09 júní 2007

Brúðuleikhús Ellu Stínu

Ella Stína er bara sjö ára en hún rekur brúðuleikhús. Hún stjórnar brúðunum með strengjunum. Brúðurnar eru allar flæktar saman í strengjunum svo það er mjög erfitt að hafa nokkurt leikhús. Ein brúðan liggur í gröf, það er pabbi hennar en Ella Stína togar reglulega í spottann sem liggja í pabbann í gröfinni svo hann þeytist uppúr gröf sinni og hún þrýstir honum að brjósti sér og skrækir: Ó pabbi, hvernig gastu dáið.


Brúðan af henni sjálfri.
Ella Stína er auðvitað löngu búin að búa til brúðu af sjálfri sér og setja hana ofaní gröfina hjá pabba sínum en brúðan hverfur alltaf því pabbabrúðan virðist ýta henni í burtu eða kannski éta hana. Svo Ella Stína þarf alltaf að vera búa sjálfa sig til uppá nýtt. Jafnvel á hverju augnabliki.


Kærastinn.
Svo eignaðist hún kærasta og hún taldi þá rétt að taka aðra gröf. Ekki spyrja mig afhverju, Ella Stína er bara sjö ára og vill alvöru dramatík. Hún setti sig og kærastann ofaní gröfina en fljótlega fann hún að kærastinn myndi ekki fá nægilegt pláss svo hún byrjaði að tálga af sjálfri sér og loks var bara ein lítil flís eftir sem passaði einsog flís við rass. Enginn þarf að spyrja hvaða rass. Nema þá var kærastinn búinn að fá allt plássið í gröfinni og Ella Stína gat allsekki togað flísina upp, spottinn slitnaði í hvert sinn. En Ella Stína gafst ekki upp, hún var ekki sú manngerð. Hún hafði líka lesið Zorro, Superman og Batman þegar hún var yngri og glæsilegri.


Viðhaldið.
En þótt Ella Stína væri svona svakalega góð að vilja gefa kærastanum allt plássið í gröfinni þá var hún líka ógeðslega vond og hún hellti sér reglulega yfir kærastann fyrir að taka allt plássið í gröfinni. Kærastinn botnaði ekkert í því, hann hélt hann lægi í sófanum að horfa á Skjá einn í átta klukkutíma. Svo góða Ella Stína var orðin svo vond að hún ákvað einmitt að búa til vondu Ellu Stínu og sú var nú til alls vís. Hún skrifaði manni í bankanum sem átti sér einskis ills von þarsem hann var að reikna út laun bankastjóranna þegar hann fékk kvörtunarbréf Ellu Stínu sem í stað þess að spyrja hann hvort hann vildi sofa hjá henni í hefndarskyni fyrir hvað hún átti leiðinlegan kærasta en þá skrifaði hún svohljóðandi skáldlegt kjaftæði um eitthvert farg sem lá ofaná henni umleið og hún þrýsti bankamannsbrúðunni svo að sér að það rifnaði á henni maginn. En Ellu Stínu var alveg sama, hún glápti bara inní magann og hló. En svona var ímeilið hennar:


Ímeilið.
Elsku hinn
Mér líður einsog ég sé í kremju eða undir fargi af hugsunum, og bíð
eftir að einhver nái í mig, að ég geti allsekki lyft þessu fargi
sjálf, heldur verði einhver að koma og bjarga því, því þessar
hugsanir séu hvort sem er ekki raunverulegar og ekkert að marka þær
og aðalvinnan felst semsagt í því að telja mér trú um að þetta sé
ekkert farg, og ég sé ekki í kremju, og í staðinn fyrir einsog núna
að skrifa þér bréf, þá skuli ég hugsa mig til helvítis og hugsa
þetta allt í burtu þangað til ekki ein einasta hugsun er eftir í
höfðinu, og allt orðið tómt og dimmt, og þá sé fargið farið, en þá
er einmitt allt farið og einhver ýtir krossinum á gröfinni lengra
niður í jörðina svo hann þrýstist niður í höfuðkúpuna, svo hún
klofnar og það er það eina sem frelsar hugann eða líkamann eða
jörðina, einn klofningurinn enn.

En málið er að ég eignaðist það sem ég kalla kærasta og er búin að
vera búa mig undir að jarða hann, með því að afmá sjálfa mig, svo
hann fái allt plássið í gröfinni.

Kær kveðja, Elísabet


Hún laug svo miklu.
Ella Stína minntist ekki orði á brúðuleikhúsið og svo hékk hún í tölvunni og beið eftir svari frá hinum sem ekki kom. Ella Stína varð brjáluð en hún gat ekki stjórnað hinum. Hún laug svo miklu að honum.


Þræðirnir.
Það voru margir fleiri þræðir og ótal persónur hnýttar í Ellu Stínu. Það voru börnin, tengdabörnin, barnabörnin, skólafélagar, kennarar, vinir, mamma hennar, bræður, lesendur, aa-félagar og já, á einum stað hékk guð, alveg svoleiðis í flækju að hann var einsog rækja eða eitthvað. Ella Stína hristi stundum hrúguna. Eða togaði í einn og einn spotta og æpti reglulega: Við erum öll í sama sjónvarpsþættinum.


Puttarnir.
Puttarnir á Ellu Stínu voru marðir og djúp för eftir spottana en henni var sama. Hún sagði: Puttar skipta engu máli. Og svo duttu þeir af einn af öðrum. Þá sagði litla rækjan: Ætlarðu að gefast upp? Aldrei í lífinu, sagði Ella Stína og blóðið spýttist yfir leikhúsið. Svo storknaði blóðið og það kom þögn.

Ætlar enginn að segja neitt, æpti Ella Stína.


Blóðköggull.
Og þannig gekk þetta árum saman og Ella Stína var alltaf sjö ára og átti ekkert líf af því hún var alltaf upptekin af því að leika sjálfa sig. Missa puttana, missa blóðið úr sér, hún þurfti alltaf vera byrja uppá nýtt eða auðvitað byrjaði hún ekki uppá nýtt, hún hélt bara áfram og leikhúsið hennar var þegar hér er komið sögu einn lítill blóðköggull.


Uppgjöfin.
Þá loksins gafst hún upp. Það var nú bara útaf aðsókninni. Það voru allir hættir að koma og hún fór í bað og bað guð um hjálp, að hún mætti gefast upp en það hafði hún lært í AA-samtökunum. Guð sagði: Fáðu þér útidyrahurð!

Útidyrahurð!

Já.

Ókei, og svo fékk hún sér útidyrahurð og guð lét fortíðina hanga fyrir utan á tröppunum semsagt. En Ella Stína var inni að reyna stjórna gömlu brúðunum með gömlu aðferðunum og vissi ekkert að guð hafi sett fortíðina á tröppurnar fyrir utan útidyrahurðina. Ella Stína tók ekkert eftir fortíðinni á tröppunum þegar hún fór í skólann á morgnana enda var hún bara sjö ára.


Fortíðin slapp inn.
Svo einn daginn eignaðist hún kærasta og þegar hún opnaði fyrir honum slapp fortíðin inn með honum. Til að gera langa sögu stutta fór Ella Stína að stjórna kærastanum uppá líf og dauða og fannst hún hefði aldrei lent í þessu áður. Þetta er það erfiðasta sem ég hef lent í, sagði Ella Stína milli þess sem hún reyndi að stjórna í skólanum með því að þykjast ekki kunna talnarunur í Maraþoni eða vera klárari en Fúkó. Eða hún sagðist vera alkóhólisti, eða með geðhvörf, þá þorði enginn að segja neitt og allir urðu andaktugir yfir því hvað Ella Stína var opinská og bara sjö ára og þetta hlaut að vera álag á henni, ef öll sund lokuðust sagðist hún vera Elísabet Jökulsdóttir en þá einmitt lokuðust sundin. En nú er sagan orðin of löng.

Guð sendi Ellu Stínu í bað eitt kvöldið þegar hún átti að gera gjörning.

Bað!

Já, sagði guð.

Og þar gafst Ella Stína upp. Ég get ekki stjórnað honum, ég get ekki stjórnað sjálfri mér.


Um sjálfa þig, sagði guð.
Já, sagði guð, þetta er nefnilega um þig, ekki hann.

Um mig, skrækti Ella Stína og fann að hún var með þræði sem lágu í alla sem henni þóttu vænt um og alla sem skiptu hana máli svo hún þyrfti ekki að finna ást, enda var hún löngu farin að trúa að ást væri stjórnun en ást væri ekki tildæmis að vera og leyfa öðrum að vera.

Ella Stína hélt áfram að gefast upp eftir hún kom úr baðinu. Enda hafði hún aldrei farið í bað, þetta var ný reynsla fyrir manneskju sem býr í brúðuleikhúsi. En þá sagði hún: Guð. Ég gefst upp. Og hún fann að guð ætlaði að taka við. Guð ætlaði að taka þetta frá henni. Guð elskaði hana. Guð ætlaði að taka við.

Kannski gæti Ella Stína einhverntíma búið til leikhús.

Engin ummæli: