01 júní 2008
Linda
Linda á afmæli í dag. Ég efast um að hún vilji að allir viti hvað hún er gömul, hún er soldið einsog Kristín, svona filmstjarna. Hún hefur alltaf gefið mér fallega hluti, rauða leðurhanska, kórónu alsetta litlum bláum demöntum, smyglaðan lótusilm frá Egyptalandi. Hún sagði mér að eitthvert vit væri í Laufeyju og Fótboltasögum þegar ég sýndi henni þær fyrir einhverja rælni. Linda er með stíl, það sést líka á klæðaburðinum og öllum skópörununum hennar, hún gæti rekið tískublað sem heitir Linda. Í staðinn fyrir að skrifa öll þessi forneskjulegu ástarljóð sem hún er sífellt að yrkja gæti hún skrifað tísku-texta. En Linda er rammgöldrótt en samt algjör nútímaskvísa, hún hefur verið vinkona mín í þrjátíu ár en samt kynntist ég henni fyrst fyrir 40 árum þegar við sátum saman í bekk, tíu ára bekk, tveir vannærðir krakkar, upprennnandi skáld og alkóhólistar, ha ha ha. Linda er mjög heiðarleg, hún segir alltaf það sem henni finnst, amk. um skáldskap minn, hún er mjög öfgakennd í því sambandi, annaðhvort segir hún: Tær snilld. Eða: Ég hef engan áhuga á þessu, og þú veist það. Hjálpar manni mjög mikið ha! enda hef ég skrifað staf í marga daga. Við Linda höfum þvælst um heiminn og lesið upp ljóð, aðallega hún, hún er tildæmis fræg í Þýskalandi og kemur út í bókum með Heine, Göte, Shciller. Hún kom með alveg nýjan tón í íslenska ljóðagerð, galdratóninn, þótt enginn hafi fattað að kalla hann svo nema ég. Held ég. Svo höfum við lesið upp ljóð í Tjarnarhólmanum, Hallgrímskirkju, Akraborginni, Borginni, og ég veit ekki hvar og hvar. Linda segir mér að ég sé óljóðræn, já ég læt allt flakka í þessari ræðu, af því hún veit að ég trúi öllu sem hún segir, og hversu veik ég er fyrir gúrúum og stjórnun. Síðast hitti ég hana í kjólabúð. Og þar á undan í skóbúð. Og þar á undan... í kjólabúð. Linda er einsog ljóð, hún er mjög falleg, með brún augu og brúnt hár, stundum kerknisleg, stundum rómantísk, stundum fögur, stundum íðilfögur, stundum stríðnisleg, og mjög viðkvæm, hún er viðkvæmur töffari nema hún hefur þessa galdrataug og stendur í beinu sambandi við forneskjuna og fléttar nútímanum sífellt saman við hana. Hún er mjög góð manneskja og kemur alltaf þjótandi ef ég er hjálparþurfi, og hlustar í símanum á harmatölur, efasemdir og guðveithvað. Nú er ég ekki í meira stuði tilað skrifa enda er sjálfstraustið í molum, en gæti safnast saman á eftir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli