina hlekki á mömmu hennar en hún vildi ekki særa hana svo hún sagði ekki neitt. Ella Stína var svo góð í hlekkjunum. Haldi einhver að Ella Stína hafi verið sár, bitur, reið, pirruð, örvæntingafull, öskuill, hatursfull, - yfir því að vera í hlekkjum þá er það misskilningur. Ella Stína vildi öllum vel þótt hún væri í hlekkjum. Á ég að fara útí búð mamma, ég get alveg farið útí búð og eldað matinn og allt, sagði Ella Stína og reyndi að hughreysta mömmu sína. Ella Stína hugsaði um svöngu börnin í Afríku og seinna þegar hún varð stór varð hún líka svo skilningsrík, hlekkirnir gerðu hana svona skilningsríka,og þótt hún þyrfti að bíða á rauðu ljósi þá pirraði það hana hreint ekki neitt.

Í næsta kafla fáum við að kynnast betur manngæsku, fórnarlund, skilningi, greiðasemi Ellu Stínu í hlekkjunum.

6 ummæli:

Kristín Bjarnadóttir sagði...

mögnuð saga um margt sem ekki sést .. hjónabandið, hekkirnir ... frásögn sem rígbindur!

Elísabet sagði...

ertu að meina að maður sé hlekkjaður við frásögnina...

Kristín Bjarnadóttir sagði...

akkúrat! kannski má segja að maður sé hlekkjaður annarsvegar við hugmyndasöguna eins og við skynjum hana og lifum í orðum gjörðum og táknum, og hins vegar við þína persónulegu frásögn sem heldur mannföngnum ...

Elísabet sagði...

fröken lyng, þér hafið nú aldeilis slegið í gegn hér á síðunni, ella stína litla er himinlifandi yfir kommentum yðar. en heldur þú að við séum alltaf í hlekkjum og að þeir séu óumfýjanlegir og við getum ekki verið frjálsar manneskjur. er frelsið tálsýn, blekking, metafóra....

Kristín Bjarnadóttir sagði...

Já, frelsið sem hugsun tilfinning eða keppikefli held ég sé ekki mögulegt nema útaf andstæðu þess, sem einmitt getur lýst sér t.d. í því að vera hlekkjum eða böndum.

Elísabet sagði...

stífla, flóð, stífla, flóð,

ást, ástarsorg, ást, ástarsorg,

er þetta lífið eða eitthvað svoleiðis... árstíðirnar eru fjórar, það hlýtur líka að vera ástin að byrja, ástin að enda, sem eru spennandi tímabil,

stíflan að bresta, flóðið að sjatna.