25 október 2010

Draumur 25.október

Dreymdi ég var við fljótsbakka, þar bullaði kröftugt jökulfljót, heill hópur þurfti að skríða eða ganga yfir örmjóa brú eða planka tilað komast hinumegin, ég ákvað að fara ekki, en náði að bjarga unglingsstelpu uppúr vatninu, hún var næstum drukknuð, hvarf í vatnið en kom upp aftur. Linda var hinsvegar fremst í flokki í hópnum.

Hinumegin á bakkanum var stórt, hvítt fremur glæsilegt hús.

Óöryggi mitt birtist á furðulegasta hátt, - það þarf allsekki að birtast sem óöryggi heldur á annan hátt.

*

Hvað er að vera elskuð... elskaður?

24 október 2010

Draumur 24.október

Mig dreymdi ég væri á gamla Reynimel og byggi í kjallaranum einsog ég gerði um tvítugt og líka sautján ára þegar Kristjón kom í heiminn, í einu herbergi ónotuðu var ek. geymsla en samt ekki geymsla en þar voru nokkur málverk, svo fannst mér manneskja af málverkinu vakna upp og koma til mín, og ég varð hrædd og hélt hún væri innbrotsþjófur en í rauninni held ég hún hafi vaknað upp annaðhvort úr geymslunni eða málverkinu, - hún kom nálægt mér, ég sá að þetta var ég en var samt hrædd, við sjálfa mig, - ég fór útúr húsinu og var að reyna að hringja á lögregluna, - en málið er ég að veit ekki frá hvaða tímabili þessi stúlka var, -

Höfnun

Ég er með stanslausa höfnunarkennd, ef ég lít til hægri fæ ég höfnun, ef ég lít til vinstri fæ ég höfnun, svo ég lít hvorki til hægri né vinstri.

21 október 2010

Hver ræður?

Drottningin: Ég er drottningin sem ræður öllu.

Ég: Ég veit það.

Drottningin: Og ræð ég ekki öllu?

Ég: Jú, þú ræður öllu.

Drottningin: Það ert þú sem segir mér það.

Fugl í lófanum

Vinátta, ég veit ekkert um vináttu, - jú vinátta er þegar vinkona mín segir
: Mundu hver þú ert?
: Hvernig líður þér blóm?
: Hvernig hefurðu það?

Þegar einhver tekur í höndina á mér, þegar einhver dinglar, þegar einhver sest í bláa sófann, þegar einhver sest við eldhúsborðið, þegar einhver kemur með fugl í lófanum, -

*

Fólk er með fugl í lófanum,
allir eru með fugl í lófanum,
svo ekki kreppa hnefann
þá getur fuglinn kramist,
opnaðu lófann þá sést fuglinn
eða flýgur burt,
og hafðu lófann opinn
svo fuglinn geti sest
í lófann aftur.

Þessi fugl í lófanum
sést ekki nema á sorgarstundum
og einstaka gleðistund,

það veit ég
því vinkona mín
kom einu sinni
þegar pabbi minn dó
hún rétti fram lófann
og mér sýndist vera fugl
í lófanum

og nú þrjátíuárum seinna
veit ég að það var rétt,
það er alltaf fugl
en hann sést ekki alltaf,....

*

Viðurkenning - höfnun

Getur verið að ég þoli ekki þegar einhver hefur raunverulegan áhuga á mér, - hvað er það, er það þá einhver nýr staður sem ég þarf að fara á, hreyfa mig úr stað sem heitir HÖFNUN og fara á stað sem heitir VIÐURKENNING.

Það er auðvitað alveg hætt að feika það, en ég er að tala um raunverulegan áhuga, raunverulega viðurkenningu frá botni hjartans, -

þetta er einsog að koma í nýtt hús - ég veit ekki hvernig ég á að haga mér.

*

Drottning sem ræður yfir öllu

Höllin: Ég hef ákveðið að hætta að vera höll en vera drottning.

Ég: Drottning?

Höllin: Já, það er nákvæmar.

Ég: Drottning einmanaleikans.

Höllin: Drottning yfir öllu.

Ég: Ókei.

Höllin: Hljómar það ekki vel.

Ég: Ertu þá drottning yfir mér.

Höllin: Já, þú gerir einsog ég segi.

Ég: Ég er farin.

Höllin: Þú getur ekkert farið.

Ég: Bless.

Höllin: Ég ræð yfir blessinu.

Ég: Þú ræður ekki yfir blessinu.

Höllin: Bless.

20 október 2010

Það var eitthvað fallegt sem ég gleymdi, ég man það ekki lengur, kannski kemur það,....

Munið hrunið, munið hrunið, munið hrunið, -

ekki gleyma því, fáið það á heilann, látið heilann fyllast og ekki hugsa um neitt annað, -

Útkoma

Búin að finna út að þetta var gott. Maður á að standa með sjálfum sér.

19 október 2010

Lagið

http://www.youtube.com/watch?v=TejJDFt6Tkk

Aftengjast,...

Aftengjast,.....

Fólk sem brosir mikið er stórhættulegt, ég hrædd við fólk sem brosir mikið

Of stór skammtur,... of stór skammtur, .... of stór skammtur

Fékk nóg!!!

Ég fékk bara nóg af því að ég ætti að ímynda mér eitthvað hræðilegt, skelfilegt, - algjörlega nóg, uppí háls, uppí kok, ég hef verið að ímynda mér eitthvað hræðilegt frá því ég var lítið barn og þegar ég var beðin um að ímynda mér eitt hræðilegt í viðbót þoldi ég ekki meir, - ég gjörsamlega trompaðist.

Áttin snérist, -

Ég er mjög ólík sjálfri mér, ég vil bara sofa, ég vil ekki vinna, ekki borða hollt, ekki fara í sund, í gær hélt ég að myndi verða bráðkvödd, bara um hábjartan dag, ég fattaði í morgun að heilinn á mér er girtur af með þráhyggjum, svo las ég komment á Facebók að maður á að hoppa yfir girðingar, eða brjóta þær, "tilþess eru girðingar", .... en ég hef enga döngun í mér til þess og þó, ég er að skrifa þessi orð, ég er búin að fá leið að skrifa eitthvað inní tölvunni, ég vil að það birtist strax og allir viti hvað ég eigi bágt, ég fór alltíeinu að hugsa hvað það hefur verið erfitt að veikjast á geði 2o ára gömul, ég meina það eru 32 ár síðan, afhverju er ég að hugsa um það, ég kveikti á rauðu kerti og fékk mér te úr þurrkuðum jurtum, himneskt og undursamlegt, það er sunnanátt, áðan var suðvestanátt, -

18 október 2010

Mundi alltíeinu eftir guði, -

Þá mundi ég alltíeinu eftir guð og þá leið mér betur, þá þurfti ég ekki að kljást við þessar sveiflur, heldur væri þetta í guðs höndum. Yfir til þín guð, -

Jafnvægið fór... þessvegna eru sveiflurnar, ef sálin mín er bátur...

Áfall

Ég varð fyrir áfalli fyrir nokkrum dögum, síðan er ég búin að vera í sveiflum, ég fer hátt upp og langt niður, - vonandi fer þetta að jafnast út bráðum, -

15 október 2010

Mjög merkileg upplifun, -

Óttinn er á undanhaldi, ég fann það í dag þegar hann yfirgaf mig að það var einsog þar kveddi minn besti vinur.

*****

12 október 2010

Gamalt bank og veiklulegt

Einangrun, hún gerir mann skrítin, hanga alltaf heima, raða öllu, - en þannig er að ég var komin með fimm handrit þegar ég fór á Facebók og síðan hef ég ekki klárað neitt af viti, jú bænabókina, en svo eru eftir önnur handrit, ljóð, saga, leikrit, og ég ætlaði að fara skrifa eitthvað af því þegar alltíeinu gömul saga fór að banka uppá.

11 október 2010

Hugsar um bók

Ég er búin að þvo eina þvottavél í dag
og nú er ég að þvo aðra
áðan var maður að moka útí næsta garði
ég kíkti útum gluggann
og sá glytta í hann,
ég spjallaði við Mánadís
hún var að æfa sig á fiðluna,
og nú er ég búin að kveikja á stóru tölvunni
því ég er að hugsa um bók.

07 október 2010

Allt að

Það er alltaf allt að hjá mér, þegar ég fer á klósettið lít á klístruðu blómin á veggnum og hugsa það væri nú ráð að setja flísar þarna, sópa mylsnuna saman í horninu, raða uppá nýtt í handklæðaskápnum, færa geymslukassann inní geymslu, þrífa vaskinn, raða klósettpappírnum, strjúka af glerinu á myndinni fyrir ofan klósettið, þrífa spegilinn, og svo framvegis,

og svo hugsa ég um hvort ég eigi að sofa uppi eða niðri, niðri eða uppi og hvort ég eigi að kaupa nýjan bókaskáp, eða setja einn bókaskápinn aftur á gamla staðinn og hvað ég eigi þá að setja í staðinn fyrir hann, og hvort ég eigi kannski að fá mér vinnustofu, eða læra á píanóið, slípa upp gólfið í stofunni, færa gula stólinn aftur inní stofu, gera við saumspretturnar í gula stólnum, hvort ég eigi að mála gluggana að utan, sópa tröppurnar, hengja útúr vélinni, hafa pelsinn inní vinnuherbergi, í gestaherberginu eða fatahenginu, hvort ég eigi að láta gera við ofninn í stofunni, láta setja þrefalt gler í litla gluggann og hvaða vasi eigi að standa í glugganum, svona gef ég mér engan frið,

og held hausnum, hugsunum mínum alltaf uppteknum, aldrei sátt við hlutina einsog þeir eru, og aldrei sátt við sjálfa mig einsog ég er og þar af leiðandi aldrei sátt við annað fólk einsog það er.

Svo nú ríkir sáttin. Það er ekkert að. Það er allt í lagi.

Samtal

Hann: Ég varð bara ástfanginn af þér.

Hún: Já einmitt, og hvenær hættir það!

Lokun, -

Alltaf þegar ég eignast kærasta lokast ég.

Halló -

Það small eitthvað í samband,....

eða eitthvað datt úr sambandi sem hafði verið vitlaust tengt, -

05 október 2010

Fjölskyldumótmæli.... voða sætt, -

Fjölskyldan er gróðrarstía eineltis, ....

Erindi í októberroki

Rok. Kona flýtir sér heim. Síminn hringir.

04 október 2010

Harmsögur

Hún hélt sér uppá því að segja harmsögur af sjálfri sér, -

*

03 október 2010

Skilningur

Nú skil ég afhverju ég hef fitnað; það er vegna þess að ég er hætt að tína saman playmo-kallana.

Bless, Elísabet með ljósið