03 mars 2014

Fjársjóðskistill

Ein kona hafði pressað niðrí sér barnið og barnæskuna en þegar pressunni af aflétt kom ýmislegt í ljós einsog þegar fjársjóðskistill er opnaður, einsog það væri enginn að hugsa um hana í þessum heimi, og hún þyrfti að bera áhyggjurnar ein, og spurning hvort hún hefði bein því hún dragnaðist svo áfram og hún vissi ekki hvað hún átti að gefa sér að borða því það var allt eitrað í búðunum með rotvarnarefni og svoleiðis og hvað fleira kom í ljós, jú lítið samband milli lítils barns og náttúru þarsem hún labbaði í skólanum í holtinu og móaum og fjöll og himinn og veður, og Valhúsahæðin fyrir ofan, skófir á steinunum og árstíðir á stígnum en ef hún hugsaði sér að komast burt og komast í þetta samband stóð kirkjan opin þarsem hún þurfti að skammast sín og vinna í sjálfri sér.

Já og áhyggjurnar í kistlinum af öllum og botnlaus hræðslan og heillandi myndirnar af slysum og ólukkum svo hún komst ekki útá pósthús eða í hreinsun, eða í bankann, þetta var allt í kistlinum, og hún vorkenndi sér óskaplega, alveg óskaplega og hugsaði sér ef hún hyrfi alltíeinu eða einhver kæmi og bjargaði henni og þá gerðist það undursamlega, það spratt einhver fram í hennar eigin haus, lævís rödd sem sagði: Viltu drekka kaffi með mér. Og svo héldu samræðurnar áfram þangað til hún var komin í ofbeldissamband og vissi ekki hvernig það hafði gerst.

Búmps.

*

Engin ummæli: