Elsku Pétur, ég ætlaði að skrifa þér bréf, en í staðinn færðu þetta ljóð og ég veit ekki alveg hvað ég ætla að segja þér en þannig eru ljósmyndirnar þínar stundum, einsog eitthvað titrandi sem berst inná myndflötinn, einsog það hafi fokið þangað eða læðst, orðið eftir, já einsog það hafi orðið eftir, það er skrítið þetta sem verður eftir, þegar allir eru farnir, rétt ókomnir, nýfarnir, þannig er birtan, stöðugt á flökti, aldrei stöðug, eitt andartak aldrei eins og þannig ert þú sjálfur, ljósmyndarinn, og svo þú feykist ekki í burtu, svo þú verðir ekki eftir, þá verður þú að eiga ljósmyndavél og taka miklu meira af myndum, tilað grípa þetta sem við hin sjáum ekki, eða ekki endilega grípa einsog sagt er um alla ljósmyndara heldur tilað liggja í leyni og bíða eftir því að birtan læðist inn, bíða eftir að skugginn lengist, og þetta gerist allt á meðan þú bíður.
Því í biðinni er lifað lífi sem við erum búin að gleyma, samt er lífið ein bið,en nú veit ég ekki alveg hvert ég er komin eða hvort þetta er bara della en héðan úr höfuðstaðnum er allt gott að frétta eða reyndar höfðinu á mér því ég fer ekki lengra og það er helst að pabbi þinn fái mig tilað hugsa um bláan lit á ganginn, ljósakrónu á baðið eða gólflista, og þetta er frekar óþægilegt því þetta er eitthvað sem er ekki að gerast í mínum haus en ég geri mér þá grein fyrir að ég búi í húsi og sé ástfangin og þá lít ég á hendur mínar og hugsa með mér ég verði að skrifa eitthvað jafnvel þótt það sé algjör della og bull og vitleysa og enn er þetta bréf eitthvað á villigötum og það er þá alltílagi og þá dettur mér í hug að deila einu með þér sem mig dreymdi, mig dreymdi vin minn sem fór með mig inná klósett og á klósetthurðinni stóð: Þegar dagur rann varð hún lost.
Þá uppgötvaði ég að ég á í vandræðum með daginn.
Á nóttunni get ég lag veg blindandi en á daginn verð ég blind, fæ ofbirtu í augun, rata ekki neitt og villist, dagurinn hlýtur að tákna ástina, núið, sólina, birtuna, hlýjuna, dansinn, en hafi maður einhverntíma orðið ástfangin og lent í klessu með ástina þá þolir líkaminn ekki þessa birtu og hlýju og vill skríða inní myrkrið.
Og sturta ástinni ofaní klósettið, - einsog í draumnum var gefið í skyn.
En ástin fer útí sjó, streymir um í hafið, safnar styrk, gufar upp, breytist í rigningu eða lítinn læk sem sytrar úr fjallinu,
og þá verður maður að vera á bíl einsog bílnum hans Péturs Geirs Óskarssonar sem var algjör lífgjöf og þakka þér fyrir lánið, en ég fór samt ekkert útúr bænum tilað heyra í þessum læk en það kom samt svaka rigning hér um daginn og svo er hægt að biðja guð, góði guð viltu hjálpa mér með daginn,....
og þetta bréf eða ljóð til þín, þetta er auðvitað bréf, nema það sé blogg hefur hjálpað mér að skilja afhverju mig langaði svona til Þingvalla að leita að litlum læk,
og þegar ég heyri í honum skil ég að þessi lækur er búinn til úr tárum mínum, svitaperlum, einn daginn þegar ástin brást eða hvarf, en nú er hún komin aftur, sterkari og fallegri en nokkru sinni fyrr í faðmi föður þíns, og þess vegna langar mig að heyra í þessum læk, kannski orðið soldið þráhyggjukennt, en þá veit ég að ÁSTIN ER KOMIN AFTUR, - alveg uppá nýtt, en ég vona þú hafir það gott í sveitinni og það gangi vel að skúra fjöllin og ná þessum skugga á frakka mannsins sem bíður í strætóskýlinu.
Og ég gleymdi aldrei að skrifa þér þetta bréf, ég sveikst bara um það af vantrú á sjálfa mig, vissi bara ekki hvað átti að standa, og svo hélt ég ég hefði kannski ekkert merkilegt að segja og þér myndi þykja það asnalegt, en nú hafa orðin læðst inn einsog í myndunum þínum og bráðum hverfa þau af skjánum,....:)
Allrabestukveðjur, þín Elísabet
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli