26 ágúst 2007

Síðsumardagur

Allir eru hættir að elska mig. Enginn kommenterar.

*

Hvað er ást? Komment.



*

24 ágúst 2007

Kista Páls biskups

23.ágúst 1998 gekk ég útaf einum stað. Get ekki sagt meira.

Í dag 23.ágúst fann pabbi minn kistu Páls biskups í Skálholti. Þegar kistan var opnuð pipraði jörðin, - að sjálfsögðu.

Ég vissi að í dag gæti þessvegna eitthvað gerst.

Og ég hringdi í Guðrúnu Evu og hún sagði orðið: Uppgröftur.

Mamma gaf mér líka skeið um daginn frá Georgíu. Ekki teskeið. Skeiðar eru notaðar við uppgröft.

Þetta er ekki manía, þetta er mystík.

Svo er það draumurinn sem mig dreymdi í Selssundi, um svarta stóra leðurpúðann sem var taska og það voru fimm hringir. Ég hef verið að hugsa hvað þessir fimm hringir þýddu og ég tel mig vita það núna.

En ég get ekki sagt meira.

Það er bara eitt sem er að vefjast fyrir mér, hvort það tefur fyrir mér að hugsa um manninn sem ég er skotin í eða hvort það fleytir mér áfram.

Ég hef verið að hugsa í allt sumar hvað þessir fimm hringir þýddu og ég held ég viti það núna.

Bending í draumi.

Svo sauð ég kartöflur og brokkólí.

Saknaði Jóhönnu og Alexíu.

En fattaði að stundum er gott að vera ein.

Það var sagt um pabba minn þegar hann fann kistuna hans Páls, kannski bara um tvítugt eða eitthvað, - að hann yrði gæfumaður.

Hann varð gæfumaður.
Hann fann kistu fulla af leikritum.
Og öll börn sín. Konurnar. Ástina. Réttlætið. Sjúkdóminn.
Svo er gæfan líka eitthvað sem hver á fyrir sig.

Hann hefur sennilega átt sín gæfumóment, alveg einn og hamingjusamur, einsog ég sem get stundum sturlast af hamingju, - alein.

23 ágúst 2007

Upplýsingar Ellu Stínu

Stundum þegar ég ýti á send-takkann þá er það einsog ég sé að eyða
heiminum.

Að eyða heiminum þýðir að þá eyði ég innilokun minni, mínum litla
heimi þarsem ég bý til allar reglurnar.

*

Meira af hvítum blómum

Nú eru að koma meira af hvítum blómum, knippum einsog í sumar. Þá kom einn vöndur, nú eru þrír á leiðinni, þetta eru litlir klasar, brúnir sem breytast í hvít blóm. Það lítur út fyrir að það verði keðja af hvítum blómum....

22 ágúst 2007

Sársaukahrúga Ellu Stínu

Ella Stína var góð í að taka sársauka frá fólki og svo setti hún sársaukann í stóra hrúgu. Svo stóð hún vörð um sársaukahrúguna.



*

Draumaheimurinn hennar Ellu Stínu

Ef maður er alltaf í draumaheimi heyrir maður ekki þegar er kallað, og heldur ekki ef það er bankað.

*

Nema svo getur farið að maður heyri bankað og er þá verið að banka?


*

Ella Stína stjórnaði heiminum

Einu sinni var stelpa og hún stjórnaði öllu. Hún stjórnaði því hvernig jörðin snérist, hún stjórnaði fjölskyldunni og hún stjórnaði yfirleitt öllu. Svo var hún orðin svo þreytt á að stjórna að þegar hún varð skotin í strák sagði hún við hann: Ertu til í að stjórna mér?

Fyrst sagði hann nei.

En þá sagði hún: Ég elska þig ekki nema þú stjórnir mér.

Svo hann fór að stjórna henni, hann stjórnaði hvað hún sagði og gerði, hvernig hún hreyfði sig, hvaða vini hún átti, við hverja hún talaði, hvernig hún klæddi sig, hvað hún hugsaði, hvað hún hugsaði ekki, hvar hún bjó og allt.

Einn daginn varð hún svo þreytt á þessari stjórnun að hún sagði: Þú elskar mig ekki.

Ha, sagði strákurinn.

Nei, þú vilt bara stjórna mér.

Þú vildir láta stjórna þér.

Nei, ég hef aldrei sagt það. (Hún laug og gleymdi tilað geta stjórnað)

Hún hætti með honum og fann nýjan tilað láta stjórna sér. Allt fór á sömu lund, hún varð svo þreytt á að láta stjórna sér og varð svo þreytt á að stjórna honum því hún gat ekki hætt að stjórna þótt hún þættist ekkert vera að því.

Svo var hún búin að vera með fullt af strákum og allt gekk út á stjórnun, þá fann hún lítinn engil á götunni. Hún sagði nújá, engill, ætli ég hafi ekki stjórnað nógu vel uppí himninum, engill hefur dottið niður. Ég er misheppnuð og ömurleg og svo lagðist hún í götuna og grenjaði hástöfum. En þá fór hún að tengja rosalega mikið og hugsaði; kannski á ég að biðja guð um að stjórna mér. Svo öskraði hún á guð, guð viltu taka við.

Taka við, sagði guð.

Já, ég get ekki meir.

Nújá, sagði guð.

Nújá hvað, sagði hún og var strax byrjuð að rífast við guð þótt hún hefði beðið hann um að taka við, hún var auðvitað að stjórna guði þegar hún var að rífast svona.

Nújá, endurtók guð.

Nújá!!???

Nújá.

21 ágúst 2007

Hamingjan ó guð

ég hef sjaldan verið þreyttari á ævi minni, fór í nudd í dag, nokkrir hryggjarliðir fengu að fjúka, jamm og ekki jesú, bókin mín, ég veit að ekki, las hana í dag og hef sjaldan lesið ömurlegra, ég þoli ekki ef ég er að skrifa þetta allt fyrir einn mann, að blogga meina ég, það gengur ekki, og skrifa yfirleitt dettur mér í hug, kannski er ég að skrifa fyrir einn mann, elísabet þetta er saga, ég ætla koma hérna með nokkrar kynlífslýsingar og háspennumöstur, það er byrjað að tala um heilræði lásasmiðsins í heita pottinum. ég þoli ekki að einhver lesi það sem ég skrifa. ég er að skrifa þetta fyrir mig.


*

Ég fann lykil þegar ég skilaði handritinu.

okei, ég veit hvað ég þarf að gera, treysta guði, sofa og svo sofa hjá ha ha ha.

action without analysis.

19 ágúst 2007

Fegurðin í lífinu

Alexía barnabarn sagði við mig í dag: Amma, þú dansar svo mikið og syngur, það gerir þig svo unglega.

:

Svo fórum við útí Gróttu að tína kuðunga og skoða sjóinn og polla með gróðri í, og dularfulla steina. Einn magnaður hjartasteinn með augu sem voru líka hjarta. Jamm.

18 ágúst 2007

Hér kemur leyndarmálið

Maður sér ekki vel nema með hjartanu, það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.


*

Þetta sagði refurinn í Litla prinsinum. Og svo sagði hann:

Það er tíminn sem þú hefur varið í rósina þína sem gerir rósina þína svo mikils virði.

*

12 ágúst 2007

Að skrifa bók

Þegar ég var að skrifa þessa bók fékk ég vöðvabólgu. Þegar ég hreyfði axlirnar kom í ljós að setning hafði komið sér fyrir milli herðablaðanna: Þér á aldrei eftir að takast þetta. Ég lærði svona á líkamann, eitt kvöldið var ég með kökk í hálsinum. Vinur minn kom í heimsókn og hann spurði: Hvað myndi þessi kökkur segja ef hann gæti talað? Ég er til, sagði ég aumum rómi. Ég er til. Þá hafði hnefinn á föður mínum rutt sér leið ofaní kok á mér, segjandi: Þú ert ekki til.


Svona talar líkamaninn, og þá hljóta fjöllin lika að gera það og Jökla.



*

Ps. Ég fór að hreyfa axlirnar því ég talaði við Kristínu Bjarnadóttur mína sem er vinkona mín, tangódansari, ljóðskáld og silungur í húnvetnsku vatni.

11 ágúst 2007

Enn ein kenningin

Þegar ég geri ekkert, - þá fyrst reynir á mig.



*

Minni á grísku goðafræðina þarsem allt spratt uppúr tóminu.

10 ágúst 2007

Ein mesta uppgötvun Elísabetar

Hún var alltaf að leggja veg á nóttunni, og það kom að því að hún sá ekki lengur skil dags og nætur.



*

06 ágúst 2007

Stærðfræði - tileinkað Jökli

Til þess að brjóta eina reglu þarf að búa aðra til. Jafnvel búa til margar reglur tilað brjóta eina.

*
Mér finnst svo gaman að vera fallega klædd.

01 ágúst 2007

Leiðinn hefur oft bjargað mér

Ekki misvirða leiðann. Leiðinn er stórbrotinn. Þegar ég var búin að lesa uppúr bókunum mínum í tæp tuttugu ár fékk ég leið á því og kveikti í bókinni og las uppúr henni á meðan hún brann.

Samþykki

Ég fattaði alltíeinu að ég var að bíða eftir samþykki. Ég skrifaði manni ímeil í gær og sagði honum hvað ég væri að hugsa. Svo alltíeinu var ég farin að bíða eftir samþykki hans að ég mætti hugsa svona. Ég þarf ekki einusinni samþykki frá sjálfri mér, ég hugsa bara svona.

Ljósastaurarnir

Ég fékk hálfa miljón í skatta og ætlaði fara hafa einhverjar áhyggjur af því þegar ég sá hvað Hreiðar Már fékk í skatta. Svo vil ég líka benda á hvað hann er sætur og hefur einhvern ótrúlegan sjarma við sig, og er svo líkur Eddie Norton sem er einn af mínum uppáhaldsleikurum. Kannski tekur Hreiðar mína hálfu miljón bara með sínum, annars vil ég fá að borga mína ljósastraura sjálf.