23 maí 2013

Ég keypti húsið

Hún fór að búa með honum og hann með henni. Hún átti húsið, hún hafði verið að kaupa það síðustu tuttugu ár einsog gerist og gengur á Íslandi. Hann flutti inn með nokkrar styttur úr Kolaportinu og gamla yfirlitsmynd af Ísafirði. Hún kom myndinni fyrir ofan við píanóið, bjó til pláss handa honum í fataskápnum með því að hann fékk helminginn og svo framvegis. Hann setti tvo ofna í húsið, hún borgaði annan þeirra. Svo var hún nýbúin að kaupa ljósakrónur, eina á 35 þúsund, aðra á 25 þúsund og þá þriðju á 15 þúsund. Hann setti þær allar upp og fór svo hamförum í húsinu, setti upp hillur, fatahengi, pússaði gamalt borðstofuborð og svo framvegis, allt án þess að spyrja hana eða ráðfæra sig við hana. Þá hefðu þau verið meira saman í þessu en hún hafði sosum ekki beðið um álit hans á ljósakrónunuum enda komu þær til áðuren sambúðin hófst, hún hafði að vísu sýnt honum tvær þeirra, og svo hafði hún keypt afskaplega rómantísk gluggatjöld á 45 þúsund í Álnabæ, á meðan var hann í Góðahirðinum og keypti kommóðu forljóta með leyfi að segja, og eitthvað fleira, hann keypti sængurföt í Rúmfatalagernum þegar hún vildi versla í Fatabúðinni. Það var ekkert gert saman þótt þau væru farin að búa saman. Einu sinni dró hún hann í Fatabúðina en hann vildi heldur sitja útá tröppum og reykja. Svo skipti hann um allar ljósaperur í íbúðinni að henni forspurðri svo það dimmdi yfir öllu. Hann vildi hafa næturgluggatjöld á vorin en hún vildi hafa vornóttina.

Svo eftir einhvern tíma og kannski þegar sambúðinni var að ljúka sagði hann ásakandi að hún hefði bara ekki keypt neitt í húsið. Hún var þá búin að gleyma ljósakrónunum og gluggatjaldinu en það var einkenni á þessu sambandi að gleymskan hélt um stjórnartaumana og þessar ásakanir fengu á hana og ef eitthvað fékk á hana glutraði hún öllu niður, því þetta hljómaði einsog skammir sem það voru og ásakanir, og þess vegna tók það hana soldinn tíma að finna rétta svarið þegar hann sagði að hún hefði ekki keypt neitt í húsið.

Ég keypti húsið. Já en ég keypti húsið. 

Engin ummæli: