10 mars 2009

Hugleiðsla í Hólaskógi

Það eru ekki til neinar hugleiðslur eftir konur, þetta er allt eftir einhverja austurlenska kalla sem sitja hryggsúlubeinir, með krumpaða fætur og omma, ókei, gerum ekki lítið úr þeim, svo tæma þeir hugann, þetta mikla náttúruafl, það er einsog að drekkja öræfunum, ókei, við skulum ekki dæma þá, þetta er alfarið þeirra mál en þeir þurfa ekki að tala um þetta sem einu réttu leiðina, og hér koma hugleiðslur fyrir konur.

Farið útí skóg þegar trén eru þunguð af snjó. Labbið hugfangnar eftir litlum stíg og troðið snjóinn uppað hnjám, það er algjör þögn, svo heyrist í rjúpu, orhggghhaaa, svo kemur aftur þögn, fyllið líkama ykkar af þessari þögn, hárið, húðina, beinin, frumurnar, innyflin, neglurnar, vöðvana, taugarnar....þögnþögnþögn.... mjög gott, ´

þá sjáið þið lítinn læk sem rennur næstum ósýnilegur en glitrandi undir sjónunum, fyllið ykkur af lækjarhljóðinu, hárið, húðina, hnén, frumurnar, innyflin, taugarnar og píkuna.

Mjög gott.

Svo ef þið eruð í erfiðum aðstæðum, í banka, umferðaröngþveiti eða á stefnumóti, kallið fram þögnina og lækjarniðinn og öllu miðar áfram.

*

Engin ummæli: