24 júlí 2008

Elísabet í mótþróanum

Nútímatrúarbrögð ganga útá að við eigum að vera í núinu, vera skapandi, og ekki safna neinu því við tökum það ekki með í gröfina.

Ég er aldrei í núinu, ég er í framtíðinni, nútíðinni og fortíðinni, - þrjár meginelfur sem streyma saman, skiptast og sameinast. Ég er aldrei skapandi nema ég sé um leið eyðandi. Um leið og ég skapa þessi orð eyði ég öðrum orðum.

Og ég safna hjartasteinum. Og langar að safna sápum. Og safna bókum eða safna þeim ekki en læt þær safnast að mér, líður vel að hafa þær í kringum mig, í stöflum, á borði, í skápum, í hrúgu.

Ef ég ætti að fara með eitthvert safn í gröfina myndi ég taka hjartasteinasafnið ef Alexía væri ekki búin að panta það handa sér og fleiri ömmubörnum. En ég fer kannski með einn stein, mitt eigið hjarta....

Amma Elísabet safnaði þjóðbúningadúkkum, það hefði verið fallegt ef dúkkurnar hefðu farið með henni. Þær hefðu kannski breyst í þjóðbúningadúkku-engla.

6 ummæli:

beamia sagði...

vinur minn sagði mér frá töfranótt sem var hér í freiberg (austurhluta þýskalands) í gærkvöldi - hann sá ótal stjörnuhröp, ljósflugur/glóorma, fannst svo sérstök og falleg stemmning í loftinu og endaði á að liggja úti á túni upp við gömlu námurnar fram til að verða tvö um nótt. það minnti mig á þig svo ég ákvað að segja þér frá því. í kvöld ætla ég að gá hvort eitthvað svipað endurtaki sig :)

Nafnlaus sagði...

Þetta er nú eitt dulmagnaðasta komment sem ég fengið, ég er enn að reyna ráða í dulmálið...

gömlu námurnar...

jú, ég skil það,

gömlu skáldæðarnar í höfðinu, hjartanu, og nóttin, þetta sem er alltaf jafn dularfullt, myrkt og skrítið, jafnvel hlið í manni sem maður veit ekki af ...

OG TÖFRANÓTT...

mér hefur verið sagt frá töfranótt, .... töfranótt...

ljósormar, stjörnuhröp, hvílík dýrð og ég fæ að vita af þessu,

frá Beamiu!!!

mér finnst endilega að ég verði að koma þessum tíðindum áleiðis, ...

goðsögn. því hér sit ég og svo er eitthvað annað að eiga sér stað annarstaðar.

jibbbí´´ií´´iííí. TAKK. BEAMIA.

kannski ég yfirgefi húsið um stund.

Elísabet

beamia sagði...

það var fallegt í gærkvöldi. við sáum glóormana/ljósflugurnar og fengum tilfinningu fyrir að vera partur af vetrarbrautinni því að svo margar stjörnur voru sýnilegar. stjörnuhröpin létu á sér standa en strákar sem við hittum á leiðinni upp á hæðina sögðu að tíminn kring um mánaðamótin júlí-ágúst væri aðal stjörnuhrapatíminn hér um slóðir svo það kemur bara annað kvöld og ný stjörnuhrapahryna.

hér í þýskalandi er ég alltaf kölluð bea og stundum mia því að enginn getur sagt nafnið mitt en það er annars bjarnheiður

bestu kveðjur frá þýskalandi

Nafnlaus sagði...

já, ég fór inná bloggsíðuna þín,a þú ert að læra stærðfræði ekki satt, en höfum við hist,

en það gladdi mig svo að heyra um að töfranóttin minnti á mig að ég fór útúr húsinu og lenti í ævintýri.

og svo eru hér töfrakvöld... kvöld eftir kvöld, sem minna á stærðfræðiformúlur.

Elísabet

beamia sagði...

það gleður mig að heyra! já maður þarf bara að passa að líkamanum finnst víst betra að sofa á nóttunni og því betra að hafa fleiri töfradaga en töfranætur

jú einmitt, ég er að læra stærðfræði og ég er líka með íslenskt blogg: http://bjarnheidur.blogspot.com

hmmm... nei það held ég ekki, alla vega höfum við þá ekki hist beint. ég rakst bara inn á þessa síðu út frá síðu krummanna einhvern tíma fyrr í sumar þegar ég var að lesa um bókmenntir. þú ert svona töfrakona og þess vegna datt mér í hug að skrifa þér.

Nafnlaus sagði...

woman!
ég sit á Ísafirði akkúrat núna, í eldhúsinu með kaffibolla sem mér finnst vondur en í rósaslopp sem gerir mig dannaða og ég bíð. ´
Einhverntíman í dag hringir síminn minn og hinumegin mun vera GARPUR!!!
og Hann ætlar að koma með dömurnar í heimsókn til mín.
hugsaðu þér hversu mikið óskir rætast.
Ég kommentaði á síðuna þína að þú ættir að koma vestur, og ég fæ stærri parta af þér en nokkur annar beint til mín í heimsókn.
Garp og Ingunni og ömmubarnið sem er líkara þér en þú sjálf.
kv
Lísbet- heppnust í heimi