15 júní 2010

Klikkunarplássið

Ella Stína situr hér og er komin með prjónahnykil inná sviðið, hann vísar ekki í þetta prjónaæði sem nú gengur yfir landið, þetta er blár prjónahnykill, og hún tekur hann og tætir hann í sundur og þá kemur engill og segir taktu einn spotta.
Spotta?
Já, og vittu hvert hann leiðir þig.
Og spottinn leiddi Ellu Stínu að brunni.
Þar oní var barn alveg að deyja, Ella Stína sagði því að toga í spottann.
Mig langar að eiga borðstofu, sagði barnið.
Borðstofu?
Já, með silfurborðbúnaði og svoleiðis.
Ella Stína var alveg stúmm. Komum heim til ömmu, sagði hún svo.
Ömmu, hún er dáin.
Í huganum.
Amma vildi eiga allt fínt en hún hlýtur að líka að hafa verið eitthvað klikkuð.
Klikkuð?
Já, allir eru eitthvað klikkaðir, það er svo klikkunarpláss í manninum.
Ætlar þú bara að hanga í brunninum.
Þetta er klikkunarplássið mitt.

Engin ummæli: