29 mars 2011

Mitt líf

Mitt líf,....

fallegast,

mitt líf

í höndum mínum

takk.

Raunveruleikinn er í næsta húsi

Leiðin til raunveruleikans er ekki löng,
raunveruleikinn er í næsta húsi,

reality is next door.

Stjórnsemin

Hvað tekur við þegar stjórnseminni sleppir?

*

20 mars 2011

Virðing

Hann segir mér
að það sé ekki hægt
að skrifa
um hvað sem er
og hvernig sem er,
hann tildæmis
þurfi að bera
virðingu
fyrir hafinu.

*

Óskar

Hann er rauðbirkinn, hvasseygur,
af því að horfa
út á sjóndeildarhringinn
og nú horfir hann á mig
treystir mér ekki,
vaktar mig, sefur laust,
hann heldur að ég ætli að stinga hann
í bakið,
þessa viðkvæmu brynju
sem hann bjó til
handa mér til að dáðst að.

*

18 mars 2011

Konan

Hún vill eiga
nælonsokka
og aðgang

að sinni frumstæðu visku.


*

15 mars 2011

Maðurinn í brúnni

Það er ekki hægt að flokka allt, til dæmis hvað sé sólarlag, hvað sé himinn, hvað sé haf og hvað sé maðurinn í brúnni sem dreymir um mig.

*

14 mars 2011

Þula

Ég vil njóta

ástin mín

ekki brjóta,

gullin þín,

ég vil fljóta

út á haf

ekki skjóta,

þig í kaf.

*

Samtalið í höfðinu

Með hnífinn á lofti,
það er annað hvort

þú eða ég.

*

Ættjarðarljóð

Ísland er ein sársaukagretta

og bláber.

*

Dauðinn og spreybrúsinn

Afhverju má aldrei hugsa um dauðann
og dauðann eftir dauðann
en það má alltaf vera með spreybrúsann á lofti.

*

Þá heyri ég þetta lag

Ég ætlaði ekki að svara símanum
ég ætlaði að fara útá land
eða loka mig inni
en þá heyri ég þetta lag.

*

10 mars 2011

Skyrtan

Elísabet fór í allar skyrtubúðir á Laugaveginum og komst að því að allar skyrtur eru einlitar einsog menn séu allir á leið í herinn!!! Það var tildæmis enginn með útsauminum: Ég elska Elísabetu á bakinu eða litlum fuglum á ermunum. Elísabet fann loks eina í Herrabúð Kormáks og Skjaldar, hún hét Oscar. Hún var svört einsog nóttin. Elísabet var að hugsa um að sauma útí hana: Ég elska Óskar, ... tilað koma í veg fyrir að hann fari í stríðið.

*

08 mars 2011

Ástin, tíminn og dauðinn

Ég er svo hrædd um að þú deyir
og að við höfum ekki nógan tíma
en ég gæti alveg eins dáið
eða tíminn flogið frá okkur.

Þetta er ansi þröngt sjónarhorn,
dauðinn og tíminn taka ástina í gíslingu
og þar er henni haldið
þangað til hún brýtur sér leið

en það gerir hún alltaf
ef það er ástin.

Samt verður að gæta hennar
og það gerir maður alltaf
ef manni finnst maður hennar verður.

*

Ískaldur

Æ, ég vildi að þú kæmir
til mín
ískaldur
og hrakinn
og ég myndi stinga þér inn.

*

Ískaldur II

Æ, það væri gaman
ef þú bankaðir uppá
ískaldur
og svalandi.

*

07 mars 2011

Að tilheyra

Þú tilheyrir mér
og ég er að hugsa um
að kaupa undir þig
glerskáp,
það gæti bara komið
móða á glerið,
svo ég ætti að setja þig
inní ísskáp
nema þú gætir étið
allan matinn
svo ég gæti sett þig
inní kústaskáp
en þá myndi mér bregða
í hvert sinn
sem ég opnaði skápinn
og þú værir önnum kafinn
við að sópa
ég gæti raðað þér
einhverstaðar
með skónum
postulínsstyttunum
geisladiskunum
en það er of mikið vesen
að raða þér í rétta röð
ég gæti haft þig hjá mér
en þá þyrfti ég að tala
við þig og ég hef ekkert
að segja
nema að ég elska þig.

*

útlegð 4

Hausinn á mér er í útlegð, þar fer fram mikill útlegðarbissniss, ég fékk útlegðardóm, þetta er yndisleg útlegð, ég þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu, ég gref gröfina mína sjálf.

*

útlegð 2

Ég hef verið í útlegð, ég átti hvergi heima, ég bara drakk og dópaði, mér var sama um allt, ég gaf skít í allt, allir aðrir voru hálfvitar og voru að hugsa hálfvitalegar hugsanir, ég átti enga þvottavél og varð að þvo einhverstaðar, ég fór á barinn og svo í partý, ég var komin með vonda húð af öllum andlitsförðunum sem ég fékk lánað eða stal einhverstaðar, ég var komin með bjúg og augun sokkin, svaf hjá einhverjum, og hverjum sem var, ég hafði ekki samband við vini eða fjölskyldu, ég var auðvitað í leðurjakka,merktum í bak og fyrir; útlegðinni.

*

Útlegð 1

Að standa utan við allt,

allt,

ekkert eftir

nema allt.


*

Útlegð

Að standa utan við allt,

allt,

nema skerandi ýlfur rándýrsins

á ísnum,


eða í kokinu,


ég man aldrei

hvort er hvort.

*

Skáldið

Hann kallar mig ljósið eða blómið, ég veit ekkert hvað ég á að kalla hann, ég gæti kallað hann skáldið.

03 mars 2011

Opinberunarljóð

OPINBERUN

Það var opinberun
þegar ég sá hann
sitjandi á hækjum sér
að vinda gólftuskuna
þessar hendur gátu
greinilega kreist blóð
úr hjartanu,
augun skorið mann í beitu
og líkaminn svo liðugur
að hann gæti staðið teinréttur
við altarið.

*

Eplið

Svona liðugur gæti hann
birst mér einsog snákur
sem segir mér
að bíta í epli
þótt það sé ekkert epli.

*

Eitt lítið ljóð á fimmtudegi

Það er kannski þess vegna að ég er hrædd við ástina,

að alheimurinn hverfur, allt hverfur nema hann,

ég er á valdi fullkominnar einbeitingar,

með augun föst á uppskriftinni.

*

Ástin

Raunveruleikinn er farinn
því ástin er hér,
hún hefur tekið yfir,
úthýst öllu nema eigin hugmyndum,
ég fyrir mitt leyti er orðin leið á ástinni,
ég vil bara fá að ríða,
strá blómum,
smyrja olíu,
klæðast silkinærfötum,
svörtum nælonsokkum,
og svo framvegis
en ástin neitakk,
hún nennir aldrei að ríða.

*

Tár í augun

Hendurnar á honum
hnén, bakið,
og augun.

Ég set hendurnar
í efstu hillu,
hnén í skúffuna,
bakið inní skáp

en augun,

ég læt tár í augun.

*

Opinberun (óunnið)

Ég fékk opinberun
þegar ég sá hann
sitja á hækjum sér
að vinda gólftuskuna
alveg einsog kórdrengur í kirkju
eða sjálfur brúðguminn
að þrífa upp æluna
eftir mig.

*