30 júní 2008

Ég elska þessi orð:

“Maður hittir víða menn sem eru fullir af skemmtilegu spakvitríngaslúðri og aðra sem kunna furðulegar sögur. Það er í íslendingnum ákveðið dramatískt ris, sem á í senn rætur sínar í hinu hrikalega landi hans og fáranlegu lífsbaráttu. Í örlögum hins smæsta manns er ævinlega eitthvað stórbrotið og yfirdímensjónerað; maður sem er svo lítill bógur að enginn tekur eftir honum, getur hæglega verið sifji einhverra gífurlegra náttúrukrafta og voða, uppalinn í samfélagi við ótrúlegustu hörmúngar. Þessvegna er þjóðlífið líka ótæmandi skáldskaparefni hvar sem maður grípur niður, lífið alstaðar jafn stórfeinglegt, sögulegt og frámunalegt.
Ömurlegar sögur sem gánga yfir öll skynsamleg takmörk eru algeingar, sömuleiðis sögur sem nálgast geðveiki.”

Halldór Kiljan Laxness

28 júní 2008

Líþíum-saga

Líþíum er salt úr jörðinni. Það er í lotukerfinu með gulli, silfri, vetni og öðrum efnum jarðarinnar. Þegar ég var á geðdeild 1997 var ég greind með geðhvörf. Það var einhver léttir sem fylgdi því og útskýrði allt þetta "rugl". Allt þetta rugl þýddi ekki bara meiriháttar sturlun sem ég hafði glímt við þetta sumar og næstum kostað mig lífið, heldur allskonar litlar uppákomur, allskonar viðhorf til lífsins. Svo ég var fegin að heyra þetta frá læknunum. Þeir sögðu ég ætti að taka líþíum, það kom ekki til greina, ég ætlaði ekki að verða einhver pillukerling, en fyrst og fremst ætlaði ég að lækna mig sjálf. Verða fræg og rík fyrir vikið. Allir áttu á geta bent á mig: Hún læknaði sjálfa sig. Hún fann leiðina.

Svo fór ég í allskonar óhefðbundnar lækningaaðgerðir, (ég er ekki að gera lítið úr þeim, ég held að þær á endanum hafi hjálpað mér og átt þátt í því að ég fór loksins að taka lyf)

En í tvö ár streittist ég á móti, fór í heiftarlegar maníur og gat varla fermt tvíburasyni mína, ég gat ekki hugsað um ömmubörnin mín, ég gat ekki klárað bækurnar mínar og aftur og aftur stofnaði ég lífi mínu í hættu með áhættuhegðun og stjórnleysi. Minn eigin haus réði heiminum.

Svo hitti ég gamlan mann á götu: Það verður stofnaður Geðhvarfahópur í kvöld, sagði hann. Ég hugsaði um að fara en hugsaði líka um að hætta við. Þannig hugsaði ég og hugsa reyndar ennþá stundum. Svo spurði ég tvíburana hvort ég ætti að fara og sembeturfer tók ég mark á þeim þegar þeir sögðu mér að fara. Ég var næstum því farin að gráta á fundinum af því þar var bara venjulegt fólk. Myndin af mér var greinilega mynd af skrímsli, það uppgötvaði ég þarna um kvöldið.

Eftir tvo mánuði var ég farin að taka líþíum. Margir á fundinum notuðu það lyf, aðrir notuðu önnur lyf. En líþíum var talið best. Eiginlega töfralyf og uppgötvaðist fyrir tilviljun. Og hvað réði úrslitum, ég hafði hlustað á þau, þau voru bara í fínu lagi þótt þau tækju lyf. Þau sögðu mér að úthaldið myndi aukast og ég myndi ekki hætta að fá skrítnar hugmyndir.

Ég ætti að gefa þessi séns í tvör ár!!! Tvö ár, hugsaði ég, ég hafði hugsað um tvo mánuði. Síðan eru liðin 9 ár. Og ég passa alltaf uppá líþíumskammtinn minn. En ég þarf að passa uppá svefninn, tilfinningarnar, sjálfa mig svona í kristalsformi.

Það gerðist ekki neitt þegar ég fór að taka líþíum. Það var það merkilega, ég hélt kannski að það myndi vaxa á mig þriðja höndin eða eitthvað slíkt en fyrsta sem ég gerði var að pota í naflann á mér...

Ég hafði ekki snert á mér naflann í mörg ár.

Samkvæmt óhefðbundnum læknisaðferðum, tildæmis orkustöðvunum á jafnvægisstöðin aðsetur í naflanum. Og geðhvörf snúast um jafnvægi.

Ég fór að greiða á mér hárið.

Ég fékk meira útúr kynlífi.

Og ég veit það ekki, það bara svona varð allt í lagi, án þess ég geti haft um það stórkostleg lýsingarorð.

Konan á strætóstoppistöðinni sagði: Þú hefur lifnað við, og vinur minn fyrir norðan sagði: Það er einsog innra sárið hafi gróið.

Sveiflur II

Hjá okkur sem eru með geðhvörf er stundum talað um dægursveiflu. Ég veit ekki hvort það er líka gert hjá öðrum. En mín dægursveifla er þá sú að ég vakna í þunglyndi og sofna í maníu, svona ef ég ýki þetta. Því ég hef ekki farið í maníu síðan ég fór að taka líþíum. En líþíum virkar betur á maníurnar en þunglyndið. Þótt ég taki þessi ágætu lyf þarf ég stundum að kljást við sveiflur, einsog að vakna í þunglyndi á morgnana, sannfærð um að ég sé komin með krabbamein, eigi stutt eftir, hafi ekkert gert í lífinu. (Þegar ég var í skólanum hafði ég ekki tíma í þessar hugleiðingar, ég varð að drífa mig á fætur) En svo tók ég eftir því að ég var mikið hressari á kvöldin, þá fékk ég stórkostlegar hugmyndir hvernig ég gæti bætt stöðu mína, fjölskyldunnar og heimsins, glaðvaknaði og átti erfitt með að sofna. Þetta var frekar óþolandi en einhverra hluta vegna ríkir jafnvægi núna, ég veit ekki afhverju. En ég gæti komist að því í næstu færslu.

27 júní 2008

Sveiflur I

Fyrsta sem mér dettur í hug um sveiflur er þegar ég var á leiðinni í maníu árið 1997 og tvíburarnir fóru til pabba síns sem að vísu bjó í næstu götu. Vinur hans hafði "klagað" mig og sagt ég væri á leiðinni í maníu. Ég hafði aldrei heyrt annað eins rugl, ég var að verða ég sjálf, loksins. En ég sat í stignum þegar Garpur og Jökull komu heim með lítinn miða og sögðu: Sjáðu, pabbi teiknaði þetta upp fyrir okkur, þú hefur stærri sveiflur en venjulegt fólk, venjulegt fólk hefur svona sveiflur en þú hefur svona sveiflur. Svo bentu þeir á teikningu af þessum tveimur mismunandi sveiflum sem pabbi þeirra hafði teiknað fyrir þá. Mínar sveiflur voru einsog úthafsöldur, sveiflur annarra voru einsog haf í svefni.

Mér fannst þetta mjög skrítið, ég hugsaði tvennt: Pabbi þeirra var greinilega á móti mér og var að spilla á milli mín og tvíburanna, hann vissi ekkert um mig og mínar sveiflur, við höfðum verið skilin í mörg ár, en á hinn bóginn var ég soldið fegin að hann skyldi taka þetta að sér að útskýra þetta fyrir þeim.

Ég hafði heldur ekki hugsað þetta sem sveiflur, en þarna sá ég sveiflurnar, já þetta voru bara sveiflur, sveiflur sem geta orðið stórhættulegar.

26 júní 2008

Staðan í lok júní

Ég á ekki fyrir mat, dömubindum eða strætómiðum, og það verið að undirrita viljayfirlýsingu um álver á Bakka, virkjanir í Þjórsá, ég var hér á undan stóriðjunni og hafði það fínt.

25 júní 2008

Vantaði typpi í leikritið?

Ein ung kona sem ég hitti var mjög hrifin af leikritinu mínu Mundu töfrana en alveg hissa yfir því að það var ekkert typpi. Ég var viss um að það yrði typpi í leikritinu þínu en svo var ekkert, sagði hún. Það voru sex typpi í einni kippu í síðasta leikriti, sagði ég. Það hlaut að vera, sagði hún.
Það hét Íslands þúsund tár.

24 júní 2008

Það er eitthvað skrítið að gerast með mig

Alltaf einsog ég sé að fá aðsvif, ekki kannski alltaf, og svo þessir kippir í heilanum sem koma venjulega á kvöldin komu alltíeinu í morgun, svo vil ég bara láta mig dreyma en nú er ég að fara lesa upp hjá Blindra, og ég er búin að vera með verk í augunum.

Ella Stína á Jónsmessunótt

Ella Stína ætlar að vaka á netinu í nótt og fylgjast með ísbirninum.

Ella Stína mesti hugsuður heims

Á visi.is má sjá lista yfir hundrað mestu hugsuði heims. Því miður er þessi listi alvarlegur misbrestur. Ellu Stínu er það hvergi getið. En Ella Stína er í fyrsta til hundraðasta sæti og í heimsveldinu hanga uppi myndir af henni: Hugsuðurinn Ella Stína. Þetta hugsaði Ella Stína í gær og þetta hugsaði Ella Stína í dag. Ef einhver getur hugsað er það Ella Stína. Það veit enginn hvað Ella Stína hugsar en hún hugsar og hún er alltaf að hugsa eitthvað merkilegt einsog áðan þegar hún fór að skoða sjóinn hugsaði hún: Nei sko, hann fellur að.

23 júní 2008

Flokkar Lísbet

Lísbet sem er snilli-fegurðardís að vestan, (ræður yfir Vestfjörðum) hefur flokkað bloggið mitt!!!

1. Sögur sem byrja Einu sinni var kona....
2. Sögur með pólitísku ívafi
3. Andlegar sögur sem eru skilaboð að handan til hennar
4. Sögur um Garp og Jökul
5. Sögur um húsið
6. Sögur með tvíræðum tóni.

Ég sé að þetta er mikið betri flokkun en mín og kveikir meira í mér, þetta kom fram í kommenti frá Lísbet, og ég leyfi mér að birta þessa flokkun hér.

Skoðanakönnun

Ég hef tekið eftir því að það eru svona færsluflokkar á moggablogginu svo ég er hér með smá skoðanakönnun um hvað lesendur vilja fá bloggað um:

1. Ellu Stínu
2. Sálina
3. Karlmenn
4. Fótbolta
5. Fegurðina í lífinu
6. Hafið
7. Ísbirni
8. Batann
9. Kærleikann
10. Eldfjöll við þjóðveginn

Elísabet á Þingvöllum

Í dag er Jónsmessa, einu sinni fór ég uppá Arnarfell á Þingvöllum með Þuru vinkonu minni og við gistum þar og vöknuðum í útsýninu eftir úrhellisrigningu sem gerði þá um nóttina, ég er svo frumleg að ég gat ekki verið að velta mér uppúr dögg einsog allir aðrir, svo einu sinni fór ég í brúðkaup á Þingvöllum og hugðist gista úti um nóttina í mínum eðalfína svefnpoka, þá kom maður og vildi komast ofaní pokann minn. Sætt. Nóttin sú var bleik og fjólublá.

Næs

Ég er búin að vera soldið næs við sjálfa mig, færa mér kaffi í rúmið á morgnana og lesa blöðin.

Engillinn Ella Stína

Grosso er ítalskur, ég fór í sund í dag, með Vilborgu, Vilborg er undur hér á jörð, algjört eintak útaf fyrir sig, allt sem hún segir og gerir og hugsar er Vilborg. Það er sól og sól og sól og ég er að horfa á barnaefnið. Og bíða eftir ungri konu sem ég er að leiða gegnum sporin, hugsa sér hvað ég er heppin, en hvað á ég að fara skrifa, ég er bíða eftir hugljómuninni, hún er reyndar komin, en mig vantar kraftinn. En hann lætur bíða eftir sér af ákveðnum ástæðum, allt er í hendi guðs.

22 júní 2008

Sætastur

Ég sá loksins einn sætan á EM, Grosso, þarf samt að sjá hann aðeins betur, hélt annars með Spánverjum, sá loksins Torres, Fabregas og alla kappana. En ég dýrka vítaspyrnukeppnir enda vítaskytta í fjölskyldunni, sá besti af þeim öllum, Jökull I. Elísabetarson

Yndislegt líf

Þetta er svo yndislegt líf, sól og sjór, allt blátt og gult og skínandi, glitrandi, nóttin svo undrafögur. Og ljúf. Mamma kom í mat í gær og við borðuðum bóg, BÓG já. Og enn skín sólin, horfðum á fótbolta, mamma hélt með rússum og ég hollindingum. Svo kom Embla Karen til landsins í gær, hún hafði STÆKKAÐ, já heldur betur einsog faðir hennar segir, þau voru svo brún og sæt, og gaman að ná í þau til Keflavíkur, það er svo yndislegt að eiga svona fólk, takk, og hvenær kemur Mánabarnið í heimsókn, bráðum. Og ég er að fara á fund, labba útí góða veðrið, lá í smá þunglyndi en svo gerðist svoldið skrítið, já, en nú hringir síminn: Fyrirgefðu, ég er að reyna að ná í aðra konu. Ég er önnur kona. Er það önnur kona. Já, það er önnur kona. Annars sá ég soldið sætan mann í gær sem keyrði mig á KRvöllinn eftir að ég hafði verið að lesa uppá Lækjartorgi, ég meina ég er snillingur, ég fékk vitrun rétt fyrir upplesturinn að lesa einsog vélbyssa og það var frábært því það varð gjörningur í leiðinni. I am the best. Það stóð líka í skýrslunni.

21 júní 2008

Banaslys

Ég keyrði fram á hræðilegt bílflak í nótt, þetta var svo fallegur morgun og falleg nótt, sumarsólstöður í hámarki, fjöllin í fjólublárri móðu og sólin hátt á lofti, og þá sá ég þennan bíl ef bíl skyldi kalla, það var varla nokkuð eftir af honum, hræðilegt flak, og seinna frétti ég að 19 ára gamall ungur maður hefði látist í slysinu. Þetta er þyngra en tárum taki. Ekki keyra full. Ekki keyra of hratt.

Elskaðu lífið.

20 júní 2008

Faðmaðu sólina

Breiddu út faðminn og faðmaðu sólina, og spurðu dapra manninn á klettinum: Er ekki allt í lagi, og hann segir: Jú jú og vonar hann sé að segja satt, allavega það hafi opnast eitthvað í sál hans við að segja jú jú.

17 eldfjöll

Við búum í eldfjallalandi, það er alveg greinilegt, það sá ég á leiðinni í Flatey, þau voru svo falleg og ósnortin og í hópum, mörg saman, ég drap á bílnum.

19 júní 2008

Útkoman

Jú, héðan er allt gott að frétta, nema ég fæ alltaf sömu útkomuna og ég er farin að halda að þetta sé heilög útkoma og heimurinn hrynji ef ég fæ ekki sömu útkomuna.

*

Ég er að hugsa um að stofna kirkju utanum þessa útkomu og trúarbrögð og allt. Ég held að það sé auðveldara en hætta að fá þessa sömu útkomu, og ég veit ekki hvað yrði um mig, ef ég hætti að hugsa um útkomuna yfirleitt.

Ef þú hefur ekki heyrt um útkomuna ertu ekki í bata!!!!!! Ha ha ha.

*

Ella Stína og útkoman

Hvað er Ella Stína að gera rétt í leiknum? Hún er ekki að hugsa um útkomuna.

Ronaldo

Ég er að horfa á leikinn, ég held auðvitað með Portugölum og er loksins búin að uppgötva Ronaldo. Hann er tilfinningavera.

Nætursól

Ég vaknaði klukkan fjögur um nóttina og þá var sólin hátt á lofti yfir sáluhliðinu og nú er ég að rifja þetta upp mér til sáluhjálpar.

Jibbí, auglýsingar

Mér finnst auglýsingin með Megasarlaginu alveg rosalega flott, hún er ein af uppáhaldsauglýsingunum mínum núna, sérstaklega maðurinn á þakinu og allt rokið og þetta er svo íslenskt, alveg einsog úr einhverri vegasjoppu, og svo dýrka ég fótboltaauglýsingarnar, með David Beckham sem gerist á smáeyju, og líka Pepsi auglýsingin þarsem Beckham kemur óvænt og líka þarsem krakkarnir eru með þeim fullorðnu í liði og allir saman útí horni á vellinum. Og svo er líka skemmtileg auglýsingin þarsem íslenski leikarinn er að fílósófera um fótbolta og vitnar í þjálfarann: Þú ert einsog fljúgandi skítakamar á vellinum og fleira, já, það er gaman að horfa á auglýsingarnar, ... ef þú smælar framan í heiminn... en hver er best? Elísabet er best. Elísabest.

18 júní 2008

Máni orðinn pabbi!!!

! Uppáhaldsfrændi minn Þorsteinn Máni Hrafnsson er orðinn pabbi, hann og konan hans Daggrós eignuðust son 16. júní, dásamlega guðdómlegt. Sonurinn var 13 merkur og 51 sentimeter og er yndislega sætur og magnaður persónuleiki. Til hamingju Máni minn, þú ert svo flottur og barnið heppið að eiga þig fyrir pabba.

Enn eitt meistaraverkið eftir Garp

BJÖRN BRÓÐIR

Til Íslands skal halda,
í leit að birni bróður,
löng leið, yfir hafið kalda,
erfitt sund, þreyttur og móður,

í vonlausri leit,
tálsýn hann eltir,
sér bæi og sveit,
æðaregg hann meltir,

vonlaus hann gengur,
úr honum fer allur kraftur,
hann trúir ekki lengur,
að þeir hittist aftur,

þá heyrist í skoti
hann verður smeykur,
og hleypur til sjávar
honum er illt, orðinn veikur,

hann fellur niður,
allt verður svart,
loks verður friður,
loks sér hann sinn bróður

*

17. júní í Flatey

Ég var fjallkonan útí Flatey í gær, og útnefndi líka fjallbarnið, síðan héldum við ræðu og Blátt lítið blóm eitt er spilað á eftir, þetta var á bryggjunni í Flatey þarsem dásamleg lítil skrúðganga hlykkjaðist úr þorpinu eftir veginum niðrá bryggju. Barðar voru bumbur, látið klingja, spilað á gítar, blöðrur og fánar, allir í hátíðaskapi, líka sjórinn og fiskarnir og sérstaklega fuglarnir. Sólin skein og hey hó jibbí jey. Ræðan var um hvað er að vera sjálfstæður og að við værum úr sama efni og jörðin og ef einhver gerði jörðinni eitthvað þá fyndum við til. Fjallkonan fékk varalit tilað varalita sig áðuren fattaði það og gerði það á eftir. En þá fór hún líka í róður og það gaf svoleiðis á bátinn. Fjallkonan var í björgunarvesti, og þegar við komum aftur að landi var Fjallbarnið í fjörunni og sagði við skipstjórann: Ertu búinn að setja Fjallkonuna í vesti!!! Og var heldur misboðið. En fjallkonan klæddi sig úr sokkum og skóm og fór að vaða í Grýluvoginum. Nammi, namm.

14 júní 2008

Rúmenía - Ítalía

Ég hélt með Ítalíu í leiknum sem voru allir í Armani jakkafötum, kannski ekki jakkafötum en Armani íþróttafötum þangað til ég tók eftir því að þjálfari Rúmena var í íþróttagalla sem hann hefði getað keypt á útsölu í síðasta stríði og leikmenn Rúmena litu allir út einsog þeir hefðu verið pikkaðir uppaf munaðarleysingjahælum; þá fór ég að halda með þeim.

13 júní 2008

Sagt um Elísabetu

You are one big kærleikur.

Göldróttari en lífið.

Gert líf mitt að ævintýri.

Hetja.

Alltaf svo gaman að hlusta á hana Elísabetu.

Amma, þú ert drottningin mín.

Galdraandlit.

Langflottust.

Betri en Ísland.

Fallegar hreyfingar.

Þú ert mikil sjávarperla, þin skrýtna og sérkennilega sýn á lífið er gulls ígildi.

Gyðingaharpa og Panflauta

Sæt.

Skemmtilegt barn.

Fallegasta kona á Íslandi

Alvöru hlátur


*

... ef þið viljið bæta við kommenti, ég er að safna í bók.... skinnhandrit.

12 júní 2008

Við munum sigra

Minni á tónleikana í garðinum í Laugardal með Björk, Sigurrós og Ólöfu Arnalds. Gegn stóriðju og náttúruspjöllum. Allir að mæta. Við munum sigra.

Ella Stína lýsir leiknum

Ég var að horfa á fótbolta og ég er búin að skrifa niður nokkrar setningar sem gætu orðið til þess að ég fái að lýsa leik... en það hefur verið minn helsti draumur um árabil. (Ég verð að segja að Snorri Steinn ber af leiklýsingum) En hér koma setningar Ellu Stínu....

....fótbolti er ekki alltaf sanngjarn... það vantar einhvern á fjærstöngina... þeir eru bara að klára þetta... hann er að dæma víti.... ég vil meina hann sé rangstæður... hér hleður hann í skot... ágætt skot þarna... fín tilraun þarna... það er allt galopið... ÞARNA VANTAR EINHVERN... Þeir eru bara miklu ákveðnari... þetta hlýtur að enda með marki.... hann skallar frá... hann togar í hann... þetta er gult spjald... þetta er skot... þeir hafa ekki skapað neitt... ÞETTA ER AUKASPYRNA Á HÆTTULEGUM STAÐ... Þeir hreinsa burtu.... þeir eru bara mikið betri... það er enginn tilað taka við þessari sendingu... þeir reyna að halda boltanum... HVAÐ VERÐUR ÚR ÞESSU? ... Markmaðurinn nær boltanum.... dómarinn er búinn að flauta... þeir eru bara mikið betri...

Hér lýsti Ella Stína fótboltaleik og þetta er líka lýsingin fyrir leikinn á morgun og hinn og hinn og hinn. Ella Stína er snillingur og goðumlíkt ofurmenni, fífill í móanum. Það er líka hægt að taka þessa leiklýsingu og fara með einsog nútímaljóð...segiði svo að nútímaljóð séu ekki vinsæl.

Ellu Stínu í landsliðið!!!!

Svarthöfðadjók

Mér fannst þetta Svarthöfðadjók skemmtilegt þangað til ég vissi að Vantrú stóð fyrir því. Prestahalann á næstu Svarthöfðagöngu!!!

Elísabet fagnar

Ég er að horfa á ÞýskalandKróatía og þeir fagna þegar þeir skora, svo ég er að hugsa um að fagna svolítið. Fagn, fagn, fagn. Þetta er frægt fagn og fagnið er gott og fagnið. Fagnið hverjum degi.

Eitt merkilegt

Ég átti mann í fjórtán ár, það er langur tími, við vorum mjög ástfangin, svo lentum við í hakkavél alkóhólismans, svo skildum við, hann átti frumkvæðið, þá voru tvíburanir fimm ára. Til að gera langa sögu stutta þá eru sextán ár síðan við skildum og það er fyrst núna sem einhver úrvinnsla virðist eiga sér stað, í draumlífi mínu, ég hef auðvitað unnið úr skilnaðinum með skrifum, á fundum, hjá sálfræðingi og svo framvegis, en mig dreymdi manninn bara ekkert í þessi sextán ár fyrren núna, þá eru tvíburarnir farnir að heiman, og þá virðist einhver úrvinnsla eiga sér stað, þetta er merkilegt, ég virðist hafa elskað þennan mann og ást virðist vera mjög merkileg.

*

Líka af því hún virðist vera lífræn.

Upplitaðist

Ég held ég sé með gróðurofnæmi, lungnakrabbamein, lungnabólgu, krabbamein í augum, þvagfærasýkingu, magakrabbamein, brjóstakrabbamein, skakka fætur, vanti gleraugu, þurfi að fara í handsnyrtingu, handskjálftinn er farinn, ég sakna handskjálftans, það er sól úti, ég elska sólina en upplitaðist í gær.

* En allt þetta bendir til að ég hafi líkama nema það sé líka ímyndun.

Kvíði

Þetta er nottla bara kvíði að halda maður sé að verða bráðkvaddur, og afhverju ætti ég að hafa kvíða, kannski útaf þessum endalausu peningamálum, eða kannski vegna framleiðslu á kvíða, eða er kvíðinn kvíðastillandi fyrir þunglyndið, það var svo yndislegt í Töfragarðinum og mig vantar nýjan síma, ég verð að vera í sambandi við fólk, annars líður mér mjög vel, ég er virkilega búin að njóta þess að sofa síðan ég hætti í skólanum, hugsa loftbóluhugsanir, (það eru sona hugsanir sem fljóta uppá yfirborðið) hugsa um hverjum ég ætti að giftast (það er af því ég er með giftingarfíkn) og ég er farin að fara í sund og taka til útum alla íbúð, já svona litlar breytingar hér og þar, og þeir segja í Evrópumótinu að þessi þarna fótboltamaður og hinn séu snillingar af því þeir gera eitthvað óvænt, svo ég hlýt að vera annaðhvort snillingur eða fótboltamaður. Blómið.

Krabbameinshugsanir

Kosturinn við að vakna í skólann var að ég hafði ekki tíma tilað hugsa um að ég væri örugglega komin með krabbamein svo núna hugsa ég um það á kvöldin hvort ég sé komin með eitthvað sem lætur mig alltíeinu verða bráðkvadda og tek símann með mér í rúmið svo ég geti hringt ef ég verð bráðkvödd.

11 júní 2008

Fríið

Fríið er farið að bera árangur, ég fór að gráta í gærkvöldi.

*

Hef ekki séð neinn sætan

Nú stendur fótboltamótið yfir í Evrópu og ég hef ekki séð neinn sætan, ég man eftir Batestuta, Nuno Gomes, Vitor Baja, Zidane, Maldini, .... hver getur gleymt Maldini? Hvar eru þeir allir? Gómes er á sínum stað en hann er ekki sætur lengur. Sá sem mér finnst flottastur er Henrik Larson, hann er flottur!!! En hann hefur ekki verið flottur fyrren núna. En núna sé ég engan sætan, ég hef samt ekki gefist upp, ég á eftir að sjá Rússana, Spánverjana og Frakkana og þar er Patrick Viera en á meðan ég sé engan sætan horfi ég bara á boltann....

Ég er smá einmana núna og þori ekki einu

Ég hef alltaf verið hrifin af eggjabikurum og að borða egg úr eggjabikar.
Ég hef alltaf verið hrifin af miðnætursólinni.
Ég hef alltaf verið hrifin af geirvörtum karlmanna.
Ég hef alltaf verið hrifin af gönguskóm.
Ég hef alltaf verið hrifin af núðlusúpum.
Ég hef alltaf verið hrifin af því að smjúga í vatninu.
Ég hef alltaf verið hrifin af því að hafa mjaðmir.
Ég hef alltaf verið hrifin af silki og hunangi.
Mig langar í hvalaskoðun.

09 júní 2008

Sól og blíða og köngulóarblóð

Ég fór í sólbað í Töfragarðinn í dag, það var yndislegt, hafði ekki komið þangað í nokkur ár, það var einn fugl sem hafði komið sér fyrir á trjátoppi einsog í barnateikningu og spilaði þar og söng hin ljúfustu lög, ég drap eina könguló - óvart - á nöktu lærinu svo ég er með köngulóarblóð á lærinu, vissi ekki það væri blóð í þessum vinkonum mínum, en þetta var fullkomið, ég keyrði Garp og Ingunni og Emblu útá völl, þau fóru að heimsækja Kristínu, Jökul og Zizou sem búa í Norður-Karólínu í Ameríku. Ég hlustaði á AA-stöðina, þetta er spennandi tungumál og heimur sem þau túlka. Ég sá hús og kirkju á Keflavíkurveginum - neðst til vinstri - á leiðinni í bæinn, man ekki eftir að hafa séð það. Talaði soldið við guð í garðinum og fékk mér peru eftir ég hafði brotist gegnum lúpínuþykknið. Fékk mér svo ís með heitri súkkulaðisósu og fór heim og lagðist í sófann og hugsaði um líf mitt.

*

Hér til hægri eru komnar tvær nýjar myndir sem Ingunn Sigurpálsdóttir tengdadóttir mín tók við útskriftina af mér og Emblu Karen Garpsdóttur nýjasta ömmubarninu. Myndin er tekin í Borgarleikhúsinu þarsem athöfnin fór fram.

*

En nú mun ég halda áfram að hugsa um líf mitt.

08 júní 2008

Mánadís 8 ára í dag

Í dag heldur Mánadís uppá átta ára afmælið sitt, víðsfjarri Íslandi, á Spáni. Mánadís er undurfögur, skemmtileg, sniðug og gáfuð ömmustelpa sem segir: Amma, ég elska þig, og: Þú ert besta amma í heimi, og: Amma, gættu þín.

Ég hlusta á svona ömmustelpu einsog Mánadís. Hún hefur sent mér póstkort frá Spáni. Hún er með fallegt hár og á heim útaf fyrir sig.

Til hamingju með afmælið elsku Mánadís mín.

*

Beðið eftir jarðskjálftanum

Var þetta jarðskjálfti? Eða var þetta kannski jarðskjálfti. Eða var þetta jarðskjálfti? Hvað með þetta, var þetta jarðskjálfti, þetta gæti hafa verið jarðskjálfti en þetta var örugglega jarðskjálfti var það ekki keon,etip04t5æqn5kjn ðt9 il4u6594jfn,zdfnglyppwps,,

Hvað er þetta?

Þetta fékk ég sent í morgun, fannst sem ek. falin frétt í atvinnublaði moggans:

"13,7 miljarða kaup";
Þar segir m.a. "Orkuveita Reykjavíkur undirritaði fyrir skemmstu stærsta samning sem hún hefur gert frá upphafi, en fjárhæð hans nemur 13,7 miljörðum króna. Samningurinn er gerður við Mitshubishi og Balcke Dürr um kaup á fimm vélasamstæðum fyrir gufuaflsvirkjanir á Hengilsvæðinu. ..............
........... Samanlegt afl vélanna nemur 225 megavöttum og verða þær afhentar á árunum 2010 og 2011..............."
Síðan kemur rúsínan; ....."Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var viðstaddur undirritunina í Hellisheiðarvirkjun." ....Já !

07 júní 2008

Spenna - ekki spenna

Ég er að reyna koma mér upp einhverri spennu, ég er reyndar búin að vera í spennuástandi alltof lengi, augun á mér tildæmis eru helþreytt og ég er búin að kaupa klaka-augu tilað frysta og leggja ofaná mín alvöru-augu. Svo er ég ekki skotin í neinum, ég er búin að fara yfir listann og það er enginn sem ég er skotin í, það er reyndar einn sem mig langar að vera góð við en ég veit ekki hvort það er það sama. En hvað á ég að gera þegar er engin spenna....

dæmi:

Pússa borðið
Taka málningu af gyllta glugganum
Horfa á Portugal-Tyrkland
Liggja í sófanum og detta útaf
Horfa uppá Snæfellsnes
Þrífa eldhússkápana
Raða hjartasteinunum
Fá mér vatn
Fá mér meira vatn
Kommentera
Kíkja á bloggið
Lesa blöðin
Dást að hvítu blómunum
Bíða eftir jarðskjálftanum
Hugsa um líf mitt
Greiða á mér hárið

Já, það er semsagt engin spenna í lífi mínu, það er gott, maður verður að takast á við nýja hluti í lífinu. En ég er aftur byrjuð að hugsa um Flatey á Breiðafirði þegar ég vakna svo ég hugsa að stefnan verði sett þangað. Allavega í huganum því það er allt á floti þar.

Mótmælt á staðnum

Ríkisstjórnin ásamt félögum sínum tók skóflustungu í garðinum hjá sér að nýju álveri, ég hélt að Björgvin ráðherra hefði sagt að nú væru komnir nýjir tímar og ekki þjóðarsátt um álver, þetta er skrípamynd, sýndarveruleiki. Og afhverju allar þessar skóflur!!! Skóflurnar níu og byssurnar fimm þegar ísbjörninn var drepinn. Ég fylltist sorg og reiði en varð svo aftur fegin að þessu var mótmælt, og óska mótmælendum til hamingju og þakka þeim fyrir að vera á staðnum.

05 júní 2008

Dramatíkin

Vinkona mín á Írlandi, Margrét O'Sullivan varaði mig við því að vera dramatísk þegar karlmenn væru annarsvegar. Ég hafði það í huga þegar Andrew kom hingað til lands og það var ekki fyrren á þriðja degi sem ég sagði honum að þegar fyrst þegar ég sá hann hefði mig langað tilað giftast honum, nánar tiltekið á Laugarvatni, eftir mikla ferð um Gullfoss, Geysi, Þingvelli og Kjöl. Andrew var svo kurteis að hann sagðist vera "flattered". Ég var svo lítið að minnast á þetta við hann nema í öðru samhengi þarsem ég sagðist eiga erfitt með að vera heil, en það er önnur saga, og það var svo ekki fyrren daginn sem hann fór að þetta bara aftur á góma og ég sagði:

Elísabet: Andrew, could you wait for me?

Andrew: Sorry? (Hann var svo kurteis)

Elísabet: Because I am not ready to get married, so could you wait for me.

Andrew: Uh, ok, yes, I will see about that.

*

04 júní 2008

Mótsögnin

Venjulegt fólk er undarlegt...

Útskriftargjöfin mín

Ljóðið Fyrirmyndarbörn eftir Garp I. Elísabetarson

Ég er búinn að hafa 24 ár,
til að koma henni til manns,
búið að kosta blóð,svita og tár,
og skilja eftir sig mörg ör og sár.

Margar bækur, ljóð og sögur,
klúrin ljóð og ein saga misfögur,
öll þessi ár með leikhúsæði,
og loks hún fór að læra þessi fræði.

Loks ég fekk hana á skólabekk,
þrjú ár, vakna snemma, læra heima,
alla athygli að sjálfsögðu hún fékk,
svo með írskum draugum hún fékk að sveima.

03 júní 2008

Saklausi björninn eftir Garp I. Elísabetarson

Á löngu ferðalagi yfir jökla og ís,
yfir hafið, þangað sem allt frýs,
kominn á framandi slóðir,
allt annað en björninn kýs,

undrandi augu á hann stara,
inní þokuna hann flýr,
hann veit ekki hvert á að fara,
villtur, hvert sem hann snýr,

Ærandi hljóð, hann þekkir hættur,
veiðimaðurinn er mættur,
björninn langar á sínar heimaslóðir,
saknar sinna barna, hvar er hans móðir?

*

Ævintýrið gengur á land

Þegar hingað þvælist ísbjörn norðan úr höfum sumardag í júní er það ævintýri líkast, speglar ævintýrið sem við erum alltaf að vonast eftir, óvænt og skringilegt, rómantískt. Og svo er ísbjörninn skotinn. Það er einsog að skjóta ævintýrið. Það er kannski þetta sem gefur lífi okkar gildi, einn dagur er frábrugðinn öðrum, einn daginn gerist það óvænta og bregður lit yfir alla hina dagana.
Ísbjörninn fékk okkur öll tilað gapa af undrun, ísbjörninn kom ímyndunaraflinu af stað, ísbjörninn kom söguvélinni í gang, ísbjörninn minnti okkur á hvar við erum staðsett, ísbjörninn vakti okkur öll og svo er hann skotinn.

Ísbjörninn

Garpur sonur minn hringdi í mig áðan og sagði: Mamma, ertu búin að heyra um ísbjörninn sem var á töltinu í Skagafirði í morgun. Það er búið að skjóta hann. Afhverju er verið að gera Garp og 0kkur svona sorgmædd og allir ísbirnir skotnir. Hverskonar ríkisstjórn er þetta sem lætur skjóta ísbirni? Gamaldags aðferðir, sagði Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtakanna. Og afhverju var honum ekki boðið læri áðuren hann drapst, það getur líka verið að Ísbjörninn hafi verið á leið í Trékyllisvík að heimsækja Hrafn bróður minn. En mér finnst þetta ekki fallega gert gagnvart Garpi - og ekki fallega gert gagnvart ísbirninum.

02 júní 2008

Ást og skilningur

Ég elska þig þegar sagt er við mig: Þú ert nottla búin að vera undir ÞVÍLÍKU ÁLAGI síðustu tuttugu, þrjátíu árin. - Já, takk fyrir það. Ég fékk nefnilega stíng í þriðja augað, ég var flutt í sjúkrabíl fyrir einhverjum mánuðum uppá slysadeild útaf stíng í þriðja auganu og nú kom hann aftur, ég hef tildæmis ekki þrek tilað senda vinkonu minni afmæliskveðju, þrekið er búið og mig langar í snertingu, snertingu, snertingu og tónlist, einhverja sem er svo svo svo yndislega varla til.

ps. Jökull og Garpur eru svo stoltir af mömmu sinni, og konurnar þeirra, Kristín og Ingunn, svo ekki sé talað um Emblu Karen sem er að rifna af stolti, ég fæ alveg tár í augun, og þá er Zizou ekki síst stolt, búin að rífa í sundur heilan fótboltavöll í Ameríku.

01 júní 2008

Linda

Linda á afmæli í dag. Ég efast um að hún vilji að allir viti hvað hún er gömul, hún er soldið einsog Kristín, svona filmstjarna. Hún hefur alltaf gefið mér fallega hluti, rauða leðurhanska, kórónu alsetta litlum bláum demöntum, smyglaðan lótusilm frá Egyptalandi. Hún sagði mér að eitthvert vit væri í Laufeyju og Fótboltasögum þegar ég sýndi henni þær fyrir einhverja rælni. Linda er með stíl, það sést líka á klæðaburðinum og öllum skópörununum hennar, hún gæti rekið tískublað sem heitir Linda. Í staðinn fyrir að skrifa öll þessi forneskjulegu ástarljóð sem hún er sífellt að yrkja gæti hún skrifað tísku-texta. En Linda er rammgöldrótt en samt algjör nútímaskvísa, hún hefur verið vinkona mín í þrjátíu ár en samt kynntist ég henni fyrst fyrir 40 árum þegar við sátum saman í bekk, tíu ára bekk, tveir vannærðir krakkar, upprennnandi skáld og alkóhólistar, ha ha ha. Linda er mjög heiðarleg, hún segir alltaf það sem henni finnst, amk. um skáldskap minn, hún er mjög öfgakennd í því sambandi, annaðhvort segir hún: Tær snilld. Eða: Ég hef engan áhuga á þessu, og þú veist það. Hjálpar manni mjög mikið ha! enda hef ég skrifað staf í marga daga. Við Linda höfum þvælst um heiminn og lesið upp ljóð, aðallega hún, hún er tildæmis fræg í Þýskalandi og kemur út í bókum með Heine, Göte, Shciller. Hún kom með alveg nýjan tón í íslenska ljóðagerð, galdratóninn, þótt enginn hafi fattað að kalla hann svo nema ég. Held ég. Svo höfum við lesið upp ljóð í Tjarnarhólmanum, Hallgrímskirkju, Akraborginni, Borginni, og ég veit ekki hvar og hvar. Linda segir mér að ég sé óljóðræn, já ég læt allt flakka í þessari ræðu, af því hún veit að ég trúi öllu sem hún segir, og hversu veik ég er fyrir gúrúum og stjórnun. Síðast hitti ég hana í kjólabúð. Og þar á undan í skóbúð. Og þar á undan... í kjólabúð. Linda er einsog ljóð, hún er mjög falleg, með brún augu og brúnt hár, stundum kerknisleg, stundum rómantísk, stundum fögur, stundum íðilfögur, stundum stríðnisleg, og mjög viðkvæm, hún er viðkvæmur töffari nema hún hefur þessa galdrataug og stendur í beinu sambandi við forneskjuna og fléttar nútímanum sífellt saman við hana. Hún er mjög góð manneskja og kemur alltaf þjótandi ef ég er hjálparþurfi, og hlustar í símanum á harmatölur, efasemdir og guðveithvað. Nú er ég ekki í meira stuði tilað skrifa enda er sjálfstraustið í molum, en gæti safnast saman á eftir.

Ljóðið hans Garps

Undur og stórmerki gerðust í lífi mínu, Garpur orti útskriftarljóð til mín, ég er búin að syngja það óteljandi sinnum, það er guðdómlegt. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

*

FYRIRMYNDARBÖRN

Ég er búinn að hafa 24 ár,
til að koma henni til manns,
búið að kosta blóð,svita og tár,
og skilja eftir sig mörg ör og sár.

Margar bækur, ljóð og sögur,
klúrin ljóð og ein saga misfögur,
öll þessi ár með leikhúsæði,
og loks hún fór að læra þessi fræði.

Loks ég fekk hana á skólabekk,
þrjú ár, vakna snemma, læra heima,
alla athygli að sjálfsögðu hún fékk,
svo með írskum draugum hún fékk að sveima.

*