05 febrúar 2012

Nýr dagur

LJÓÐ
Nýr dagur
Fuglatíst
Garnagaul
Bílhljóð
Og sólin faldar skýin.

Gærdagurinn,... -

LJÓÐ
Já, nú er nýr dagur
Og ég er búin að á leið á gærdeginum,
Hann kemur þjótandi aftur og aftur
Breiðir úr sér,
Segist vera dagurinn í dag,
Lýgur öllu,
Í staðinn fyrir að hlúnkast
Ofaní gröfina sína,
Gröf gærdagsins.

Við vatnið, maður verður betri maður við vatnið

VIÐ VATNIÐ
Undarlegir þessir Íslendingar, maður hittir þá við vatnið, þeir eru að fara að veiða, og svo hefja þeir upp raust sína og leysa heimspólitíkina á einu augabragði, einsog að kasta út flugu, ánþess að blikka auga, nefna þá alla í einu Gengis Khan, Saddam Hussein, Bandaríkjaforseta, Ívan grimma rússakeisara, þeir vita allt að mannlíf eru einskis virði í Rússlandi, að Rússarnir hafi drepið blökkumenn sem voru um borð með þeim, allt útaf kommúnistabyltingunni á sínum tíma og enn lengra aftur, þeir þekkja ekki lýðræði og þegar ég reyni að benda á að lýðrækisríkin séu að fara með plánetuna til fjandans, og eigi nýlendur um allt, leyndar og ljósar er því auðvitað samsinnt og tekið fram að viðkomandi sé ekki á móti Múslimum, en Zaríalögin séu auðvitað útí hött, og svo að menntun vegi uppá móti grimmd og stríði í heiminum, en þegar ég bendi á að Nasistar hafi verið feikivel menntaðir en samt útbúið þrælskipulagða útrýmingarherferð, - já hvað er þá til ráða, og svo eru það Kínverjar þeir fóru hægar í sakirnar en Rússarnir, og Bandaríkjamenn hefðu ekki ráðist inní Írak nema af því að þar var olíu og þeir eru ægilega gráðugir og svo er hrunið afgreitt og ég leiði talið að Sturlungu og alkóhólisma og minnst er á græðgi og hann segir mér frá vini sínum sem er að fara með allt til fjandans, konan farin frá honum, og hann er hættur að sjá hvað er að. Á lokaorðunum treður maðurinn sér í vöðlurnar og arkar svo sína leið að veiða silunginn eftir að við höfum náð að vera sammála um eitt, að maður verður betri maður við vatnið.

Venjuleg rödd á venjulegu kaffihúsi

Ég hlustaði ekki lengur á kjaftæðið. Hann var einsog röddin í mér sem alltaf er að hræða mig, og segja mér skelfilega hluti, og láta mig ímynda mér þá. Þarna var hún lifandi komin. Holdi klædd. Að drekka úr kakóbolla. Bara svona ósköp venjuleg rödd á venjulegu kaffihúsi. Einsog hún gæti birst hvar sem er og hvenær sem væri, ég væri hvergi óhult fyrir henni, og alltíeinu var nóg komið. Orð mín og rökræður höfðu ekki dugað, eilífar endurtekningar, bænir höfðu ekki dugað. Svo áðuren ég vissi af var ég búin að slá hann utanundir.

Ást

Allt sem gert er af ást, .... -

*

Spakmæli

STÖÐNUN ER KANNSKI EKKI ÞAÐ VERSTA SEM TIL ER.

Áhrifameira...

Ég þarf einhvern tilað passa svo ég hreyfi mig ekki.
Það er langbest að þú passir það sjálf.
Langbest?
Já.
En er hitt ekki áhrifameira?

Ella Stína og hreyfingaleysið

Elísabet. Og hvernig vernd viltu.
Ella Stína. Ekki sjást. Ella Stína ekki sjást.
Elísabet. Viltu þá að ég feli þig einhverstaðar?
Ella Stína. Já.
Elísabet. Hvar ætti ég að fela þig.
Ella Stína. Gefðu mér te.
Elísabet. Te?
Ella Stína. Gefðu mér te, þá sést að ég er að drekka te.
Elísabet. Ég skil. Þú sést í hreyfingu og vilt fela þig í hreyfingaleysinu.

Ella Stína: Ég þarf einhvern tilað passa að ég hreyfi mig ekki.
Elísabet: Nú?
Ella Stína. Annars er ég alltaf að hreyfa mig.
Elísabet. Er ekki fínt að hreyfa sig.
Ella Stína. Ég þarf að hugsa.
Elísabet. Hugsa. Um hvað.
Ella Stína. Um allt.
Elísabet. Allt hvað.
Ella Stína. Um hvað ég ætla að gera.
Elísabet. Og hvað

Ella Stína og illskan

Ella Stína. Ég þarf vernd.
Elísabet. Hvernig vernd.
Ella Stína. Vernd gegn illskunni.
Elísabet. Illskunni.
Ella Stína. Illskan er að ná tökum á mér.
Elísabet. Nú hvernig birtist það.
Ella Stína. Þegar ég birtist.

Ella Stína stóð kyrr svo gleðin kæmist ekki inní hana

Ella Stína: Hefur þú einhverntíma staðið kyrr.
Elísabet: Já en þú?
Ella Stína: Hvar?
Elísabet: Í biðröðum og víðar.
Ella Stína: En hefur þú staðið kyrr í sjö ár.
Elísabet: Sjö ár.
Ella Stína: Já.
Elísabet: Nei. Hefur þú gert það.
Ella Stína: Ég hef staðið kyrr í sjö ár.
Elísabet: Afhverju gerirðu það?
Ella Stína: Ég veit það ekki, ég man það ekki lengur.
Elísabet: Og stendurðu ennþá kyrr.
Ella Stína: Já, ég þori ekki að hreyfa mig.
Elísabet: Afhverju ekki.
Ella Stína: Þá reynir gleðin að reyna að komast inní mig.
Elísabet: Gleðin? Er það ekki fínt?
Ella Stína: Það er ekkert pláss fyrir hana.
Elísabet: Nú, það var leiðinlegt.
Ella Stína: Ég er bólgin af reiði og bráðum svíf ég uppí loftið.
Elísabet: Skildu reiðina eftir og komdu til mín.
Ella Stína: Ert þú tóm?
Elísabet: Tóm?
Ella Stína: Já tóm svo það sé pláss fyrir gleðina.
Elísabet: Hvernig tóm?
Ella Stína: Þetta er svo mikil gleði.
Elísabet: Tóm gleði?