26 mars 2009

Játning Maríönnu

Ég var að komast að því að ég þarf á öðru fólki að halda, ég hafði haldið til þessa að ég kæmist af án annars fólks, að ég væri orðin góð í svona yfirborðskenndum samræðum þarsem ég gæti auðvitað verið voðalega næs og elskuleg, vitur og einlæg og já, já... já já. Að ég þyrfti ekkert að vera hleypa fólki of nálægt, vera líka elskuleg og taka tillit til ef fólk hefur misst pabba sinn, átt erfiða æsku, talar með dúkkum, á bágt, er of feitt, of mjótt, blankt, en ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf vorkennt fólki sérlega fyrir að eiga mikla peninga, - og svo hef ég verið að hugsa eftir því sem aldurinn færist yfir, en ég er 49 ára að ég á ekkert að vera hleypa fólki inní líf mitt, að maður hleypti ekkert hverjum sem er inní líf sitt, ef líf mitt væri svona kastali, eða bygging af einhverju tagi, og ég skil það að sama skapi ef einhver vill ekki hleypa mér inní líf sitt EÐA ÉG SKIL ÞAÐ BARA ALLSEKKI NEITT, ÞAÐ ER BARA RAKKARAPAKK, ALGJÖRT PAKK, já fyrirgefðu, ég æsti mig aðeins, í dag heitir þetta að missa sig, en ég hef svona samband við börnin og mömmu og einstaka gamla vinkonu, en ég hef alltaf talið samt ég væri félagslynd og vinsæl, að fólk sækti til mín visku og félagskap, einsog í dag þá kom Katrín í morgunkaffi, svo komu Snæbjörn og Vilborg eftir hádegi og þar á eftir kona sem var að biðja mig um að hjálpa sér í gegnum sporin, og þegar hún var farin hringdi önnur sem ég var með í sporunum, það var svo kalt í dag, ég hef ekkert komist út, og ég hálflasin, það kom nefnilega vinkona mín í heimsókn hérna í fimm daga og var ömurlegt, hún fór á klósettið, skrúfaði frá krananum, geymdi mat í ísskápnum, reykti útá tröppum, klæddi sig, svaf hérna, lokaði hurðinni, og ég veit ekki hvað, þetta var ógeðslega pirrandi, ÉG MEINA ÓGEÐSLEGA PIRRANDI, ÖMURLEGT, ALVEG ÖMURLEGT, maður á bara ekki að hleypa fólki svona nálægt sér, ég meina þetta er húsið mitt, ha, djisis, ókei, ég ætlaði ekki að æsa mig, ég ætlaði bara að vera róleg en þegar ég loksins mannaði mig upp tilað fara útí búð af því ég hefði gert það fyrir börnin mín sem eru núna flutt að heiman, en þá ákvað ég að klæða mig vel, hugsa jákvætt og kaupa eitthvað gott handa sjálfri mér og svo vantaði klósettpappír!!! Og ljósaperu, og þá alltíeinu rann það upp fyrir mér þetta að ég hafði haldið að ég gæti lifað án annars fólks, að ég kæmist af án annarra, - ákvað að hugsa ekki meira um það en fór útí búð og ég hefði ekki fundið ljósaperurnar, kexpakkana ef ég hefði verið ein í búðinni, og allsekki getað afgreitt sjálfa mig, þetta var stórfurðulegt, það var stelpa sem hjálpaði mér að finna ódýrasta klósettpappírinn og voða næs strákur á kassanum, ég hefði aldrei getað þetta ein, skrítið. Já. Jájá.

Maríanna. Já, ég heiti Maríanna. Maríanna Hólm. JÁ ÉG HEITI MARÍANNA OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ, HVAÐ EIGINLEGA MEÐ ÞAÐ, MARÍANNA!!! MARÍANNA...já jájá.

Engin ummæli: