25 maí 2007

Ella Stina introvert

Ella Stína var alltaf að passa það sem var fyrir innan svo allt yrði í lagi. Hún gerði samning við guð: Ef ég passa að það sem er fyrir innan komist ekki út viltu þá passa að allt verði í lagi. Svo liðu árin og Ella Stína var búin að gleyma þessum samning. Og þá kom eitthvað uppá svo Ella Stína passaði allt sem var fyrir innan, og þá fékk hún bæði hausverk og hægðatregðu, það blés út á henni maginn og hausinn var einsog glóandi járn og hún gat varla blakað augnlokunum, en hún vildi samt passa það sem var fyrir innan útaf samningnum. Sem hún var samt búin að gleyma. Hlutirnir voru allsekki í lagi og Ella Stína botnaði ekkert í því, hún hafði gert þennan samning, og var búin að gleyma samningnum, það var svo fyrir sérstaka atburðarás að hún mundi eftir samningnum og þá riftaði hún honum. En Ella Stína vildi aldrei rifta neinu, hún var með aðskilnaðarótta á háu stigi og þessvegna er ekki enn búið að rífa niður vegginn heima hjá henni sem er fullur af tárum.

Það sem Ella Stína flaskar á aftur og aftur, er að hún hefur líkama, hún hefur kannski gert samning um að hafa ekki líkama en sá sem hún gerði samninginn við stendur ekki við sinn hluta samningsins.

Ella Stína má lítið vera að því að lifa lífinu því hún situr önnum kafin við samningaborðið og skrifar undir nýja og nýja samninga, ýmist við guð eða andskotinn og gott ef hún ruglar þeim ekki saman.

En eitt er á hreinu, Ella Stína er búin að rifta einum samningi og það er að ef hún passi allt fyrir innan þá passi guð uppá að allt verði í lagi.

Það getur þó verið að einn samningur í viðbót eigi eftir að koma í ljós og sá samningur gæti verið svohljóðandi: Ef þú, guð, leyfir mér, Ellu Stínu, að vera guð, ... seinni hluti samningsins er ekki enn kominn í leitirnar.

Það er líka eitt, hausverkurinn og hægðirnar, en svo eru það hugsanirnar, þær mega ekki komast út. Þær mega ekki komast út.

Engin ummæli: