28 maí 2007

Ella Stína í bíó

Sjóræningjamyndin mikla greip hug og hjörtu Ellu Stínu en hún var svo heppin að tvíburasynir hennar ásamt tengdadætrum hennar buðu henni í bíó tilað sjá algjört bíó, þetta voru Garpur og Ingunn, Jökull og Kristín, og svo bróðir Kristínar ásamt vinum hans. Og guess who, Keith Richard, Ella Stína finnur hjarta hafsins og hjarta gyðjunnar í sínu hjarta eftir þessa mynd og svo meiraðsegja miðnætursól og akkúrat núna er bleik rönd bak við Akrafjallið...

og tunglið gægist á milli trjánna á Drafnarstíg. En það var innflutningspartý hjá Ingunni og Garpi í dag, og það var eitt flottasta partý í heimi, og margar tegundir af fjölskyldum og kökum og atriðum og skemmtilegheitum.

Já, það er gaman að vera til. Og eiga fjölskyldu. Og lífið í brjóstinu.

Ella Stína er að springa af hamingju og kom hlæjandi úr bíóinu.

25 maí 2007

Keisarinn er einmana

Keisarinn situr einn í turnherberginu og skrifar eftirfarandi því það finnst ekki fyrren á Írlandi eftir þúsund ár, ég er einmana og held ég geti ekki skrifað, held ég ætti að vera í fríi, hringdi í barnabörnin og enginn svaraði, kannski sáu þau númerið og vildu ekki svara, tel mér trú um að ég sé ekki ástfangin lengur, finnst ég ætti að fara í kvöldgöngu en tilhvers eða skrifa smásögu eða ljóðahandrit, ég ætla ekki að byrja á leikritinu mínu fyrren fyrsta júní, og saga sem ég lét til lestrar bíður þess að vera lesin, má nokkuð segja á þessu bloggi, en það er rosalega fínt að vera laus undan ástinni, en svo er það stóra spurningin hvernig eigi að komast í sund, og einhver sýning í Þjóðleikhúsinu á morgun, ég er búin að heyra á hverjum degi í tvö ár, elísabet jökulsdóttir og að sumu leyti finnst mér ég bara huglaus og ringluð eftir þennan skóla, ef ég hefði ekki fengið hrós frá samnemendum mínum vissi ég ekki hvað ég ætti að halda, ég skil ekki afhverju ég er að blogga þetta, ég ætti að skrifa um eitthvað sem ég þekki, einsog að vera mamma, einsog að vera ástfangin, ég er í nettu paranojukasti og held að allir séu á móti mér, þessi geðsjúkdómur sem ég er haldin lætur stundum kræla á sér, einmitt sona, að enginn elski mig, að allir séu á móti mér, en um leið og ég skrifa það verður það fyndið, um leið og ég prenta það verður það fyndið, en ég var að horfa á bíómynd með skott jopplin, ragtime, mér líður ágætlega að vera ein, ég á bara eftir að sætta mig við eða finnast það fínt, svona er penninn stundum, titrar og ég held að einhver lesi þetta, algjört blaður, ég hræðist það að vera hreinskilin og segja hvernig mér líður, ég vil bara vera sniðug, en nú ætla ég að segja ykkur eina sögu sem er svona: og ég sakna þess að vera ekki heltekin af einhverju leikriti eða sögu. einsog jopplin sem var umkringdur nótnablöðunum sínum, en ég hresstist nú svo mikið við að sjá Víkingsleik í gær að ég færði til bókaskáp í vinnuherberginu svo leikritið mitt fái veggpláss. það er einmitt þetta. það er stífla í höfðinu á mér og ég býð hana velkomna. ég trúi ekki á þetta stífla flæði. ég er búin að komast að því að ég reisi stíflurnar sjálf svo ég geti látið flæða. eða það getur verið að guð geri það... ég allavega elska lífið.

Vinstra augað

Ella Stína hafði fengið loftstein í vinstra augað, það var allavega rák í staðinn fyrir vinstra augað einsog eftir loftstein. Vinstri hlið manneskjunnar speglar hina kvenlegu hlið og hægri hliðin hina karllegu hlið. Og Ella Stína hafði semsagt fengið rák eða loftstein í vinstra augað, og þessvegna vildi hún aldrei fara í rauðu skóna sína, eða setja á sig varalitinn sinn, eða vera svolítið grimm einsog hún gat stundum verið í huganum, af því konan í henni var orðin að rák á himni.

Ellu Stínu saga

Það má enginn vita hvað ég er að skrifa um, sagði Ella Stína. Þá gæti líka sést að ég hafi skrifað þetta, bætti hún við. Og lýk ég hér Ellu Stínu sögu.

Augun í Ellu Stínu

Augun í Ellu Stínu voru helaum því hún var alltaf að leika guð og fylgjast með öllu. Hún hafði glatað augunum sínum en svo spurði hún guð, má ég fá augun mín aftur, og þá setti guð augun í Ellu Stínu og þá sá Ella Stína að hún var gömul og þreytt.

Heitstrenging Ellu Stínu

Ella Stína ólst upp á alkóhólistaheimili og hún strengdi þess heit að yfirgefa aldrei þetta alkólistaheimili, bæði tilað sýna hvað hún þrautseig og hún myndi komast lífs af þótt hún myndi farast, og eins hitt, það hafði bara vaxið inní henni, þessi heitstrenging og hún vissi ekki hvaðan hún kom, að hún skyldi aldrei yfirgefa alkóhólistaheimilið. Það má auðvitað spyrja afhverju Ella Stína hafi ekki strengt heit í hina áttina: Einn daginn mun ég YFIRGEFA þetta alkóhólistaheimili. Kannski hafði Ella Stína misst alla von einsog börnin á munaðarleysingjahælunum en samt hefur maður alltaf lesið um það að þau sofni í þeim draumi að Brad Pitt og Angelíka muni birtast, allavega bréf frá þeim, að einn daginn, já að einn daginn, - svo ef Ella Stína hafði misst vonina, hvar og hvernig hafði gerst, eða vildi hún fá eitthvað útúr því að búa alla ævina á alkóhólistaheimilinu. Var það útaf því að hún var alltaf að finna flóttaleiðir og hver flóttaleið endaði útí mýri, já í mýrarflákum og þarsem Ella Stína stakkst á kaf í mýrina og fann gamalt skyr, eða lenti á Þjóðminjasafninu og viðvörunarbjöllur fóru í ljós og hún sagðist bara hafa verið að leita að píkunni úr sér, hún hefði haldið hún væri hér í sýningarboxi, því hún hefði einusinni gefið Þjóðminjasafninu þessa umræddu píku, nú eða puttana sem var búið að höggva af henni, það hefði maður gert, hvítur miðaldra karlmaður sem hún hefði hitt og þetta hefði bara verið leikur, og nú er lesandann farið að renna í grun um að þetta sé allt táknrænt texti, TÁKNRÆNN TEXTI, og það sé merking á bak við þetta, og það er það sem Ella Stína dundaði sér við í barnæskunni og oft síðar, það var að leita að hinni duldu merkingu hlutanna, afhverju pabbi hennar eða mamma horfðu eða hreyfðu sig svona eða hinsegin, hvað þýddu orðin sem þau sögðu, svo það má kannski segja að hér sé komin fram orsökin fyrir því að Ella Stína vildi halda áfram að búa á alkóhólísku heimili, ÞAÐ VAR TIL AÐ GETA HALDIÐ ÁFRAM AÐ HUGSA OG TALA OG SKRIFA TÁKNRÆNT. Og táknrænan telst intróvert. Ekki sattt. Komment óskast.

Í einræðisríkjum blómstruðu hinir táknrænu höfundar,
rétt einsog hinir rómantísku, er það bull,
Ella Stína er enn með hausverk,
það er eitthvað sem hún er að halda inni,
hún lítur á fingurnar á sér og sér þá ekki,

Ella Stína vildi semsagt ekki hafa heiminn extróvert, hún vildi ekki vita hvað hlutirnir hétu, ókei að vera táknrænn en að vera alltaf táknrænn, það er einsog vera alltaf með krossinn, og Ella Stína var alltaf með krossinn, og hafði alltaf verið með hann, og stöðugt að spyrja:

Afhverju er ég með þennan kross,
og hvað táknar þessi kross.

Ef hún hefði tekið hann af sér hefði hún kannski fattað að einumegin stóð Grímsey, hinumegin stóð Fáskrúðsfjörður, og svo stóð eitthvað uppi og niðri einsog tildæmis uppi og niðri. En Ella Stína trúði ekki á uppi og niðri, hún trúði frekar að upp væri niður og niður væri upp og upp þýddi supp.

Hvað þýðir það að ég sé alltaf og eilíflega á þessu alkóhólistaheimili, hugsaði Ella Stína. Það hlýtur að tákna eitthvað sérstakt. Þetta lokaði fyrir andardráttinn í Ellu Stínu, hún var í klemmu, algjörri klemmu og var nú alvarlega farin að hugsa um að yfirgefa þetta alkóhólistaheimili,

en þá þurfti hún að gera eitt:

Hætta að hugsa og skrifa og tala í táknum.

Og fara hugsa og tala og skrifa einsog venjuleg manneskja.

En þá er enginn skáldskapur lengur, emjaði Ella Stína.

Nú, er einhver búinn að telja þér trú um að skálskapurinn sé dularfullur, eða að þú þurfir einhver skáldskap.

Maður lifir ekki hér á jörðinni nema í skáldskap, emjaði Ella Stína.

Það var skáldsagnapersóna sem sagði þetta.

Hvernig á ég vera venjuleg manneskja, sagði Ella Stína.

Bara hvernig líður þér?

Ég er hrædd.

Og óðar hrundu veggirnir á alkóhólistaheimilinu niður.

Ég er enn hrædd.

Afhverju?

Af því það voru engir veggir en þeir hrundu samt.

Það er skáldskapurinn, hann kemur ef þú segir satt.

Ella Stina introvert

Ella Stína var alltaf að passa það sem var fyrir innan svo allt yrði í lagi. Hún gerði samning við guð: Ef ég passa að það sem er fyrir innan komist ekki út viltu þá passa að allt verði í lagi. Svo liðu árin og Ella Stína var búin að gleyma þessum samning. Og þá kom eitthvað uppá svo Ella Stína passaði allt sem var fyrir innan, og þá fékk hún bæði hausverk og hægðatregðu, það blés út á henni maginn og hausinn var einsog glóandi járn og hún gat varla blakað augnlokunum, en hún vildi samt passa það sem var fyrir innan útaf samningnum. Sem hún var samt búin að gleyma. Hlutirnir voru allsekki í lagi og Ella Stína botnaði ekkert í því, hún hafði gert þennan samning, og var búin að gleyma samningnum, það var svo fyrir sérstaka atburðarás að hún mundi eftir samningnum og þá riftaði hún honum. En Ella Stína vildi aldrei rifta neinu, hún var með aðskilnaðarótta á háu stigi og þessvegna er ekki enn búið að rífa niður vegginn heima hjá henni sem er fullur af tárum.

Það sem Ella Stína flaskar á aftur og aftur, er að hún hefur líkama, hún hefur kannski gert samning um að hafa ekki líkama en sá sem hún gerði samninginn við stendur ekki við sinn hluta samningsins.

Ella Stína má lítið vera að því að lifa lífinu því hún situr önnum kafin við samningaborðið og skrifar undir nýja og nýja samninga, ýmist við guð eða andskotinn og gott ef hún ruglar þeim ekki saman.

En eitt er á hreinu, Ella Stína er búin að rifta einum samningi og það er að ef hún passi allt fyrir innan þá passi guð uppá að allt verði í lagi.

Það getur þó verið að einn samningur í viðbót eigi eftir að koma í ljós og sá samningur gæti verið svohljóðandi: Ef þú, guð, leyfir mér, Ellu Stínu, að vera guð, ... seinni hluti samningsins er ekki enn kominn í leitirnar.

Það er líka eitt, hausverkurinn og hægðirnar, en svo eru það hugsanirnar, þær mega ekki komast út. Þær mega ekki komast út.