24 nóvember 2009

Bænahestar

já, ég sýndi þeim líka hestana, bænahestana, ... svo talaði ég við Lindu og það var þá sem Vilborg kom og mér er alveg sama hvað öðrum finnst um mig. (Sagði mjóróma rödd tilað sannfæra sjálfa sig.) En ég er ótrúlega guðdómlega þreytt, ef eitthvað þreytir mig þá eru það hugsanir, ég datt í gömlu gryfjuna, ég hlýt að hafa viljað það sjálf, hvað er ég að öðlast með gömlu gryfjunni og hvað er ég að forðast.

Ég forðast á taka ábyrgð á mínum störfum og vera prófessional.

Ég öðlast samúð, hluttekningu, allir fara blanda sér í mín mál, skipta sér af, segja mér skoðun sína og bjarga mér... hjálparvana mér.

Svo elsku bænahestur... ég sendi þig til hans með bæn.

Manneskjan er bæn, ákall.

Manneskjan er ein titrandi bæn, augun biðja: Má ég sjá eitthvað fallegt, eyrun vilja fá að heyra eitthvað fallegt, skinnið, hörundið: Má ég snerta eitthvað mjúkt tilað tosa í, og svoleiðis er manneskjan einsog bæn.

En ég er komin uppúr gryfjunni og farin að taka ábyrgðina á mínum málum.

Góða nótt kæru bænir. Og bænahestar.

23 nóvember 2009

Kærleikssambandið

Byrjaði aftur í dag... ég steikti folaldasnitsel handa mér með kartöflum frá Kolbrá, fór í bankann og á pósthúsið, hvortveggja mjög kærleiksríkt, ég hafði smá leikhús á pósthúsinu, hitti 2 rithöfunda Kristínu Ómars og Bjarna Bjarnason sem sýndu mér bækurnar sínar, fékk pening í bankanum, póstaði Aðalheiði, keypti símakort, hef ekki getað það í svona mánuð, hmmmm, getur það verið, ekki nógu kærleiksríkt! Fékk vatn á pósthúsinu, hringdi í lækninn, pantaði tíma, fékk tíma, hitti Friðgeir í bókabúðinni og Þórlind mjög gaman alltsaman og kærleiksríkt, hafði þar á undan sýnt mér alveg sérstakan kærleika og keypt mjólk, banana, perur, djús, abmjólk í búðinni, fékk poka, labbaði í bæinn, man ekki eftir að hafa séð kött, með rauða hanska, töskuna mína og í írsku úlpunni, leðurstígvélum, fín, sá kirkjugarðinn, suðurgötuna, stóra rauða húsið, stóra rauða húsið, stóra rauða húsið, skerandi sól, blindsól, ætlaði í prentsmiðju en komst að því að hún var í garðabæ....!! Engin prentsmiðja í miðbænum, hvað er að gerast. Hvar er kærleikurinn? Hringdi í synina. Góð. Vilborg kom í heimsókn, gaf henni te úr töfrakatlinum í stóra rauða húsinu, við töluðum og töluðum, góður dagur og kærleiksríkur, ég hugsaði um að gefa ekkert út, gefa ekki út, svo lagði ég mig og hugsaði, nei.... þetta er hjá guði, ég meika ekki að skrifa um þetta, en ég er búin að vera í útgáfukrísu. Kannski kemur einhver og slítur af mér handritið og setur það í prentsmiðju, aha ekki kærleiksríkt, svo ég bað fyrir þessu, dimmt, ein stjarna, símtöl, bað, sápubað, vatn, leggja sig í sófanum, allt svo kósí hjá mér, lífið svo dásamlegt vinir mínir.

15 nóvember 2009

*

Kærleikurinn er eina vitið.
*

14 nóvember 2009

Vá, ég er búin að vera þvílíkt fórnarlamb!!!

Ég er búin að vera fórnarlamb bókmenntaheimsins,
bænarinnar, heilsunnar, aldursins, peningaleysis, sjónvarpsleysis, ávarpsins guð blessi ísland, hrunsins, hæfileika minna, listaháskólans, tannlæknisins, tryggingastofnunar, hugsunarinnar, þreytunnar, þursabitsins, hússins, minnar erfiðu æsku, alkóhólisma, geðhvarfa, móðurhlutverksins, ömmu, flugfarþega, neytenda, aa-samtakanna, vináttunnar, leikhússins, vá hvað ég er búin að vera mikið fórnarlamb leikhússins, sýndarmennskunnar, skammarinnar, græðginnar, tímans, örlaganna, það verður aldrei neitt úr mér, lesenda minna, aðdáenda, umferðarinnar, og húðin er að breytast, þvílíkt fórnarlamb og sjónin, vá fórnarlamb, ég þarf að borga skatta og sjá fyrir mér þótt ég sé listamaður, ég er fórnarlamb listarinnar, þetta er eitt stórt samband sem ég er í....

og fórnarlamb fyrirlitningarinnar, dómhörkunnar, vantraustsins, skuldanna, lokaða símans, fórnarlambið fær þvílíkt KIKK útúr þvíað vera með lokaðan síma, bilaða þvottavél, og tóman ísskáp. Allt fyrir fórnarlambið!!!

12 nóvember 2009

Videókvöld hjá Zizou, Keano og Ellu Stínu

Í tilefni þess að Zizou og Keano eru að fara heim aftur á morgun ákvað ég að hafa videókvöld, við horfðum á spólu og fengum okkur nammi, hundanammi, kók, lakkrís og popp. Horfðum svo á Changing Lanes og ég táraðist.... TÁRAÐIST...

*

Zizou og Keano létu sér fátt um finnast þegar nammið var búið og steinsofnuðu og rétt rumskuðu við klappið mitt. Yndislegt kvöld.

Ella Stína sauð engirót

Ég sauð engifer-rót og bjó til heilsudrykk, yndislega rammt og með hunangi í. Ég er snillingur í að hugsa vel um sjálfa mig og hálfa mig. Svo sauð ég þorks, frosinn með kartöflum, hvorttveggja varla matur, en magafylli, verð að muna eftir lárviðarlaufunum.

10 nóvember 2009

Uppgötvun

Ég er sjúk í viðurkenningu af því ég kann ekki að taka á móti ást, - en áðan lagði ég mig.

Við hvern er ég að tala?

Ég treysti engum og enginn getur hjálpað mér og ég má ekki segja frá. Ég veit ekki hverju ég má ekki segja frá, ég er búin að gleyma því, það er eitthvað. Og enginn getur hjálpað mér því ég er svo rosalega spes og á svo rosalega bágt og er að sjóða egg og það skammdegi úti. En afhverju treysti ég engum, afhverju er ég að setja það á bloggið mitt, ef ég treysti engum, á örugglega eftir að stroka þetta út en sá sem engum treystir, hann deyr á ísnum. Eða ísnum, hann deyr inní sér, tærist upp og deyr, - deyr inní sér, fer í hringi inní sér, ég er með flökt, ég er svo þreytt, af því ég treysti engum, segi þetta við þennan og hitt við hinn og held að enginn elski mig en segist bara gera það. Spennandi, mig langar í mjólk. Og hvað er þetta sem enginn má vita, - að ég er á leiðinni út.

Ég ætla ekki að hanga inni lengur yfir þessari konu sem starir á vegginn, starir á gulan vegginn og er endalaust inní svefnherbergi og alltaf að skamma mig og alltaf að hafa áhyggjur af mér, og alltaf að toga í mig og alltaf að stjórna mér af því hún er svo hrædd um mig.

Hún getur orðið eftir inni. Ég kann ekkert á hlutina, ég blanda saman vatni og rafmagni, og er með bók undir hendinni sem heitir MYSELF í staðinn fyrir að bókin heiti MY MOTHER MY SELF.

Þetta kemur örugglega núna af því ég er búin að skrifa heilt handrit umað vera upptekin af föðurnum tilað fela hvað.... móðurina. Maður verður að treysta foreldrum sínum eða foreldrum sínum inní sér, við hvern er ég að tala?

09 nóvember 2009

Vetrarljóð

Veturinn er kominn
og sumarið er farið
yfir sæinn
og dvelur í draumi mínum.

*

Tjaldurinn

Við sáum tjald vappa í grasinu. Það var við Sólarlagsbraut. Hann flaug upp þegar við nálguðumst og flaug útá haf. Kann tjaldurinn að synda?

Viðkvæmni

Hundarnir eru búnir að kenna mér eitt, að ég er viðkvæm, ég sá það vegna þess hversu þeir eru viðkvæmir.

*