14 janúar 2007

Ella Stína og ræninginn

Einn daginn ákvað Ella Stína að hætta að gráta og þá
uppgötvaði hún raunverulegt ástand sitt, hún hafði verið
rænd. Hún hafði samt ekki verið að gráta yfir því. Hún hafði
verið að gráta yfir því að ræninginn var dáinn.



Ella Stína hefur loksins opnað heimasíðu. Það er hennar aðferð til að komast heim og komast úr hásætinu. En Ella Stína er geymd í hásæti og er orðin hundleið á því. Hún svoleiðis hangir og húkir í því. Ella Stína er með galdrahjarta. Galdrahjarta Ellu Stínu.

Ella Stína er skjaldbaka þótt hún sé kotroskin. Þá er hún skjaldbaka og einu sinni var skelin á henni brotin. Hún leyfði það útaf ástinni eða því sem hún hélt að væri ást. Þessi skel sem hafði verið mörg miljón ár að þróast og þarsem Ella Stína var skjaldbaka gat hún ferðast á sjó og landi og var feimin og fornaldarleg. Já svo semsagt brotnaði skelin og þá var hún bara svona, svo viðkvæm að hún hélt hún myndi deyja eða ekki geta verið til. En þá uppgötvaði hún að hún hafði galdrahjarta og hún gat breytt því í rauðan hjúp sem hún verndaði sig með. Svo Ella Stína er vernduð af galdrahjartanu sínu. Og kannski getur það breytt sér meira. Því þetta er heimsveldi Ellu Stínu en Ellu Stínu langar að komast úr hásætinu, það er svo hátt niður og hún segir: Þú bara geymir mig hér svo þú getir sagt sögur og svo ert þú alltaf bara ástfangin. Hvað er þetta með ástina. Er Ella Stína að gera Hollywoodmynd. Hana langar bara í kærleika.

Á þessum blöðum verður að finna allt um galdrahjartað, augnablikið, ræningjann, kínverska boxið, brúðuleikhúsið, sirkusinn, puttana.

Engin ummæli: