Það er kertaljós á borðinu, sól úti og laufin bærast létt fyrir utan gluggann og rauð berin svigna á greinum trjánna, kertið er rautt og nágrannakona mín gaf mér það og bráðum kemur október, og litla septemberbarnið dafnar blítt og elskulega með sitt svarta hár, í dag er sennilega annar af síðari leikjum Breiðabliks, og ég sit hér á jórdönskum nærbuxum, svartri ullartreyju frá Noregi, og í peysu sem Hulda prjónaði á mig og allir dáðst að, ég var eiginlega að ákveða að gefa út nýja ljóðabók, ég læt alltaf birtast í huganum: Gefðu út, - en nú á ég allar þessar bænabækur, svo hvernig á ég að gefa út - hvernig á ég að taka ákvörðun, láta gera kostnaðaráætlun, en það hefur Jóhann Páll aldrei gert, svo er bara best að dúndra þessu út og koma í kiljuna.
Í gær hringdi í mig kona og sagðist hafa kíkt á bloggið mitt, þetta er skrifað fyrir hana og hún beðin að gefa gaum að ytra umhverfi sínu, gluggum, kertum, nærbuxum, frekar en öllu hennar innra og óstýriláta sálarlífi.
Ég heyri tikkið, sé fingur mína hreyfast, það er nautn.
*
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli