27 febrúar 2009

Ástarráð

Hitið poka með hrísgrjónum og ilmjurtum og setjið á axlirnar.

Berið á ykkur ilmvatn fyrir svefninn.

Snúið ykkur einsog kópur í sundlauginni.

Setjið á ykkur varalit þegar þið eruð einar heima.

Gangið á háhælaskónum að gamni.

Segið "Til fjandans með hann" í staðinn fyrir að spyrja í sífellu: "Afhverju hringir hann ekki!!?"

Þetta fjandans skerpir sælusjúka vitundina.

Takið nokkur dansspor í eldhúsinu en ekki fara eitthvað að dansa.

Sláið nokkrar nótur á píanóið, ekki semja heilt píanóverk.

Ekki vera alltaf að taka til.

Setjið stundum smá rusl á gólfið eða eina flík og segið: Nú er fínt.

Vökvið blómin.

Þrífið baðið.

Látið svörtu hanskana sjást, ekki loka þá niðrí kommóðu.

Dáist að örbylgjuofninum.

Leigið videóspólu þegar þið hafið klárað handritið.

Málið útidyrahurðina.

Burstið tennurnar lengi, ekki af skyldu heldur af nautn.

Kveikið á lampanum í glugganum á morgnana tilað gleðja vegfarendur, sérstaklega fyrir börnin.

Dáist að því hvað er inní ísskáp.

Blandið saman í skál, ávöxtum og steinum.

Kveikið á kerti, það kallar fram sál hússins.

Ekki kveikja á fleiri kertum, það mengar.

Munið að eiga alltaf eldspýtur.

Munið að eiga flottar nærbuxur.

Munið eftir sætum orðum einsog: Elísabet þú ert svo mikið krútt, þú ert krútthali.

Gerið lista yfir það sem er gott fyrir ykkur og hengið upp. Þegar ykkur líður illa veljið eitt atriði af listanum.

4 ummæli:

Katrín sagði...

Ji minn eini hvað þetta gladdi hjartað mitt- knús knús.

Kristín Bjarnadóttir sagði...

Ekkert smáGgóður listi. Takk.
fór loks í leikhús í gær .. bloggaði í dag eftir 2 mánuða hlé, velkomin í heimsókn!
(Sé að andlitsbókin er í fréttum og etv búin að eignast öll sín andlit og allt sem á þeim er haah.

love

Nafnlaus sagði...

Ég ætla að gera minnstakosti eitt af listanum á hverjum degi- og verða svo fokking ástfangin af sjálfri mér að ég get kannski orðið skotin í öðrum.

má bæta á listann?
- skildu blóm eftir á eldhúsborðinu fyrir sjálfa þig áður en þú ferð að sofa- og komdu þé rá óvart þegar þú vaknar;)

- sestu niður með þér og ræddu málin.

Hlakka til að gera lsitann- ætla að skrifa greinagerð og stefnumóta ferlið í leiðinni.
Lokaskýrslan um listann í notkun verður tilbúin innan skamms. Lísbet

Nafnlaus sagði...

oh, ég fíla mig einsog sjálfshjálpargúrtu, mín leynda ósk,

takk allar saman, knúsir og krúsir, englar og dísir,

elísabet