Taugaáfallið
Ella Stína fékk taugaáfall þegar hún uppgötvaði að pabbi hennar elskaði hana ekki. Svo fékk hún næstum annað taugaáfall þegar hún uppgötvaði að hún mátti engum segja frá þessu. Og hún fékk annað taugaáfall yfir því. Svona geymdi hún inní sér taugaáföllin. Og ef hún var annarshugar var það af því hún var að raða taugaáföllunum í stafsrófsröð.
Jarðarförin
Ellu Stínu leið svo illa útaf ástleysinu að hana langaði til að hengja sig en þá rann upp fyrir henni að foreldrar hennar mundu þurfa borga stórfé fyrir jarðarförina og það gat hún ekki hugsað sér.
Í skólanum
Ella Stína gat aldrei lært neitt í skólanum því hún var alltaf að hugsa um hvernig hún gæti hjálpað fjölskyldunni. Hún var aldrei með bækur í töskunni sinni, bara einmanaleikann og sjálfsvorkunina. Seinna mundi Ella Stína aldrei hverjir voru í bekk með henni því hún var alltaf að reyna muna hverjir voru með henni í fjölskyldu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli