06 janúar 2010

6. janúar 1984

Í dag er 6. janúar, dánardagur afa Kristjóns, þann dag sofnaði hann og vaknaði ekki aftur, ... afi minn sem hafði verið svo undragóður við mig, - mig hefur stundum dreymt hann eftir að hann dó, hann býr þá jafnan á Reynimel.

Afi kenndi mér að meta náttúru Íslands, hvað jurtirnar, vötnin, brýrnar og fjöllin hétu. Fífan tildæmis,... og fuglarnir. Hann var alltaf að reyna að rækta garð. Og hann átti bílskúr, þar var mikið af verkfærum. Svo keyrði hann mig útum allt. Og gaf mér peninga. Og færði mér mat. Og kom í heimsókn. Og þegar ég eignaðist Kristjón kom hann með þvottavél frá honum og ömmu, og maltkassa í hrönnum. Afi minn var góður og um daginn fannst mér ég finna pípulykt einsog mamma segist stundum finna og þá fann ég gleði í leiðinni.

En Eva Joly er gengin í lið með forsetanum.

Ég og hundarnir fórum í tveggja tíma göngu í dag, útá Nes, hittum fólk á veginum, snuðruðum og rannsökuðum allt hátt og lágt. Best að kveikja á tölvunni og skrifa leikrit.

Engin ummæli: