VIÐ VATNIÐ
Undarlegir þessir Íslendingar, maður hittir þá við vatnið, þeir eru að fara að veiða, og svo hefja þeir upp raust sína og leysa heimspólitíkina á einu augabragði, einsog að kasta út flugu, ánþess að blikka auga, nefna þá alla í einu Gengis Khan, Saddam Hussein, Bandaríkjaforseta, Ívan grimma rússakeisara, þeir vita allt að mannlíf eru einskis virði í Rússlandi, að Rússarnir hafi drepið blökkumenn sem voru um borð með þeim, allt útaf kommúnistabyltingunni á sínum tíma og enn lengra aftur, þeir þekkja ekki lýðræði og þegar ég reyni að benda á að lýðrækisríkin séu að fara með plánetuna til fjandans, og eigi nýlendur um allt, leyndar og ljósar er því auðvitað samsinnt og tekið fram að viðkomandi sé ekki á móti Múslimum, en Zaríalögin séu auðvitað útí hött, og svo að menntun vegi uppá móti grimmd og stríði í heiminum, en þegar ég bendi á að Nasistar hafi verið feikivel menntaðir en samt útbúið þrælskipulagða útrýmingarherferð, - já hvað er þá til ráða, og svo eru það Kínverjar þeir fóru hægar í sakirnar en Rússarnir, og Bandaríkjamenn hefðu ekki ráðist inní Írak nema af því að þar var olíu og þeir eru ægilega gráðugir og svo er hrunið afgreitt og ég leiði talið að Sturlungu og alkóhólisma og minnst er á græðgi og hann segir mér frá vini sínum sem er að fara með allt til fjandans, konan farin frá honum, og hann er hættur að sjá hvað er að. Á lokaorðunum treður maðurinn sér í vöðlurnar og arkar svo sína leið að veiða silunginn eftir að við höfum náð að vera sammála um eitt, að maður verður betri maður við vatnið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli