14 janúar 2007

Veikindi og ást

Einu sinni veiktist Ella Stína. Og þá byrjaði hún að minnka. Hún varð svo lítil að hún var til í að taka í höndina á hverjum sem er. Hún veiktist af ástleysi. Ástin lætur mann vaxa en Ella Stína hafði enga ást svo hún byrjaði að minnka svona og var orðin pínulítil. Ella Stína var alveg að hverfa þegar hún ákvað að skrifa bók. Hún var nú svo lítil að hún gat varla skrifað hana. Líka af því hún þurfti ást til að skrifa hana og hún átti enga ást en svo fann hún útsaumaða koddann sem mamma hennar hafði gefið henni einu sinni. Og hún lá pínulítið á honum. Hún var sjúk í ást.


Mátti ekki elska pabba sinn

Ella Stína mátti ekki elska pabba sinn. Það var stranglega bannað. En Ella Stína gafst aldrei upp. Hún gróf leynigöng inní hjartað á pabba sínum og þar svoleiðis dembdi hún ástinni yfir hann. Það endaði með því að hann greip fyrir hjartað og dó. Ella Stína hrósaði sigri. Þá komst Ella Stína að því að hún mátti ekki syrgja hann.


Ella Stína og fyrirlitningin

Ella Stína fyrirleit pabba sinn en fannst ekki viðeigandi að sýna það svo hún hafði óskaplegar áhyggjur af honum. Stundum strauk hún vasaklút um ennið á sér, áhyggjurnar voru svo miklar, eða hún andvarpaði djúpt.


Ella Stína og einmanaleikinn

Einn daginn vildi Ella Stína frekar vera einmana en láta pína sig. Svo hún flúði inní einmanaleikann. Þar var kostulegt um að litast. Mesti munurinn var sá að þar gat hún pínt sjálfa sig í friði. Án þess nokkur vissi.


Um vonina

Ella Stína var alltaf að vonast til að mamma hennar myndi draga pabba hennar útúr líkamanum því hún var með hann í öllum líkamanum, ekki bara höfðinu, ekki bara nefinu, eyrunum, heldur öllum holum, líka svitaholunum og hún var að vonast tilað draga hann út gegnum holurnar þegar hún fattaði tvennt:

1. Að mamma hennar var líka með pabba hennar í öllum götum og holum.
2. Að pabbi hennar var í öllum heiminum.


Og þá hefði þurft að draga út heiminn en það var ekki hægt svo Ella Stína eyddi ævi sinni í að hugsa um það.

Engin ummæli: