22 ágúst 2007

Ella Stína stjórnaði heiminum

Einu sinni var stelpa og hún stjórnaði öllu. Hún stjórnaði því hvernig jörðin snérist, hún stjórnaði fjölskyldunni og hún stjórnaði yfirleitt öllu. Svo var hún orðin svo þreytt á að stjórna að þegar hún varð skotin í strák sagði hún við hann: Ertu til í að stjórna mér?

Fyrst sagði hann nei.

En þá sagði hún: Ég elska þig ekki nema þú stjórnir mér.

Svo hann fór að stjórna henni, hann stjórnaði hvað hún sagði og gerði, hvernig hún hreyfði sig, hvaða vini hún átti, við hverja hún talaði, hvernig hún klæddi sig, hvað hún hugsaði, hvað hún hugsaði ekki, hvar hún bjó og allt.

Einn daginn varð hún svo þreytt á þessari stjórnun að hún sagði: Þú elskar mig ekki.

Ha, sagði strákurinn.

Nei, þú vilt bara stjórna mér.

Þú vildir láta stjórna þér.

Nei, ég hef aldrei sagt það. (Hún laug og gleymdi tilað geta stjórnað)

Hún hætti með honum og fann nýjan tilað láta stjórna sér. Allt fór á sömu lund, hún varð svo þreytt á að láta stjórna sér og varð svo þreytt á að stjórna honum því hún gat ekki hætt að stjórna þótt hún þættist ekkert vera að því.

Svo var hún búin að vera með fullt af strákum og allt gekk út á stjórnun, þá fann hún lítinn engil á götunni. Hún sagði nújá, engill, ætli ég hafi ekki stjórnað nógu vel uppí himninum, engill hefur dottið niður. Ég er misheppnuð og ömurleg og svo lagðist hún í götuna og grenjaði hástöfum. En þá fór hún að tengja rosalega mikið og hugsaði; kannski á ég að biðja guð um að stjórna mér. Svo öskraði hún á guð, guð viltu taka við.

Taka við, sagði guð.

Já, ég get ekki meir.

Nújá, sagði guð.

Nújá hvað, sagði hún og var strax byrjuð að rífast við guð þótt hún hefði beðið hann um að taka við, hún var auðvitað að stjórna guði þegar hún var að rífast svona.

Nújá, endurtók guð.

Nújá!!???

Nújá.

Engin ummæli: