28 september 2009
Afleiðingar 4
Barninu sem lenti í barnaperranum fannst það alltaf skulda heiminum eitthvað, tildæmis útskýringu á því sem hafði gerst.
Afleiðingar III
Barnið sem lenti í barnaperranum klæddi sig í stóra peysu, stórar buxur og stóra kápu sem það mundi ekki sjást hvað hafði gerst.
Afleiðingar II
Einu sinni var lítið barn sem lenti í barnaperra, afleiðingin varð sú að barnið varð að finna nýja leið, - já, því heimur þess hafði hrunið, - barnið fór samt ekki útúr heiminum eða raðaði honum uppá nýtt, ónei, það sagði við sjálft sig hvern dag í rústunum: Sjáðu, hvað þú hefur gert.
Afleiðingar
Einu sinni var kona með vandamál, það var svo stórt að það náði yfir allan heiminn, gerði hann svartan og ósýnilegan og lét hann hristast og hvað eina. Konan greip til þess ráðs að minnka vandamálið niður í ekki neitt og stakk því í vasann, - það leystist samt voða lítið, heimurinn var áfram svartur, ósýnilegur og hristist og úr vasanum skriðu stöðugt svartar pöddur.
23 september 2009
Kvöldheimsókn
Það kom yndislegt fólk í kvöldheimsókn sem hafði verið að spila körfubolta útá skólalóð, þau fengu sér Súper-klaka og voru sæt og yndislegt, þetta voru þau Jökull og Kristín.
*
Og ég átti edrúafmæli, 16 ár og ellefu mánuðir!!!!!!!!!
*
Og ég átti edrúafmæli, 16 ár og ellefu mánuðir!!!!!!!!!
18 september 2009
Villigötur eða villilblóm
Ég er að skrifa sögu og veit ekki hvort ég er komin á villigötur, ég er núna voða mikið að láta söguna smella saman, og láta hana vera sögu, en í upphafi var hún svona minningabrot sem röðuðust eða ekki röðuðust saman, svo ég veit ekki hvort virkar, - en það merkilega vildi til að Akrafjallið varð fallegt í dag, það tók semsagt Akrafjallið aðeins fimmtíu ár að verða fallegt í mínum huga, það eru einmitt einhverjar svona skriður sem renna niður og mynda fjallið, engin svona sérstök saga í því, ... en mig klæjaði í fingurna að teikna það, og sé það fyrir mér aftur og aftur, ... já já já, lífið er yndislegt, og núna er dimmt úti, klukkan að verða tvö, ég svaf til tvö í dag svo þetta passar alltsaman, eldaði snitsel handa mér og sauð kartöflur, það sem ég dekra ekki við mig, kíkti til Jökuls sem var home alone með hundana og svo bara skrifað og skrifað og skrifað og verulega þurft að stappa í mig stálinu að kíkja ekki alltaf á Facebook. Hafði ömmu hjá mér og hlakka til að hitta vinkonu mína Helgu Luna sem er á kreiki í höfuðborginni og nú er allt mjög fínt hjá mér, og ætti ég ekki að fara í svona hjartatjékk einsog systkini mín, mér finnst samt nóg að vera alkóhólisma, geðhvörf og ýmislegt að ég sé ekki með neikvætt kólestról líka, - en svo stendur fyrir dyrum að láta gera við útidyrahurðina. Og mála hana svo hún verði ekki einsog í eyðibýli og kannski fæ ég að sjá hana Emblu Karen um helgina, yndi heimsins einsog hinar ömmustelpurnar mínar sem búa á Selfossi og koma vonandi bráðum að borða ísinn og segja ömmu sinni töfrasögur, og lífið er dásamlegt og Elísabet ætlar þú ekki að skríða í háttinn.
13 september 2009
Lífið er yndislegt
Og ég er að fara passa Emblu Karen í kvöld þá miklu töfradís og skemmtikrakka, svo kom endirinn á sögunni minni á fundi í gær, - þegar ég slaka á þá gerast undur og kraftaverk, stjörnur hrynja í lófann á mér, bull bull, ekki bull, jæja, ég ætla setja í vélina og fara í heimsókn og hvað á ég að koma með, eitthvað fallegt og yndislegur dagur.
07 september 2009
Ég skal bíða þín
Hann er sendur til mín
á nokkurra ára fresti
tilað veita mér vernd
og líf,
en ég bið alltaf um meira,
að hann komi með mér
í rúmið,
helst að hann verði þar alltaf
þótt ég myndi aldrei þola það,
svona flæki ég málin,
í staðinn fyrir að undrast
og þakka fyrir
og hugsa: Hver
skyldi senda hann?
*
á nokkurra ára fresti
tilað veita mér vernd
og líf,
en ég bið alltaf um meira,
að hann komi með mér
í rúmið,
helst að hann verði þar alltaf
þótt ég myndi aldrei þola það,
svona flæki ég málin,
í staðinn fyrir að undrast
og þakka fyrir
og hugsa: Hver
skyldi senda hann?
*
05 september 2009
Saxófónninn
Hann breiddi úr teppinu
Opnaði nestiskörfuna
Blés í saxófóninn
Ég þurfti bara að vera sæt
Hann benti á Skjaldbreið
Og kýldi mig beint
Í andlitið sem var
Ekki lengur mitt
Ég hafði heldur ekki trúað
Að þetta væri mitt andlit
Ég var alltaf að reyna
Að sýna heiminum það.
Eða hvort ég reyndi
Að fela það fyrir heiminum
Eða fela heiminn
Sýna heiminn
Það var bara aldrei
Friður.
Svo það var gott
Að staðfesta það
Meðan blóðið lak
Niður Skjaldbreið
Marinn og bláan.
Og nestiskarfan tóm
Dúkurinn í kuðli
Saxófónninn,
Hvaða saxófónn.
Auðvitað, það er alltaf
Saxófónn.
Opnaði nestiskörfuna
Blés í saxófóninn
Ég þurfti bara að vera sæt
Hann benti á Skjaldbreið
Og kýldi mig beint
Í andlitið sem var
Ekki lengur mitt
Ég hafði heldur ekki trúað
Að þetta væri mitt andlit
Ég var alltaf að reyna
Að sýna heiminum það.
Eða hvort ég reyndi
Að fela það fyrir heiminum
Eða fela heiminn
Sýna heiminn
Það var bara aldrei
Friður.
Svo það var gott
Að staðfesta það
Meðan blóðið lak
Niður Skjaldbreið
Marinn og bláan.
Og nestiskarfan tóm
Dúkurinn í kuðli
Saxófónninn,
Hvaða saxófónn.
Auðvitað, það er alltaf
Saxófónn.
03 september 2009
Ég veit að minnsta kosti hvað mig vantar
The most creative moment is the relaxing one, .... -
Mig vantar ró, ég er of spennt.
*
Mig vantar ró, ég er of spennt.
*
02 september 2009
Afi minn
Afi minn hélt uppá mig þótt ég væri stelpa. Honum fannst ég alveg frábær og yndisleg og stórkostleg og merkilegt undur hér á jörð. Hann elskaði mig svo mikið að hann veiktist þegar ég veiktist. Það er kannski meðvirkni, já sennilega er það meðvirkni. Og svo sýndi hann mér Ísland, Laugarvatn, Þingvelli og allt heila galleríið og þegar ég veiktist á geði keyrði hann mig útum allt í leit að skilaboðum, hann hélt kannski að það gæti hjálpað, enda hjálpaði það að vera með afa sínum en ekki ráfandi útá götu.
01 september 2009
Vörðurinn
Ég gerði úr honum vörð,
lét hann hafa allar upplýsingar,
skjöl, albúm, bréf, nótur,
svo lét ég hann hafa vopnin
byssur, spjót, boga, sprengjur,
og bað hann að nota þetta
eftir þörfum
tilað halda mér
á mottunni.
lét hann hafa allar upplýsingar,
skjöl, albúm, bréf, nótur,
svo lét ég hann hafa vopnin
byssur, spjót, boga, sprengjur,
og bað hann að nota þetta
eftir þörfum
tilað halda mér
á mottunni.
Yfirheyrslur
Ef hann gæti tekið mig
til fanga svo yfirheyrslurnar
gætu byrjað því ég er orðin
svo þreytt á mínum eigin
yfirheyrslum.
til fanga svo yfirheyrslurnar
gætu byrjað því ég er orðin
svo þreytt á mínum eigin
yfirheyrslum.
Draumur
Mig dreymdi að ég byggi á Valhöll og þar brann allt til kaldra kola, Björg Björnsdóttir var að skamma mig og mamma líka, svo fór ég að reyna bjarga einhverjum hlutum og vaknaði þegar ég var að bera tölvuna út.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)