25 maí 2007

Heitstrenging Ellu Stínu

Ella Stína ólst upp á alkóhólistaheimili og hún strengdi þess heit að yfirgefa aldrei þetta alkólistaheimili, bæði tilað sýna hvað hún þrautseig og hún myndi komast lífs af þótt hún myndi farast, og eins hitt, það hafði bara vaxið inní henni, þessi heitstrenging og hún vissi ekki hvaðan hún kom, að hún skyldi aldrei yfirgefa alkóhólistaheimilið. Það má auðvitað spyrja afhverju Ella Stína hafi ekki strengt heit í hina áttina: Einn daginn mun ég YFIRGEFA þetta alkóhólistaheimili. Kannski hafði Ella Stína misst alla von einsog börnin á munaðarleysingjahælunum en samt hefur maður alltaf lesið um það að þau sofni í þeim draumi að Brad Pitt og Angelíka muni birtast, allavega bréf frá þeim, að einn daginn, já að einn daginn, - svo ef Ella Stína hafði misst vonina, hvar og hvernig hafði gerst, eða vildi hún fá eitthvað útúr því að búa alla ævina á alkóhólistaheimilinu. Var það útaf því að hún var alltaf að finna flóttaleiðir og hver flóttaleið endaði útí mýri, já í mýrarflákum og þarsem Ella Stína stakkst á kaf í mýrina og fann gamalt skyr, eða lenti á Þjóðminjasafninu og viðvörunarbjöllur fóru í ljós og hún sagðist bara hafa verið að leita að píkunni úr sér, hún hefði haldið hún væri hér í sýningarboxi, því hún hefði einusinni gefið Þjóðminjasafninu þessa umræddu píku, nú eða puttana sem var búið að höggva af henni, það hefði maður gert, hvítur miðaldra karlmaður sem hún hefði hitt og þetta hefði bara verið leikur, og nú er lesandann farið að renna í grun um að þetta sé allt táknrænt texti, TÁKNRÆNN TEXTI, og það sé merking á bak við þetta, og það er það sem Ella Stína dundaði sér við í barnæskunni og oft síðar, það var að leita að hinni duldu merkingu hlutanna, afhverju pabbi hennar eða mamma horfðu eða hreyfðu sig svona eða hinsegin, hvað þýddu orðin sem þau sögðu, svo það má kannski segja að hér sé komin fram orsökin fyrir því að Ella Stína vildi halda áfram að búa á alkóhólísku heimili, ÞAÐ VAR TIL AÐ GETA HALDIÐ ÁFRAM AÐ HUGSA OG TALA OG SKRIFA TÁKNRÆNT. Og táknrænan telst intróvert. Ekki sattt. Komment óskast.

Í einræðisríkjum blómstruðu hinir táknrænu höfundar,
rétt einsog hinir rómantísku, er það bull,
Ella Stína er enn með hausverk,
það er eitthvað sem hún er að halda inni,
hún lítur á fingurnar á sér og sér þá ekki,

Ella Stína vildi semsagt ekki hafa heiminn extróvert, hún vildi ekki vita hvað hlutirnir hétu, ókei að vera táknrænn en að vera alltaf táknrænn, það er einsog vera alltaf með krossinn, og Ella Stína var alltaf með krossinn, og hafði alltaf verið með hann, og stöðugt að spyrja:

Afhverju er ég með þennan kross,
og hvað táknar þessi kross.

Ef hún hefði tekið hann af sér hefði hún kannski fattað að einumegin stóð Grímsey, hinumegin stóð Fáskrúðsfjörður, og svo stóð eitthvað uppi og niðri einsog tildæmis uppi og niðri. En Ella Stína trúði ekki á uppi og niðri, hún trúði frekar að upp væri niður og niður væri upp og upp þýddi supp.

Hvað þýðir það að ég sé alltaf og eilíflega á þessu alkóhólistaheimili, hugsaði Ella Stína. Það hlýtur að tákna eitthvað sérstakt. Þetta lokaði fyrir andardráttinn í Ellu Stínu, hún var í klemmu, algjörri klemmu og var nú alvarlega farin að hugsa um að yfirgefa þetta alkóhólistaheimili,

en þá þurfti hún að gera eitt:

Hætta að hugsa og skrifa og tala í táknum.

Og fara hugsa og tala og skrifa einsog venjuleg manneskja.

En þá er enginn skáldskapur lengur, emjaði Ella Stína.

Nú, er einhver búinn að telja þér trú um að skálskapurinn sé dularfullur, eða að þú þurfir einhver skáldskap.

Maður lifir ekki hér á jörðinni nema í skáldskap, emjaði Ella Stína.

Það var skáldsagnapersóna sem sagði þetta.

Hvernig á ég vera venjuleg manneskja, sagði Ella Stína.

Bara hvernig líður þér?

Ég er hrædd.

Og óðar hrundu veggirnir á alkóhólistaheimilinu niður.

Ég er enn hrædd.

Afhverju?

Af því það voru engir veggir en þeir hrundu samt.

Það er skáldskapurinn, hann kemur ef þú segir satt.

Engin ummæli: