Einn daginn ákvað Ella Stína að hætta að gráta og þá 
uppgötvaði hún raunverulegt ástand sitt, hún hafði verið 
rænd. Hún hafði samt ekki verið að gráta yfir því. Hún hafði 
verið að gráta yfir því að ræninginn var dáinn.
Þetta hafði samt ekkert verið sérlega elskulegur ræningi, 
hann hafði varla veitt henni eftirtekt, hann yrti varla á 
hana, hann hlustaði aldrei á hana, hann mætti ekki einusinni 
í afmælið hennar. En Ella Stína neitaði að sjá þetta. Það var 
útaf því að hann var búinn að ræna úr henni augunum. Og hún vissi ekki hvar hann hafði látið þau. Hún hafði líka 
fljótlega gleymt að spyrja hann, það hefði verið svo 
óþægilegt fyrir ræningjann ef hún sagt: Fyrirgefðu, þú ert 
búinn að ræna úr mér augunum, geturðu sagt mér hvar þú lést þau.
Ræninginn hefði getað farið alveg í kerfi.
Ella Stína komst fljótlega að því að það var búið að ræna 
sögunni hennar svo hún einsetti sér að grafast fyrir um hana 
og byrjaði í Landnámsskálanum en fann hana svo í píkunni, þar fann hún eina perlu, skeið, og brot úr diski. Hvað átti hún nú að gera við þetta, hún varð að hitta norn sem gæti hjálpað henni, en það var búið að ræna úr henni norninni svo Ella Stína fór að leita að norninni en þá byrjaði að hún hugsa svo mikið en það fyrsta sem henni hafði dottið í hug var spegillinn svo hún leit í spegilinn og þar sá hún nornina. 
Ella Stína fór að hlæja. Nornin sagði: Settu þetta á 
Þjóðminjasafnið. Ella Stína gerði það, hún læddist eina 
nóttina inná Þjóðminjasafnið og setti skeiðina, perluna og 
brotið úr diskinum og skrifaði: Þetta fannst í píku á sjö ára 
barni. Er ég ekki annars sjö ára, hugsaði Ella Stína því það 
var ekki von að hún myndi hvað hún var gömul því árunum hafði verið rænt frá henni. Æ, skiptir ekki máli, sagði Ella Stína og fór. Daginn eftir varð allt vitlaust því það kom í ljós að það mátti ekki hver sem er setja eitthvað á Þjóðminjasafnið. 
Ella Stína rétt gat náð í dótið sitt og ákvað að stofna 
Þjóðminjasafn heima hjá sér. Líka ef hún skyldi finna 
eitthvað meira í sjálfri sér.
Og Ella Stína vissi aldrei hvað hún átti að segja því hann 
var búinn að ræna frá henni málinu. Og hún hafði svo miklar áhyggjur því það var búið að ræna hana traustinu en verst fannst Ellu Stínu þótt hún vissi varla af því því ræninginn hafði rænt frá henni meðvitundinni svo hún var meðvitundarlaus en samt fannst henni verst að hann hafði rænt hana ákveðninni svo hún vissi aldrei hvað hún átti að gera eða hvernig hún átti að vera. Uppáhaldsbókin hennar var Bláskjár en Bláskjá var einmitt rænt af ræningjum og ólst upp hjá ræningjum. Ella Stína lifði sig svoleiðis inní þetta. En það var eitt sem var ekki hægt að ræna af Ellu Stínu og það var lífið.
Ella Stína vissi samt ekkert um lífið. Hún vissi samt að 
lífið var útum allt.
Hún hafði verið rænd gleðinni og þessvegna var hún alltaf 
sorgmædd og alltaf að gráta en hún vildi ekki að neinn sæi 
að hún væri að gráta svo hún skrifaði í staðinn, hún 
skrifaði heilu búnkana og heilu staflana og herbergið hennar 
var fullt af þessu. Svo nú ákvað hún að hætta að gráta. En 
þá tók ekki betra við, hún hét sjálfri sér því að fara elska 
sig því ástin veitir manni gleði en það var bara fyrstu 
dagana sem hún setti á sig krem, en samt var það nú 
svoleiðis að þegar skammirnar dundu yfir hana frá henni 
sjálfri, þá sagði hún ella stína ég elska þig.
En víkjum nú að því þegar Ella stína var alltaf skrifandi, 
hún var ekkert að skrifa fyrir sjálfa sig, hún var að skrifa 
einsog hún hélt að aðrir vildu að hún skrifuðu og hún þorði 
ekki að gefa neitt út sem henni sjálfi fannst gott, ekki 
nema hún hefði hugsað um það í heila öld, hugsanir voru sama og svefn er fyrir aðra, já hugsanir voru svefn fyrir Ellu 
Stínu, og hún hugsaði ofboðslega mikið, lífið komst ekki að 
því hún var alltaf að hugsa, guð komst ekki að, Ella stína 
hugsaði svoleiðis og svoleiðis að hún var farin að halda að 
hún væri snillingur, Ella stína er auðvitað snillingur, en 
hún hugsaði samt of mikið, því það var þannig sem hún svaf 
og hún varð að halda sér sofandi, hún var eiginlega í 
öndunarvél þarsem henni var haldið sofandi, og hún varð 
auðvitað að bíða eftir einhverri frelsun, hún var að bíða 
eftir prinsinum, hún sá þá svoleiðis þjóta hjá en enginn 
stoppaði ekki einu sinni þótt hún vínkaði enda þorði hún því 
ekki fyrir sitt litla líf, svo var hún að bíða eftir að 
verða fræg, og eða rík, og allaveganna, þegar hún var 
unglingur hafði hún beðið eftir að verða uppgötvuð en fannst það svo barnalegt að hún hætti því, en samt í hvert skipti sem komu útlendingar urðu augun í henni svolítið stærri og hún vonaðist eftir að þeir sæju eitthvað í henni sem enginn annar hafði séð, já þannig hugsaði hún og svaf, og skrifaði, hugsanirnar voru líka grátur, það var allt 
grátur í Ellu Stína, líka allskonar þráhyggjur einsog hún 
gæti bjargað fótboltasigrum og allskonar, það var sama hvað hún gerði, hún var alltaf grátandi, og kannski var það 
fyrsta sem kveikti á perunni hjá henni þegar strákarnir 
hennar sögðu: fáðu þér tissjú.
Eftirað ræninginn var dáinn var Ella Stínu í stöðugu tölvusambandi við hann. Ræninginn var með hotmeil sem á stóð: ellastina@hotmail.com Aha, hugsaði Ella Stína, ræninginn heitir Ella Stína. 
Ella Stína fór að gröf ræningjans en þá komst hún að því að hún var búin að ræna gröfina og ræninginn lá heima hjá henni undir rúmi og saug úr röri.
Ella Stína var rænd guði og það tók hana smá tíma að gera sjálfa sig að guði. Hún tilbað sjálfa sig og hugsaði stöðugt um sjálfa sig í staðinn fyrir gefa út blað sem héti: Smáfuglinn fagri.
Ella Stína var rænd svipunni sem hún notaði á sjálfa sig. Hún var heilt sumar að safna sér fyrir nýrri svipu, en mikið varð hún glöð þegar hún fékk loksins svipuna, hún gat ekki drukkið kaffi, ekki reykt, ekki opnað hurð, ekki strokið einhverjum um vangann, ekki slökkt á sjónvarpinu, ekki greitt á sér hárið, bara skrifað með vinstri hendi, ekki talað í símann, ekki skrúfað frá kalda krananum, og svo framvegis því hún var alltaf að berja sig með svipunni.
En þess ber að geta í sögulok að hún gat auðvitað allsekki 
haldið á svipunni því hnefinn á henni var svo krepptur því hún var alltaf að berja sig í andlitið svo hún myndi ekki missa andlitið. Þið haldið kannski að þetta hafi allsekki verið svona en Ella Stína bjó inní píningarklefa og lá þar á píningarbekk, svo lá hún á sálfræðibekk, svo lá hún á ljósabekk, svo lá hún á rónabekk, og hún elskaði píningarbekkinn mest því hún hélt að það væri hennar eigin uppfinning og hún hefði fæðst þar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)

Engin ummæli:
Skrifa ummæli