Tíminn er snjallasti brellumeistari sem ég þekki, hann getur breytt fortíð í nútíð og nútíð í framtíð og aftur framtíð í fortíð og þannig endalaust. Maður er kannki á gangi með hundinn og kominn á bólakaf í fortíðina og eina ráðið er að hlusta eftir fótataki hundsins tilað komast aftur í núið. Og já, tíminn og brellurnar, því hvernig stendur á því að lítill drengur sem svipti upp útidyrahurðinni og kallaði mamma ertu heima, er eitthvað til í ísskápnum, og lagði sína litlu hönd á ennið henni, hvernig stendur á því að þessi litli drengur getur á nokkrum mínútum, ef ekki augabragði farið til Kanada..... Vesturheims.... með fjölskylduna sína.... og fyrst svo er af því Tíminn sér um sína og framleiðir sínar brellur á færibandi þá hlýtur þessi litli drengur að vera fara til Vesturheims að reisa bjálkakofa í óbyggðum.
Einsog þeir gerðu hérna landnemarnir. Og hann þarf að höggva tré og reisa húsið, grafa fyrir brunninum, höggva í eldinn, reisa snúrustaura og búa til hægindastól handa frúnni og skera út dúkkur úr tré handa dætrunum, hann þarf auðvitað að eiga bók, og stromp, og tröppur.....
Og hann þarf að bægja burt skógarbjörnum og vingast við Indíanana, hlusta á laufskrúðið í skóginum eða vindinn á víðáttunni ef þeetta er slétta.... og hann þarf að læra að dorga í vatninu.
Og ég held að allt sem þessi litli drengur hafi brallið hingað til hafi einmitt verið til þess gert að búa hann undir akkúrat þetta og sitja svo á veröndinni með fjölskyldunni, hann er einmitt undirbúinn undir þetta.
Það eina sem gæti komið honum úr jafnvægi er ef móðir hans birtist nú alltíeinu og heimtaði að fá að sitja við arineldinn og stara í logana.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli