22 júní 2010

Vinnukonan

Ég er vinnukona hjá Elísabetu Jökulsdóttur, ég hef löngu gleymt hvað ég heiti, þessi saga er tilað mögulega rifja það upp. Ég fer sjaldan út hjá Elísabetu Jökulsdóttur, hún er svo hrædd við innbrotsþjófa, hún er líka hrædd við að það kvikni í. Svo ég er bara að taka til hjá henni og raða hlutum uppá nýtt. Vorið er að koma, hún leyfði að dyrnar stæðu opnar í dag, annars er hún hrædd um að fresskötturinn í næsta húsi laumist inn og pissi í rúmið hennar, eða þá hinn grái kötturinn í næstnæstahúsi sem er sú tegund af ketti sem er sérfræðingur í að láta stjana við sig, láta gefa sér mjólk, abbast uppá mann og helst eignast hér annað heimili, en Elísabet Jökulsdóttir er búin að eyða ævinni í að hugsa um aðra en sjálfa sig svo hún þolir ekki einn kött í viðbót, ekki einu sinni þótt hann sé frekar vinalegur, ég hef boðist tilað gefa honum mjólk á tröppurnar en þá gerir hún sér lítið fyrir og hvæsir á köttinn, síðan setur hún upp sigrihrósandi glott. Hún liggur alla daga í sófanum og starir útí loftið, hún segist þurfa að hugsa. Hún hugsar mjög mikið. Hún hugsar um hvað lífið hafi verið óréttlátt í hennar garð, að enginn færi henni kaffi í rúmið, að hún eigi eftir að fylla út skattskýrsluna, að hún hafi ekki fengið næg komment á Facebook, já það er rétt, þegar hún er ekki að hugsa í sófanum er hún á Facebook. Hún rúllar þar fram og aftur og í staðinn fyrir að kíkja í heimsókn til vina sinna eða hringja í þá hangir hún á Facebook þótt þetta sé sýndarveruleiki og ekkert nema tölvuleikur. Ég held hún sé að bíða eftir að eignast kærasta en það er eitt af því sem hún er alltaf að hugsa um, - þú kannt að spyrja hvað ég geri eiginlega fyrst að Elísabet Jökulsdóttir gerir allt, því það er einmitt það sem hún hefur gert alla ævi, - gert allt. Svo ég geri ekki neitt, ef ég geri eitthvað þá myndi fara illa svo ég fylgist bara með lífi Elísabetar Jökulsdóttur. Því einhver þarf að fylgjast með því renna út í sandinn.

15 júní 2010

Klikkunarplássið

Ella Stína situr hér og er komin með prjónahnykil inná sviðið, hann vísar ekki í þetta prjónaæði sem nú gengur yfir landið, þetta er blár prjónahnykill, og hún tekur hann og tætir hann í sundur og þá kemur engill og segir taktu einn spotta.
Spotta?
Já, og vittu hvert hann leiðir þig.
Og spottinn leiddi Ellu Stínu að brunni.
Þar oní var barn alveg að deyja, Ella Stína sagði því að toga í spottann.
Mig langar að eiga borðstofu, sagði barnið.
Borðstofu?
Já, með silfurborðbúnaði og svoleiðis.
Ella Stína var alveg stúmm. Komum heim til ömmu, sagði hún svo.
Ömmu, hún er dáin.
Í huganum.
Amma vildi eiga allt fínt en hún hlýtur að líka að hafa verið eitthvað klikkuð.
Klikkuð?
Já, allir eru eitthvað klikkaðir, það er svo klikkunarpláss í manninum.
Ætlar þú bara að hanga í brunninum.
Þetta er klikkunarplássið mitt.
Blogg.... það virðist heil síða vera horfin.